• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
VLFA

VLFA

Big fan of open source and Joomla

Website URL: http://joomlabuff.com

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá var nýr öryggisfatnaður tekinn í notkun hjá Íslenska járnblendifélaginu í byrjun maí þessa árs.

Þessi nýi öryggisfatnaður hefur fallið í grýttan jarðveg hjá starfsmönnum fyrirtækisins einfaldlega vegna þess að þegar starfsmenn eru að vinna í nálægð við ofnanna þá getur hitinn orðið allt að 60 gráður og við það geta starfsmenn orðið verulega slæptir.  Og hefur t.d. einn starfsmaður falið í yfirlið sökum mikils hita.

Það er mat margra starfsmanna að þeir telji öryggi sínu verulega ógnað í þessum nýja fatnaði og nú í síðustu viku ákvað einn starfsmaður að segja starfi sínu lausu vegna áðurnefndrar hættu og er hann því miður ekki sá fyrsti sem það gerir.  Þeir starfsmenn sem hafa sagt starfi sínu lausu hafa ekki treyst sér til að vinna í þessum nýja öryggisfatnaði við viss skilyrði.

Það var haldinn fundur fyrir um mánuði síðan útaf þessari óánægju starfsmanna með þennan nýja öryggisfatnað og á þeim fundi var ákveðið að auka kælingu í kringum ofnanna og einnig var ákveðið að starfsmenn fengju aðgang að orkudrykkjum.

Vissulega voru þessi tvö atriði til bóta en því miður virðist það ekki hafa dugað til.

Formaður félagsins hafði samband við Þórð Magnússon framkvæmdastjóra framleiðslusviðs vegna þessa máls í dag og tjáði honum að félagið ætlaði að kalla eftir úttekt frá Vinnueftirlitinu og trúnaðarlækni starfsmanna.  Fram kom hjá framkvæmdastjóranum að hann sé sammála að láta fagaðila skoða málið með hagsmuni starfsmanna og fyrirtækisins að leiðarljósi

Vill félagið fá úr því skorið í þessari úttekt hvort þessi öryggisfatnaður ógni öryggi starfsmanna eins og starfsmennirnir telja sjálfir.  Það er skylda þeirra sem koma að þessu máli að hlusta á varnaðarorð starfsmanna varðandi þennan nýja öryggisfatnað.

Formaður félagsins hefur haft samband við fulltrúa Vinnueftirlitsins á Vesturlandi og óskað eftir því að Vinnueftirlitið kanni hvaða áhrif hinn nýi öryggisfatnaður hefur á líðan starfsmanna Íslenska járnblendifélagsins.

Eins og fram hefur komið þá telja fjölmargir starfsmenn Íj að við viss skilyrði og þá sérstaklega þegar heitt er í veðri geti hinn nýi fatnaður jafnvel ógnað öryggi þeirra.

Fulltrúi Vinnueftirlitsins tók vel í ósk félagsins og ætlar í framhaldinu að kanna hvernig hægt sé að standa að slíkri úttekt.

Eins og formaður hefur áður sagt þá er afar brýnt að þeir aðilar sem koma að þessu máli hlusti á þau alvarlegu varnaðarorð sem starfsmenn hafa bent á er varða þennan nýja fatnað.

Wednesday, 22 August 2007 00:00

Víðtæk samstaða um hækkun lágmarkslauna

Svo virðist vera að nokkuð víðtæk samstaða sé að nást innan Starfsgreinasambands Íslands um að aðalkrafan í komandi kjarasamningum verði að færa lágmarkstaxtana í námunda við þau markaðslaun sem almennt er verið að greiða á vinnumarkaðnum.

Verkalýðsfélag Akraness nefndi það fyrir fáeinum mánuðum að aðalkrafan í komandi kjarasamningum ætti að vera að færa lágmarkslaunin í átt að markaðslaunum og til að það tækist þyrftu lágmarkstaxtarnir að hækka um 30% til 40%.

Nú er afar ánægjulegt að sjá að nokkuð víðtæk samstaða virðist vera að skapast innan SGS um að hækka lágmarkslaunin allverulega í næstu kjarasamningum. Verkalýðsfélagið Hlíf í Hafnafirði sendi t.d. frá sér ályktun um 30% hækkun á lágmarkstöxtum og formaður Verkalýðsfélags Húsavíkur sagði í fréttum í gær að krafan í næstu kjarasamningum ætti að vera að lágmarkslaun hækkuðu úr 125 þúsund í 160.000 til 170.000.  Einnig var haft eftir formanni SGS í fréttum ekki alls fyrir löngu að hækka þyrfti lágmarkslaunin allverulega í næstu kjarasamningum.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness er ekki í nokkrum vafa um að með víðtækri samstöðu í næstu kjarasamningum innan Starfsgreinasambandsins verði hægt að lyfta þessum skammarlega lágu lágmarkslaunum í átt að markaðlaununum.  Einfaldlega vegna þess að samstaða er hornsteinn að árangri í komandi kjarasamningum.

