• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
18
Nov

Forstjóri HB Granda í heimsókn á skrifstofu félagsins

Eggert B. Guðmundsson, forstjóri HB GrandaEggert B. Guðmundsson, forstjóri HB GrandaÁ mánudaginn var kom Eggert B. Guðmundsson, forstjóri HB Granda á skrifstofu félagsins og fundaði með formanni félagsins. Eggert fór vítt og breitt yfir starfsemi fyrirtækisins og kom fram í máli hans að fyrirtækinu gengur nokkuðvel þessi misserin hjálpar það til að gengisfall krónunnar hefur verið sjávarútvegsfyrirtækjum í hag.

Vinna í frystihúsi HB Granda hér á Akranesi hefur á þessu ári aukist umtalsvert og ber að fagna því innilega. Sem dæmi þá var engin sumarlokun í sumar, sem nýttist skólakrökkum mjög vel. Hefur vinnutíminn einnig lengst umtalsvert, sem gefur starfsfólki möguleika á auknum tekjum á þessum erfiðu tímum.

Einnig kom fram hjá Eggerti að HB Grandi hafi fengið úthlutað 5.000 tonnum af síldarkvóta og reiknaði forstjórinn með að þeim afla yrði landað hér á Akranesi til bræðslu.

Þetta var ánægjulegur fundur, en eins og flestir muna þá gustaði vel á milli félagsins og fyrirtækisins fyrr á árinu vegna arðgreiðslna fyrirtækisins. Það mál leystist farsællega og var HB Grandi t.a.m. fyrsta fyrirtækið sem tók ákvörðun um að standa við allar þær launahækkanir sem taka áttu gildi 1. mars sl. Sú ákvörðun hefur skilað fiskvinnslufólki HB Granda yfir 100.000 krónum í auknum tekjum, en því miður varð stór hluti verkafólks af þessari hækkun sökum linkindar samninganefndar ASÍ.

16
Nov

Myndskeið frá ársfundi ASÍ aðgengileg á heimasíðu Verkalýðsfélags Akraness

Skrifstofu félagsins hafa nú borist upptökur af ræðum formanns á ársfundi ASÍ sem haldinn var dagana 22. og 23. október sl. Ákveðið hefur verið að birta ræðurnar hér á síðunni og verður myndskeiðum hlaðið inn í dag og á morgun.

Hægt er að skoða ræður formanns hér.

16
Nov

Verkalýðsfélag Akraness býður upp á fjármálanámskeið

Ingólfur H. IngólfssonIngólfur H. IngólfssonVerkalýðsfélag Akraness og Sparnaður ehf. bjóða nærsveitungum upp á námskeið með Ingólfi H. Ingólfssyni. Þar mun hann kynna ákveðna hugmyndafræði í fjármálum sem hann hefur verið að boða á undanförnum árum.

Námskeiðið verður haldið þriðjudaginn 17. nóvember 2009 frá kl. 20:00 til 21:00 í sal Gamla Kaupfélagsins að Kirkjubraut 11.

Á námskeiðinu er sýnt hvernig hægt er að nota þá peninga sem maður á til að greiða hratt niður skuldir, að byggja upp öruggan sparnað og að hafa gaman af því að nota peningana.

Eftir námskeiðið verður svo hægt að panta einkatíma hjá ráðgjöfum Sparnaðar. Í einkaráðgjöfinni er markmiðið að fólk fái yfirsýn yfir fjármálin, bæði skuldir og eignir. Fólki er síðan aðstoðað við að ná markmiðum sínum hvort sem það tengist skuldunum eða sparnaðinum. Bent er á leiðir til að forgangsraða skuldum og minnka þær eins hratt og mögulegt er án þess að auka greiðslubyrðina.

13
Nov

Ræður formanns félagsins á ársfundi ASÍ verða birtar í máli og myndum á heimasíðu félagsins

Nú nýverið lauk afar athyglisverðum ársfundi ASÍ þar sem ýmis mál voru til umræðu, til dæmis tillaga stjórnar og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags Akraness um stóraukið lýðræði við stjórnarval í lífeyrissjóði.

Hart var tekist á um það sem fram kom í ræðum formanns Verkalýðsfélags Akraness, bæði um tillöguna um lífeyrissjóðina sem og um ræðu sem formaður flutti um gagnrýni á endurskoðun kjarasamninga frá því í febrúar og júní.

Nú hefur Verkalýðsfélag Akraness óskað eftir því að fá afrit af þeim ræðum sem formaður hélt á ársfundinum og er von á þeim á allra næstu dögum. Um leið og þær hafa borist skrifstofu félagsins munu þær verða birtar í heild sinni hér á heimasíðunni. Eru félagsmenn hvattir til þess að horfa og hlusta á það sem formaður félagsins hafði fram að færa á ársfundi ASÍ og féll í svo grýttan jarðveg hjá hinum ýmsu forystumönnum innan ASÍ.

13
Nov

Kjaraviðræður við forsvarsmenn Norðuráls komnar á fulla ferð

Í morgun fundaði formaður með tveimur vöktum í Norðuráli vegna komandi kjarasamninga. Tilgangur fundanna er að kalla eftir hvaða áherslur starfsmenn vilja leggja hvað mest á í komandi viðræðum og er óhætt að segja að fjölmargar tillögur voru bornar upp og verða hafðar til hliðsjónar í þeim viðræðum sem nú standa yfir.

Þegar fundum með starfsmönnum Norðuráls var lokið hófst samningafundur við forsvarsmenn Norðuráls í húsakynnum ríkissáttasemjara. Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá er fyrst og fremst verið að vinna að breytingum á texta í kjarasamningum og miðar þeirri vinnu frekar hægt áfram. Á fundinum í dag var tekin ákvörðun um að funda nokkuð stíft í næstu viku til að reyna að ljúka þeirri vinnu sem fyrst.

Þegar þeirri vinnu lýkur verður hafist handa við það sem skiptir starfsmenn hvað mestu máli en það eru launaliðirnir. Það er allt í lagi að ítreka það enn og aftur að skoðun formanns Verkalýðsfélags Akraness að það sé grundvallaratriði í þessum samningum að jafna kjör starfsmanna Norðuráls við starfsmenn annarra verksmiðja í sambærilegum iðnaði.

12
Nov

Ríkissáttasemjari í heimsókn á skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness

Magnús Pétursson, ríkissáttasemjari og Elísabet S. Ólafsdóttir, skrifstofustjóri ríkissáttasemjara, komu í heimsókn á skrifstofu félagsins í gær. Það var afar ánægjulegt að fá þau í heimsókn og fór formaður félagsins yfir starfsemi Verkalýðsfélags Akraness, sögu þess og þau verkefni sem félagið er að kljást við þessa dagana.

Þessi nýbreytni ríkissáttasemjara að heimsækja stéttarfélögin er til mikillar fyrirmyndar og gerir ekkert annað en að efla tengslin við starfsmenn sáttasemjara enda geta forystumenn í stéttarfélögum oft á tíðum eytt löngum tíma í húsakynnum ríkissáttasemjara við úrlausn kjarasamninga.

Ríkissáttasemjari fór yfir þau verkefni sem hann er að vinna að og sýndi formanni m.a nýja heimasíðu ríkissáttasemjara sem tekin var í notkun fyrir stuttu, ljóst er að nýja heimasíðan er afar gagnleg og fróðleg.

Formaður skorar á fólk að skoða síðu ríkissáttasemjara en þar eru ýmsar upplýsingar, til að mynda hvert hlutverk ríkissáttasemjara er. Hægt er að sjá síðuna með því að smella hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image