• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
01
Oct

Styttist í afmæli Verkalýðsfélags Akraness

Helgi Björns og reiðmenn vindanna munu spila á afmælistónleikum félagsinsHelgi Björns og reiðmenn vindanna munu spila á afmælistónleikum félagsinsÞann 14. október næstkomandi verður Verkalýðsfélag Akraness 90 ára en það var stofnað árið 1924. Í tilefni þess mun félagið standa fyrir afmælistónleikum laugardaginn 11. október. Á tónleikunum, sem haldnir verða í Bíóhöllinni kl. 20:30, koma fram Helgi Björns og reiðmenn vindanna og á þann viðburð er félagsmönnum boðið. Hver félagsmaður fær afhentan einn miða á skrifstofu félagsins og hefst afhending þeirra kl. 12 á hádegi á morgun, fimmtudaginn 2. október. Takmarkað magn miða er í boði.

Fyrr um daginn mun hljómsveitin Pollapönk skemmta börnum bæjarins og hefjast þeir tónleikar kl. 15 í Bíóhöllinni. Frítt er fyrir öll börn á meðan húsrúm leyfir en húsið opnar kl. 14:20.

Sjálfan afmælisdaginn ber upp á þriðjudag og þá mun verða heitt á könnunni og meðlæti í boði fyrir þá sem kíkja við á skrifstofu félagsins á milli kl. 14 og 16.

Vonandi sjá sem flestir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness sér fært að taka á einhvern hátt þátt í því að fagna þessum merku tímamótum með félaginu. Auglýsingu um afmæli félagsins má sjá hér.

26
Sep

Fundur í Bíóhöllinni með starfsmönnum Norðuráls

Fimmtudaginn 2. október næstkomandi mun Verkalýðsfélag Akraness halda fund í Bíóhöllinni með starfsmönnum Norðuráls og hefst hann kl. 20:00.

Ástæðan fyrir fundinum eru komandi kjarasamningar og vill félagið heyra í sem flestum starfsmönnum hvað þeir vilji leggja áherslu á í komandi samningum. Það liggur fyrir að starfsmenn hafa m.a. kvartað sáran yfir stórauknu álagi í verksmiðjunni á liðnum árum og eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá lækkuðu launagreiðslur Norðuráls um rétt tæp 7% á milli ára þrátt fyrir metframleiðslu. Þessi lækkun á launakostnaði verður ekki skýrð með öðrum hætti en að starfsmönnum hafi fækkað og það þrátt fyrir stóraukna framleiðslu.

Formaður félagsins hélt fyrir stuttu fund með starfsmönnum steypuskála en þar hefur vinnuálagið að sögn allra starfsmanna verið ómanneskjulegt og telja þeir að álagið sé farið að ógna velferð og öryggi þeirra.  Á fundinum var gerð karfa um að VLFA myndi beita sér fyrir því að tekið yrði upp sambærilegt vaktakerfi og er hjá Elkem Ísland en þar er 8 tíma vaktakerfi en ekki 12 tíma eins og í Norðuráli.  Starfsmenn Elkem vinna 146 tíma á mánuði í þriggja vakta kerfi þar sem menn standa 6 vaktir á fimm dögum og eiga fimm daga í frí.  Með öðrum orðum afar fjölskylduvænt vaktakerfi enda láta starfsmenn Elkem afar vel af þessu kerfi.

Á fundinum sem haldinn verður í Bíóhöllinni á næsta fimmtudag mun formaður athuga hvort áhugi sé víðar í verksmiðjunni t.d. í kerskálanum á því að barist verði fyrir 8 tíma kerfi í stað 12 tíma. Þessi fundur er eins og áður sagði liður í að kanna hvað starfsmenn vilja leggja áherslu á í komandi kjarasamningum og er mikilvægt að huga vel að undirbúningnum því kjarasamningurinn rennur út um næstu áramót.

