• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
02
May

1. maí á Akranesi - Frábær þátttaka og stemning

Vel yfir 200 manns tóku þátt í hátíðarhöldum vegna 1. maí á Akranesi í gær og var mikil stemning meðal þátttakenda. Hátíðardagskráin hófst kl. 14:00 með kröfugöngu sem var óvenjulega mannmörg í ár, en veður var milt og gott og göngufólki afar hagstætt. Margir voru með skilti og kröfuspjöld í göngunni og Skólahljómsveit Akraness annaðist undirleik af miklum myndarskap.

Að göngu lokinni safnaðist fólk saman á Kirkjubraut 40, þar sem hátíðar- og baráttufundur var settur. Vilhjálmur Birgisson, fundarstjóri, ávarpaði fundinn og sá um að kynna dagskrárliði. Hátíðarræðuna flutti verkamaðurinn Stefán Skafti Steinólfsson og kom hann víða við í máli sínu og var góður rómur gerður að ræðu hans sem má finna með því að smella hér. Grundartangakórinn söng nokkur lög sem féllu í góðan jarðveg, auk þess sem kórinn sá um glæsilegt kaffihlaðborð sem fundargestum var boðið upp á að dagskrá lokinni. Einnig má minnast á það að stéttarfélögin á Akranesi buðu upp á bíósýningu fyrir börnin í Bíóhöllinni kl. 15.

Myndir frá hátíðarhöldunum eru komnar inn á Facebook-síðu félagsins og einnig má sjá myndirnar með því að smella hér.

02
May

Starfsmenn Klafa samþykkja nýgerðan kjarasamning

Nú klukkan 12 lauk kosningu meðal starfsmanna Klafa um nýgerðan kjarasamning. Kjörsókn var 100%, en allir starfsmenn fyrirtækisins greiddu atkvæði um samninginn. Kosningin fór þannig að allir sögðu já, enginn sagði nei og enginn var auður eða ógildur.

Nýr kjarasamningur vegna starfsmanna Klafa er því samþykktur og munu laun hækka afturvirkt frá 1. janúar og aðrar breytingar samningsins, t.d. á bónusákvæðum, taka gildi frá 1. maí. Samninganefnd VLFA fagnar niðurstöðu kosningarinnar sem sýnir ótvírætt að ánægja ríkir meðal þeirra með nýja samninginn.

30
Apr

Nýr kjarasamningur undirritaður fyrir starfsmenn Klafa

 Í gær var gengið frá kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins vegna starfsmenn Klafa á Grundartanga. En starfsmenn Klafa sjá um út- og uppskipanir fyrir stóriðjufyrirtækin á svæðinu. Kjarasamningurinn er nánast algerlega í anda þess samnings sem gengið var frá fyrir starfsmenn Elkem Ísland á Grundartanga og eru starfsmenn að hækka í heildarlaunum með öllu um yfir 30.000 krónur á mánuði.

Formaður er afar ánægður með þennan samning, enda er hann töluvert betri en kjarasamningurinn sem gerður var á hinum almenna vinnumarkaði. En það er ljóst að samningurinn er að nýtast báðum aðilum vel, sem er fólgið í því að gamla bónuskerfið er lagfært til muna og grunnlaun hækkuð umtalsvert sem og orlofs- desemberuppbætur. En í heildina hækka orlofs- og desemberuppbætur um rúmar 40.000 kr. á ári og nema samtals rúmum 320.000 kr.

Félagið er nú að kynna samninginn fyrir starfsmönnum og atkvæðagreiðslu um samninginn mun ljúka á föstudaginn.

30
Apr

1. maí hátíðarhöld á Akranesi!

Hátíðarhöld vegna 1. maí verða með hefðbundnu sniði á Akranesi í ár, safnast verður saman við Kirkjubraut 40 klukkan 14:00 og genginn hringur á Neðri-Skaga með hina taktvissu Skólahljómsveit Akraness í broddi fylkingar. Eru íbúar hvattir til að fjölmenna með skilti og kröfuspjöld og taka þátt í kröfugöngunni og dagskránni allri.


Að göngu lokinni bjóða stéttarfélögin á Akranesi upp á hátíðardagskrá í sal VLFA á Kirkjubraut 40. Skafti Steinólfsson, verkamaður, er ræðumaður dagsins og Grundartangakórinn syngur fyrir gesti. Að dagskrá lokinni er boðið upp á glæsilegt kaffihlaðborð.

Athugið að stéttarfélögin bjóða börnunum frítt í bíó klukkan 15:00.

25
Apr

Raunfærnimat í skipstjórn

Hefur þú starfað á sjó í 5 ár eða lengur og hefur áhuga á að ná þér í stýrimanns- og skipstjórnarréttindi? Þá gæti raunfærnimat hentað þér.

Raunfærnimat í skipsstjórn miðar að því að meta þá færni sem viðkomandi býr yfir inn í skólakerfið óháð því hvernig hennar hefur verið aflað. Metið er upp í skipstjórn á B stigi (45 m. skip). Þátttakendur fara í kjölfarið í skóla og ljúka því námi sem eftir stendur.

Kynningarfundur verður mánudaginn 28. apríl kl. 16:30 hjá Símenntunarmiðstöð Vesturlands þar sem einnig er að finna nánari upplýsingar.

23
Apr

Skrifstofa VLFA lokuð frá kl. 12 í dag vegna útfarar

Vegna útfarar Óttars Arnar Vilhjálmssonar verður skrifstofa Verkalýðsfélags Akraness lokuð frá kl. 12 í dag. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image