• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Wednesday, 10 March 2021 08:48

Fundað í kjaradeilu VLFA og Elkem Ísland

Samningafundur var haldinn vegna kjarasamnings félagsins við Elkem Ísland í gær. Ágætis gangur var í viðræðunum í gær en búið er að samlesa kjarasamninginn og taka út þau ákvæði og bókanir sem ekki eiga við lengur.

Einnig var launaliðurinn og atriði honum tengd til umræðu á fundinum og miðað við ganginn í viðræðunum og þann árangur sem náðist í gær þá telur formaður allt eins líklegt að það takist að klára samninginn í næstu viku.

En rétt er að geta þess að samningurinn rann út um síðustu áramót og eru því liðnir rúmir 3 mánuðir frá því samningurinn rann út en að sjálfsögðu mun samningurinn gilda frá þeim tíma sem hann rann út.

Næsti fundur verður í næstu viku en enn standa örfá atriði útaf og því getur alveg brugðið til beggja vona um að það takist að klára nýjan kjarasamning í næstu viku. En formaður eygir þá von að þau atriði sem útaf standa leysist einnig farsællega.

Eins og áður hefur komið fram þá byggist kjarasamningurinn upp á sambærilegum launabreytingum og samið var um hjá Norðuráli en sá samningur gaf rúm 7% í upphafshækkun í heildina.

Published in Fréttir

Í morgun kom aflaskipið Víkingur Ak 100 með fullfermi af loðnu til löndunar hér á Akranesi en skipið tekur um 2000 tonn. Stórhluti skipverja tilheyra sjómannadeild VLFA og fór formaður niður á bryggju og tók þá tali en fram kom í máli þeirra að ánægjulegt sé að loðnuveiðar hafi verið heimilaðar á nýjan leik eftir tveggja ára stopp.

Loðnan sem Víkingur Ak 100 kom með í morgun er flokkuð, hrygnan skorin, hrognin skilin frá og þau fryst. Hratið sem þá verður eftir og hængurinn, er brætt og þurrkað í mjöl í verksmiðjunni hér á Akranesi.

Þessi vinnsla skilar jafnan mestri framlegð á hverri vertíð. En hrognin fara ekki öll beint út fyrir bæjarmörkin. Vignir G. Jónsson er dótturfélag Brims á Akranesi sem vinnur ýmiss konar afurðir úr hrognum. Hluti þessara loðnuhrogna fer því í áframvinnslu hjá Vigni þar sem Masago er helsta afurðin - lituð hrogn sem notuð eru í sushi.

Published in Fréttir

Nú er búið að yfirfara þau nýju skip sem gátu nýtt sér ákvæði kjarasamnings sjómanna um lækkun skiptaprósentu vegna nýsmíði.

 

Sú yfirferð leiddi í ljós að fjölmargir sjómenn sem tilheyra sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness og eru á Venusi, Víkingi og Akurey eiga rétt á endurgreiðslu vegna svokallaðs nýsmíðaálags.

 

En á Venusi og Víkingi Ak 100 þarf útgerð þeirra skipa að greiða 11,11% bætur til skipverja vegna ársins 2020. Einnig þarf útgerð Akureyjar Ak 10 að greiða skipverjum 9,4% bætur vegna ársins 2020.

 

Samkvæmt skoðun formanns þá er ljóst að sjómaður t.d. á Venusi og Víkingi sem voru með heildarlaun á árinu 2020 í kringum 16 milljónir gætu átt von á leiðréttingu sem nemur tæpum 2 milljónum króna.

 

Reiknar formaður með því að þessi leiðrétting verði greidd til umræddra skipverja á næstu dögum.

Published in Fréttir

Eins og undanfarin ár þá býður Verkalýðsfélag Akraness öllum sínum félagsmönnum að veiða frítt í vötnunum í Svínadal, Borgarfirði allt sumarið 2021 eða nánar tiltekið frá og með 1. apríl til og með 25. september. Um er að ræða norðanvert Eyrarvatn, allt Þórisstaðavatn og allt Geitabergsvatn. Leyfið gildir fyrir 1 félagsmann með 1 veiðistöng, en hann má bjóða með sér frítt 3 börnum sem eru 15 ára eða yngri.

