• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
VLFA

VLFA

Big fan of open source and Joomla

Website URL: http://joomlabuff.com
Wednesday, 21 February 2007 00:00

Endurmat á starfsmati í fullum gangi

Í gær var haldin kynningarfundur um endurmat á starfsmati með starfsmönnum Akraneskaupstaðar. Þessi fundur var liður í að kynna endurmat á starfsmati sveitarfélaga sem var gert 2004 og er nú í endurskoðun.

Nú eru um 7.000 einstaklingar um land allt að skoða þessi mál, fara yfir störf sín og meta hvort því finnist starfsmatið sem gert var 2004 í lagi. Þann 15. mars nk. rennur út frestur til að skila inn beiðnum til viðkomandi endurmatsteymis vilji viðkomandi aðilar láta meta starf sitt upp á nýtt.

Formaður Verkalýðfélags Akraness hvetur starfsmenn bæjarins til að kynna sér vel hvernig endurmatið fer fram.  Því nú er tækifæri fyrir þá starfsmenn sem telja sig hafa fengið rangt starfsmat 2002 að fá það leiðrétt. 

Á fundinum í gær sagði formaður félagsins að stéttarfélögunum beri skylda til að aðstoða starfsmenn við endurmatið.  Einvörðungu vegna þess að fyrir venjulegan starfsmenn er endurmatið þó nokkuð flókið.  Einnig kom fram hjá formanni félagsins á fundinum í gær að þó svo að stór hluti starfsmanna sé í Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar þá býðst Verkalýðsfélag Akraness til að aðstoða starfsmenn eins og kostur er.

Þó nokkur hópur starfsmanna bæjarins hefur komið að máli við formann félagsins að undanförnu og óskað eftir að fá að ganga í Verkalýðsfélag Akraness.  Er formaður að skoða hvernig best er hægt að verða við óskum starfsmannanna.  En eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá eru einstakir aðilar innan bæjarkerfisins að reyna að koma í veg fyrir að starfsmenn bæjarins geti gerst fullgildir félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness.  Málið er nú til skoðunar hjá lögmanni félagsins.

Hér er að finna allar upplýsingar um endurmat á starfsmati

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness mun fara í heimsókn til Norðuráls á morgun.  Tilgangur heimsóknarinnar er að skoða verksmiðjuna nú þegar stækkun á verksmiðjunni er á lokastigi.  

Þessi heimsókn stjórnar félagsins er einn liður í því að vera í nánu sambandi við sína félagsmenn og kynna fyrir starfsmönnum hvaða þjónustu félagið býður sínum félagsmönnum upp á.  Hjá Norðuráli starfa nú um 420 manns og hefur fjölgað gríðarlega að undanförnu.  Af þessum 420 starfsmönnum eru 300 félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness eða sem nemur rúmum 71% af öllum starfsmönnum Norðuráls.

Langflestir félagsmenn VLFA starfa hjá Norðuráli en lengi vel trónaði HB-Grandi á þeim toppi en starfsmönnum hefur fækkað hjá HB Granda töluvert vegna samdráttar á liðnum misserum.

Það er alveg ljóst að Norðurál hefur haft gríðarlega jákvæð áhrif á samfélagið hér á Akranesi hvað varðar atvinnuöryggi.  Hins vegar er eitt sem Verkalýðfélag Akraness er ekki sátt við sem tengist Norðuráli og það er að laun í sambærilegum verksmiðjum hér á landi er hærri heldur en hjá Norðuráli.  Þetta er atriði sem félagið á afar erfitt með að sætta sig við.   Vissulega náðist að minka þennan mun á milli verksmiðja í síðustu samningum en alls ekki að fullu.  Það verður að vera skýlaus krafa á næstu misserum að laun starfsmanna Norðuráls verði með sama hætti og sambærilegar verksmiðjur greiða sínum starfsmönnum.

Friday, 23 February 2007 00:00

Efnalaugin Lísa tekin til gjaldþrotaskipta

Í gær var Efnalaugin Lísa tekin til gjaldþrotaskipta og í morgun átti formaður félagsins fund með skiptastjóra, Jóni Hauki Haukssyni. Aðalmálið hjá VLFA er að tryggja að réttindi þeirra starfsmanna sem starfa hjá umræddu fyrirtæki verði tryggð. Samkvæmt þeim upplýsingum sem formaður hefur er ekki mikið um vangreidd laun. Formaður fór einnig á vinnustaðinn og fundaði með starfsmönnum, en hjá fyrirtækinu starfa 4 félagsmenn. Gerði formaður þeim grein fyrir því að VLFA myndi gæta þeirra hagsmuna í hvívetna. Ljóst var að starfsmenn voru verulega uggandi um framtíð sína.

