• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15

Eins og fram kom hér á heimasíðunni í júlí sl. þá var meginkrafa Verkalýðsfélags Akraness vegna komandi kjarasamninga að lágmarkslaun skyldu hækka í 200.000 kr. í komandi kjarasamningum. Þessi krafa félagsins vakti umtalsverð viðbrögð á sínum tíma og nægir að nefna í því samhengi viðbrögð Samtaka atvinnulífsins sem töldu þessa kröfu óeðlilega. Sjá frétt um málið hér

Nú hefur samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands afhent Samtökum atvinnulífsins kröfur sambandsins vegna komandi kjarasamninga og það er skemmst frá því að segja að aðalkrafa SGS er að lágmarkslaun hækki upp í 200.000 kr. frá 1. desember 2010. Auk þess er gert ráð fyrir tilfærslu á launaflokkum hjá hinum ýmsu starfshópum eins og t.d. fiskvinnslufólki enda er alveg ljóst að greinar tengdar útflutningi hafa fulla burði til þess að hækka laun sinna starfsmanna verulega. Þetta staðfesta þau jákvæðu tíðindi sem bárust um að Samherji hafi greitt landverkafólki sínu rúmar 260.000 kr. í eingreiðslu nú í desembermánuði.

Það er markmið samninganefndar SGS að endurheimta þann kaupmátt sem glatast hefur frá upphafi efnahagshrunsins haustið 2008, minnka atvinnuleysið og tryggja hinum lægst launuðu auknar kjarabætur. Það er alveg ljóst að það verður ekki liðið að íslensku verkafólki og öðru launafólki verði einu falið það verkefni að bera klafa efnahagshrunsins á jafngrimmilegan hátt og birtist þessa dagana í hinum skefjalausu verðlags-, skatta- og gjaldskrárhækkunum sem dynja nú á almenningi af fullum þunga.

Það er gríðarlega mikilvægt að Starfsgreinasambandið sýni fulla festu í sínum aðgerðum við að bæta kjör íslensks verkafólks því núna fyrst er tækifæri til að rétta hag þessa hóps frá hruni. Það tækifæri verðum við að nýta okkur.

Published in Fréttir
Thursday, 02 December 2010 00:00

Fundað með ungum atvinnuleitendum

Í fyrradag fundaði formaður með ungum atvinnuleitendum á Akranesi sem eru í vinnumarkaðsúrræði sem nefnist Skagastaðir. Á fundinum fór formaður yfir hin ýmsu réttindi og skyldur sem hvíla á atvinnuleitendum eins og til dæmis þá skyldu að sækja þau úrræði sem Vinnumálastofnun býður upp á hverju sinni.

Þetta var afar ánægjulegur fundur en fjölmargar spurningar komu frá hinum ungu atvinnuleitendum, bæði varðandi þau réttindi sem gilda á íslenskum vinnumarkaði og einnig atvinnuástandið almennt. Einnig var töluvert spurt um þau réttindi sem stéttarfélögin bjóða fullgildum félagsmönnum sínumm upp á.

Það er alveg ljóst að Vinnumálastofnun hér á Akranesi heldur afar vel utan um atvinnuleitendur og þetta framtak þeirra, Skagastaðir, er til mikillar fyrirmyndar enda er boðið upp á fjölmörg erindi og námskeið því samhliða.

Published in Fréttir
Nú hafa bankar og sparisjóðir sent frá sér frétt þar sem þeir lýsa því hversu ofboðslega sanngjarnir þeir eru gagnvart skuldsettum heimilum. En þeir segja að þeir hafi samtals afskrifað um 22 milljarða króna hjá einstaklingum og fjölskyldum í tengslum við þau úrræði sem skuldugum heimilum standa til boða. Segja Samtök fjármálafyrirtækja að þetta sýni að mikill vilji hafi verið hjá bönkum og sparisjóðum að aðstoða viðskiptavini í greiðsluerfiðleikum.

