• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni óskuðu Hagsmunasamtök heimilanna og Nýtt Ísland eftir að formaður héldi ræðu á mótmælafundi á Austurvelli á morgun kl. 15. Að sjálfsögðu varð formaður við þessari ósk og hvetur hann alla til að koma og sýna í verki að það ástand sem nú ríkir í íslensku efnahags- og atvinnulífi er algjörlega óásættanlegt.

Fjallað er um fundinn á heimasíðu Nýja Íslands, sjá hér, og einnig á heimasíðu Hagsmunasamtaka heimilanna, sjá hér.  

Published in Fréttir
Thursday, 14 January 2010 00:00

Til hamingju HB Grandi

Formanni bárust rétt í þessu afar jákvæð tíðindi frá HB Granda. Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa nú tekið ákvörðun um að hækka launataxta starfsmanna sinna um 6.500 kr. og hækkun uppá 2,5% á bónusgreiðslum frá 1. janúar 2010 þrátt fyrir að samninganefnd Alþýðusambands Íslands hafi gengið frá samkomulagi við Samtök atvinnulífsins um frestun á þessari hækkun til 1. júní nk.

Formaður hafði samband við forsvarsmenn fyrirtækisins áðan og þakkaði þeim kærlega þessa ákvörðun, enda er alveg ljóst að almennt verkafólk er í verulegum vandræðum sökum þess ástands sem nú ríkir í formi stóraukinna greiðslubyrði á öllum vígstöðvum.

Nú hefur komið í ljós, með þessari ákvörðun, að HB Grandi hefur staðið við alla þætti samningsins frá 17. febrúar 2008. Þetta hefur gert það að verkum að starfsmenn þessa fyrirtækis hafa fengið allar þær launahækkanir sem samningurinn kvað á um.

Eins og flestir muna þá barðist Verkalýðsfélag Akraness með kjafti og klóm gegn samkomulagi um frestun launahækkana á formannafundum Alþýðusambands Íslands í febrúar og júní á síðasta ári. Rök félagsins voru þau að klárlega væru til fyrirtæki sem hefðu fjárhagslega burði til að standa við þann samning sem gerður var og nú hefur komið í ljós að þessi rök félagsins áttu við rök að styðjast.

Félagi birti áskorun til allra fyrirtækja í bæjarblöðum hér á Vesturlandi nú í janúar þar sem skorað var á vel stæð fyrirtæki að standa við þann samning sem gerður var í febrúar 2008 og skýla sér ekki á bak við samkomulagið sem ASÍ gerði við SA í júní á síðasta ári.

Published in Fréttir

Hagsmunasamtök heimilanna og Nýtt Ísland hafa farið þess á leit við formann félagsins að hann haldi ræðu á útifundi á Austurvelli næstkomandi laugardag 16. janúar.

Að sjálfsögðu mun formaður félagsins verða við þessari ósk og þakkar það traust sem honum er sýnt með því að fá að ávarpa fundinn.

Það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með baráttu fulltrúa Hagsmunasamtaka Heimilanna allt frá bankahruninu, en krafa samtakanna hefur ávalt byggst á þeirri sanngjörnu kröfu að skuldir heimilanna verði leiðréttar vegna þessa efnahagshruns sem hér varð í kjölfar falls bankanna.

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness ályktaði t.d. á þá leið á síðasta aðalfundi sínum að lýst var yfir fullum stuðningi við málflutning forsvarsmanna Hagsmunasamtaka Heimilanna og einnig var skorað á ríkisstjórn Íslands að verða við ósk um leiðréttingu á þeim forsendubresti sem varð hjá skuldsettum heimilum landsins.

Formaður hvetur fólk sem hefur tök á að mæta á Austurvöll næstkomandi laugardag, enda er full ástæða til að krefjast þess af ríkisvaldinu að það komi til móts við sanngjarnar kröfur fólksins um leiðréttingar á skuldum heimilanna.