 

Verkalýðsfélag Akraness telur nokkuð mikilvægt að reynt verði að finna lausn á rekstri þessa fyrirtækis þannig að við missum ekki störfin í burtu úr sveitarfélaginu. Þetta mun skýrast fljótlega.

Stjórn félagsins heimsótti Norðurál í dag og er óhætt að segja að forsvarsmenn Norðuráls hafi tekið vel á móti stjórn félagsins.  Það voru þau Óskar Jónsson framkvæmdastjóri tæknisviðs, Trausti Gylfason öryggisfulltrúi og Rakel Heiðmarsdóttir starfsmannastjóri sem tóku á móti stjórn félagsins.

Óskar Jónsson byrjaði að því að fara yfir hina ýmsu þætti sem tengjast framleiðslunni og ekki síst þá sem lúta að mengunarþáttum verksmiðjunnar.  Fram kom hjá Óskari að mengunarstuðlar eru vel innan þeirra marka sem starfsleyfi verksmiðjunnar byggir á. 

Rakel starfsmannastjóri gerði stuttlega grein fyrir því er lýtur að starfsmannamálum fyrirtækisins og þeirri miklu fjölgun sem orðið hefur á starfsmönnum frá því hún hóf störf,  fyrir rúmu ári voru rúmlega 200 starfsmenn en í dag eru þeir komnir yfir 400.

Formaður félagsins sagði að Norðurál hefði gríðarlega jákvæða þýðingu fyrir Verkalýðsfélag Akraness og allt samfélagið á Akranesi og nærsveitir.  Hins vegar sagði formaðurinn einnig að það væri hlutverk félagsins að gæta að velferð og hagsmunum okkar félagsmanna og væri hvergi hvikað í þeirri baráttu.  Formaður félagsins sagði einnig í þessari heimsókn að hann ætti afar erfitt með að sætta sig við þann launamun sem er á milli sambærilegra verksmiðja og það væri eitthvað sem yrði að laga og það sem allra fyrst. 

Að lokum fóru Óskar Jónsson framkvæmdastjóri tæknisviðs og Trausti Gylfason með stjórn félagsins í skoðunarferð um verksmiðjuna og voru stjórnarmenn VLFA mun fróðari um álrekstur eftir þessa skoðunarferð.

Eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni þá sameinuðust Starfsmannafélag Akraneskaupstaðar (STAK) og Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar um áramótin. Mikil krafa hefur verið frá einstaka aðilum í bæjarstjórn og fyrrverandi stjórn STAK um að launakjör starfsmanna bæjarins skuli strax taka eftir kjarasamningi Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar.

  Formaður félagsins hefur ítrekað bent á að ef kjarasamningur Reykjavíkurborgar myndi gilda strax þá hefði það í för með sér lækkun á nokkrum störfum og nægir þar að nefna ræstingu og störf í þvottahúsi og myndu þessi störf lækka sem nemur rétt um 10.000 kr. á mánuði. Störf í býtibúri myndu lækka um 8.000 kr.  og verkamenn í bæjarvinnu myndu lækka um rúmar 5.000 kr. Einnig hefur formaður félagsins bent á að störf hjá stjórnendum, millistjórnendum og forstöðumönnum myndu hækka um tugi þúsunda á mánuði.

 Einstaka aðilar í minnihluta bæjarstjórnar hafa haldið því fram að samanburður sem formaður VLFA hefur gert sé ekki á rökum reistur, og því hefur verið haldið fram án þess að skýra það nánar.

Núna hefur hins vegar meirihluti bæjarstjórnar sent frá sér eftirfarandi bókun og er sú bókun í algjöru samræmi við það sem formaður félagsins hefur ætíð haldið fram, það er að lægstu störfin standa í stað eða lækka á meðan tekjuhæstu störfin hækka um tugi þúsunda. Hluti áðurnefndrar bókunar hljóðar svo:

Nú liggja hins vegar fyrir upplýsingar sem sýna áhrif sameiningar þessara tveggja stéttarfélaga á laun starfsmanna Akraneskaupstaðar verði sú að hæst launuðu starfsmenn kaupstaðarins hækka um rúmlega þrjátíu þúsund meðan lægst launuðu starfsmenn kaupstaðarins standa í stað eða jafnvel lækka í launum. Núverandi meirihluti er ekki tilbúinn að stuðla að auknum launamun."

