• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
27
Oct

Ætlar félagshyggju-, jafnaðar- og velferðarstjórn að svíkja þá tekjulægstu?

Eins og fram kemur í fjárlagafrumvarpinu er ekki gert ráð fyrir því að persónuafsláttur hækki á næsta ári eins og yfirlýsing ríkisstjórnarinnar frá 17. febrúar 2008 segir til um. Persónuafslátturinn er í dag 42.250 krónur, en ef staðið yrði við það loforð sem verkalýðshreyfingin fékk við gerð síðasta samnings þá ætti persónuafslátturinn að fara í rétt rúmar 49.000 krónur sem er hækkun upp á rétt tæpar 7000 krónur á mánuði.  Hægt að lesa yfirlýsingu ríkissjórnar frá 17. febrúar 2008 hér

Formaður félagsins gerði alvarlegar athugasemdir við það á ársfundi Alþýðusambands Íslands að ekki skuli hafa verið gengið frá því í stöðugleikasáttmálanum margumtalaða að hækkun persónuafsláttar kæmi til framkvæmda. Það liggur fyrir að hækkun persónuafsláttar nýtist þeim tekjulægstu hvað best. Við erum eins og áður hefur komið fram að tala um 7000 króna hækkun sem er örlítið meira heldur en launataxtar eiga að hækka um 1. nóvember samkvæmt kjarasamningi frá 17. febrúar 2008.

Það er með ólíkindum að það skuli vera ríkisstjórn sem kennir sig við félagshyggju-, jafnaðar- og velferðarstjórn sem ætli ekki að standa við það samkomulag sem gengið var frá í febrúar 2008 sem var grunnurinn að því að gengið var frá hófstilltum kjarasamningum á sínum tíma.

Það er mat Verkalýðsfélags Akraness að það sé ekki hægt undir nokkrum kringumstæðum að sætta sig við það að persónuafslátturinn komi ekki til framkvæmda um næstu áramót eins og um hefur verið samið enda er verðtrygging persónuafsláttar eitt af aðalbaráttumálum verkalýðshreyfingarinnar og við slíkt er ekki hægt að una.

Formaður félagsins var í Kastljósi í gærkveldi þar sem málefni verkalýðshreyfingarinnar voru til umfjöllunar.  Horfa hér

26
Oct

Formaður gagnrýndi forystu ASÍ á ársfundi sambandsins

Ársfundi Alþýðusambands Íslands lauk á föstudaginn og það er alveg óhætt að segja að hart hafi verið tekist á um hin ýmsu mál á fundinum. Formaður félagsins hélt ræðu á fimmtudeginum þar sem hann gagnrýndi forystu ASÍ harðlega. Byggðist sú gagnrýni fyrst og fremst á endurskoðun kjarasamninga, stöðugleikasáttmálanum og þeirri skoðun formannsins að verkalýðshreyfingin hafi fjarlægst grasrótina ískyggilega á undanförnum misserum.

Formaður gagnrýndi það í sinni ræðu að verið væri að gefa fyrirtækjum sem hefðu fjárhagslega burði til að standa við gerða samninga afslátt á þeim launahækkunum sem áttu að taka gildi 1. mars sl. Nefndi hann í sinni ræðu sérstaklega útflutningsfyrirtækin, en það liggur fyrir að fyrirtæki í útflutningi hafa aldrei haft jafngóð rekstrarskilyrði og nú. Hann nefndi líka þá staðreynd að olíufyrirtækið N1 hafi skilað hálfum milljarði í hagnað en fyrirtækið hafi skýlt sér á bak við þá staðreynd að ASÍ væri búið að ganga frá samkomulagið við Samtök atvinnulífsins um frestun launahækkana.

Formaður sagði einnig að það eina sem væri búið að rætast hvað varðaði stöðugleikasáttmálann væri sú blákalda staðreynd að launafólk hafi verið þvingað til að afsala sér og fresta sínum launahækkunum. Annað hafi ekki orðið að veruleika í þessum sáttmála sem öllu átti að redda fyrir launþega þessa lands.

Hægt er að lesa ræðu formanns Verkalýðsfélags Akraness hér.

22
Oct

Ársfundur Alþýðusambands Íslands hefst í dag

Ársfundur Alþýðusambands Íslands hefst í dag. Fulltrúar Verkalýðsfélags Akraness á ársfundinn eru Þórarinn Helgason, Jóna Adolfsdóttir, Sigurður Guðjónsson, Bryndís Guðjónsdóttir, Jón Jónsson og Vilhjálmur Birgisson.