Félagsskírteini hjá Verkalýðsfélagi Akraness gildir og skal hann framvísa því ef þess er óskað hjá veiðivörðum. Veiðitímabilið er frá og með 1. apríl til og með 25. september. Daglegur veiðitími er kl. 7-23 en eftir 20. ágúst kl. 7-21

Leyfilegt agn er fluga, maðkur og spúnn.

Published in Fréttir

NTV skólinn í samstarfi við Vinnumálstofnun býður einstaklingum í atvinnuleit uppá sérstakt námskeið í „Sölu-, markaðs- og rekstrarmálum“ sem byrja nú í vikulok og standa yfir fram í byrjun júnímánaðar.

Námskeiðin eru tvö aðskilin námskeið þar sem annað er á íslensku og hitt er kennt á ensku.

Námskeiðin verða keyrð sem staðarnám og fjarnám.

Námskeiðin byggja á námsbrautinni „Sölu-, markaðs- og rekstrarnám“ sem NTV skólinn hefur boðið í mörg ár.

VMST niðurgreiðir námskeiðin þannig að hlutur þátttakenda er 28.000,- kr. Þátttakendur eiga möguleika á að sækja sinn hluta í starfsmenntasjóði.

VMST þarf að samþykkja hvern og einn umsækjanda inn á námskeiðin.

 

Námskeiðin byrja strax – Örfá sæti laus.

Almennt um námið
Sölu-, markaðs- og rekstrarnám NTV og Mímis-símenntunar hentar sérstaklega þeim sem hafa áhuga á að vinna við viðskipta-, sölu- og markaðsmál og þeim sem vilja stofna til eigin reksturs. Eftir námið hefur nemandinn öðlast nægjanlega innsýn og færni í viðskipta-, markaðs- og sölumálum til að undirbúa eigin rekstur eða til að starfa sem sölu- og markaðsfulltrúi stærri fyrirtækja.

Námið samanstendur af kennslu og verklegum æfingum og eru próf í helstu námsgreinum. Rétt er að gera ráð fyrir nokkurri heimavinnu. Í lok náms fá nemendur viðurkenningarskjal og prófskírteini.

Öll fög í náminu eru kennd frá grunni. Námið er haldið í samvinnu við Mími - símenntun.

Kennt er eftir vottaðri námskrá Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og er námið á 2. þrepi hæfniramma um íslenska menntun. Mögulega er hægt að meta námið til allt að 22 eininga á framhaldsskólastigi en það fer eftir mati þess skóla sem nemendur sækja um, hve margar einingar eru samþykktar. Ekki er tryggt að námsmaður geti nýtt allar einingar til styttingar á námi í framhaldsskóla, það fer eftir tegund náms og námsferli viðkomandi námsmanns.

Hér er linkur á námskeiðsupplýsingar á íslensku

Here are more information in english

 

Published in Fréttir

Ég hef áður sagt að lífskjarasamningurinn sem undirritaður var 3. apríl 2019 hafi verið einn sá besti sem ég hef komið að hvað almenna vinnumarkaðinn varðar.

 

Enda nægir að nefna þá miklu kaupmáttaraukningu sem átt hefur sér stað frá því samningurinn var undirritaður. En í mars 2019 til janúar 2021 eða á tæpum tveimur árum hefur neysluvísitalan hækkað um 5,3% en á sama tímabili hefur launavísitalan hækkað um 15,29%. Þetta þýðir að lífskjarasamningurinn hefur skilað launafólki kaupmáttaraukningu sem nemur rétt tæpum 10% á samningstímanum.

 

Rétt er að geta þess að lágmarkslaun hafa hækkað um 17% á samningstímanum sem skila 11,69% kaupmáttaraukningu á tæpum tveimur árum.