  Það er gríðarlegur ábyrgðarhluti hjá þeim sem krefjast þess að laun taki strax eftir kjarasamningi Reykjavíkurborgar þegar þessar bláköldu staðreyndir liggja fyrir. Það getur ekki verið vilji minnihluta bæjarstjórnar að störf sem hafa hvað lægstu tekjurnar lækki enn frekar á meðan tekjuhæstu störfin fá umtalsverða hækkun. Eitt er víst að þetta samræmist ekki jafnaðarstefnu í launamálum. 

 Hægt er að skoða bókun bæjarráðs hér

Matvælasvið Starfsgreinasambands Íslands hefur ákveðið að hefja undirbúning að mótun kröfugerðar vegna komandi kjaraviðræðna við Samtök atvinnulífsins. Boðað hefur verið til ráðstefnu á fimmtudag og föstudag í þessari viku á Hótel KEA á Akureyri um málefni fiskvinnslufólks. Ráðstefnan hefst kl. 13:00 á fimmtudag og lýkur um hádegið á föstudeginum.  Núverandi kjarasamningar eru lausir um næstu áramót.

Formaður félagsins hefur ávallt sagt að það verði að vera alger forgangskrafa í næstu kjarasamningum að hækka launataxta Starfsgreinasambandsins upp að þeim markaðslaunum sem verið er að greiða á íslenskum vinnumarkaði.  Einvörðungu vegna þess að atvinnurekendur eru í auknum mæli farnir að sækjast eftir ódýru vinnuafli frá Austur -Evrópu.  Það er alvitað að stór hluti þeirra erlendu starfsmanna sem hingað koma til starfa eru settir á berstrípuð lágmarkslaun sem gerir ekkert annað en að gjaldfella það markaðslaunakerfi sem nú er við lýði.   

Samkvæmt könnun sem SGS lét gera í september í fyrra kom fram að meðaldagvinnulaun voru hjá konum 164 þús. og hjá körlum 174 þúsund á mánuði.  Hins vegar eru lágmarkslaun fyrir fulla dagvinnu einungis 125 þúsund sem vart dugar til lágmarksframfærlsu.  Þetta þýðir að lágmarkstaxtar SGS þurfa að hækka um allt að 40% til að komast upp að markaðslaununum.  Það er vitað að Samiðn fór þessa leið í síðustu samningum það er að segja að taxtar iðnaðarmanna voru færðir nær markaðlaunum. 

Núna verður það að vera eins og áður sagði forgangskrafa að hækka lágmarkstaxtana upp að markaðslaunum og til að það takist þarf að nást breið samstaða innan Starfsgreinsambandsins og trúir formaður VLFA ekki öðru en að sú samstaða náist, annað væri í ótrúlegt.

Formaður félagsins hefur sent öllum formönnum stjórnmálaflokkanna bréf þar sem er óskað er eftir því að formennirnir beiti sér innan síns þingflokks fyrir því að þeir forvarnarstyrkir sem stéttarfélögin veita sínum félagsmönnum verði undanþegnir skatti.

Hér er afar brýnt mál á ferðinni þar sem forvarnarstyrkir stéttarfélaganna geta skipt gríðarlega miklu máli fyrir félagsmenn okkar.  Það er vitað að forvarnarstyrkir stéttarfélaganna hafa hjálpað okkar félagsmönnum til að sækja þá þjónustu sem boðið er upp á í heilbrigðiskerfinu varðandi forvarnir t.d krabbameinsskoðanir og áhættumat varðandi hjarta- og æðasjúkdóma.   

Það er einnig vitað að forvarnarstyrkir stéttarfélaganna hafa sparað ríkinu umtalsverðar upphæðir þar sem náðst hefur að greina alvarlega sjúkdóma á byrjunarstigi s.s krabbamein og hjarta- og kransæðarsjúkdóma.

Það er mat formanns félagsins að það sé með öllu óeðlilegt að forvarnarstyrkir stéttarfélaganna skulu vera skattskyldir eins og raunin er.  Sérstaklega í ljósi þess að forvarnarstyrkir stéttarfélaganna gerir þeim sem eru með lægstu tekjurnar auðveldar með að sækja þá þjónustu er lýtur að forvörnum.  

