• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15

Matvælasvið Starfsgreinasambands Íslands hefur ákveðið að hefja undirbúning að mótun kröfugerðar vegna komandi kjaraviðræðna við Samtök atvinnulífsins. Boðað hefur verið til ráðstefnu á fimmtudag og föstudag í þessari viku á Hótel KEA á Akureyri um málefni fiskvinnslufólks. Ráðstefnan hefst kl. 13:00 á fimmtudag og lýkur um hádegið á föstudeginum.  Núverandi kjarasamningar eru lausir um næstu áramót.

Formaður félagsins hefur ávallt sagt að það verði að vera alger forgangskrafa í næstu kjarasamningum að hækka launataxta Starfsgreinasambandsins upp að þeim markaðslaunum sem verið er að greiða á íslenskum vinnumarkaði.  Einvörðungu vegna þess að atvinnurekendur eru í auknum mæli farnir að sækjast eftir ódýru vinnuafli frá Austur -Evrópu.  Það er alvitað að stór hluti þeirra erlendu starfsmanna sem hingað koma til starfa eru settir á berstrípuð lágmarkslaun sem gerir ekkert annað en að gjaldfella það markaðslaunakerfi sem nú er við lýði.   

Samkvæmt könnun sem SGS lét gera í september í fyrra kom fram að meðaldagvinnulaun voru hjá konum 164 þús. og hjá körlum 174 þúsund á mánuði.  Hins vegar eru lágmarkslaun fyrir fulla dagvinnu einungis 125 þúsund sem vart dugar til lágmarksframfærlsu.  Þetta þýðir að lágmarkstaxtar SGS þurfa að hækka um allt að 40% til að komast upp að markaðslaununum.  Það er vitað að Samiðn fór þessa leið í síðustu samningum það er að segja að taxtar iðnaðarmanna voru færðir nær markaðlaunum. 

Núna verður það að vera eins og áður sagði forgangskrafa að hækka lágmarkstaxtana upp að markaðslaunum og til að það takist þarf að nást breið samstaða innan Starfsgreinsambandsins og trúir formaður VLFA ekki öðru en að sú samstaða náist, annað væri í ótrúlegt.

Published in Fréttir

Eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni þá sameinuðust Starfsmannafélag Akraneskaupstaðar (STAK) og Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar um áramótin. Mikil krafa hefur verið frá einstaka aðilum í bæjarstjórn og fyrrverandi stjórn STAK um að launakjör starfsmanna bæjarins skuli strax taka eftir kjarasamningi Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar.

  Formaður félagsins hefur ítrekað bent á að ef kjarasamningur Reykjavíkurborgar myndi gilda strax þá hefði það í för með sér lækkun á nokkrum störfum og nægir þar að nefna ræstingu og störf í þvottahúsi og myndu þessi störf lækka sem nemur rétt um 10.000 kr. á mánuði. Störf í býtibúri myndu lækka um 8.000 kr.  og verkamenn í bæjarvinnu myndu lækka um rúmar 5.000 kr. Einnig hefur formaður félagsins bent á að störf hjá stjórnendum, millistjórnendum og forstöðumönnum myndu hækka um tugi þúsunda á mánuði.

 Einstaka aðilar í minnihluta bæjarstjórnar hafa haldið því fram að samanburður sem formaður VLFA hefur gert sé ekki á rökum reistur, og því hefur verið haldið fram án þess að skýra það nánar.

Núna hefur hins vegar meirihluti bæjarstjórnar sent frá sér eftirfarandi bókun og er sú bókun í algjöru samræmi við það sem formaður félagsins hefur ætíð haldið fram, það er að lægstu störfin standa í stað eða lækka á meðan tekjuhæstu störfin hækka um tugi þúsunda. Hluti áðurnefndrar bókunar hljóðar svo:

Nú liggja hins vegar fyrir upplýsingar sem sýna áhrif sameiningar þessara tveggja stéttarfélaga á laun starfsmanna Akraneskaupstaðar verði sú að hæst launuðu starfsmenn kaupstaðarins hækka um rúmlega þrjátíu þúsund meðan lægst launuðu starfsmenn kaupstaðarins standa í stað eða jafnvel lækka í launum. Núverandi meirihluti er ekki tilbúinn að stuðla að auknum launamun."

  Það er gríðarlegur ábyrgðarhluti hjá þeim sem krefjast þess að laun taki strax eftir kjarasamningi Reykjavíkurborgar þegar þessar bláköldu staðreyndir liggja fyrir. Það getur ekki verið vilji minnihluta bæjarstjórnar að störf sem hafa hvað lægstu tekjurnar lækki enn frekar á meðan tekjuhæstu störfin fá umtalsverða hækkun. Eitt er víst að þetta samræmist ekki jafnaðarstefnu í launamálum. 

