• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
25
Oct

Þjóðarhagsmunir í húfi að Íslendingar ráði sjálfir yfir sínum auðlindum!

Formaður Verkalýðsfélags Akraness fagnar þeirri ákvörðun íslenskra stjórnvalda að heimila hvalveiðar í atvinnuskyni að nýju eftir 17 ára hlé.

Vísindamenn Hafrannsóknastofnunar hafa árlega mörg undanfarin ár lagt til veiðar á langreyði og hrefnu og gert tillögu um veiðikvóta fyrir þessi dýr.  Það er mat formanns félagsins að við Íslendingar getum á engan hátt sætt okkur við það að utanaðkomandi aðilar stjórni því hvernig við nýtum okkar eigin auðlindir.  Er þetta mat formannsins byggt á grundvelli þeirra staðreynda að vísindamenn Hafrannsóknarstofnunar telja stofnstærð bæði hrefnu sem og langreyðar þoli umtalsverðar veiðar.

Hin ýmsu náttúruverndarsamtök hafa náð að telja almenningi í trú um að hvalir séu í verulegri útrýmingarhættu en það er þvert á það sem vísindamenn Hafrannsóknastofnunar hafa sagt.  Við Íslendingar getum ekki á nokkurn hátt látið kúga okkur til þess að nýta ekki þær auðlindir sem við eigum á forsendum sem eru klárlega rangar og ekki byggðar á nokkrum vísindalegum rökum.

Formaður félagsins spyr sig líka hvað ef náttúrusinnar myndu fara að halda því ranglega fram að aðrir nytjastofnar okkar Íslendinga væru í útrýmingarhættu t.d þoskurinn, ýsan, síldin og jafnvel loðnan. Ættum við Íslendingar að láta undan náttúruverndarsinnum og hætta veiðum á ofangreindum fiskistofnum.  Nei, það er mat formanns félagsins að hér sé um þjóðarhagsmuni okkar Íslendinga að ræða. Það verður að vera ákvörðun okkar hvernig við nýtum okkar auðlindir en að sjálfsögðu á sú ákvörðun að vera byggð á vísindalegum rökum.

Það er afar mikilvægt að ríkisstjórn Íslands fari í þá vinnu af fullum krafti að upplýsa umheiminn um að hér eru ekki hafnar veiðar á dýrum sem eru í útrýmingarhættu, heldur veiðar sem byggðar eru á faglegu mati færustu vísindamanna á þessu sviði.  

20
Oct

Trúnaðarmannanámkeiðinu lýkur í dag

Trúnaðarmannanámskeiðið sem Verkalýðsfélag Akraness hefur staðið fyrir lýkur í dag.  Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hófst námskeið á mánudaginn var og er liður í gera trúnaðarmenn vel hæfa til að gegna sínu starfi.

Í gær kom lögfræðingur ASÍ, Ingvar Sverrisson, og var með erindi um vinnurétt og fór yfir nýlega dóma sem tengjast vinnurétti.  Formaður félagsins var með erindi á miðvikudaginn um þá kjarasamninga sem tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness og þá þjónustu sem er í boði hjá félaginu.

Það er alveg óhætt að segja að sá hópur sem sækir þetta námskeið sé afar áhugasamur og vonandi mun námskeið þetta nýtast þeim að takast á við þau verkefni sem fylgir því að vera trúnaðarmaður.

16
Oct

Trúnaðarmannanámskeið hófst í morgun

Í morgun hófst trúnaðarmannanámskeið á vegum Verkalýðsfélags Akraness.  Námskeiðið mun standa framá föstudag.

Fyrir hádegi var fjallað um samskipti og einelti  á vinnustöðum, var það í umsjón Aðalheiðar Sigurjónsdóttur.  Eftir hádegi fer Haukur Harðarson yfir starf og stöðu trúnaðarmanna.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness leggur mikla áherslu á að trúnaðarmenn félagsins séu vel í stakk búnir til að takast á við þau verkefni sem geta lent inná borði trúnaðarmanna.  Námskeið þetta er einn liður í þeirri vinnu.