Það er afar athyglisvert að sjá að bankar og fjármálastofnanir eru búnir að reikna nákvæmlega út afskriftir er lúta að skuldsettum heimilum en að sama skapi sjá þeir sér ekki fært að upplýsa almenning í þessu landi um afskriftir til auðmanna og einstakra fyrirtækja. Það er skýlaus krafa að fjármálastofnanir upplýsi nákvæmlega um allar afskriftir til auðmanna og fyrirtækja með nákvæmlega sama hætti og þau hafa upplýst um afskriftir á skuldum heimilanna. Fyrst þau gátu gert það þá hljóta fjármálastofnanirnar að geta gert slíkt hið sama um áðurnefnda aðila.
 
Rétt er að rifja upp þær afskriftir sem ratað hafa í fjölmiðla til þeirra manna sem sumir hverjir voru valdir að efnahagshruninu. Nægir að benda á fréttir sem ratað hafa í fjölmiðla um afskriftir á undanförnum mánuðum en þessar eru þær helstar:
 
•   Samtals 306,5 milljarðar
 
Á þessu sést að þær afskriftir og leiðréttingar sem átt hafa sér stað hjá skuldsettum heimilum eru grátbroslegar í ljósi þessara gríðarlegu afskrifta sem átt hafa sér stað hjá mönnum sem voru arkitektar að því efnahagshruni sem hér varð, rétt er að minna en og aftur á að þetta eru einungis afskriftir sem ratað hafa í fjölmiðla.
 
Hvar er loforð ríkisstjórnar Íslands um algjört gegnsæi í öllum málum hér á landi og að allt skuli vera uppi á borðum? Málið er einfalt, það hefur aldrei verið eins mikill leyndarhjúpur yfir starfsemi bankanna eins og núna og á þeirri forsendu á það að vera skýlaus krafa að bankarnir upplýsi almenning alfarið um allar þær afskriftir sem átt hafa sér stað en hætti tafarlaust að afgreiða þessi mál inni í reykfylltum bakherbergjum fjármálastofnana. 
 
Ríkisstjórn sem kennir sig við félagshyggju, velferð og síðast en ekki síst réttlæti getur ekki látið það átölulaust að horfa upp á að leiðrétting á skuldum heimilanna nemi einungis 22 milljörðum á sama tíma og auðmenn og einstaka fyrirtæki hafa fengið samtals hundruð milljarða í afskriftir. Slíkt mun almenningur í þessu landi ekki geta sætt sig við enda eru heimilin ekki að fara framá ölmusu heldur einungis sanngjarna og réttláta leiðréttingu á þeim forsendubresti sem hér varð.
Published in Fréttir
Monday, 29 November 2010 00:00

Samninganefnd SGS fundaði í dag

Rétt í þessu lauk fundi samninganefndar Starfsgreinasambands Íslands í húsakynnum Ríkissáttasemjara. Á fundinum var lögð lokahönd á kröfugerð Starfsgreinasambands Íslands gagnvart Samtökum atvinnulífsins.

Kröfugerðin verður ekki gerð opinber fyrr en hún hefur verið afhent fulltrúum Samtaka atvinnulífsins, en það verður gert 6. desember nk.

Það eina sem formaður getur sagt er að hann er nokkur sáttur við áherslur þeirrar kröfugerðar sem Starfsgreinasambandið hefur nú mótað. En eins og flestir vita þá hafa ýmsir aðilar í íslensku samfélagi eins og t.d. Guðbjartur Hannesson félagsmálaráðherra, Runólfur Ágústson stjórnarformaður Vinnumálastofnunar og Björk Vilhelmsdóttir formaður Velferðasviðs Reykjavíkurborgar bent á að stórlega þurfi að hækka lágmarkslaun og lágmarkstaxta á Íslandi. 

Það er alveg ljóst að framundan eru afar erfiðar kjaraviðræður við Samtök atvinnulífsins, ríki og sveitarfélög og er því mjög mikilvægt að verkalýðshreyfingin standi þétt saman við að ná sínum áherslum fram.

Published in Fréttir

Tíminn einn mun leiða það í ljós hversu mikla fjármuni forseti Íslands sparaði íslensku þjóðinni með þeirri ákvörðun sinni að synja Icesave lögunum á sínum tíma.