Published in Fréttir

Síðastliðinn föstudag var formaður félagsins í viðtali á Bylgjunni í Reykjavík síðdegis. Þar skoraði hann á vel stæð fyrirtæki að koma með þá launahækkun sem átti að taka gildi 1. janúar sl. hefði samninganefnd Alþýðusambands Íslands ekki tekið ákvörðun með Samtökum atvinnulífsins að fresta launahækkunum til 1. júní nk.

Einnig var stöðugleikasáttmálinn til umræðu, en fram kom í máli formanns að hann undraðist þá linkind sem samninganefnd ASÍ sýndi í því máli. Í viðtalinu bar Icesave málið einnig á góma.

Hægt er að hlusta á viðtalið hér.

Published in Fréttir
Thursday, 07 January 2010 00:00

Álverð heldur áfram að hækka

Eins og fram kom hér á heimasíðunni í síðasta mánuði þá var kjaraviðræðum við forsvarsmenn Norðuráls frestað vegna stefnu VM á hendur fyrirtækinu um félagsaðild. Málið verður tekið fyrir 11. janúar og mun niðurstaða væntanlega fást í málið einni til tveimur vikum síðar.

Það eru afar ánægjuleg tíðindi að berast núna af álmörkuðum, en álverð hefur haldið áfram að hækka og í dag var verðið fyrir pr. tonn komið upp í 2.333 dollara sem gerir rúmar 293.000 íslenskar krónur fyrir hvert tonn á gengi dagsins.

Í gær fékkst tonnið á 2.280 dollara og hefur hækkað um 2,4% á einum sólarhring. Nú er bara að vona að verðið haldi áfram að hækka, enda mun hækkun á álverði klárlega hjálpa verulega til við komandi kjarasamningsgerð sem væntanlega mun hefjast aftur síðar í þessum mánuði.

Það er alveg ljóst að krafa Verkalýðsfélags Akraness verður umtalsverð hækkun launa starfsmanna Norðuráls, enda eru allar forsendur fyrir því að laun starfsmanna taki ásættanlegri hækkun.

Mun Verkalýðsfélag Akraness fylgja þeim kröfum fast eftir og hefur formaður t.a.m. gert forstjóra Norðuráls grein fyrir því að félagið muni gera þá skýlausu kröfu að laun starfsmanna Norðuráls verði í það minnsta með sambærilegum hætti og gerist í sambærilegum iðnaði.

Það hefur einnig komið fram hér á heimasíðunni að rekstur Norðuráls gekk glæsilega á árinu 2008, en ekkert fyrirtæki hér á landi skilaði jafnmiklum hagnaði og Norðurál eða sem nemur 16 milljörðum króna. Ávinningur af þessari góðu starfsemi á að skila sér núna að hluta til til þeirra frábæru starfsmanna sem starfa hjá Norðuráli.

Published in Fréttir

Það er alveg ljóst að ríkisábyrgð á Icesave mun hafa gríðarlega íþyngjandi áhrif á íslenskt efnahags- og atvinnulíf og því mjög mikilvægt að reynt verði eftir fremsta megni að ná eins hagstæðum samningum og kostur er.

Það er einnig alveg ljóst að skuldbindingarnar tengdar Icesave munu skerða lífskjör allra Íslendinga og bitna umtalsvert á almennu verkafólki.

Því spyr formaður sig hvort það sé virkilega raunin að ekki hafi verið hægt að ná hagstæðari samningum en raunin varð? Sérstaklega í ljósi þess að sjónarmið Breta voru önnur í deilu þeirra við yfirvöld á Ermasundseyjunum Mön og Guernsey þar sem breska ríkisstjórnin neitaði að ábyrgjast innistæður útibúa breskra banka þar, meðal annars vegna þess að þeir hefðu ekki sjálfir notið tekna af þeim.

Breska ríkisstjórnin hirti 40% fjármagnstekjuskatt af Icesave reikningunum í Bretlandi en hundsaði eigi að síður nokkra ábyrgð á reikningunum. Á þetta bendir Ársæll Valfells, lektor við HÍ, í grein sem hann birtir í Forbes viðskiptatímaritinu í febrúar 2008.