Formaður félagsins hefur áður sagt að lágmarkslaunin séu íslensku samfélagi til skammar og við forystumenn í stéttarfélögum innan SGS getum ekki skotið okkur undan þeirri ábyrgð.

Grétar Þorsteinsson, forseti Alþýðusambands Íslands, segir á visi.is í dag að reikna megi með kröfum um verulegar hækkanir lægstu launa þegar núgildandi kjarasamningar renna úr gildi um næstu áramót. Hann segir eðlilega töluverðar væntingar ríkja hjá almennu verkafólki um kauphækkanir.

Grétar segir að gríðarlegur þrýstingur hafi verið á vinnumarkaðnum og hvert fyrirtækið á fætur öðru sýni methagnað, svo ekki sé talað um ofurlaun forstjóranna.

Stjórn verkalýðsfélagsins Hlífar í Hafnarfirði sendi frá sér ályktun á dögunum þar sem sagt var að lægstu laun þyrftu að hækka um allt að 30 prósent. Forseti Alþýðusambandins vill ekki fullyrða á þessu stigi, hvort það verði hin almenna krafa.

Í þennslunni á vinnumarkaði undanfari ár hefur átt sér stað alger sprenging í fjölda erlends verkafólks á Íslandi, enda annar íslenskt verkafólk ekki eftirspurninni eftir vinnuafli. Grétar telur að þessi staða styrki kröfugerð verkalýðshreyfingarinnar í komandi viðræðum.

Með þessari yfirlýsingu forsetans er hann að taka undir með þeim talsmönnum verkafólks sem talað hafa fyrir verulegum hækkunum lægstu kauptaxta í komandi kjarasamningum. Verkalýðsfhreyfingin virðist því ætla að koma samstiga að því markmiði að hækka laun þeirra sem eru hvað verst settir í dag og kallað hafa eftir verulegum hækkunum.

Félagsmönnum Verkalýðsfélags Akraness hefur fjölgað gríðarlega frá áramótum, en þá voru félagsmenn VLFA 2.117. Í dag eru þeir rétt tæplega 2.500 og hefur þeim fjölgað um rétt tæpa 400 félagsmenn eða sem nemur 18%.

Af þessum 2.500 félagsmönnum koma 300 erlendis frá, langflestir frá Austur - Evrópu.

Sú jákvæða uppbygging sem orðið hefur á Grundartangasvæðinu á undanförnum misserum skýrir að mestu þessa miklu fjölgun.

Það er óhætt að segja að framtíð Verkalýðsfélags Akraness sé nokkuð björt sé tekið tillit til þeirra fjölgunar sem orðið hefur í félaginu á undanförnum mánuðum og þess góða atvinnuástands sem ríkir á félagssvæði VLFA um þessar mundir.

Það mun styrkja stoðir atvinnlífsins hér á Akranesi enn frekar ef áætlanir forsvarsmanna HB-Granda ganga eftir um að flytja alla landvinnsluna frá Reykjavík hingað upp á Akranes eins og þeir hafa nú þegar tilkynnt um.

Í dag er verið að byggja 295 nýjar íbúðir hér á Akranesi og sýnir það hversu gríðarlegur uppgangur er hér á Akranesi um þessar mundir og það góða atvinnuástand sem hér ríkir.  

Í dag búa 6.169 íbúar á Akranesi og hafa þeir aldrei verið fleiri, ástæðan fyrir þessari miklu fjölgun er eins og áður sagði gott atvinnuástand og ekki síður það góða samfélag sem hér ríkir.

Það kom formanni Verkalýðsfélags Akraness ekki á óvart að grunur væri á að erlendu starfsmennirnir sem lentu í rútuslysinu í Fljótsdal á sunnudaginn sl. hefðu ekki allir tilskilin leyfi til að starfa hér á landi.

Verkalýðsfélag Akraness hefur margoft bent á að töluverð brotalöm sé á því að fyrirtæki skrái erlenda starfsmenn eins og lög kveða á um.