Nú berast af því fréttir að samningar séu að nást við Breta og Holllendinga í þessari Icesavedeilu.

Það er æði margt sem bendir til þess að okkur beri engin skylda til að ábyrgjast Icesave drápsklyfjarnar, ef marka má okkar færustu lögspekinga og nægir að nefna í því samhengi lagaprófessorana Sigurð Líndal, Stefán Má Stefánsson og lögfræðinginn Lárus Blöndal. Einnig segir Dr. Michael Waibel, sérfræðingur í alþjóðalögum, engar klárar lagalegar skyldur hvíla á herðum Íslendinga til þess að borga Icesave skuldina.

Meira að segja Fjármálaeftirlitið gerði ekki ráð fyrir að ríkisábyrgð væri á Icesave innistæðum í Bretlandi og Hollandi þegar útibú Landsbankans þar voru stofnuð. Eftirlitið benti á að hvergi í lögum um innistæðutryggingar sé talað um ríkisábyrgð.

Formaður félagsins spyr: hví vilja íslensk stjórnvöld leggja slíkar klyfjar á komandi kynslóðir ef engar lagalegar forsendur eru fyrir slíkri skuldbindingu? Við Íslendingar eigum að senda skýr skilaboð út til Breta og Hollendinga um að við viljum greiða það sem okkur ber samkvæmt lagalegum skyldum en við viljum að sjálfsögðu fá að vita hverjar þær lagalegu skuldbindingar eru.

Það blasir við hver ástæða Breta og Hollendinga er þegar þeir neita því að fara með málið fyrir dómstóla. Jú, okkur ber alls engin lagaleg skylda til að greiða þessa skuld.

Sá fantaskapur sem þessi ríki hafa sýnt okkur er ótrúlegur. Fyrst hryðjuverkalög, settir í flokk með Al Quaida og öðrum ribböldum og síðan krafist þess að við tökum á okkur alla ábyrgð í þessu máli.

Gríðarlegur kostnaður 

Hvað hefði það þýtt fyrir okkur Íslendinga ef forsetinn hefði ekki synjað staðfestingu á Icesavelögunum og samningurinn verið samþykktur eins og lá fyrir á sínum tíma? -Jú, við Íslendingar hefðum þurft að greiða 100 milljónir dag hvern bara í vaxtagreiðslur, eða sem nam á bilinu 36 – 45 milljörðum á hverju ári. Það hefði þurft 80.000 skattgreiðendur til að standa bara undir þessum vaxtagreiðslum og til að setja þetta frekar í samhengi, þá kostar 32 milljarða að reka Landspítalann – Háskólasjúkrahús árlega. Og til að sýna enn frekar fáránleikann sem fólginn er í þeim stjarnfræðilegu tölum sem um ræddi þá var verið ekki alls fyrir löngu að vígja hæstu byggingu heims í Dubai, en við gætum reist fyrir Breta einn slíkan turn fyrir helming þeirrar upphæðar sem við áttum að greiða í vexti af síðasta  Icesave-samningi.

Á þessu sést að íslensk þjóð gat ekki undir nokkrum kringumstæðum axlað þá ábyrgð vegna græðgisvæðingar örfárra einstaklinga og handónýts eftirlitskerfis.

Ragnar Reykás

Hvað sagði ekki Steingrímur J. Sigfússon í fréttum 23. október 2008? Hann sagði að það yrði gerð uppreisn hér á landi ef gengið yrði að kröfum Breta og Hollendinga um skuldbindingu vegna Icesave-reikninganna. Hann sagði einnig að Íslendingar hafi uppfyllt allar lagalega skyldur og tilskipanir Evrópusambandsins um innlánstryggingakerfið og Íslendingum bæri ekki að láta undan kröfum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins því okkur beri ekki skylda til að greiða tapið á Icesave-reikningunum.

Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon í október 2008. En það kvað við nýjan tón hjá Steingrími eftir að hann var sestur í ríkisstjórn og hélt m.a uppi skefjalausum hræðsluáróðri um að allt færi hér til fjandans ef ekki yrði gengið frá Icesave-samningunum án tafar. Því segi ég: Ragnar Reykás er grátbroslegur í samanburði við þann viðsnúning sem hefur orðið hjá fjármálaráðherra í þessu máli.

