• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
08
Aug

Einar Oddur Kristjánsson telur stofnanasamninga og launasamninga ríkisins rót þess vanda að fjórðungur fjárlagaliða fór fram úr heimildum

Í Fréttablaðinu á laugardaginn birtist frétt þar sem farið var yfir þá staðreynd að fjórðungur fjárlagaliða hafi farið fram úr heimildum á síðasta ári.  Í þessari sömu frétt var viðtal við Einar Odd Kristjánsson og kom fram hjá honum að rót vandans liggi í þeim launasamningum sem ríkisvaldið hefur gert að undanförnu. Orðrétt sagði Einar Oddur: 

"Einar Oddur Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir rót vandans felast í launasamningum sem séu til þess fallnir að skapa rekstrarvanda sem sé ill leysanlegur. „Það verður að horfast í augu við það, að rekstrarvandi ríkisvaldsins er raunverulegur. Að mínu mati er rót vandans að finna í því hvernig ríki og sveitarfélög hafa staðið að launasamningum.

Ég varaði við því, þegar stofnanasamningarnir voru teknir til notkunar, að þeir gætu valdið vandræðum sem á endanum bitnuðu á almenningi. Ég hef þá skoðun að það verði að ganga frá öllum lausum endum samninga, áður en farið er að ræða um launalið samninganna. Frá 1997 hefur ríkið farið þá leið að nota stofnanasamninga, sem ekki hafa reynst vel. Ríki og sveitarfélög verða að standa saman að gerð kjarasamninga, og aðeins þannig er hægt að ná tökum á rekstrinum"

 

Ekki veit formaður Verkalýðsfélags Akraness hvað Einar Oddur Kristjánsson þingmaður sjálfsstæðisflokksins á nákvæmlega við þegar hann talar um að rót þess vanda að fjárlög ríkisins fari langt fram úr áætlun liggi fyrst og fremst  í þeim launasamningum og stofnanasamningum sem ríkisvaldið hefur gert.

Vissulega hafa launakjör ófaglærðs fólks hjá hinu opinbera verið lagfærð á síðasta ári, en betur má ef duga skal í þeim efnum.  Einar Oddur talar um að hann hafi varað við því að stofnanasamningar yrðu teknir til notkunar og þeir myndu ekki gera neitt annað en að skapa vandræði sem bitnuðu á almenningi.  Þetta eru afar forvitnileg ummæli hjá þingmanninum í ljósi þess að stofnanasamningar hafa gert það að verkum að laun ófaglærðra hafa fyrir vikið hækkað örlítið og greinilegt að þær hækkanir hafa farið fyrir brjóstið á þingmanninum. 

 Verkalýðsfélag Akraness gerði stofnanasamning við Sjúkrahús Akraness á árinu 2005.  Rétt er að upplýsa þingmanninn um að ófaglærðir starfsmenn á SHA sem starfa við ræstingar, mötuneyti og í þvottahúsi hafa í grunnlaun á 1. þrepi 117.623 kr. á mánuði.  Þeir geta hins vegar náð rúmum 156 þúsundum í launum fyrir fulla vinnu að teknu tilliti til alls þess sem stofnanasamningur getur gefið.  Það virðist fara ferlega fyrir brjóstið á þingmanninum þegar ófaglærðir fá örlitla lagfæringu á launakjörum sínum og telur jafnframt að þær lagfæringar séu rót þess vanda að fjárlagaliðir standast engan veginn.   Einar Oddur minnist ekki á að þingfarakaup hefur hækkað frá árinu 1998 um 114% eða úr 220.168 kr. í 471.427 kr.

03
Aug

Vika í Úthlíð laus vegna forfalla!!

Vegna forfalla er laus til umsóknar vika í sumarbústað sem félagið hefur á leigu í Úthlíð, Biskupstungum. Um er að ræða vikuna 11/8 til 18/8.

Félagið fékk leigðar nokkrar vikur í Úthlíð í sumar og það má segja að þessi staður hafi notið mikilla vinsælda hjá félagsmönnum því allar vikur þar voru uppbókaðar strax í maí.

Hægt er að bóka lausar vikur á skrifstofu félagsins, Sunnubraut 13 eða í síma 4309900. Fyrstur kemur, fyrstur fær.

Með því að smella hér er hægt að sjá myndir af bústaðnum í Úthlíð.

01
Aug

Töluvert um að atvinnurekendur hafi samband við skrifstofu félagsins til að fá upplýsingar um samkomulagið sem gert var við Samtök atvinnulífsins

Töluvert hefur verið um það að félagsmenn og ekki síður atvinnurekendur hafi haft samband við skrifstofu félagsins til að fá upplýsingar um samkomulagið sem verkalýðshreyfingin gerði við Samtök atvinnulífsins í síðasta mánuði.

