• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
31
Aug

Ferð eldri félagsmanna 2023

Í gær, miðvikudaginn 30. ágúst, bauð Verkalýðsfélag Akraness eldri félagsmönnum sínum í árlega dagsferð. Ferðin heppnaðist vel og var dagurinn einstaklega ánægjulegur enda eru þessar ferðir ómissandi hluti af hefðum félagsins.

Lagt var af stað frá Krónuplaninu um 8:30 og stefnt til Hvanneyrar. Leiðsögumaður í ferðinni var Gísli Einarsson og sagði hann frá ýmsu áhugaverðu í umhverfinu auk þess að taka reglulega nokkur lög á harmonikkuna sem hann hafði að sjálfsögðu meðferðis. Veðrið var milt og gott allan daginn.

Hópurinn kom að Hvanneyri rétt fyrir 9:30 og þar tók á móti okkur Bjarni Guðmundsson, prófessor og fyrrum kennari við Landbúnaðarháskóla Íslands. Hann sagði frá ýmsu tengdu staðnum, bæði í fortíð og nútíð og tók einnig lagið með hópnum við undirspil Gísla.

Þá var komið að því að keyra í átt að Bifröst, til stóð að fara yfir gömlu Hvítárbrúna en vegna viðhalds var ekki leyfilegt að fara á rútum þar yfir. Var því farið til baka sömu leið og komið var, keyrt í gegnum Borgarnes og þaðan sem leiðin lá að Bifröst. Á Hótel Bifröst fékk hópurinn höfðinglegar móttökur, þar var nóg pláss til að sitja og spjalla eða ganga um inni og úti á meðan beðið var eftir matnum. Um 11:30 var komið að hádegismatnum sem var dýrindis lambalæri með ýmsu meðlæti og á eftir var boðið upp á úrval eftirrétta og kaffi.

Þegar allir voru orðnir saddir og sælir var haldið aftur af stað og í þetta sinn var farið í Reykholt. Þar byrjaði hópurinn á að hlusta á Sigrúnu Guttormsdóttur Þormar, sviðsstjóra þjónustu, segja frá ýmsu tengdu staðnum og sögu hans. Eftir áhugaverðan fyrirlestur fékk hópurinn að ganga um svæðið, bæði innan- og utandyra. Á meðan sumir skoðuðu Snorrastofu eða bókasafnið voru aðrir sem tóku lagið með Gísla fyrir utan kirkjuna.

Síðasti áfangastaður ferðarinnar var Hótel Hamar þar sem boðið var upp á kaffihlaðborð. Áður en sest var til borðs var stoppað örstutt hjá gamla hótelinu á svæðinu sem er staðsett við golfvöllinn Hamarsvöll en þar er fallegt útsýni. Fyrir heimferð var fyllt á orkuna með því að gæða sér á brauðtertum, kleinum, flatkökum með hangikjöti og súkkulaðiköku.

Hópurinn kom til baka á Krónuplanið um 17:30 og allir voru ánægðir með skemmtilegan dag og góða samveru.

Myndir úr ferðinni má sjá hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image