• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
23
Oct

Hvalur hf. dæmdur í Landsrétti til að leiðrétta laun starfsmanna sem störfuðu á hvalvertíðum

Verkalýðsfélag Akraness hefur frá árinu 2015 staðið í baráttu fyrir kjörum starfsmanna á hvalvertíðum hjá Hval hf.

Fyrirtækið neitaði að greiða starfsmönnum sínum svokallaða „sérstaka greiðslu“ þótt skýrlega hefði verið kveðið á um greiðsluna í ráðningarsamningi.

Auk þess greiddi Hvalur hf. ekki neinar greiðslur fyrir þá lögbundnu vikulegu frídaga sem starfsmenn misstu vegna mikils og stöðugs vinnuálags.

Afleiðingin var sú að starfsmenn urðu af töluverðum fjárhæðum á hverri hvalvertíð.

Verkalýðsfélagið stóð að dómsmáli gegn Hval hf. vegna þessa og með dómi 14. júní 2018 komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að Hval hf. bæri að greiða starfsmönnum hina svokölluðu „sérstöku greiðslu“ og bætur vegna missis frídaga.

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu Hæstaréttar neitaði Hvalur hf. enn að greiða starfsmönnum og bar því við að kröfurnar væru fallnar niður fyrir tómlæti.

Verkalýðsfélag Akraness neyddist því til þess að höfða annað mál gegn Hval hf. til þess að fá fyrirtækið til þess að greiða starfsmönnum þau réttindi sem Hæstiréttur var þegar búinn að staðfesta að fyrirtækið hefði hlunnfarið þá um með ólögmætum hætti.

Héraðsdómur Vesturlands sýknaði Hval hf. af öllum kröfum starfsmanna en ágreiningnum var áfrýjað til Landsréttar.

Með dómi Landsréttar í dag var tekið undir kröfur starfsmanna að mestu leyti.

Hval hf. er gert að greiða öllum starfsmönnum „sérstaka greiðslu“ fyrir hverja einustu vakt sem unnin var á hvalvertíð 2015.  En var hins vegar sýknað að leiðrétta fyrir vertíðarnar 2013 og 2014

Þá ber í sumum tilvikum einnig að greiða „sérstaka greiðslu“ fyrir vaktir á hvalvertíð 2014.

Auk þess ber Hval hf. að rétta hlut starfsmanna sem ekki fengu lögboðinn vikulegan frídag á hvalvertíðum 2013, 2014 og 2015.

Hval hf. er að lokum gert að greiða starfsmönnum dráttarvexti af skuldum sínum við starfsmenn frá 21. júlí 2017 og málskostnað fyrir Landsrétti og nemur sá málskostnaður sem Hvalur þarf að greiða VLFA rétt tæpum 3,5 milljónum.

Það má áætla að þessi dómur muni skila þeim 100 starfsmönnum sem munu heyra undir dóminn rúmum 100 milljónum.

Þótt þetta sé  sigur að hafa tekist að snúa við sýknu dómi Héraðsdóms Vesturlands þá er það umhugsunar efni að atvinnurekendur skuli komast upp með launaþjófnað að hluta á grundvelli svokallaðs tómlætis!

Dómarnir eru birtir á vef Landsréttar þann 23. október 2020

22
Oct

Kjarasamningur Norðuráls samþykktur með tæpum 90%

Það er greinilegt að starfsmenn Norðuráls voru gríðarlega ánægðir með nýgerðan kjarasamning en rétt tæp 90% þeirra sem kusu sögðu já við kjarasamningnum. 

Það er einnig rétt að geta þess að kosningaþátttakan var frábær en af þeim sem voru á kjörskrá kusu 88,9%.

