• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
13
Mar

Sjómenn kolfelldu nýjan kjarasamning

Kosningu lauk um nýgerðan kjarasamning Sjómannasambands Íslands við útgerðarmenn fyrir síðustu helgi. Félagsmenn Sjómannasambandsins felldu samninginn með 67,43% greiddra atkvæða. 31,52% greiddu atkvæði með samningnum en 1,05% sat hjá. Alls voru 1.200 sjómenn á kjörskrá og greiddu 571 atkvæði og kjörsókn því 47,58%.

Sjómannafélag Grindavíkur og VM felldu einnig með svipuðum mun en Skipstjórafélagið samþykkti samninginn með 55% atkvæða.

Það er morgunljóst að sjómenn eru alls ekki sáttir við þann samning sem undirritaður var og nú þarf að reyna að greina það sem þeir voru ósáttir með. En heyrst hefur að það sé tímalengd samningsins sem veldur óánægju en hann átti að gilda í 10 ár.

Einnig voru sjómenn ósáttir við að lækka ætti skiptaprósentu vegna hækkunar á framlagi í lífeyrisssjóð. Því til viðbótar hefur heyrst að grein 1.39.1 í samn­ingn­um sem snertir á að semja þurfi sér­stak­lega um það ef fram koma ný skip eða nýj­ar veiði- eða verk­un­araðferðir hafi farið illa í sjómenn.

Framkvæmdastjórn Sjómannasambandsins fundar fljótlega til að ákveða næstu skref - en fátt virðist í stöðunni annað en að hefja undirbúning verkfalla. Samningar runnu út árið 2019 og hafa sjómenn verið samningslausir síðan.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image