• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
11
Mar

Trúnaðarmannanámskeið í næstu viku

Það er hverju stéttarfélagi mikilvægt að vera með góða, öfluga og vel upplýsta trúnaðarmenn sem eru tilbúnir til að taka að sér krefjandi verkefni á vinnustöðunum, verkefni sem lúta að hinum ýmsu málum sem kunna að koma upp tengd kjarasamningum og öðrum réttindamálum launafólks. Á þeirri forsendu heldur Verkalýðsfélag Akraness reglulega námskeið til að gera sína trúnaðarmenn hæfari til að gegna þessu ábyrgðarmikla hlutverki og í næstu viku er komið að slíku námskeiði. 

Námskeiðið verður haldið 14. til 16. mars og stendur yfir frá kl. 9-16. Í þessari lotu munu 9 trúnaðarmenn sitja námskeiðið en sem fyrr er það Félagsmálaskóli alþýðu sem annast kennsluna. Fræðslan er þrepaskipt og á þessu námskeiði er um að ræða 1. þrep þar sem töluverð endurnýjun hefur verið í hópi trúnaðarmanna félagsins undanfarin ár. Á fyrsta degi námskeiðsins verður fjallað um þjóðfélagið og vinnumarkaðinn, annan daginn verður farið í starf trúnaðarmannsins og stöðu hans og á síðasta degi námskeiðsins verður umfjöllunarefnið samskipti á vinnustað.

11
Mar

Neyðarkerran afhent Rauða krossinum á morgun

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá tók Verkalýðsfélag Akraness það verkefni að sér að safna fyrir neyðarkerru eftir að hafa fengið ábendingu um að slík kerra væri ekki til staðar hér á Akranesi. Þessi neyðarkerra inniheldur allan mikilvægasta búnað til að starfrækja fjöldahjálparstöð með gistingu fyrir 30 manns fyrsta sólarhringinn í neyðaraðgerðum. 

Formaður félagsins hafði samband við nokkur öflug fyrirtæki hér á Akranesi - Norðurál, HB Granda, Elkem Ísland, Faxaflóahafnir og Akraneskaupstað og óskaði eftir að þessir aðilar myndu leggja þessu brýna samfélagsmáli lið. Það er skemmst frá því að segja að það tók örskamma stund að safna fyrir kerrunni og voru allir tilbúnir til að leggja málefninu lið. Meira að segja hafði slysavarnadeildin Líf samband þegar hún frétti af þessari söfnun og óskaði eftir að fá að leggja fjármuni í verkefnið. 

Á morgun verður neyðarkerran formlega afhent Rauða krossinum á Akranesi og er Verkalýðsfélag Akraness stolt af því að hafa tekið þátt í þessu verkefni en félagið mun styrkja þetta mál um 200.000 kr. Vill stjórn félagsins þakka fyrirtækjunum, Akraneskaupstað og slysavarnadeildinni Líf fyrir að hafa tekið svona vel í að styðja við þetta góða og þarfa verkefni.

03
Mar

Framtalsaðstoð fyrir félagsmenn VLFA

Eins og undanfarin ár býður félagið upp á aðstoð við gerð einfaldra skattframtala og geta félagsmenn pantað tíma á skrifstofu VLFA eða í síma 4309900. Síðasti dagur til að skila framtali er þriðjudagurinn 15 mars, en hægt er að sækja um frest á síðunni www.skattur.is. Framtalsfrestur er lengst veittur til 20. mars.

Framtalsaðstoðin er félagsmönnum að kostnaðarlausu.

29
Feb

Launahækkanir sem taka gildi frá 1. janúar á hinum almenna vinnumarkaði

Endurskoðun kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði lauk með því að gengið var frá nýjum kjarasamningi eins og fram hefur komið í fréttum. Nú er kosningu um þann samning lokið og er óhætt að segja að kosningaþátttaka hafi vægast sagt verið mjög dræm. En samningurinn var samþykktur og því munu launabreytingar taka gildi frá 1. janúar síðastliðnum með eftirfarandi hætti:

- Launataxtar verkafólks hækka samkvæmt meðfylgjandi launatöxtum
- Almennar launahækkanir til þeirra sem ekki taka laun eftir töxtum verða 6,2%. Á þessi prósentuhækkun einnig við um bónusa og aðrar aukagreiðslur. 
- Framlag atvinnurekanda í lífeyrissjóði mun hækka 1. júlí um 0,5%, fer úr 8% í 8,5%. Hugmyndir eru uppi um að launafólk fái að nýta þetta aukna framlag í séreign en það skýrist betur áður en framlagið verður aukið. 