Yfirskrift fundarins er: byggjum réttlátt þjóðfélag þar sem áherslan verður á hag heimilanna, efnahags- og kjaramál og atvinnumál og samfélagslega ábyrgð. Auk þess er viðbúið að til umræðu á ársfundinum verði stöðugleikasáttmálinn, endurskoðun kjarasamninga og tillaga stjórnar og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags Akraness um breytingar á samningi um lífeyrismál.

Tillaga Verkalýðsfélags Akraness gengur út á það að miðstjórn Alþýðusambands Íslands verði falið að vinna að því að atvinnurekendur hverfi úr stjórnum lífeyrissjóða og að unnið verði að breytingum á reglugerðum sjóðanna með þeim hætti að sjóðsfélagar kjósi sér stjórnarmenn með beinni kosningu. 

Hægt að lesa tillöguna með því smella hér.

Nánari upplýsingar um ársfundinn má finna hér.

19
Oct

Hluti stjórnarmanna VR styður tillögu Verkalýðsfélags Akraness sem lögð verður fyrir ársfund ASÍ

Skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness barst rétt í þessu stuðningsyfirlýsing vegna tillögu VLFA um stóraukið lýðræði við val á stjórnarmönnum lífeyrissjóðanna. Yfirlýsingin er frá hluta af stjórnarmönnum VR, sem er eitt stærsta félagið innan Alþýðusambands Íslands.

Það er afar ánægjulegt að fá þessa stuðningsyfirlýsingu nú þegar einungis þrír dagar eru þar til ársfundur Alþýðusambands Íslands hefst. Þar mun tillaga VLFA einmitt verða tekin til umfjöllunar og afgreiðslu.

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands hefur tekið tillögu VLFA til umsagnar og samþykkir því miður einungis fyrri hluta tillögunnar og leggur til að staðið verði fyrir almennri umræðu aðildarfélaga ASÍ með það að markmiði að leggja drög að endurskoðaðri stefnu ASÍ í lífeyrismálum.

Seinni hluta tillögu VLFA, sem skiptir hvað mestu máli og lýtur að breytingu á reglugerðum sjóðanna þannig að sjóðsfélagar kjósi stjórnarmenn beinni kosningu, er miðstjórn ASÍ ekki tilbúin til að samþykkja. Þessi afstaða miðstjórnar er stjórn VLFA óskiljanleg. Í umsögn miðstjórnar ASÍ er lagt til að seinni hluti tillögu VLFA verði ekki tekinn fyrir sérstaklega á ársfundinum en tillagan verði hins vegar til umfjöllunar í almennri umræðu meðal aðildarfélaga ASÍ um lífeyrismál. Miðstjórn telur hins vegar ekki ástæðu til að gefa sér fyrirfram neina niðurstöðu í þeirri vinnu er lýtur að breytingum á stjórnarskipun lífeyrissjóðanna.

Hægt er að lesa tillögu stjórnar og trúnaðarráðs VLFA hér.

Hægt er að lesa umsögn ASÍ hér.

Hægt er að lesa stuðningsyfirlýsingu fulltrúa VR hér.

14
Oct

Verkalýðsfélag Akraness er 85 ára í dag

Í dag eru liðin 85 ár frá stofnun Verkalýðsfélags Akraness. Í tilefni afmælisins hefur veglegu afmælisblaði verið dreift í öll hús á Akranesi. Stjórn og starfsmenn óska félagsmönnum öllum innilega til hamingju með daginn.

Hér á eftir fer frásögn af stofnun félagsins:

Það var fimmtudaginn 9. okt. 1924, að allmargir sjómenn og verkamenn og ein kona, komu saman til fundar í Báruhúsinu á Akranesi, í þeim tilgangi að vinna að undirbúningi að stofnun verkalýðsfélags á Akranesi.

 Það fólk sem hér var samankomið, var hert í miskunnarlausri baráttu fyrir lífshagsmunum sínum og heimila sinna.  Þetta voru menn, sem sóttu sjóinn á litlum vélbátum og sumir á opnum árabátum, af miklu kappi, - verkamenn sem báru daginn út og daginn inn, og kona sú, sem getið er í fundargerðinni, vann við fiskþvott, en slíkt starf var að mestu unnið í óupphituðu húsnæði, og stundum undir beru lofti, og kom fyrir að brjóta þurfti ís af þvottakörunum áður en fiskþvottur gæti hafist.

 Fundarstjóri á þessum fundi var kjörinn Sveinbjörn Oddsson, og fundarritari Sæmundur Friðriksson.  Frummælandi á þessum undirbúningsfundi var Oddur Sveinsson á Akri.        