  • Já sögðu:                          356 starfsmenn eða 89,22%
  • Nei sögðu:                           32 starfsmenn eða   8,02%
  • Tóku ekki afstöðu sögðu:    11 starfsmenn eða    2,76%

Formaður Verkalýðsfélags Akraness er gríðarlega ánægður með þessa niðurstöðu og vil þakka öllum sínum félagsmönnum sem starfa hjá Norðuráli með þessa frábæru niðurstöðu og takk fyrir samstöðuna og stuðninginn í þessum erfiðu kjaraviðræðum.

19
Oct

67,7% hafa kosið um kjarasamning Norðuráls

Kosning um nýjan kjarasamning fyrir Norðurál gengur mjög vel en nú er kosið með rafrænum hætti og þegar þetta er skrifað þá hafa 67,7% þeirra sem eru á kjörskrá kosið. En hægt verður að kjósa fram til hádegis á fimmtudag.

Það er ekki annað að heyra á þeim sem formaður hefur talað við að nokkuð almenn ánægja ríkir um innihald kjarasamningsins og þær launabreytingar sem í honum eru.

Vissulega liggur fyrir að það eru skiptar skoðanir um þá ákvörðun Norðuráls skipta um vaktakerfi eða nánar tilgetið fara úr 12 tíma kerfi yfir í 8 tíma vaktakerfi eins og tíðakast í öðrum sambærilegum verksmiðjum.

Það ber að virða þessar ólíku skoðanir starfsmanna en þó er rétt að geta þess að það er ekki verið að kjósa um nýtt vaktakerfi, enda hefur fyrirtækið ákveðið að skipta úr 12 tíma kerfinu yfir í 8 tíma kerfi óháð kosningu um kjarasamninginn. Formaður hefur heyrt að það gætir einhvers misskilnings hjá sumum starfsmönnum hvað það atriði varðar.

19
Oct

157 félagsmenn VLFA á atvinnuleysisskrá

Í ágúst voru 157 félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness á atvinnuleysisskrá en á sama tíma í fyrra voru 65 félagsmenn á atvinnuleysisskrá. Á þessum tölum sést að atvinnuleysi hefur aukist umtalsvert á milli ára.

Vissulega spila áhrifin af Covid 19 töluvert inní þessar atvinnuleysistölur, þó ber að geta þess að þessi aukning á atvinnuleysistölum skýrist ekki öll vegna faraldursins enda nægir að nefna að fiskvinnslufyrirtækið Ísfiskur var takið til gjaldþrotaskipta. En uppundir 70 manns misstu lífsviðurværi sitt við það gjaldþrot.

17
Oct

Formaður fer yfir nýjan kjarasamning Norðuráls, myndband

Nú stendur yfir rafræn atkvæðagreiðsla að fullum þunga um nýjan kjarasamning fyrir starfsmenn Norðuráls og lýtur út fyrir að þátttaka verði mjög góð.

Hér er hægt að horfa á myndbandskynningu á kjarasamningum þar sem formaður félagsins fer ítarlega yfir þau verðmæti sem eru í kjarasamningum.

15
Oct

Kynning á kjarasamningi Norðuráls- rafræn kosning hefst á morgun.

Eins og fram kom hér á heimasíðu VLFA í gær er búið að skrifa undir kjarasamning við Norðurál. 

Hér er hægt að skoða glærukynningu um nýja samninginn. 

Kosning um samninginn verður rafræn,  dagana 16.-22. október 2020.  Starfsmenn Norðuráls þurfa að nota rafræn skilríki eða íslykil til þess að geta kosið.

Vefslóðin til þess að kjósa mun svo birtast hér á heimasíðunni í hádeginu 16. október 2020.

Við hvetjum alla þá sem starfa í Norðurál að kynna sér samninginn og hafa samband við okkur ef einhverjar spurningar vakna.

Síminn á skrifstofu VLFA er  430-9900.

-Það er mat formanns að þetta sé mjög góður kjarasamningur við fordæmalausar aðstæður í íslensku efnahagslífi en öll okkar helstu markmið í þessum kjarasamningi náðust í gegn og því skora ég á mína félagsmenn að kjósa og samþykkja þennan kjarasamning. - VB

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image