• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
17
Jan

Staða kjaraviðræðna

Mikil fundahöld hafa verið undanfarið um nýjan kjarasamning á hinum almenna vinnumarkaði sem svokölluð breiðfylking verkalýðshreyfingarinnar kemur að. Þar eru undir Starfsgreinasamband Íslands, Efling, Landssamband verslunarmanna og Samiðn. Markmið þessara aðila er eins og áður hefur komið fram í fréttum að ganga frá hófstilltum kjarasamningum sem byggjast upp á að ná niður vöxtum og verðbólgu sem hafa leikið íslenskt launafólk og heimili afar grátt um árabil. Viðræðurnar til þessa hafa gengið ágætlega þó morgunljóst sé að ýmis ljón séu ennþá á veginum. Lýtur það helst að skilningi á því að launafólk hefur orðið fyrir miklum kostnaðarauka á öllum sviðum rekstrarútgjalda sinna og skilningi aðildarfyrirtækja Samtaka atvinnulífsins á að halda þurfi aftur af verðlagi hér á landi, meðal annars með því að stilla öllum verðlags- og gjaldskrárbreytingum í hóf.

Vissulega hafa fjölmargir aðilar, til dæmis sveitarfélög, tilkynnt að ef takist að ganga frá kjarasamningi á hinum almenna vinnumarkaði út frá þessum markmiðum þá muni þau endurskoða sínar gjaldskrár og einnig hafa nokkur fyrirtæki eins og Byko tilkynnt verðfrystingu í allt að 6 mánuði ef samningar nást. Einnig hafa Hagar tilkynnt að þeir hafi beint því til sinna birgja að ef þeir geti ekki útskýrt hækkanir með afgerandi hætti þá muni fyrirtækið taka umræddar vörur úr hillum fyrirtækisins. Þetta eru gríðarlega sterk og skýr skilaboð og sýnir mikilvægi þess að þetta verkefni takist enda ljóst að hægt er að auka ráðstöfunartekjur launafólks með margvíslegum hætti öðrum en breytingum á launalið samninganna.

Við hinsvegar bíðum eftir svari frá stjórnvöldum, svari sem lýtur að því að endurreisa þurfi tilfærslukerfin, það er að segja barnabætur, vaxtabætur og húsaleigubætur. Það er kostnaður sem nemur 24 milljörðum en það er grunnforsendan fyrir því að hægt verði að fara þessa vegferð. Á formaður von á að heyra frá stjórnvöldum hvað það varðar fyrir lok þessarar viku.

Það er vissulega ágreiningur til staðar um launaliðinn en samningsaðilar eru til þessa sammála því að finna sameignilegan flöt á því vandamáli en það mun skýrast í dag að mati formanns hvort það takist eða ekki. Það er mikilvægt að samningsaðilar báðir átti sig á mikilvægi þess að þetta verkefni takist en þó er rétt að geta þess að það er skýlaus krafa af hálfu áðurnefndra aðila að það verði skýr endurkoðunarákvæði í samningnum. Meðal annars sem lúta að verðbólgumarkmiðum og lækkun vaxta. Án slíkra ákvæða verður ekki hægt að ganga frá kjarasamningum enda ætlar launafólk eitt og sér ekki að axla þá ábyrgð að ganga hinn hófstillta veg ef aðrir hafa ekki í hyggju að feta þá vegferð.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image