Þetta eru helstu launabreytingarnar sem gilda fyrir þetta ár. Það jákvæða í þessu er að taxtahækkanirnar og gildistíminn flyst frá 1. maí aftur til 1. janúar. Hinsvegar er það dapurlegt að flestir sem taka laun eftir töxtum eru ekki að fá neinar breytingar á sínum töxtum heldur gagnast þetta aðallega þeim sem ekki taka laun eftir launatöxtum eða með öðrum orðum þeim tekjuhærri en almenna hækkunin átti að vera 5,5% en verður 6,2% eins og áður hefur komið fram. Vissulega ber að fagna því að samningurinn færist fram til 1. janúar 2016. 

26
Feb

Safnað var fyrir neyðarvarnakerru á Akranesi

Verkalýðsfélag Akraness fékk ábendingu eftir námskeið sem haldið var fyrir sjálfboðaliða í neyðarvörnum á vegum Rauða krossins um að það vantaði hér á Akranesi svokallaða neyðarvarnakerru. Slík kerra inniheldur allan mikilvægasta búnað til að starfrækja fjöldahjálparstöð með gistingu fyrir 30 manns fyrsta sólarhringinn í neyðaraðgerðum.

Eftir þessa ábendingu ákvað Verkalýðsfélag Akraness að fara á fulla ferð við að reyna að safna fyrir slíkri kerru en hún kostar um 1,5 milljón og getur skipt miklu máli ef til dæmis kemur til rýminga, hópslysa, lokana á vegum eða annarra alvarlegra atburða. Stjórn Verkalýðsfélags Akraness ákvað strax að styrkja þetta verkefni um 200.000 kr. en ákvað jafnframt að leita til þeirra öflugu fyrirtækja sem eru á okkar starfssvæði. Sendi formaður eftirfarandi aðilum tölvupóst með ósk um að þeir myndu leggja þessu brýna samfélagsmáli lið: HB Grandi, Norðurál, Elkem Ísland, Faxaflóahafnir og Akraneskaupstaður. Það er skemmst frá því að segja að það tók þessa aðila ekki langan tíma að svara kalli Verkalýðsfélags Akraness til að leggja þessu brýna verkefni lið og voru allir tilbúnir til að leggja í púkkið til að hægt væri að kaupa þessa neyðarvarnakerru. Þessu til viðbótar hafði Slysavarnardeildin Líf samband og óskaði einnig eftir að fá að styrkja þetta verkefni. 

Nú hefur Jón Brynjar Birgisson, sviðsstjóri neyðarvarnasviðs Rauða krossins, pantað kerruna frá Þýskalandi og verður hún klár til afhendingar Rauða krossinum hér á Akranesi á vormánuðum en endanleg dagsetning liggur ekki fyrir. Það er afar ánægjulegt hversu vel gekk að fjármagna þetta verkefni og þetta sýnir svo ekki verður um villst hversu mikilvægt það er fyrir hvert sveitarfélag að hafa öflug fyrirtæki innan sinna vébanda sem eru tilbúin til að leggja brýnum samfélagslegum verkefnum lið þegar eftir því er leitað. Í þessu tilfelli skorti ekki vilja hjá þessum áðurnefndu fyrirtækjum, Akraneskaupstað og Slysavarnadeildinni Líf. 

Félagið vill ítreka þakklæti sitt til þeirra sem lögðu þessu málefni lið því það er hverju sveitarfélagi mikilvægt að hafa góða almannavarnaumgjörð því alltaf getum við átt von á því að einhverjar hamfarir eða slys eigi sér stað þar sem grípa þarf til slíks neyðarbúnaðar eins og er í umræddri neyðarvarnakerru.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image