Í greininni rekur Ársæll stuttlega deiluna um Icesave og bendir á að það hafi verið breska ríkisstjórnin en ekki sú íslenska sem naut fjármagnstekjuskatt af reikningunum. Þannig hafi breska stjórnin hirt tekjurnar en látið íslenska ríkið um áhættuna.

Var þessum sjónarmiðum ekki örugglega haldið hátt á lofti í þeim viðræðum sem íslenska samninganefndin átti við Breta og Hollendinga?

Published in Fréttir
Monday, 04 January 2010 00:00

Áskorun til fyrirtækja

Hefði samninganefnd Alþýðusamband Íslands og Samtaka atvinnulífsins ekki gert tvívegis samkomulag um frestun launahækkana frá þá hefðu laun á hinum almenna vinnumarkaði átt að hækka um 2,5% nú um áramótin. En samkvæmt samkomulaginu þá mun sú hækkun ekki taka gildi fyrr en 1. júní 2010.

Verkalýðsfélag Akraness hefur frá upphafi mótmælt þessari ákvörðun og linkind samninganefndar Alþýðusambands Íslands vegna þeirrar staðreyndar að til eru fyrirtæki sem hafa fulla fjárhagslega burði til að standa við þann hófstillta samning sem gerður var þann 17. febrúar 2008. Nægir að nefna í því samhengi öll úrflutningsfyrirtæki sem hafa verið að gera ágætis hluti sökum gengishruns krónunnar. Nú þegar hefur íslenskt verkafólk orðið af á annað hundrað þúsunda króna vegna þeirra óskiljanlegu samkomulaga sem samninganefnd ASÍ gerði við Samtök atvinnulífsins.

Á þessari forsendu skorar Verkalýðsfélag Akraness á öll fyrirtæki sem hafa fjárhagslega burði til að standa við þann kjarasamning sem gerður var þann 17. febrúar 2008 og koma með 2,5% launahækkun frá 1. janúar 2010 eins og samningurinn kvað á um.

Published in Fréttir

Hinn árlegi jólatrúnaðarráðsfundur Verkalýðsfélags Akraness var haldinn í gær. Meginefni fundarins var að formaður gerði grein fyrir því ári sem nú er senn á enda og einnig hafði stjórn félagsins ákveðið að heiðra gamlan baráttumann félagsins, Ásmund Una Guðmundsson, en hann hefur verið viðriðinn stjórn félagsins með einum eða öðrum hætti frá árinu 1965.

Fram kom í máli formanns að árið í ár væri búið að vera afar viðburðaríkt í ljósi þess ástands sem nú ríkir í íslensku efnahags- og atvinnulífi. Fór formaður yfir frestun á þeim launahækkunum sem áttu að taka gildi á síðasta ári samkvæmt kjarasamningi frá 17. febrúar 2008 en eins og allir vita hefur Verkalýðsfélag Akraness mótmælt harðlega því samkomulagi sem samninganefnd ASÍ og Samtök atvinnulífsins gengu frá bæði í febrúar og í júní. Það kom fram í máli formanns að það sé með ólíkindum að samninganefnd ASÍ skuli hafa gefið vel stæðum útflutningsfyrirtækjum tækifæri til að koma sér hjá þeim kjarasamningi sem um var samið á árinu 2008. Það kom einni fram í máli formanns að verkafólk sem ekki fékk sínar launahækkanir samkvæmt samningnum hafi orðið af fjárhæð sem nemur á annað hundrað þúsund króna vegna þessarar linkindar samninganefndar ASÍ.

Published in Fréttir
Wednesday, 30 December 2009 00:00

356 Akurnesingar án atvinnu

Það þarf að fara alveg aftur til ársins 1995 til að finna álíka mikið atvinnuleysi hér á Akranesi eins og staðan er í dag. Nú eru 356 Akurnesingar án atvinnu og er skipting á milli kynja nokkuð jöfn. Þessu til viðbótar eru 26 einstaklingar án atvinnu í svæðisnúmeri 301 sem eru nærsveitirnar hér í kringum Akranes.