Það er alveg ljóst að ekki eru allir atvinnurekendur með það á hreinu hvernig afgreiða eigi samkomulagið sem gert var við SA til starfsmanna sinna.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness skorar á félagsmenn sína sem og þá atvinnurekendur sem ekki eru vissir hvernig samkomulagið virkar að hafa samband við skrifstofu félagsins. 

27
Jul

Hægt er að nálgast öll fréttabréfin sem Verkalýðsfélag Akraness hefur gefið út hér á heimasíðunni !

Þegar ný stjórn tók við Verkalýðsfélagi Akraness 19. nóvember 2003 var ákveðið af stjórn félagsins að gefa út tvö fréttabréf á ári sem dreift yrði í öll hús og fyrirtæki á Akranesi.  Ekki hafði áður verið gefið út fréttabréf með þessum hætti hjá Verkalýðsfélagi Akraness.

Eins og áður sagði þá eru tvö fréttabréf gefin út á ári. Kemur annað þeirra út rétt fyrir baráttudag verkafólks 1. maí og síðara fréttabréfið kemur út rétt fyrir jól.

Útgáfa á fréttablaðinu er liður í því að kynna starfssemi félagsins fyrir félagsmönnum og helstu málefnum sem eru á dagskrá hjá félaginu á þeim tíma sem blöðin koma út. 

Hægt er að skoða öll fréttablöðin sem gefin hafa verið út með því að smella á fréttablöð hér til vinstri.

25
Jul

Kynningafundur fyrir 16 ára unglinga um réttindi og skyldur á hinum almenna vinnumarkaði var haldinn í dag

Verkalýðsfélag Akraness hélt kynningarfund í samráði við vinnuskólann fyrir 16 ára unglinga um réttindi og skyldur á vinnumarkaðinum.

Formaður félagsins fór yfir hin ýmsu réttindi sem eru í kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði. 

Þá gerði formaðurinn unglingunum grein fyrir þeim skyldum sem launþeginn hefur gagnvart sínum atvinnurekanda.   

Einnig fór formaðurinn yfir starfsemi Verkalýðsfélags Akraness og hvað félagsmönnum stæði til  boða ef þeir væru  fullgildir félagsmenn. 

Stjórn Verkalýðsfélag Akraness er ekki í nokkrum vafa um mikilvægi þess að kynna fyrir unglingum réttindi og skyldur á íslenskum vinnumarkaði. 

Þegar kynningunni var lokið bauð félagið uppá grillaðar pylsur og gos með.  Hægt er að skoða myndir frá kynningunni með því að smella á myndir og síðan á kynning fyrir 16 ára unglinga.   

24
Jul

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness skorar á félagsmenn sína að fylgjast vel með því hvort launahækkanir sem tóku gildi 1.júlí skili sér ekki alveg örugglega um næstu mánaðarmót !

Eins og flestir vita þá bætist 15.000 króna taxtaviðauki við alla mánaðarlaunataxta frá 1. júlí sl.  Af gefnu tilefni skorar Verklýðsfélag Akraness á félagsmenn sína og sér í lagi fiskvinnslufólk að fylgjast vel með því um næstu mánaðarmót hvort taxtaviðaukinn uppá  15.000 kr. komi ekki alveg örugglega fram á launaseðlinum.

Í þeim tilvikum þar sem laun einstaklinga eru samsett af launataxta kjarasamnings og ráðningarsamningsbundnum viðbótargreiðslum (yfirborganir) skulu viðbótargreiðslunnar lækka um allt að því jafn há fjárhæð og taxtaviðaukanum nemur. 

Hins vegar má alls ekki lækka umsamdar viðbótargreiðslur skv. kjarasamningum, t.d. afkasta- eða frammistöðutengda bónusgreiðslur. 

Eitt fiskvinnslufyrirtæki hér í bæ telur sig geta lækkað bónusgreiðslur til starfsmanna sinna um allt að jafn háa upphæð og taxtaviðaukanum nemur á þeirri forsendu að um yfirborgun sé um að ræða.  Í umræddu fyrirtæki var gerður skriflegur samningur um sérstakan bónus handa starfsmönnum sem klárlega er tengdur frammistöðu starfsmanna.  Það er því mat formanns félagsins að fyrirtækið hafi alls enga heimild til að lækka bónusgreiðslur til starfsmanna til jafns á við hækkun á taxtaviðaukanum.  Formaður félagsins hefur unnið að lausn á þessari deilu við fyrirtækið á undanförnum dögum og er þokkalega bjartsýnn á að það takist.  Takist það hins vegar ekki þá mun Verkalýðsfélag Akraness vísa málinu til Félagsdóms því hér er um gríðarlegt hagsmunamál að ræða fyrir umrædda starfsmenn. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image