 Hægt er að skoða bókun bæjarráðs hér

Published in Fréttir

Stjórn félagsins heimsótti Norðurál í dag og er óhætt að segja að forsvarsmenn Norðuráls hafi tekið vel á móti stjórn félagsins.  Það voru þau Óskar Jónsson framkvæmdastjóri tæknisviðs, Trausti Gylfason öryggisfulltrúi og Rakel Heiðmarsdóttir starfsmannastjóri sem tóku á móti stjórn félagsins.

Óskar Jónsson byrjaði að því að fara yfir hina ýmsu þætti sem tengjast framleiðslunni og ekki síst þá sem lúta að mengunarþáttum verksmiðjunnar.  Fram kom hjá Óskari að mengunarstuðlar eru vel innan þeirra marka sem starfsleyfi verksmiðjunnar byggir á. 

Rakel starfsmannastjóri gerði stuttlega grein fyrir því er lýtur að starfsmannamálum fyrirtækisins og þeirri miklu fjölgun sem orðið hefur á starfsmönnum frá því hún hóf störf,  fyrir rúmu ári voru rúmlega 200 starfsmenn en í dag eru þeir komnir yfir 400.

Formaður félagsins sagði að Norðurál hefði gríðarlega jákvæða þýðingu fyrir Verkalýðsfélag Akraness og allt samfélagið á Akranesi og nærsveitir.  Hins vegar sagði formaðurinn einnig að það væri hlutverk félagsins að gæta að velferð og hagsmunum okkar félagsmanna og væri hvergi hvikað í þeirri baráttu.  Formaður félagsins sagði einnig í þessari heimsókn að hann ætti afar erfitt með að sætta sig við þann launamun sem er á milli sambærilegra verksmiðja og það væri eitthvað sem yrði að laga og það sem allra fyrst. 

Að lokum fóru Óskar Jónsson framkvæmdastjóri tæknisviðs og Trausti Gylfason með stjórn félagsins í skoðunarferð um verksmiðjuna og voru stjórnarmenn VLFA mun fróðari um álrekstur eftir þessa skoðunarferð.

Published in Fréttir
Friday, 23 February 2007 00:00

Efnalaugin Lísa tekin til gjaldþrotaskipta

Í gær var Efnalaugin Lísa tekin til gjaldþrotaskipta og í morgun átti formaður félagsins fund með skiptastjóra, Jóni Hauki Haukssyni. Aðalmálið hjá VLFA er að tryggja að réttindi þeirra starfsmanna sem starfa hjá umræddu fyrirtæki verði tryggð. Samkvæmt þeim upplýsingum sem formaður hefur er ekki mikið um vangreidd laun. Formaður fór einnig á vinnustaðinn og fundaði með starfsmönnum, en hjá fyrirtækinu starfa 4 félagsmenn. Gerði formaður þeim grein fyrir því að VLFA myndi gæta þeirra hagsmuna í hvívetna. Ljóst var að starfsmenn voru verulega uggandi um framtíð sína.

 

Verkalýðsfélag Akraness telur nokkuð mikilvægt að reynt verði að finna lausn á rekstri þessa fyrirtækis þannig að við missum ekki störfin í burtu úr sveitarfélaginu. Þetta mun skýrast fljótlega.

Published in Fréttir

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness mun fara í heimsókn til Norðuráls á morgun.  Tilgangur heimsóknarinnar er að skoða verksmiðjuna nú þegar stækkun á verksmiðjunni er á lokastigi.  

Þessi heimsókn stjórnar félagsins er einn liður í því að vera í nánu sambandi við sína félagsmenn og kynna fyrir starfsmönnum hvaða þjónustu félagið býður sínum félagsmönnum upp á.  Hjá Norðuráli starfa nú um 420 manns og hefur fjölgað gríðarlega að undanförnu.  Af þessum 420 starfsmönnum eru 300 félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness eða sem nemur rúmum 71% af öllum starfsmönnum Norðuráls.

Langflestir félagsmenn VLFA starfa hjá Norðuráli en lengi vel trónaði HB-Grandi á þeim toppi en starfsmönnum hefur fækkað hjá HB Granda töluvert vegna samdráttar á liðnum misserum.

