• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
12
Nov

Ríkissáttasemjari í heimsókn á skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness

Magnús Pétursson, ríkissáttasemjari og Elísabet S. Ólafsdóttir, skrifstofustjóri ríkissáttasemjara, komu í heimsókn á skrifstofu félagsins í gær. Það var afar ánægjulegt að fá þau í heimsókn og fór formaður félagsins yfir starfsemi Verkalýðsfélags Akraness, sögu þess og þau verkefni sem félagið er að kljást við þessa dagana.

Þessi nýbreytni ríkissáttasemjara að heimsækja stéttarfélögin er til mikillar fyrirmyndar og gerir ekkert annað en að efla tengslin við starfsmenn sáttasemjara enda geta forystumenn í stéttarfélögum oft á tíðum eytt löngum tíma í húsakynnum ríkissáttasemjara við úrlausn kjarasamninga.

Ríkissáttasemjari fór yfir þau verkefni sem hann er að vinna að og sýndi formanni m.a nýja heimasíðu ríkissáttasemjara sem tekin var í notkun fyrir stuttu, ljóst er að nýja heimasíðan er afar gagnleg og fróðleg.

Formaður skorar á fólk að skoða síðu ríkissáttasemjara en þar eru ýmsar upplýsingar, til að mynda hvert hlutverk ríkissáttasemjara er. Hægt er að sjá síðuna með því að smella hér.

11
Nov

Fundað með starfsmönnum Norðuráls

Formaður fundaði með starfsmönnum tveggja vakta Norðuráls í morgun, þ.e.a.s. C og A vakt. Fundirnir voru afar góðir og gagnlegir en þar fór formaður yfir stöðuna í þeim kjaraviðræðum sem nú standa yfir við forsvarsmenn Norðuráls.

Eins og fram hefur komið hér á síðunni þá hafa tveir samningafundir verið haldnir hjá ríkissáttasemjara og hafa þeir fundir fyrst og fremst verið vinna við að lagfæra textabreytingar í kjarasamningi.

Á fundinum í morgun var kallað eftir því hvaða atriði starfsmenn vildu leggja mesta áherslu á í þeim viðræðum sem framundan eru og komu starfsmenn með fjölmargar tillögur hvað það varðar. Einnig báru starfsmenn upp allmargar spurningar til formanns er varða hin ýmsu mál varðandi komandi kjarasamningaviðræður.

Formaður greindi starfsmönnum frá því að hann teldi afar mikilvægt að í þessum kjaraviðræðum skyldi verða lögð áhersla á að jafna launakjör starfsmanna Norðuráls við starfsmenn sem starfa í sambærilegum iðnaði.

Á föstudaginn verður fundað með D og B vöktum þar sem farið verður yfir hvaða atriði þær vaktir vilja leggja áherslu á í komandi kjaraviðræðum.

10
Nov

Vinnustaðafundur hjá Norðuráli í fyrramálið

Klukkan 6:45 í fyrramálið mun formaður félagsins fara á vinnustaðafund í Norðuráli vegna komandi kjarasamninga. Á þessum fundi mun hann hitta starfsmenn tveggja vakta en starfsmenn hinna tveggja vaktanna mun hann hitta á öðrum fundi næstkomandi föstudag. Tilgangur fundarins með starfsmönnum verður að kalla eftir áherslum þeirra vegna kjarasamningsgerðar sem nú stendur yfir en eins og fram hefur komið á heimasíðunni rennur kjarasamningur starfsmanna Norðuráls út nú um áramótin.

10
Nov

Ríkissáttasemjari kemur í heimsókn á skrifstofu félagsins

Húsakynni ríkissáttasemjara að BorgartúniRíkissáttasemjari og skrifstofustjóri hans hafa óskað eftir að fá að koma í heimsókn á skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness á morgun. Að sjálfsögðu verður félagið við þeirri ósk og er afar ánægjulegt að sjá að ríkissáttasemjari og starfsfólk hans gefi sér tíma til að koma og kynna sér starfsemi stéttarfélaganna enda hefur samstarf við nýjan ríkissáttasemjara og starfsfólk hans ætíð verið til mikillar fyrirmyndar.

