• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
09
Nov

Verkalýðsfélag Akraness flytur starfsemi sína að Þjóðbraut 1

Verkalýðsfélag Akraness hefur fjárfest í nýju skrifstofuhúsnæði að Þjóðbraut 1 en gamla húsnæðið að Sunnubraut 13 var orðið alltof lítið og rúmaði ekki þá starfsemi sem félagið sinnir á degi hverjum.

Rétt er að geta þess að skrifstofurýmið sem var á Sunnubraut 13 var einungis um 100 fermetrar og fundarsalurinn var rétt rúmir 40 fermetrar en sá salur var undir súð.

Hið nýja skrifstofuhúsnæði að Þjóðbraut 1 er rétt rúmir 300 fermetrar, en inni í þessum 300 fermetrum er góður fundarsalur.

Það má segja að VLFA hafi verið nauðbeygt til að fjárfesta í nýju skrifstofuhúsnæði en félagið hefur verið með starfsemi á Sunnubrautinni frá árinu 2002. Á þeim tíma voru félagsmenn VLFA um 1.500 en í dag eru þeir 3.200 og hefur félagafjöldinn því rúmlega tvöfaldast frá árinu 2002. Það er einnig rétt að vekja athygli á því að frá árinu 2009 hefur Virk starfsendurhæfing haft aðsetur í húsnæði VLFA en VLFA leigir Virk tvö skrifstofurými og á þessu sést að rýmið á Sunnubrautinni var eðli málsins samkvæmt löngu sprungið.

Eins og flestir félagsmenn vita þá átti Verkalýðsfélag Akraness efstu hæðina að Kirkjubraut 40 en þá eign hefur félagið selt og einnig húseignina að Sunnubraut og voru þeir fjármunir notaðir til að fjárfesta í hinu nýja húsnæði að Þjóðbraut 1 og gera þær endurbætur sem þurfti.

Nýja húsnæðið uppfyllir allar kröfur sem gerðar eru til starfsemi stéttarfélaga þar sem aðgengi félagsmanna að hinu nýja skrifstofuhúsnæði er afar gott og staðsetningin er á besta stað í bænum. Einnig er allur aðbúnaður og aðstaða starfsmanna eins og best verður á kosið.

Rétt er að geta þess að eftir rétt rúm 3 ár verður Verkalýðsfélag Akraness 100 ára og ljóst er að þetta nýja skrifstofuhúsnæði mun þjóna starfsemi félagsins næstu tugi ára.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness óskar félagsmönnum sínum öllum innilega til hamingju með nýju aðstöðuna, en sökum aðgerða almannavarna vegna Covid 19 er ekki hægt að hafa opið hús að svo stöddu. En um leið og takmörkunum verður aflétt mun verða opið hús þar sem félagsmenn geta skoðað nýju aðstöðu félagsins.

 

 Þ1thumbnail IMG 0682

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image