Eins og fram kom áðan, þá á krafa Íslendinga að vera skýr: Borgum það sem okkur ber lagaleg skylda til og krefjumst þess að sú skylda verði kölluð fram af óháðum dómstólum. Enda er, eins og áður hefur komið fram, álit flestra fræðimanna að ekki sé kveðið á um ríkisábyrgð í Evrópureglugerð um innstæðutryggingar og Steingrímur J. er því sammála ef marka má ummæli hans frá því í október 2008.

Reiðir forsetanum

Það voru æði margir sem voru afar reiðir því þegar forsetinn neitaði að staðfesta lögin á sínum tíma.  Það er mér óskiljanlegt að meira að segja einstaka forystumenn í verkalýðshreyfingunni skuli hafa verið æfir yfir þessari ákvörðun forsetans  og nægir að nefna það sem fram kom á vef Starfsgreinasambandsins í því samhengi en þar segir m.a. Forseti lýðveldisins kemur fram af miklu ábyrgðarleysi gagnvart efnahagsvanda þjóðarinnar.

 Einnig er rétt að rifja upp þegar Össur Skarphéðinsson, sá ágæti ráðherra sagðist ekki vera tilbúinn til þess að bera töskur forsetansí Indlandsferðinni sem forsetinn fór í sínum tíma. Í þessu samhengi vil ég segja við Össur Skarphéðinsson: yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar er ekki tilbúinn að bera þær drápsklyfjar sem stóð til að leggja á hana. En það er ljóst að það mun þurfa marga töskubera til að bera farangur fólks sem mun flýja þetta land ef þessi reikningur fellur á saklausan almenning þessarar þjóðar.

Ólafur Ragnar Grímsson segir í sjónvarpsviðtali við Bloombergfréttastofuna:  “Hversu langt er hægt að ganga og fara fram á að venjulegt fólk - bændur, sjómenn, læknar og hjúkrunarfræðingar - axli ábyrð á föllnu bönkunum? Sú spurning, sem er kjarninn í Icesave málinu.”

Formaður félagsins er stoltur af forsetanum mínum sem hafði kjark og þor til að taka þessa ákvörðun og hefur í þessu máli varið hagsmuni þjóðarinnar á alþjóðlegum vettvangi með kjafti og klóm. Einnig er fotrmaðurinn algjörlega sammála forsetanum þegar hann segist enn þeirrar skoðunar að kjósendur eigi að hafa lokaorðið á hverju því samkomulagi sem gert verður við Breta og Hollendinga og við Íslendingar eigum ekki undir nokkrum kringumstæðum að taka annað í mál en að þjóðin fái að hafa lokaorðið í þessu máli.

Published in Fréttir
Thursday, 25 November 2010 00:00

Vinnumálastofnun á Akranesi stendur sig vel

Vinnumarkaðsráð Vesturlands fundaði í gær og var meðal annars farið yfir atvinnuástandið á Vesturlandi og rýnt í atvinnuleysistölur. Það sem kom meðal annars fram á fundinum var að atvinnuleysi hefur verið að aukast á Akranesi á milli mánaða. Í september voru 197 einstaklingar á Akranesi án atvinnu eða sem nemur 5,6% atvinnuleysi en í október voru 242 án atvinnu sem nemur 6,8%.

Ástæðan fyrir þessari aukningu er fyrst og fremst sú að hvalveiðum lauk á þessu tímabili en um 150 manns víðsvegar af Vesturlandi og á höfuðborgarsvæðinu höfðu atvinnu af hvalveiðunum. Það kom skýrt fram á fundinum hversu gríðarlega mikilvægar hvalveiðarnar eru atvinnulífinu á þessu svæði enda sköpuðu þær eins og áður hefur komið fram um 150 störf frá júní til loka septembermánaðar.