Það er alveg ljóst að Norðurál hefur haft gríðarlega jákvæð áhrif á samfélagið hér á Akranesi hvað varðar atvinnuöryggi.  Hins vegar er eitt sem Verkalýðfélag Akraness er ekki sátt við sem tengist Norðuráli og það er að laun í sambærilegum verksmiðjum hér á landi er hærri heldur en hjá Norðuráli.  Þetta er atriði sem félagið á afar erfitt með að sætta sig við.   Vissulega náðist að minka þennan mun á milli verksmiðja í síðustu samningum en alls ekki að fullu.  Það verður að vera skýlaus krafa á næstu misserum að laun starfsmanna Norðuráls verði með sama hætti og sambærilegar verksmiðjur greiða sínum starfsmönnum.

Published in Fréttir
Wednesday, 21 February 2007 00:00

Endurmat á starfsmati í fullum gangi

Í gær var haldin kynningarfundur um endurmat á starfsmati með starfsmönnum Akraneskaupstaðar. Þessi fundur var liður í að kynna endurmat á starfsmati sveitarfélaga sem var gert 2004 og er nú í endurskoðun.

Nú eru um 7.000 einstaklingar um land allt að skoða þessi mál, fara yfir störf sín og meta hvort því finnist starfsmatið sem gert var 2004 í lagi. Þann 15. mars nk. rennur út frestur til að skila inn beiðnum til viðkomandi endurmatsteymis vilji viðkomandi aðilar láta meta starf sitt upp á nýtt.

Formaður Verkalýðfélags Akraness hvetur starfsmenn bæjarins til að kynna sér vel hvernig endurmatið fer fram.  Því nú er tækifæri fyrir þá starfsmenn sem telja sig hafa fengið rangt starfsmat 2002 að fá það leiðrétt. 

Á fundinum í gær sagði formaður félagsins að stéttarfélögunum beri skylda til að aðstoða starfsmenn við endurmatið.  Einvörðungu vegna þess að fyrir venjulegan starfsmenn er endurmatið þó nokkuð flókið.  Einnig kom fram hjá formanni félagsins á fundinum í gær að þó svo að stór hluti starfsmanna sé í Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar þá býðst Verkalýðsfélag Akraness til að aðstoða starfsmenn eins og kostur er.

Þó nokkur hópur starfsmanna bæjarins hefur komið að máli við formann félagsins að undanförnu og óskað eftir að fá að ganga í Verkalýðsfélag Akraness.  Er formaður að skoða hvernig best er hægt að verða við óskum starfsmannanna.  En eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá eru einstakir aðilar innan bæjarkerfisins að reyna að koma í veg fyrir að starfsmenn bæjarins geti gerst fullgildir félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness.  Málið er nú til skoðunar hjá lögmanni félagsins.

Hér er að finna allar upplýsingar um endurmat á starfsmati

Published in Fréttir

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá óskaði félagsmálanefnd Alþingis eftir umsögn frá Verkalýðsfélagi Akraness.  Umsögnin lýtur að frumvarpi til laga um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör þeirra.

Formaður félagsins hefur legið yfir þessu frumvarpi og er í heildina nokkuð sáttur við þær breytingar sem fyrirhugað er að gera á umræddum lögum.

Hins vegar hefur formaður félagsins ítrekað bent á að það er ekki nóg að setja lög sem tryggja erlendu vinnuafli lágmarkslaun ef stéttarfélögin hafa ekki þær heimildir í lögunum sem þarf til að sinna sínu eftirliti.

Það er í raun óskiljanlegt ef Alþingi vill ekki nýta sér þá sérfræðiþekkingu sem liggur hjá stéttarfélögunum til að sinna eftirliti á íslenskum vinnumarkaði.  Til að koma í veg fyrir brot á réttindum á erlendu vinnuafli sem og hverskyns félagslegum undirboðum.  Hægt er að lesa umsögnina sem Verkalýðsfélag Akraness skilaði til félagsmálanefndar í gær með því að smella á umsögn

Published in Fréttir
Saturday, 17 February 2007 00:00

Loðnufrysting byrjuð á Akranesi

Mikið líf er nú í kringum loðnuvinnsluna hér á Akranesi.  Töluverð loðna hefur komið til bræðslu í síldarbræðslunni og útlitið bara nokkuð gott.  Afurðaverð á fiskimjöli er að sögn þeirra sem til þekkja í sögulegu hámarki.

Formaður félagsins fór og hitti starfsmenn síldarbræðslunnar í gær og voru þeir að vonum nokkuð kappakátir með það að töluvert af loðnu er að berast til verksmiðjunnar hér á Akranesi til bræðslu.

