• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
14
Jan

Stjórnarfundur haldinn í kvöld

Fyrsti stjórnarfundur Verkalýðsfélags Akraness á nýju ári verður haldinn í kvöld.  Helstu málin sem verða til umfjöllunar í kvöld eru kjaraviðræðurnar við Samtök atvinnulífsins.  Einnig verða ákveðnar dagsetningar fyrir aðalfundi deildanna, en lög félagsins kveða á um að halda skuli aðalfundina fyrir janúarlok ár hvert.

11
Jan

Erfiðar kjaraviðræður framundan

Viðræðunefnd Starfsgreinasambands Íslands kom saman til fundar í gær í húsakynnum ríkissáttasemjara, en formaður Verkalýðsfélags Akraness á sæti í viðræðunefndinni.

Eins og fram hefur komið fréttum í gær þá hafnaði ríkisstjórnin tillögum verkalýðshreyfingarinnar um sérstakan persónuafslátt á þá tekjulægstu sem gerir það að verkum að viðræður við Samtök atvinnulífsins eru komnar í hnút.  Það hefur ætíð legið fyrir af hálfu stéttarfélaganna að ríkisvaldið verði að koma að þessum viðræðum til að liðka fyrir því að hægt sé að ganga frá nýjum kjarasamningi.  

Rétt er að minna enn og aftur á það að ríkisstjórnin gerði með sér stjórnarsáttmála þar sem fram kemur að stefnt skuli að frekari lækkun skatta á einstaklinga á kjörtímabilinu, meðal annars með hækkun persónuafsláttar.  Einnig kemur fram í stjórnarsáttmálanum að unnið skuli að endurskoðun á skattkerfinu með það að markmiði að bæta hag lágtekjufólks og millitekjufólks.  Með öðrum orðum er verkalýðshreyfingin einungis að biðja ríkisstjórnina um að standa við sín eigin loforð.

Formaður félagsins finnur að þolinmæði verkfólks er að þrotum komin og vill fólk að verkalýðshreyfingin sýni fulla hörku til að knýja fram viðunandi kjarasamning til handa verkafólki.  Verkafólk horfir uppá þá miklu misskiptingu sem orðin er á launum í þessu samfélagi.  Það liggur t.d. fyrir að laun æðstu stjórnenda ríkisins hafa hækkað um 18% á síðastliðnum 2 árum á með almennt fólk hjá hinu opinbera hefur einungis fengið 7% til 9% á sama tímabili.  Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni áður þá hafa sveitastjórnir á höfuðborgarsvæðinu verið með sértækar aðgerðir til handa sínu fólki og t.d. eru lágmarkslaun hjá Kópavogi komin uppí 160.000 kr. á meðan lágmarkslaun á almenna vinnumarkaðnum er einungis 125.000 kr.  Þessar sértæku aðgerðir á höfuðborgarsvæðinu eru að koma þrátt fyrir að kjarasamningar séu ekki lausir hjá sveitarfélögunum fyrir en í nóvember.  Að sjálfsögðu ber að fagna þessum hækkunum enda kalla þær á að verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði fái leiðréttingu á sínum launum í samræmi við þær hækkanir sem orðið hafa hjá sveitarfélögunum.

Á fundinum í gær var farið yfir stöðu mála og því velt fyrir sér hvað sé í stöðunni og komu til að mynda hugmyndir um að semja einungis eins árs en ekki til tveggja ára eins og áður var fyrirhugað.  Formanni félagsins líst vel á þá hugmynd, en til að það geti orðið að veruleika þurfa taxtar að hækka um 20 þúsund krónur og lágmarkslaun þurfa að hækka úr 125.000 kr. í 150.000 kr. Einnig þyrfti að koma almenn 4% til 6% launahækkun til þeirra sem ekki væru að vinna eftir töxtum.

Það er alveg ljóst að framundan eru mjög erfiðar kjaraviðræður við Samtök atvinnulífsins en með fullri samstöðu á að vera hægt að knýja fram umtalsverðar kjarabætur handa þeim sem eru með hvað lægstu launin í komandi kjarasamningum.

Viðræðunefnd SGS mun koma aftur saman til fundar strax eftir helgi til að meta stöðuna.

10
Jan

Óvissu um starfssemi Laugafisks eytt

Það var mikið fagnaðarefni þegar bæjarstjórn Akraness ákvað á fundi sínum að gera ekki athugasemdir við tillögur Heilbrigðiseftirlits Vesturlands um að starfsleyfi Laugafisks á Akranesi verði endurnýjað.  En töluverð óvissa hefur ríkt um hvort starfsleyfi fyrirtækisins yrði endurnýjað eða ekki.

Með þessari ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Vesturlands og bæjarstjórnar Akraness hefur verið eytt þeirri óvissu sem ríkt hefur um störf allt að 30 starfsmanna Laugafisks.  Sú neikvæða umræða sem átt hefur sér stað um starfssemi fyrirtækisins á undanförnum árum og sú gríðarlega óvissa sem ríkt hefur um áðurnefnda starfssemi hefur valdið mörgum starfsmönnum fyrirtækisins töluverðri angist. 

Formaður félagsins hefur barist hart fyrir því að starfsleyfi Laugafisks yrði endurnýjað með hagsmuni starfsmanna að leiðarljósi og hefur t.d. fundað nokkrum sinnum með bæjarráði vegna málsins og einnig hefur formaður rætt við bæjarfulltrúa vegna málsins.