Vinnumarkaðsráð lýsir yfir þungum áhyggjum af því atvinnuástandi sem nú er á Vesturlandi og vill að við því verði brugðist, til dæmis með aukningu á aflaheimildum. Einnig lýsti Vinnumarkaðsráð yfir áhyggjum sínum vegna þess mikla niðurskurðar sem boðaður hefur verið í heilbrigðiskerfinu.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness, sem situr í Vinnumarkaðsráði, velti þeirri hugmynd upp í gær hver raunverulegur sparnaður heilbrigðiskerfisins væri af því að segja upp opinberum starfsmönnum en eins og fram hefur komið er gert ráð fyrir því að rúmlega 600 opinberir starfsmenn muni missa vinnuna samkvæmt fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi. Sérstaklega má velta fyrir sér raunverulegum sparnaði með því í ljósi þeirra staðreynda að opinberir starfsmenn munu færast af launaskrá hjá heilbrigðisráðuneytinu yfir á félagsmálaráðuneytið sem hefur yfirumsjón með atvinnuleysistryggingasjóði. Með öðrum orðum er það mat formanns að sparnaðurinn sé óverulegur við að segja upp opinberum starfsmönnum og setja þá á atvinnuleysisbætur.

Það kom einnig fram hjá fulltrúum Vinnumálaráðs í gær að vinnumálastofnun á Vesturlandi sé að standa sig einstaklega vel í hinum ýmsu málum er lúta að atvinnuleitendum og nægir að nefna í því samhengi þá miklu vinnu sem starfsmenn Vinnumálastofnunnar leggja á sig við hin ýmsu vinnumarkaðsúrræði til handa atvinnuleitendum.

Published in Fréttir
Tuesday, 23 November 2010 00:00

Góður fundur í Alþingishúsinu í gær

Þingflokkur Hreyfingarinnar óskaði eftir að funda með formanni Verkalýðsfélags Akraness og að sjálfsögðu varð formaðurinn við þeirri beiðni. Fundurinn fór fram í þingflokksherbergi Hreyfingarinnar í Alþingishúsinu í gær.

Fundurinn var afar opinskár og málefnalegur en formaður VLFA lýsti yfir áhyggjum sínum af stöðu þeirra sem starfa á lágmarkslaunum en eins og staðan er í dag þá duga lágmarkslaun ekki fyrir lágmarksframfærslu. Formaður nefndi við þingmenn Hreyfingarinnar að ef atvinnurekendum og verkalýðshreyfingunni muni ekki bera gæfa til að hækka hér lágmarkslaun verulega í komandi kjarasamningum þá verði Alþingi Íslendinga að grípa inn í og lögbinda hér lágmarkslaun svo sómi sé að.

Einnig bar lífeyrissjóðina á góma en það er skoðun formanns að aðkoma atvinnurekenda að stjórnun lífeyrissjóðanna sé afar óeðlileg enda liggur fyrir að krosseignatengsl og hagsmunaárekstrar atvinnurekenda í stjórnun sjóðanna séu klárlega til staðar. Formaðurinn kom þeirri skoðun sinni á framfæri að breyta þurfi lögum um starfsemi lífeyrissjóðanna með þeim hætti að sjóðsfélagarnir sjálfir skipi í stjórnir sjóðanna og það séu sjóðsfélagarnir sjálfir sem kjósi sér alla sína stjórnarmenn.

Það er afar ánægjulegt þegar þingflokkar kalla fulltrúa aðila vinnumarkaðarins til fundar við sig til að heyra sjónarmið og áherslur stéttarfélaganna, til dæmis vegna komandi kjarasamninga og annarra hagsmunamála er lúta að íslenskum launþegum. Formaður Verkalýðsfélags Akraness tilheyrir engum stjórnmálaflokki enda er það hans skoðun að forystumenn í verkalýðshreyfingunni eigi ekki að vera eyrnamerktir einhverjum einum ákveðnum stjórnmálaflokki heldur eigi þeir að styðja öll góð mál er lúta að hagsmunum sinna félagsmanna, óháð því frá hvaða stjórnmálaflokki slík mál koma.