 

Rétt er einnig að geta þess að í lífskjarasamningum var samið um svokallaðan hagvaxtarauka sem öllu jöfnu hefði getað skilað frá 3.000 kr. uppí 13.000 kr. en hann miðast við hagvöxt á pr. mann. Ekki kom til hans vegna efnahagssamdráttar útaf COVID. En það er alveg ljóst í mínum huga að við eigum eftir að semja aftur um hagvaxtartengingu í næsta samningi.

 

En það er ekki bara að lífskjarasamningurinn hafi skilað þetta mikilli kaupmáttaraukningu heldur stuðlaði hann að stífu stýrivaxtalækkunarferli hjá Seðlabankanum en fyrir samninginn voru vextir Seðlabankans 4,25% en eru í dag 0,75% Þetta hefur gert það að verkum að þúsundir heimila hafa endurfjármagnað húsnæðislán sín sem hefur leitt til lækkunar á vaxtabyrði sem nemur í mörgum tilfellum tugum þúsunda.

 

Ekki má heldur gleyma að aldrei í kjarasamningssögunni hefur aðkoma stjórnvalda verið jafn mikil og við gerð lífskjarasamningsins en stjórnvöld komu með 45 atriði til stuðnings samningnum. Kostnaður stjórnvalda til stuðnings lífskjarasamningnum nam um 80 milljörðum.

 

Helstu atriði sem stjórnvöld komu með voru:

  • Skattalækkun
  • Lenging fæðingarorlofs
  • Hækkun barnabóta
  • Aðgerðir í húsnæðismálum
  • Dregið úr vægi verðtryggingar

 

Þótt þetta hafi verið virkilega góður kjarasamningur þá var hann einungis skref í átt þess að lagfæra kjör launafólks en baráttu fyrir bættum kjörum launafólks henni lýkur aldrei enda um eilífðarverkefni að ræða.

Published in Fréttir
Monday, 22 February 2021 10:57

Páskar 2021

 

Nú höfum við opnað fyrir umsóknir í orlofshúsin okkar um páskana.  

Leigutíminn er 31. mars til 6. apríl.  Páskaúthlutunin virkar þannig að félagsmenn sækja um páskavikuna í þau hús sem það vill, hægt er að sækja um í öll húsin okkar.

Öll nöfnin eru svo sett í pott og við drögum út vikuna í hvert hús fyrir sig.  Haft verður samband við þann sem hreppir páskavikuna um leið og búið er að draga út. 

Ekki eru dregnir orlofspuntar af félagsmönnum fyrir páskavikuna og punktastaða hefur heldur engin áhrif á úrdráttinn.

Published in Fréttir

Nú er að ljúka framkvæmdum við orlofshús félagsins í Hraunborgum en undanfarið hefur verið unnið að því að bæta þar ýmislegt sem var orðið viðhaldsþurfi. 

Bústaðurinn var málaður og skipt um allt parket. Einnig var skipt um þann búnað sem nauðsynlegt var að endurnýja og má þar nefna rúm, eldavél og uppþvottavél. 

Ofnalagnir verða svo endurnýjaðar á næstu vikum. 

Við stefnum að því að allar framkvæmdir verði búnar um mánaðarmótin febrúar/mars.

Óhætt er að segja að vel hafi tekist til og lítur bústaðurinn mun betur út eftir þessa andlitslyftingu eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

En það er alveg morgunljóst að þessi gamli og sjarmerandi bústaður tapaði ekki sjarmanum við þessar endurbætur.  Hann er enn alveg ótrúlega hlýlegur og notalegur.

image7image4image5image08image14image01image8image6

 

 

 

 

 

 

Published in Fréttir
Wednesday, 10 February 2021 14:48

Samningafundur vegna Elkem Ísland

Samningafundur um nýjan kjarasamning til handa starfsmönnum Elkem Ísland á Grundartanga fór fram í morgun.

Viðræðurnar ganga ágætlega en umtalsverð vinna hefur farið í að samlesa yfir kjarasamninginn í heildsinni, en sá samlestur byggist á því að eyða út greinum, bókunum og fylgiskjölum sem ekki eiga við lengur.

