• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
19
Dec

Sigrún Clausen - minningarorð

Sigrún Clausen, heiðursfélagi í Verkalýðsfélagi Akraness, er látin 92 ára að aldri en hún var fædd þann 20. október 1930.

Sigrún gekk formlega í félagið 8. maí 1969 þegar hún hóf störf við fiskvinnslu. Ýmislegt varðandi aðstöðu og réttindi fiskvinnslukvenna kom Sigrúnu á óvart og í kjölfarið fór hún að láta til sín taka í ýmsum baráttumálum í gegnum félagið. Hún var mjög virk í starfi félagsins og gegndi stjórnarstörfum fyrir það í þrjá áratugi. Meðal annars var hún í aðalstjórn frá 1972 til ársins 2000 og varð fyrsti formaður fiskvinnsludeildarinnar árið 1988. Sigrún sat líka um árabil í stjórn sjúkrasjóðs eða allt til ársins 2002 en það ár var hún einmitt gerð að heiðursfélaga VLFA.

Einnig starfaði Sigrún stundum í afleysingum fyrir Herdísi Ólafsdóttur á skrifstofu félagsins eða aðstoðaði hana þar þegar álagið var mikið en skrifstofan var þá staðsett að Kirkjubraut 40. Þá vann hún jafnvel fyrir hádegi í frystihúsinu og á skrifstofunni eftir hádegi og líkaði vel en á þessum tíma var mikil handavinna fólgin í að afgreiða umsóknir úr sjúkrasjóði og jafnframt fór afgreiðsla atvinnuleysisbóta fram í gegnum félagið.

Eitt af því sem Sigrún tók þátt í á vegum félagsins var að skipuleggja ásamt Herdísi ferðir fyrir eldri félagsmenn. Slíkar dagsferðir hafa verið árvissar um langt skeið og felst mikil vinna í að undirbúa þær. Eftir að Sigrún hætti að vinna kom hún svo sjálf með í fjölmargar af ferðum félagsins.

Sigrún fylgdist alla tíð mjög vel með starfsemi félagsins og bar hag þess fyrir brjósti. Stjórn og starfsfólk Verkalýðsfélags Akraness þakkar henni fyrir vel unnin störf og sendir aðstandendum hennar innilegar samúðarkveðjur.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image