 Hann flutti snjallt erindi um alþýðuhreyfinguna í Evrópu, og lýsti starfi hennar og stefnu, og hversu miklu hún gæti komið til leiðar með starfsemi sinni.  Hvatti Oddur eindregið til stofnunar verkalýðsfélags hér á Akranesi. 

 Þá ræddi Sæmundur Friðriksson, um stofnun verkalýðsfélags, og lýsti því hversu mikla þýðingu slíkur félagsskapur gæti haft fyrir verkalýðinn á sjó og landi, bæði í kaupgjalds- og atvinnumálum.    

 Sveinbjörn Oddsson kvað ekki hægt á einu kvöldi, að sýna fram á hvernig best væri ráðin bót á öllu því sem umbóta þurfti með, og lýsti á hvern hátt hann hyggði, að verkalýðsfélag gæti náð árangri ef stofnað yrði.  

 Auk þess töluðu þeir Þorsteinn Benediktsson og Sigurður Jörundsson, og mæltu þeir báðir með stofnun verkalýðsfélags.  Þess ber að geta, að bræðurnir frá Teig, Ásgrímur, Sigurjón og Stefán, stuðluðu mjög að stofnun félagsins.      

 Á fundi þessum var kosin 5 manna nefnd, til þess að vinna að frekari undirbúningi.  Kosningu hlutu eftirtaldir menn:  Sveinbjörn Oddsson, Sæmundur Friðriksson, Jörgen Hansson, Indriði Jónsson og Oddur Sveinsson.      

 Þá var kosin 9 manna nefnd til þess að gera tillögur um stjórn fyrir væntanlegt félag og hlutu kosningu eftirtaldir:  Indriði Jónsson, Sigurjón Sigurðsson, Sigurður Björnsson, Eiríkur Guðmundsson, Jónas Guðmundsson, Ólafur Kristjánsson, Gísli Einarsson, Halldór Sigurðsson og frú Sveinsína Sveinsdóttir.  Síðan var fundi frestað og framhaldsfundur boðaður hinn 14. okt. 1924.      

 

Framhaldsfundur var haldinn boðaðan fundardag, og þá lagt fram frumvarp að lögum fyrir félagið og það samþykkt samhljóða á fundinum.  Stofndagur Verkalýðsfélags Akraness er því 14. október 1924.  Stofnendur munu hafa verið alls 108 að tölu.

1. grein laganna hljóðaði svo:

Félagið heitir:  Verkalýðsfélag Akraness. Starfssvið: Ytri Akraneshreppur.

2. grein:

Tilgangur félagsins er að efla og styðja hag og menningu alþýðunnar á því svæði, sem félagið nær yfir, með því að vinna að sjálfsbjargarviðleitni almennings, ákveða vinnutíma og kaupgjald, og með sjálfstæðri þátttöku alþýðunnar í stjórnmálum lands og sveitarfélags, allt í samræmi við önnur verkalýðsfélög og Alþýðusambandið. 

 Fyrsta stjórn félagsins var skipuð eftirtöldum mönnum:  Formaður:  Sæmundur Friðriksson; ritari:  Oddur Sveinsson og féhirðir Eiríkur Guðmundsson, Tungu.  Meðstjórnendur:  Jörgen Hansson og Ágúst Ásbjörnsson; varaformaður:  Sveinbjörn Oddsson; vararitari:  Gísli Gíslason og varaféhirðir:  Jónas Guðmundsson.

 

Formenn Verkalýðsfélags Akraness frá stofnun þess á árinu 1924.

1924-1925         Sæmundur Friðriksson

1925-1937         Sveinbjörn Oddsson

1937-1961         Hálfdán Sveinsson

1961-1966         Guðmundur Kristinn Ólafsson

1966-1981         Skúli Þórðarson

1981-1986         Agnar Jónsson

1986-1989         Guðmundur M. Jónsson

1989-2003         Hervar Gunnarsson

2003-                Vilhjálmur Elías Birgisson

14
Oct

Formaður VLFA í þættinum Hrafnaþingi

Formaður félagsins var gestur í þættinum Hrafnaþingi á sjónvarpsstöðinni Inn hjá Ingva Hrafni Jónssyni í gær.

Formaðurinn kom víða við í viðtalinu m.a endurskoðun kjarasamninga frá því vor, fyrirhugaðan Orku- umhverfs og auðlindaskatt sem mun stofna störfum í stóriðju í hættu ef af honum verður.  Einnig kom formaðurinn inn á lífeyrissjóðina og hugmyndina að stórauknu lýðræði við stjórnarval sjóðanna.  Hægt að sjá þáttinn því að smella hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image