Á Vesturlandi öllu eru 617 án atvinnu og er það gríðarleg fjölgun ef litið er til síðustu þriggja ára og álag á starfsmenn Vinnumálastofnunnar er mjög mikið en starfsmannafjöldi er jafnmikill nú og var fyrir þremur árum síðan þegar atvinnuleysið á Vesturlandi öllu var innan við 100 manns. Það er skýlaus krafa Verkalýðsfélags Akraness að starfsmönnum Vinnumálastofnunnar verði sköffuð þau starfsskilyrði svo viðunandi sé, bæði fyrir starfsmenn og síðast en ekki síst fyrir atvinnuleitendur.

Á þessu sést að staðan er nokkuð alvarleg þó svo að á okkar atvinnusvæði sé ástandið mun betra en á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum. Það fjölgaði til dæmis um 15 manns í fiskvinnslu HB Granda eins og fram kom hér á heimasíðunni í gær og einnig hefur stóriðjan á Grundartanga haldið lífæð atvinnulífsins gangandi.

Published in Fréttir
Um 3.800 tonn af bolfiski fóru til vinnslu hjá fiskiðjuveri HB Granda á Akranesi á árinu sem er að líða. Þetta er mun meira en áætlanir gerðu ráð fyrir og var starfsmönnum fjölgað í samræmi við aukin umsvif. Í byrjun árs voru 25 starfsmenn í vinnu hjá HB Granda á Akranesi en þeir eru nú um 40 talsins.

Torfi Þ. Þorsteinsson, framleiðslustjóri HB Granda, segir í samtali við vef fyrirtækisins að vinnsla á þorski hafi verið aukin að nýju í fiskiðjuverinu á Akranesi á árinu og alls hafi um 3.200 tonn af þorski verið unnin þar. Vinnsla á ufsa nemi um 600 tonnum.

"Það var aukið við þorskkvótann í janúar sl. og það skilaði sér strax í auknum umsvifum í landvinnslunni á Akranesi. Ekkert hlé varð á vinnslunni í sumar. Við réðum 15 námsmenn til starfa yfir hásumarið og allt voru þetta ákaflega dugleg ungmenni sem við vonumst til að fá aftur til vinnu á næsta ári,“ segir Torfi. Ekki hefur fallið niður vinna í einn einasta dag á þessu ári vegna hráefnisskorts hjá HB Granda á Akranesi.

,,Það var mjög mikið að gera í sumar sem leið og í júlímánuði var t.d. unnið frá klukkan 6 á morgnana og fram til kl. 18 alla virka daga og sömuleiðis var unnið á laugardögum. Starfsmenn hafa sýnt mikinn dugnað og sveigjanleika og alltaf verið tilbúnir að bæta við sig vinnu þegar á þarf að halda. Sala og vinnsla hefur sömuleiðis gengið mjög vel.  Allir þorskhnakkar eru seldir ferskir og fara með flugi á markaði á meginlandi Evrópu. Afurðirnar eru seldar á hæsta verði og viðskiptamenn okkar sætta sig ekki við annað en fyrsta flokks vöru. Ufsavinnslan er einnig stór þáttur í starfseminni á Akranesi. Ufsinn er léttsaltaður og lausfrystur og fer á markað í Brasilíu og Suður-Evrópu,“ segir Torfi.

Í jólafríi var ráðist í töluverðar lagfæringar á vinnslulínum hjá HB Granda á Akranesi. Bætt var við niðurskurðarvél og flokkara og pökkunaraðstaða var endurbætt.  Einnig voru gólf lagfærð og tækifærið notað til að sinna annarri viðhaldsvinnu.

Verkalýðsfélag Akraness fagnar þessari auknu starfsemi hjá HB Granda hér á Akranesi.  Sérstaklega í ljósi þess að gríðarleg fækkun starfa hefur verið í landvinnslu HB Granda á undanförnum árum og sé dæmi þá voru um 120 manns sem störfuðu í landvinnslunni hér á Akranesi á árinu 2003.

Published in Fréttir

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image