• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
23
Feb

Lífskjarasamningurinn skilað 10% kaupmáttaraukningu á tæpum 2 árum!

Ég hef áður sagt að lífskjarasamningurinn sem undirritaður var 3. apríl 2019 hafi verið einn sá besti sem ég hef komið að hvað almenna vinnumarkaðinn varðar.

 

Enda nægir að nefna þá miklu kaupmáttaraukningu sem átt hefur sér stað frá því samningurinn var undirritaður. En í mars 2019 til janúar 2021 eða á tæpum tveimur árum hefur neysluvísitalan hækkað um 5,3% en á sama tímabili hefur launavísitalan hækkað um 15,29%. Þetta þýðir að lífskjarasamningurinn hefur skilað launafólki kaupmáttaraukningu sem nemur rétt tæpum 10% á samningstímanum.

 

Rétt er að geta þess að lágmarkslaun hafa hækkað um 17% á samningstímanum sem skila 11,69% kaupmáttaraukningu á tæpum tveimur árum.

 

Rétt er einnig að geta þess að í lífskjarasamningum var samið um svokallaðan hagvaxtarauka sem öllu jöfnu hefði getað skilað frá 3.000 kr. uppí 13.000 kr. en hann miðast við hagvöxt á pr. mann. Ekki kom til hans vegna efnahagssamdráttar útaf COVID. En það er alveg ljóst í mínum huga að við eigum eftir að semja aftur um hagvaxtartengingu í næsta samningi.

 

En það er ekki bara að lífskjarasamningurinn hafi skilað þetta mikilli kaupmáttaraukningu heldur stuðlaði hann að stífu stýrivaxtalækkunarferli hjá Seðlabankanum en fyrir samninginn voru vextir Seðlabankans 4,25% en eru í dag 0,75% Þetta hefur gert það að verkum að þúsundir heimila hafa endurfjármagnað húsnæðislán sín sem hefur leitt til lækkunar á vaxtabyrði sem nemur í mörgum tilfellum tugum þúsunda.

 

Ekki má heldur gleyma að aldrei í kjarasamningssögunni hefur aðkoma stjórnvalda verið jafn mikil og við gerð lífskjarasamningsins en stjórnvöld komu með 45 atriði til stuðnings samningnum. Kostnaður stjórnvalda til stuðnings lífskjarasamningnum nam um 80 milljörðum.

 

Helstu atriði sem stjórnvöld komu með voru:

  • Skattalækkun
  • Lenging fæðingarorlofs
  • Hækkun barnabóta
  • Aðgerðir í húsnæðismálum
  • Dregið úr vægi verðtryggingar

 

Þótt þetta hafi verið virkilega góður kjarasamningur þá var hann einungis skref í átt þess að lagfæra kjör launafólks en baráttu fyrir bættum kjörum launafólks henni lýkur aldrei enda um eilífðarverkefni að ræða.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image