Formaður ætlar ekki að gera lítið úr þeim kvörtunum sem íbúar í námunda við fyrirtækið hafa komið á framfæri á undanförnum árum.  Hins vegar vita það allflestir að lyktarmengun frá Laugafiski hefur stórlagast á undanförnum árum, um það þarf ekki að deila.  Enda hefur fyrirtækið af fullum heilindum unnið að því að finna lausn á þessu hvimleiða vandamáli og hefur eins og áður sagði orðið verulega ágengt í þeim efnum.

Að sjálfsögðu þarf Laugafiskur eins og öll önnur fyrirtæki að fara eftir settum starfsleyfiskröfum og þeim skilmálum sem starfsleyfið er byggt á. 

Það var gríðarlegt fagnaðarefni að sjá hversu breiður pólitískur stuðningur var um málið og eiga bæjarfulltrúar heiður skilið fyrir hversu vel þeir settu sig inní málið. Það hefði ekki verið neitt grín að taka lífsviðurværið af allt að 30 einstaklingum í ljósi þess að stórlega hefur dregið úr lyktarmengun á undanförnum árum.

Formaður vill óska bæjarstjórn Akraness til hamingju með þessa ákvörðun en að sjálfsögðu þurfa forsvarsmenn Laugafisks að halda áfram á þeirri braut að draga úr mengun og formaður veit fyrir víst að svo verður.

08
Jan

Óþolinmæði farið að gæta hjá verkafólki

Starfsgreinasamband Íslands boðaði til formannafundar í gær í Reykjavík.  Á fundinum, var farið yfir stöðu kjaraviðræðna við Samtök atvinnulífsins og kröfur ASÍ gagnvart ríkinu.

Á fundinum var kynnt ný hugmynd að nýrri kröfugerð sem til stendur að leggja fram fyrir atvinnurekendur á morgun. 

Formaður félagsins gat ekki undir nokkrum kringumstæðum samþykkt þessar nýju hugmyndir, einfaldlega vegna þess að þær hugmyndir sem þarna voru kynntar voru ekki fullmótaðar og því erfitt að vita hvað þær þýddu í raun fyrir okkar fólk.

Á þeirri forsendu lagði formaður Verkalýðsfélags Akraness áherslu á að Starfsgreinasambandið héldi sig við þá kröfu sem lögð hefur verið fram til Samtaka atvinnulífsins.

Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá telur félagið það vera höfuðkröfu í komandi kjarasamningum að kjör þeirra sem lægstu hafa launin hækki stórlega í komandi kjarasamningum.

Stjórn og trúnaðarráð félagsins hefur skorað á samninganefnd SGS að standa þétt saman að þeirri kröfu sambandsins að lágmarkslaun hækki úr 125.000 kr. í 150.000 kr. á árinu 2008 og lágmarkslaunin verði orðin 165.000 kr. 1.janúar 2009.

Einnig hefur stjórn og trúnaðarráð skorað á samninganefnd SGS að hvika hvergi frá þessum kröfum.  Enda telur formaður að áðurnefndar kröfur séu forsenda fyrir því að hægt sé að ganga frá nýjum kjarasamningi.

Til að þessi krafa náist fram þurfa öll aðildarfélög SGS að standa þétt saman, án fullrar samstöðu er borin von að ná slíkri kröfu fram.

Vissulega mun skipta töluverðu máli hvernig aðkoma ríkisins verður að þessum samningum og þá sérstaklega hvað varðar skattalækkanir handa þeim tekjulægstu.  Rétt er að minna á að í stjórnarsáttmála ríkistjórnarinnar er talað um að lækka skatta á lágtekjufólk og millitekjufólk og því væri gott ef ríkisstjórnin efndi loforð sitt sem myndi klárlega liðka fyrir gerð nýs kjarasamnings.

Samninganefnd SGS mun koma saman til fundar á fimmtudaginn nk. kl. 13:00 þar sem farið verður yfir stöðuna eins og hún mun líta út þá.

Það er alveg orðið ljóst að farið er að gæta óþolinmæði hjá verkafólki hversu hægt þessar viðræður ganga, en nú eru liðnir 10 dagar frá því að kjarasamningar runnu út og ekki útlit fyrir að skrifað verði undir nýjan kjarasamning á næstu dögum.

08
Jan

VLFA/Landsmennt hækkar styrki vegna aukinna ökuréttinda

Fræðslusjóðurinn Landsmennt sem Verkalýðsfélag Akraness á aðild að fyrir hönd félagsmanna hefur samþykkt að hækka styrki vegna aukinna ökuréttinda úr kr. 81.000.- í kr. 100.000,-. Hækkunin tekur gildi nú um áramótin. Á nýju ári eiga því fullgildir félagsmenn í Verkalýðfélagi Akraness rétt á góðum styrk eða kr. 100.000,- vilji þeir ná sér í meirapróf. Félagsmenn, vinsamlegast hafið samband við Skrifstofu félagsins ef frekari upplýsinga ef þörf.

04
Jan

Launahækkanir um áramótin

Laun félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness sem vinna eftir eftirfarandi kjarasamningum hækkuðu um eftirfarnandi prósentur um síðustu áramót.

Kjarasamningur starfsmanna sveitarfélag    3%
Kjarasamningur starfsmanna ríkisins    2%
Kjarasamningur starfsmanna Norðuráls    3%
Kjarasamningur starfsmanna, Íslenska járnblendifélagsins, Sementsverksmiðjunnar og Klafa    2.25%

 

Kjarasamningar verkafólks og iðnaðarmanna á hinum almenna vinnumarkaði voru lausir nú um áramótin og standa viðræður um endurnýjun þeirra kjarasamninga nú að fullu yfir.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image