Sagan segir okkur að komandi kjarasamningar verði erfiðir enda hefur ávallt gengið töluvert á þegar samið hefur verið um kaup og kjör starfsmanna Norðuráls. Sem dæmi tók uppundir 9 mánuði að ganga frá samningum síðast frá því samningarnir runnu út.

Eitt er morgunljóst að Verkalýðsfélag Akraness mun ekki gefa neitt eftir í þessum kjarasamningum enda engin ástæða til því rekstur Norðuráls hefur ætíð gengið mjög vel . Sem dæmi þá hefur fyrirtækið ávallt skilað milljarða hagnaði ár hvert frá því það var sett á laggirnar 1998. Starfsmenn eiga því fulla heimtingu á að fá góða hlutdeild í góðri afkomu fyrirtækisins.

24
Sep

Formaður með erindi í vinnumarkaðsfræði í Háskóla Íslands

Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent við Háskóla Íslands sem kennir nú vinnumarkaðsfræði í meistaranámi, óskaði eftir því við formann félagsins að hann kæmi og hitti nemendur hans. Tilgangurinn var sá að formaður færi yfir stöðu verkalýðshreyfingarinnar, mikilvægi hennar og hin ýmsu mál er lúta að starfsemi hreyfingarinnar. Að sjálfsögðu varð formaðurinn við þessu erindi en þetta er í fjórða sinn á nokkrum árum sem hann hittir nemendur Gylfa í þessum tilgangi.

Formaður fór víða í klukkustundarlöngu erindi sínu og kom meðal annars inn á mikilvægi verkalýðshreyfingarinnar og þá mörgu stóru sigra sem hreyfingin hefur unnið á liðnum áratugum. Hann kom einnig inn á það að honum hefur fundist hafa hallað allverulega undan fæti hvað baráttuanda innan hreyfingarinnar varðar á liðnum árum. Fjallaði hann um svokallaða samræmda launastefnu, lífeyrismál, ofurlaunastefnu og komandi kjarasamninga svo eitthvað sé nefnt.  

Þetta var afar skemmtileg stund að mati formanns enda fékk hann margar spurningar tengdar hinum ýmsu málefnum hreyfingarinnar enda. Þetta er jafnframt ágætt tækifæri til að koma upplýsingum á framfæri um starfsemi íslenskrar verkalýðshreyfingar. Hún er mikilvæg og verður mikilvæg en það er grundvallaratriði fyrir forystumenn í verkalýðshreyfingunni að hlusta vel á rödd alþýðunnar því það er alveg morgunljóst að hægt er að gera betur í hinum ýmsu baráttumálum er lúta að hagsmunum launafólks og nægir að nefna í því samhengi kjör þeirra sem hvað höllustum fæti standa í íslensku samfélagi.

24
Sep

Launagreiðendur athugið - tenging komin á við heimabanka

Athygli launagreiðenda er vakin á því að nú er búið að tengja launagreiðendavef VLFA við kröfuþjónustu í heimabanka, þannig að þegar skilagreinum er skilað rafrænt er nú hægt að velja um að fá kröfuna senda beint í bankann. Við þetta skapast óneitanlega hagræði, en til þessa hafa launagreiðendur sjálfir þurft að muna að millifæra iðgjöldin á eindaga.

Hvorki er hægt að fá kröfur senda í banka þegar skilagreinum er skilað á pappír, né í tölvupósti, heldur einungis þegar aðgangur á launagreiðendavef er notaður til að koma skilagreininni til skila, hvort heldur sem er beint úr launakerfinu eða á launagreiðendavefnum. Launagreiðendur eru því hvattir til að sækja um aðgang að vefnum og nota hann, slíkt veitir góða yfirsýn yfir iðgjaldaskil og skuldastöðu.

Hægt er að sækja um aðgang hér, og fá lykilorð sent um hæl í heimabanka. Inni á launagreiðendavefnum, undir liðnum "stillingar" er hægt að breyta notendaupplýsingum og haka við þar til gerðan reit, sé óskað eftir því að kröfur myndist í heimabanka.