Verkalýðsfélag Akraness hefur haldið úti mjög öflugu eftirliti með þeim fyrirtækjum sem hafa erlenda starfsmenn í sinni þjónustu.  Er það gert til að tryggja að kaup og kjör séu eftir íslenskum kjarasamningum og einnig til að tryggja að starfsmenn séu skráðir í samræmi við lög og reglugerðir.

Á síðustu þremur árum hefur VLFA margoft þurft að hafa afskipti af fyrirtækjum sem ekki hafa farið eftir þeim leikreglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði. 

Sem dæmi þá lagði félagið fram kæru til lögreglunnar í júní á hendur fyrirtæki að nafni Formaco.  Kæran var lögð fram vegna grunsemda um að erlendir starfsmenn sem voru á vegum fyrirtækisins væru ekki skráðir eins og lög kveða skýrt á um.

Við rannsókn málsins kom fram að grunsemdir Verkalýðsfélags Akraness voru á rökum reistar en 27 starfsmenn frá Litháen voru að störfum hjá fyrirtækinu.  Starfsmennirnir voru ekki með íslenskar kennitölur, dvalarleyfi né skráðir hjá Vinnumálastofnun eins og skýrt er kveðið á um í lögum þó svo að sumir þeirra væru búnir að starfa hér á landi í rétt tæpt ár.

Mjög líklegt er að Litháarnir hafi ekki verið sjúkratryggðir hér á landi þar sem þeir voru ekki með íslenskar kennitölur.

Lögin eru skýr, vinnuveitandi hefur 10 daga til að tilkynna og skila inn ráðningarsamningi þegar nýr erlendur starfsmaður hefur störf hjá fyrirtækinu.  Lögin kveða einnig á um að Vinnumálastofnun hafi heimild til að beita dagsektum ef fyrirtæki trassa að skrá erlenda starfsmenn til Vinnumálastofnunar að 10 dögum liðnum.  Sektin getur numið allt að 50.000 á dag.  Samkvæmt upplýsingum sem formaður hefur aflað sér þá hefur Vinnumálastofnun aldrei beitt dagsektum frá því lögin tóku gildi og verður það að teljast afar athygilsvert í ljósi þess að skráningum samkvæmt nýju lögunum hefur verið verulega ábótavant . 

Mál Formaco er ennþá hjá lögreglu og formaður VLFA trúir ekki öðru en að ákært verði í málinu því öll gögn sýna að fyrirtækið hefur brotið lög bæði hvað varðar skráningu sem og skil á opinberum gjöldum af erlendu starfsmönnunum.

Það er ótrúlegt að það þurfi óhapp eins og áðurnefnt rútuslys til að hinir ýmsu aðilar taki við sér.  Eins og áður sagði þá hefur VLFA margoft bent á þetta vandamál og telur formaður að hundruðir ef ekki þúsundir erlendra starfsmanna séu að störfum hér á landi án tilskilinna leyfa. 

Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráherra hefur látið hafa eftir sér í fjölmiðlum í dag að greinilegt væri að brotalöm væri í eftirliti með erlendu vinnuafli á íslenskum vinnumarkaði.  Verkalýðsfélag Akraness hefur margoft bent á að eftirliti væri ábótavant og félagsmálaráðherra er það fullkunngt, enda hefur verið margoft vitnað í umsagnir Verkalýðsfélags Akraness á Alþingi þegar málefni erlends vinnuafls hefur verið til umfjöllunar á Alþingi Íslendinga.  Félagsmálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn frá VLFA vegna nýrra laga um erlent vinnuafl í þeirri umsögn benti félagið á að auka þyrfti heimildir stéttarfélaga til að hafa eftirlit með íslenskum vinnumarkaði.  Því miður hlustaði Alþingi ekki á þau varnaðarorð sem heyrðust víða frá verkalýðshreyfingunni um að auka þyrfti heimildir stéttarfélaga til að hafa eftirlit með fyrirtækjum sem væru með erlent vinnuafl í sinni þjónustu. 

Í gær bauð Verkalýðsfélag Akraness eldri félagsmönnum sínum ásamt mökum í dagsferð undir dyggri leiðsögn Björns Finsen. Þessi ferð er árlegur viðburður í starfsemi félagsins og að þessu sinni var farið um Suðurland.

Það voru 96 félagsmenn sem ásamt þremur fulltrúum félagsins og leiðsögumanni lögðu af stað frá Akranesi í rigningarúða. Ekið var sem leið lá um Hvalfjarðargöng og út á Kjalarnesið. Þaðan var ekið inn Mosfellsdal yfir á Þingvelli þar sem stoppað var stundarkorn. Þar tíndu sumir ber en aðrir nutu útsýnisins.

