• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
14
Dec

Verkalýðsfélag Akraness hefur innheimt frá árinu 2004 um einn milljarð vegna launakrafna

Það er eins og áður ætíð nóg að gera við að verja réttindi félagsmanna. Í því samhengi er rétt að upplýsa að félagið hefur innheimt vegna vangreiddra launa og launakrafna vegna gjaldþrota um 131 milljón á árinu 2020.

Eins og hefur komið fram hér á heimasíðunni þá er langstærsta einstaka innheimtumálið málið gegn Hval en þar liggja uppundir 70 milljónir með launatengdum gjöldum. Dómsmálið sem félagið hefur staðið í í hartnær 5 ár skilar um eða yfir 100 milljónum þegar starfsmenn Hvals sem tilheyra öðrum stéttarfélögum eru teknir með.

Launakröfur vegna gjaldþrots námu um 40 milljónum á árinu sem er að líða og síðan voru nokkur innheimtumál sem skiluðu nokkrum milljónum hjá nokkrum einstaklingum þar sem ágreiningur var um túlkun á kjarasamningum, en þau mál leystust án aðkomu dómstóla.

Það er skemmst frá því að segja að VLFA var með 8 mál fyrir dómstólum á árinu, 7 gegn Hval og eitt gegn Norðuráli vegna vikulegs frídags en það mál var flutt fyrir félagsdómi og skilaði umræddum starfsmanni 1,6 milljónum í leiðréttingu.

Það er formanni VLFA algjörlega til efs að nokkurt stéttarfélag hafi verið með jafn mörg mál fyrir dómstólum á síðasta ári og undanfarin ár miðað við stærð félagsins.

Rétt er að geta þess að frá árinu 2004 hefur Verkalýðsfélag Akraness innheimt vegna kjarasamningsbrota og ágreinings um túlkun á kjarasamningum um 1 milljarð króna og er þá ekki verið að taka tillit til þeirra mála þar margfeldisáhrifa sem sum ágreiningsmálin hafa skilað til framtíðar.

Þetta sýnir hversu gríðarlega mikilvæg stéttarfélögin eru fyrir launafólk enda er „leikurinn“ á milli launamannsins og atvinnurekandans gríðarlega ójafn þegar kemur að ágreiningi um kjarasamningsbrot eða vangreidd laun. Þá skiptir miklu máli að hafa öflugt stéttarfélag til að sækja rétt sinn þar sem ekki er horft í krónur og aura við að ná fram vangreiddum launum fyrir dómstólum ef þurfa þykir.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image