06
Nov

Fundað hjá ríkissáttasemjara

Annar samningafundurinn vegna kjarasamnings Norðuráls var haldinn í húsakynnum ríkissáttasemjara í morgun og var aðallega verið að vinna í lagfæringum á hinum ýmsu orðalagsbreytingum í kjarasamningnum. Ekkert er farið að ræða um launaliðinn og verður það ekki gert fyrr en vinnunni í kringum orðalagsbreytingar í kjarasamningnum hefur verið lokið.

Formaður mun í næstu viku fara og hitta allar vaktirnar í Norðuráli til að kalla eftir hvað starfsmenn vilja leggja hvað mesta áherslu á í þeim viðræðum sem nú eru hafnar enda skiptir það gríðarlega miklu máli að starfsmenn allir hafi tækifæri til að koma með tillögur í þeirri vinnu sem nú er framundan við kjarasamning Norðuráls. Einnig skorar formaður á félagsmenn Verkalýðsfélag Akraness sem starfa hjá Norðuráli að vera óhræddir við að hafa samband við hann og koma með tillögur og hugmyndir vegna nýs kjarasamnings.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá telur formaður félagsins grundvallaratriði að jafna kjör starfsmanna Norðuráls við verksmiðjur í sambærilegum iðnaði í þessum samningum.

05
Nov

Bjarnargreiði

Nú hefur ríkisstjórn Íslands tilkynnt nýjar leiðir til lausnar greiðsluvanda heimilanna. Leiðir sem nefnast greiðslujöfnun, þak á lengingu lána, greiðsluaðlögun og sértæk skuldaaðlögun.

Hagsmunasamtök heimilanna héldu fund í Iðnó sl. mánudagskvöld. Þar kynnti félagsmálaráðherra, Árni Páll Árnason, þessi nýju úrræði og það kom svo sem ekki á óvart að fundargestir létu óánægju sína berlega í ljós yfir þessum úrræðum sem félagsmálaráðherra kynnti.

Þegar þessi úrræði eru skoðuð þá liggur fyrir að ekki er verið að leiðrétta þann forsendubrest sem skuldarar hafa orðið fyrir vegna bankahrunsins heldur eru íslensk stjórnvöld einungis að tryggja að lánastofnanir fái örugglega allt sitt. Það á með öðrum orðum að tryggja það að alþýða landsins greiði allar sínar skuldir með góðu eða illu.

Ef við skoðum úrræðin fyrir bílalánin þá liggur fyrir að færa á gengisvísitöluna til 1. maí 2008, sem jú vissulega léttir á greiðslubyrði fólksins en lækkar ekki höfuðstól skuldarinnar vegna þess forsendubrests sem orðið hefur. Hægt er að lengja í láninu um 3 ár sem tryggir það að lánveitandinn fær örugglega allt sitt og ef svo ólíklega vill til að eitthvað stendur út af þá hefur lántakinn úrræði til að fá restina niðurfellda með því að skila lyklunum að bifreiðinni.

Ætla íslensk stjórnvöld að halda því að fram að það sé verið að hjálpa skuldsettum heimilum með þessum hætti? Ekkert er gert til að lagfæra þá gríðarlegu hækkun sem orðið hefur á skuldum heimilanna vegna bankahrunsins

Það gilda ekki sömu lögmál um fjármagnseigendur, þeir hafa verið tryggðir í bak og fyrir. Neyðarlögin tryggðu allar innistæður á bankabókum að fullu. Og rétt er að minna á að búið er að setja hundruð milljarða inn í peningamarkaðssjóðina og afskrifað tugi milljarða hjá eignarhaldsfélögum og nægir að nefna í því samhengi 800 milljónir hjá Bjarna Ármannssyni, 14 milljarða hjá Finni Ingólfssyni, 30 milljarða hjá Pálma Haraldssyni, 11 milljarða hjá Sigurði Bollasyni og áfram mætti lengi telja.

Svo halda menn því fram að það sé ekkert hægt að gera fyrir skuldsett heimili. Það er mat formanns Verkalýðsfélags Akraness að á engan hátt sé að sætta sig við þetta lengur og full ástæða fyrir skuldsett heimili að láta heyra í sér með kröftugum hætti.

Það ber að þakka Hagsmunasamtökum heimilanna fyrir sína ötulu baráttu í þessum málum og ljóst að það er full ástæða fyrir verkalýðshreyfinguna að fara að taka á þessum málum af fullum þunga.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image