Frá Þingvöllum var ekið um Lyngdalsheiði að Laugarvatni þar sem snæddur var hádegisverður á veitingahúsinu Lindinni. Boðið var upp á nýjan silung og fleira góðgæti úr nágrenni staðarins.

Frá Laugarvatni var ekið sem leið lá að Gullfossi og þaðan í sólina við Geysi. Áð var á báðum stöðum. Frá Geysi var ekið að Skálholti þar sem Sr. Sigurður Sigurðarson vígslubiskup tók á móti hópnum inni í kirkjunni og ræddi aðeins um sögu staðarins.

Næsti viðkomustaður var Hótel Selfoss þar sem boðið var upp á hressingu. Þaðan var farið yfir Hellisheiði og hin nýlega Hellisheiðarvirkjun skoðuð með leiðsögn áður en haldið var heim á leið í sól og blíðu.

Þessi ferð þykir hafa heppnast ákaflega vel og kann félagið öllum þeim sem að ferðinni komu hinar bestu þakkir fyrir.

Myndir úr ferðinni eru komnar inn á síðuna og má skoða þær með því að smella hér.

Monday, 02 July 2007 00:00

Ábyrgð og laun sundlaugavarða

Að undanförnu hafa fjölmiðlar fjallað um þau skelfilegu slys sem nýverið hafa orðið í sundlaugum landsins og einnig þá miklu ábyrgð sem fylgir því að vera sundlaugavörður.

Í Morgunblaðinu á laugardaginn sl. var t.d. viðtal við Eyjólf Sæmundsson forstjóra Vinnueftirlitsins.  Í því viðtali segir Eyjólfur m.a. "Sundlaugavarsla er ekki íhlaupastarf sem hver sem er getur gengið í án þjálfunar"  Hann segir einnig: " Þetta er mjög ábyrgðarmikið starf eins og reynslan sýnir".

Formaður VLFA tekur undir hvert orð hjá forstjóra Vinnueftirlitsins í þessum efnum.  Það þarf ekkert að velkjast í neinum vafa um að ábyrgð sundlaugavarða er mikil.

En komum þá að tilgangi þessara skrifa.  Eru laun sundlaugavarða í anda þeirrar miklu ábyrgðar sem forstjóri Vinnueftirlitsins nefnir? Svarið er einfalt: NEI.  

Hjá sundlaugaverði eru grunnlaun hjá byrjanda 130.719 + 6000 kr. í mánaðarlegum eingreiðslum.  Á þessu sést að laun sundlaugavarða er til skammar sé tekið tillit til þeirrar miklu ábyrgðar sem fylgir starfi þeirra.

Það er alveg ljóst að þetta er eitt af því sem kippa þarf í liðinn í komandi kjarasamningum og hefur formaður VLFA t.d. átt samtal við þann aðila sem sér um starfsmat sveitarfélaga vegna þess mikla álags sem hvílt getur á starfsfólki sundlauga.  

Tuesday, 03 July 2007 00:00

Laus vika í Hraunborgum vegna forfalla

Vegna forfalla er nú laus vikan 03.08. til 10.08. í Hraunborgum. Þetta er vikan í kringum Verslunarmannahelgina og geta félagsmenn bókað hana á skrifstofu félagsins í síma 4309900.

Fyrstur kemur fyrstur fær.

Wednesday, 04 July 2007 00:00

Fundað með forsvarsmönnum Norðuráls

Formaður félagsins ásamt hagfræðingi ASÍ áttu fund með forsvarsmönnum Norðuráls í morgun. Þeir sem sátu fundinn fyrir hönd Norðuráls voru Ragnar Guðmundsson framkvæmdastjóri og Skúli Skúlason starfsmannastjóri. Tilefni fundarins voru hin ýmsu réttindamál sem lúta að félagsmönnum Verkalýðsfélags Akraness. 

Félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness sem starfa hjá Norðuráli eru nú orðnir rétt tæplega 360 og er Norðurál orðinn langstærsti vinnuveitandinn á Vesturlandi. Því er gríðarlega mikilvægt fyrir stéttarfélagið að halda vöku sinni yfir réttindum starfsmanna Norðuráls. Er óhætt að segja að þessu fundur hafi verið einn liður í þeirri vinnu. 

Fundurinn var nokkuð góður og var til að mynda ákveðið að funda aftur föstudaginn 13. júlí.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image