Hrognataka hófst einnig hér á Akranesi í gær og fór formaður félagsins og tók púlsinn á þeim starfsmönnum sem voru að vinna við hrognatökuna í gær.

Að sögn starfsmanna er unnið á 8 tíma vöktum allan sólarhringinn og hafa um 40 manns atvinnu af hrognatökunni.  Það er alveg ljóst að hér getur verið um töluvert uppgrip fyrir starfsmenn á meðan á vertíðinni stendur.

Þau skip sem landað hafa hér á Akranesi á yfirstandandi loðnuvertíð eru eftirfarandi:

Faxi Re landaði 10. febrúar 1.131 tonni í bræðslu
Sunnubergið landaði 14. febrúar 1.309 tonnum til bræðslu
Víkingur Ak landaði 15. febrúar 1.348 tonnum til bræðslu
Sunnubergið landaði 16. febrúar 1.300 tonnum til hrognatöku
Faxi landaði 17. febrúar 1.100 tonnum til hrognatöku
Published in Fréttir

Félagsmálanefnd Alþingis hefur óskað eftir að Verkalýðsfélag Akraness gefi umsögn um frumvarp til laga um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör þeirra.

 Að sjálfsögðu verður VLFA við þessari ósk félagsmálanefndar og skilar umsögninni inn fyrir tilskilinn tíma sem er 20. febrúar 2007.

Formaður félagsins vinnur nú við að fara yfir frumvarpið og það er alveg ljóst að atriði í þessu frumvarpi eru til verulegra bóta fyrir erlenda starfsmenn sem hingað koma til starfa tímabundið. 

Samt eru nokkur atriði í frumvarpinu sem félagið mun klárlega gera athugasemdir við.

Aðalmálið er að það er ekki nóg að setja lög sem eiga tryggja réttindi erlendra starfmanna hér á landi ef stéttarfélögin hafa ekki þær heimildir sem til þarf til sinna sínu eftirliti.  Það er algjört grundavallaratriði að stéttarfélögin hafi lagaheimild til að kalla eftir gögnum hjá þeim fyrirtækjum sem hafa erlenda starfsmenn í sinni þjónustu.  Þannig er hægt að tryggja það sem best að farið sé eftir þeim leikreglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði og koma í veg fyrir hverskyns félagsleg undirboð.

Þessi gögn eru t.d. launaseðlar, ráðningarsamningar og tímaskriftir.  Þessi gögn verða stéttarfélögin að geta fengið án þess að fyrir liggi grunur um brot.

Reyndar er formanni félagsins það illskiljanlegt að Samtök atvinnulífsins leggist gegn því að stéttarfélögin hafi þessa heimild og einnig að Alþingi skuli ekki vilja nýta sér þá sérþekkingu sem stéttarfélögin hafa á þessum málum.  

Eins og áður sagði þá verður að gefa stéttarfélögunum víðtækari  heimildir til að fylgjast með þeim fyrirtækjum sem eru með erlent vinnuafl til að tryggja að ekki sé verið að misbjóða þessum erlendu gestum okkar og einnig til að gjaldfella ekki þau launakjör sem íslenskir launþegar hafa barist fyrir á liðnum árum og áratugum.

Umsögnin sem félagið mun senda félagsmálanefnd mun verða birt hér á heimasíðunni í heild sinni þegar hún liggur fyrir.

Published in Fréttir

Formaður félagsins fundaði með trúnaðartengiliðum Íslenska járnblendifélagsins í dag.  Tilefni fundarins var að í febrúar ár hvert er hægt að fara fram á endurskoðun á bónuskerfi starfsmanna Íslenska járnblendifélagsins. Sú endurskoðun getur átt sér stað ef aðilar séu sammála um að bónuskerfið sé ekki að skila því sem til þess var vænst.

Það er alveg ljóst að það eru þættir í bónusnum sem eru ekki að skila því sem samningsaðilar voru sammála um að hann ætti að geta gefið af sér. 

Þegar samningar voru undirritaðir 2005 voru samningsaðilar sammála um að bónuskerfið ætti að geta gefið starfsmönnum Íj að meðaltali 5,6%, en því miður hefur raunin orðið önnur og í fyrra var meðaltal á bónusnum einungis 3,38%. 

Fundur verður með forsvarsmönnum Íslenska járnblendifélagsins fljótlega. Á þeim fundi mun Verkalýðsfélag Akraness mun leggja til breytingar á bónuskerfinu sem getur skilað bæði starfsmönnum og fyrirtækinu töluverðum ávinningi. 

Published in Fréttir

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image