Published in Fréttir

Síðastliðinn föstudag var undirritaður áframhaldandi samningur við VIRK Starfsendurhæfingarsjóð um starf ráðgjafa á sviði starfsendurhæfingar fyrir stéttarfélögin á Akranesi. Að þessum samningi koma Verkalýðsfélag Akraness, Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar og VR. Við undirritun samningsins kynnti Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Starfsendurhæfingarsjóðs, starfsemi sjóðsins almennt og einnig fór hún sérstaklega yfir það hvernig þjónustan á Akranesi hefur gengið.

Björg Bjarnadóttir mun sinna starfi ráðgjafa á Akranesi eins og áður og halda áfram aðstoða þá félagsmenn sem glíma við heilsubrest og styðja þá í því að efla færni sína og vinnugetu og komast aftur til vinnu. Í nýja samningnum er starfshlutfall ráðgjafans aukið úr 50% í 75% og var þessi aukning löngu orðin tímabær enda hefur algjör sprenging orðið í aðsókn þessarar þjónustu hér á Akranesi undanfarna mánuði.

Nánari upplýsingar um þessa þjónustu er að finna undir tenglinum Starfsendurhæfing hér til vinstri og á heimasíðu Starfsendurhæfingarsjóðs, www.virk.is.

Published in Fréttir

Stjórn sjúkrasjóðs Verkalýðsfélags Akraness fundaði í gær og var meðal annars farið yfir þá miklu aukningu sem orðið hefur á greiðslum úr sjóðnum vegna sjúkradagpeninga til félagsmanna.

Á þessu ári er búið að greiða um 22 milljónir í sjúkradagpeninga til félagsmanna en á sama tíma í fyrra var þessi tala rúmar 10 milljónir. Aukning á milli ára er því upp á 123%. Ugglaust skýrir ástandið á vinnumarkaðnum þessa miklu aukningu og bendir margt til þess að heilsufar félagsmanna hafi í kjölfar kreppunnar versnað þónokkuð ef tekið er tillit til þessarar miklu aukningar á greiðslum úr sjúkrasjóði félagsins.

Sjúkrasjóður hefur greitt í heildina með öllum styrkjum yfir 30 milljónir króna það sem af er þessu ári en allt árið í fyrra námu greiðslur úr sjóðnum 23 milljónum þannig að aukning á heildargreiðslum úr sjúkrasjóði verður umtalsverð á þessu ári.

Published in Fréttir
Wednesday, 17 November 2010 00:00

Beðið eftir að gulldepluveiðar glæðist

Þess er nú beðið að gulldepluveiðar glæðist en tvö skip HB Granda hafa undanfarna daga leitað að þessum smáa fiski frá Skerjadjúpi í vestri og austur fyrir Vestmannaeyjar. Á Akranesi eru starfsmenn fiskmjölsverksmiðju félagsins tilbúnir til þess að taka á móti afla og vinna hann en ekkert hefur verið unnið í verksmiðjunni frá því í júlí í sumar.

Fjallað er um málið á vefsíðu HB Granda. ,,Hér er allt orðið skotklárt og nú bíðum við bara eftir því að skipin skili sér til hafnar," sagði Guðmundur Hannesson, verksmiðjustjóri á Akranesi, er rætt var við hann í morgun.

Að sögn Guðmundar eru Faxi RE og Lundey NS nú við leit austan við Vestmannaeyjar en lítill afli hefur fengist á hafsvæðinu vestan við Eyjar. Þó mun Faxi vera kominn með um 80 tonna afla en sá afli fékkst í tveimur holum í Grindavíkurdjúpi.

,,Við höfum alls unnið úr rúmlega 30 þúsund tonnum af fiski á þessu ári. Fyrst var það gulldepla, þá loðna og kolmunni og í sumar tókum við á móti makríl sem ísfisktogararnir veiddu. Nú vonum við að gulldeplan gefi sig til og að loðnukvótinn verði aukinn verulega á komandi vertíð," sagði Guðmundur Hannesson en að hans sögn hefur tíminn verið notaður frá í sumar til þess að fara yfir búnað verksmiðjunnar.

Alls munu 12 manns starfa á tveimur vöktum í verksmiðjunni á Akranesi þegar vinnsla hefst að nýju.

Published in Fréttir

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image