Einnig má ekki gleyma því að forvarnarstyrkir stéttarfélaganna stuðla að bættri heilsu okkar félagsmanna, öllu samfélaginu til heilla. 

Á föstudaginn var úskrifuðust 6 starfsmenn HB Granda sem sérhæfðir fiskvinnslumenn en námskeið stóð yfir síðustu vikuna í desember.  Námskeiðið veitir 3% launahækkun fyrir þá sem útskrifast sem sérhæfðir fiskvinnslumenn.

Formaður félagsins var einn af leiðbeinendum námskeiðsins.  Sá hann um að fara yfir réttindi og skyldur á vinnumarkaðnum og einnig kynnti hann fyrir þeim sem sátu námskeiðið hvaða þjónustu félagið er að veita sínum félagsmönnum.

Í dag undirritaði Verkalýðsfélag Akraness sérkjarasamning við Samtök atvinnulífsins um kaup og kjör í fiskimjölsverksmiðju HB Granda hf. á Akranesi og gildir samningurinn til 31. desember 2007.

Í þessum samningi er verið að færa ýmsa þætti úr eldri sérkjarasamningi t.d óþrifaálag og hluta af vaktarálagi inní dagvinnulaunin og við það tryggir það starfsmönnum mun betri kjör þegar ekki eru vaktir í verksmiðjunni.

Forsvarsmenn HB Granda hafa í hyggju að bræða allavega tímabundið beinaúrgang hér á Akranesi en sú starfsemi hefur farið fram í Reykjavík undafarin ár .  Verkalýðsfélag Akraness fagnar þessum áformum forsvarsmanna HB Granda því við þessa tilfærslu mun einhver ný störf skapast.  Síðan er spurnig með komandi loðnuvertíð ef vertíðin verður sæmileg þá mun hún geta skapað allt að 12 ný störf í verksmiðjunni.  En að sjálfsögðu veltur það á komandi loðnuvetíð hvort sú von rætist eða ekki.  Þessa stundina er útlitið ekki gott hvað varðar komandi loðnuvertíð. 

Sáralítil starfsemi hefur verið í síldarverksmiðjunni undanfarin misseri vegna samdráttar í uppsjávarafla.  Ekki er langt síðan öllum starfsmönnum bræðslunnar var sagt upp störfum og því er það eins og áður sagði mikið fagnaðarefni að HB Grandi áformi að hefja bræðslu beina að nýju hér á Akranesi. 

Rétt er að geta þess að fiskimjölsverksmiðjan hér á Akranesi er talin ein sú fullkomnasta á landinu.

Starfsfólki Laugafisks, sem er í eigu Brims, var tilkynnt á fundi í gær að vegna góðrar afkomu fyrirtækisins (Brims) hefði stjórn þess ákveðið að veita hverjum og einum starfsmanni kaupauka að upphæð kr. 125.000 miðað við 100% starfshlutfall. Tæplega 30 manns vinna hjá fyrirtækinu og njóta þeir allir góðs af þessum góða kaupauka.  Allir núverandi starfsmenn Laugafisks fá fullan kaupauka að upphæð 125.000.

Aðspurð sagði Inga Jóna Friðgerisdóttir, framkvæmdastjóri Laugafisks að stjórn Brims hefði ákveðið að greiða þennan kaupauka vegna þess að afkoma og framlegð Brims hefði verið góð á síðasta ári og því hefði stjórn félagsins tekið þá ákvörðun að leyfa starfsfólkinu að njóta þess. Án góðra starfsmanna væri ekki hægt að ná slíkum árangri og að þetta væri góð leið til að sýna í verki að stjórn fyrirtækisins kynni vel að meta framlag starfsmanna sinna.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness tekur ofan fyrir stjórn Brims fyrir að verðlauna starfsmenn með slíkum myndarskap og mættu önnur fyrirtæki taka þetta framlag stjórnar Brims sér til fyrirmyndar.  Í dag eru lágmarkslaun 125.000 á mánuði fyrir fulla dagvinnu, og er þessi kaupauki því ígildi eins mánaðar dagvinnulauna. 

Að lokum vill formaður Verkalýðsfélags að það komi fram að samstarf við forsvarsmenn Laugafisks hér á Akranesi hefur verið með eindæmum gott og álítur formaður að hér sé um að ræða eitt af þeim fyrirmyndarfyrirtækjum sem starfa á okkar félagssvæði.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image