12
Sep

Enn ráðist á íslenskt verkafólk

Þegar betur er rýnt í fjárlagafrumvarpið kemur í ljós að enn og aftur er ráðist á þá sem síst skyldi, semsagt íslenskt verkafólk. Í frumvarpinu kemur fram að hætta eigi greiðslum af hálfu hins opinbera til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða en skerða á þessar greiðslur um 20% á næsta ári og svo 20% næstu 5 árin þannig að árið 2019 muni greiðslur vegna jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða heyra sögunni til.

Ekki er víst að allir geri sér grein fyrir hvað þetta þýðir. Jú, þetta þýðir á mannamáli að lífeyrisréttindi, sérstaklega verkafólks, munu 100% verða skert enn frekar en orðið er. Jöfnun á örorkubyrði lífeyrissjóðanna var sett á einfaldlega vegna þess að örorkubyrðin leggst misjafnlega þungt á lífeyrissjóði og getur numið allt frá 6% upp í 43% af lífeyrisgreiðslum sjóðanna. Á þessu sést hversu misjafnlega örorkubyrðin leggst á lífeyrissjóðina.

Þær bláköldu staðreyndir liggja fyrir, að örorkubyrðin er lang lang mest hjá lífeyrissjóðum sem íslenskt verkafólk á aðild að. Í dag eru yfir 18.000 öryrkjar sem fá greiðslur frá lífeyrissjóðunum og sem dæmi þá eru greiðslur vegna örorku í lífeyrissjóði sem félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness tilheyra um 32% af heildargreiðslum út úr sjóðnum. Já takið eftir, 32%.

Því miður er það bláköld staðreynd að öryrkjum hefur fjölgað gríðarlega á undanförnum árum og nægir að nefna í því samhengi að árið 2006 voru öryrkjar 13.000 en eru í dag komnir yfir 18.000 og hefur því fjölgað um 38% á þessum árum. Þetta er grafalvarleg þróun því aukning á örorkubyrði sjóðanna þýðir ekkert annað heldur en skerðingu fyrir þá sem eru greiðendur inn í lífeyrissjóðina. Jöfnun örorkubyrði var sett á vegna þess hversu misþungt örorkulífeyrisgreiðslur falla á lífeyrissjóðina og þótti rétt á sínum tíma að jafna þennan aðstöðumun sem sjóðirnir búa við. En nú á semsagt að hverfa frá því og það mun klárlega bitna langharðast á ófaglærðu íslensku verkafólki þar sem örorkubyrðin er langmest.

Hvaða sanngirni er fólgin í því að íslenskt verkafólk þurfi sjálft að samtryggja sig í gegnum sína lífeyrissjóði eins og nú er gert? Í huga formanns VLFA er krafan skýr, örorkuþátturinn skal fara yfir til ríkisins enda hlýtur það að vera hlutverk samfélagsins alls að sjá um að tryggja sína þegna fyrir meðal annars örorku. Ekki er hægt að hafa þetta eins og er í dag þar sem örorkubyrðin er afar mismunandi eftir atvinnugreinum, menntun og öðru slíku sem leiðir klárlega til þess að skerða þarf réttindi hjá ófaglærðu fólki meira heldur en hjá öðrum vegna mikillar örorkubyrði. 

Það er óhætt að segja að árásum stjórnvalda á kjör verkafólks ætli seint að linna. Í fyrra var verkafólk með tekjur undir 250.000 kr. á mánuði skilið eftir þegar kom að skattalækkunum og nú stendur til að hækka matarskattinn sem klárlega mun bitna harðast á tekjulitlu verkafólki enda notar það hlutfallslega mest af sínum ráðstöfunartekjum til matarinnkaupa. Og svo bætast þessar árásir núna við þar sem jöfnun greiðsla vegna örorkubyrði lífeyrissjóðanna á að leggjast af í áföngum sem klárlega mun bitna hvað harðast á íslensku verkafólki. Nú er mál að linni.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image