Fyrirhugað er að funda aftur í næstu viku og þá er allt eins líklegt að farið verði að ræða atriði sem lúta að launabreytingum í nýjum kjarasamningi og vonast formaður til þess að ekki beri mjög mikið á milli samningsaðila.

Það liggur fyrir að allflestar stóriðjur á Íslandi hafa nýverið gengið frá nýjum kjarasamningi og hefur kjarasamningur Norðuráls verið til viðmiðunar hjá þeim stóriðjum sem nýverið hafa gengið frá sínum samningum.

Krafa starfsmanna er að ekki verði samið undir því sem samið hefur verið í öðrum stóriðjum að undanförnu enda mun slíkt aldrei geta orðið samningsforsenda.

Published in Fréttir

Í síðasta kjarasamningi Verkalýðsfélags Akraness við Samband íslenskra sveitarfélaga var samið um svokallaðan félagsmannasjóð. Sá sjóður byggist á því að samningsaðilar sem eru í þessu tilfelli Akraneskaupstaður, Hvalfjarðarsveit og hjúkrunar- og dvalarheimlið Höfði greiða sem nemur 1,5% af heildarlaunum starfsmanna inn í þennan sérstaka sjóð. Í samningnum var síðan kveðið á um að útgreiðsla úr sjóðnum skyldi eiga sér stað einu sinni á ári eða í febrúar ár hvert og núna er komið að því að greiða fyrstu greiðsluna úr sjóðnum.

Gríðarleg vinna hefur farið í að koma þessu öllu heim og saman en nú hefur öllum félagsmönnum sem starfa hjá áðurnefndum sveitarfélögum og stofnun verið sent bréf frá Verkalýðsfélagi Akraness þar sem fram kemur hver upphæðin er sem lögð verður inn á reikning viðkomandi félagsmanns samkvæmt skilagreinum sem félaginu hefur borist.

Rétt rúmlega 700 félagsmenn sem starfa eftir umræddum kjarasamningi hafa nú fengið áðurnefnt bréf og mun greiðsla til þeirra berast á allra næstu dögum. Heildarupphæð sem greidd verður út úr félagssjóði er um 21 milljón króna en aðili sem hefur verið í 100% starfi getur verið að fá á bilinu 70.000 til 100.000 kr. en hæsta einstaka greiðslan nemur 133 þúsundum en flestir eru að fá á bilinu 50-60.000 kr.

Verkalýðsfélag Akraness fer aðra leið heldur en önnur stéttarfélög hafa gert en eftir upplýsingum VLFA framkvæma önnur félög þetta með þeim hætti að félagsmaðurinn þarf að sækja um umrædda greiðslu og ef hann ekki gerir það á hann á hættu að greiðslan detti niður dauð. VLFA hinsvegar fer allt aðra leið sem er fólgin í því að félagið greiðir öllum greiðsluna og enginn þarf að sækja um enda var það megintilgangur með þessu 1,5% framlagi að það kæmi að fullu til skila til starfsmanna. Félagið greiðir út eftir iðgjaldaskilum sveitarfélaganna og ítrekar að enginn þarf að sækja um heldur sér félagið alfarið um að koma greiðslunum til þeirra sem eiga rétt á þeim samkvæmt gildandi kjarasamningi.

Verkalýðsfélag Akraness hefur átt í ágreiningi við Samband íslenskra sveitarfélaga því það var aldrei skilningur félagsins að farin yrði þessi leið heldur var skilningur félagsins sá að það væru sveitarfélögin sem myndu sjá um útgreiðslu á þessum greiðslum án aðkomu stéttarfélagsins. Einnig var ágreiningur um lögmæti þess að framkvæma greiðsluna með þessum hætti en Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélögin hafa fullyrt að framkvæmdin standist fulla skoðun og þar af leiðandi ákvað VLFA að framkvæma þetta með þessum hætti en það er gert á ábyrgð áðurnefndra aðila.

Published in Fréttir

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image