13
Oct

Formaður Verkalýðsfélags Akraness fagnar ákvörðun Elkem um að hefja framleiðslu magnesíumkísilmálms á Grundartanga

Stjórn Elkem í Noregi ákvað á fundi sínum rétt í þessu að flytja starfsemi einnar verksmiðju fyrirtækisins í Noregi til Íslenska járnblendifélagsins á Grundartanga sem einnig er í eigu Elkem.

Ingimundur Birnir forstjóri Íslenska járnblendifélagsins segir að við þessa breytingu skapist um fjörtíu ný störf á Grundartanga og nauðsynlegt verði að fjárfesta fyrir um þrjá milljarða og áætlað er að velta fyrirtækisins aukist um 3,5 milljarða króna án þess að orkuþörf verksmiðjunnar aukist.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness fagnar þessari ákvörðun Elkem vegna þess að vinnsla á FSM mun tryggja Íslenska járnblendifélaginu mun stöðugri rekstrur heldur verið hefur að mati þeirra sem til þekkja.  En rekstur ÍJ hefur ætíð verið nokkuð sveiflukennur.  Einnig er það afar ánægjulegt að við þessa stækkun mun störfum fjölga um allt að 40 manns.

11
Oct

Störfum í fiskvinnslu hefur fækkað um 500 á milli ára

Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands var haldinn á Ísafirði föstudaginn 6. september. Þar kom meðal annars fram að fiskvinnslufólki á Íslandi hefur fækkað um 500 á milli ára.

Helsta skýringin á þessari fækkun er væntanlega lokun loðnuverksmiðja og einnig rækjuverksmiðja víða um land á síðustu misserum.  Félagsmönnum innan Verkalýðsfélags Akraness sem starfa í fiskvinnslu hefur verið að fækka töluvert á liðnum misserum.  Nægir þar að nefna að einungis einn starfsmaður er eftir í Síldar- og fiskimjölsverksmiðju HB-Granda, en þar störfuðu 25 manns þegar mest var. 

 Það er alveg óhætt að segja að formanni félagsins hafi verið verulega brugðið þegar hann heyrði þessar tölur en þess má geta að fiskvinnslufólk á Íslandi er á bilinu 5-6 þúsund.

Haldi þessi þróun áfram eru ekki mörg ár í það að fiskvinnsla leggist af á Íslandi.  Formaður Verkalýðsfélags Akraness telur þetta mikið áhyggjuefni og vonast til þess að menn efli fiskvinnsluna í landinu til að sporna við þessari þróun.

11
Oct

Stjórn og trúnaðarráð félagsins kom saman til fundar á mánudaginn

Stjórn og trúnaðarráð kom saman til fundar á mánudaginn var.  Á fundinum voru nokkur mál til umfjöllunar. T.d gerði formaður félagsins grein fyrir þeim málum sem rædd voru á formannafundi Starfsgreinasambandsins sem haldinn var á Ísafirði í síðustu viku.  Málefni erlends vinnuafls var einnig til umræðu á fundinum. 

Það kom skýrt fram hjá þeim sem eiga sæti í trúnaðarráði félagsins að þeir hafa verulegar áhyggur af þeirri gríðarlegu fjölgun sem hefur orðið hefur á erlendu vinnuafli á íslenskum vinnumarkaði á undanförnum mánuðum.  

Verkalýðsfélag Akraness hefur ítrekað bent á að félagsleg undirboð og svört atvinnustarfsemi hefur stóraukist eftir að takmörkunum á frjálsu flæði launafólks frá hinum nýju aðildarríkum EES var aflétt 1.maí sl.

Á fundinum voru einnig valdir þeir fulltrúar sem munu eiga sæti á ársfundi ASÍ sem haldinn verður 26. og 27. október nk.  Þeir aðilar sem sitja fyrir hönd Verkalýðsfélags Akraness eru:  Vilhjálmur Birgisson, Þórarinn Helgason, Björgólfur Einarsson og Tómas Rúnar Andrésson.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image