• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
17
Apr

Formenn VLFA, VR, Eflingar og Framsýnar funda með forsætisráðherra

Formenn Verkalýðsfélags Akraness, VR, Eflingar og Framsýnar hafa fundað nokkuð stíft að undanförnu enda hafa þessi félög í hyggju að standa þétt saman í komandi kjarasamningum.

Liður í þessu samstarfi þessara stéttarfélaga var að fara og hitta forsætisráðherra en á fundinum var henni gerð grein fyrir þeirri alvarlegu stöðu sem blasir við ef ekki verður komið til móts við kröfur um að lagfæra ráðstöfunartekjur milli- og lágtekjufólks í komandi kjarasamningum.

Það liggur fyrir að komandi kjarasamningar verða gríðarleg áskorun en það er ljóst að til að hægt verði að koma á sátt á vinnumarkaðnum verða allir að vera tilbúnir að hugsa út fyrir kassann ef svo má að orði komast.

Það liggur líka fyrir að aðkoma stjórnvalda að komandi kjarasamningum verður að vera umtalsverð eins og t.d. að létta skattbyrði á milli- og tekjulægstu hópanna í íslensku samfélagi.

Það liggur einnig fyrir að þessi stéttarfélög munu kalla á eftir hinum ýmsu kerfisbreytingum sem lúta að t.d. leigu- og húsnæðismarkaðnum enda ótækt með öllu að neytendur hér á landi búi við okurleigu, okurvexti, verðtryggingu og að húsnæðisliðurinn sé inní lögum um vexti og verðtryggingu.

Það kom fram á fundinum að árlega greiða neytendur hér á landi 60 til 100 þúsundum meira í vaxtakostnað af 35 milljóna húsnæðisláni en gengur og gerist á hinum Norðurlöndunum.

Það liggur líka fyrir að gera þarf kerfisbreytingar á lífeyriskerfinu þar sem hagsmunir launafólks verði hafðir að leiðarljósi og lífeyrissjóðunum verði gert kleift að stofna lítt hagnaðardrifin leigufélög.

Það kom líka fram að þessi félög leggja áherslu á að samið verði með krónutöluhækkunum en ekki prósentuhækkunum enda liggur það algerlega fyrir að prósentuhækkanir eru aflgjafi misskiptingar, óréttlætis og gera ekkert annað en að auka á ójöfnuð á íslenskum vinnumarkaði.

Fundurinn var ágætur en það er einlæg von fulltrúa þessara stéttarfélaga að stjórnvöld og Samtök atvinnulífsins geri sér grein fyrir þeirri alvarlegu stöðu sem mun koma upp ef ekki verður orðið við þessum kröfum.

Það blasir við að ef forða á vinnumarkaðnum frá mjög alvarlegum átökum í upphafi nýs árs þarf svo sannarlega að bretta fram ermar og hefjast handa við að koma hér á samfélagssáttmála þar sem hagsmunir lág- og millitekjuhópa verða hafðir að leiðarljósi.

12
Apr

Aðalfundur 2018

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness verður haldinn miðvikudaginn 25. apríl kl. 17:00 í Gamla Kaupfélaginu, Kirkjubraut 11

Dagskrá:
1.     Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár.
2.     Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til afgreiðslu.
3.     Kosningar sem þurfa að fara fram á aðalfundi samkvæmt 28. grein laga félagsins.
4.     Breyting á reglugerð verkfallssjóðs.
5.     Breyting á lögum félagsins (5., 14. og 29. grein).
6.     Önnur mál.

Á aðalfundi verða ekki afgreiddar með atkvæðagreiðslu aðrar tillögur og ályktanir en þær sem borist hafa til skrifstofu félagsins 5 dögum fyrir aðalfund eins og 28. grein laga félagsins kveður á um.  Ársreikningur félagsins mun liggja frammi á skrifstofu félagsins 10 dögum fyrir aðalfund. Komi tillögur eða ályktanir fram þá munu þær liggja frammi á skrifstofu félagsins og verða einnig  kynntar á heimasíðu félagsins.

Félagsmenn eru eindregið hvattir til að mæta.

Boðið verður upp á kvöldverð eftir fundinn.

09
Apr

Orlofshús sumarið 2018 - Síðasti umsóknardagur í dag

Í dag rennur út frestur til að skila inn umsóknum um orlofshús sumarið 2018. Hægt er að skila inn umsókn á Félagavefnum til miðnættis og einnig er hægt að skila umsókn inn um bréfalúguna á Sunnubraut 13 og á tölvupósti This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Umsóknir sem berast í bréfpósti á morgun verða með í úthlutuninni, en ekki er hægt að skrá umsóknir sem berast í pósti eftir það.

Úthlutun fer fram á morgun og hjá þeim félagsmönnum sem fá úthlutað mun myndast bókun á Félagavefnum seinnipartinn á morgun. Hægt verður að ganga frá greiðslu strax á Félagavefnum.

21
Mar

Þingflokkur Miðflokksins óskar eftir að funda með formönnum VLFA, VR og Eflingar

Þingflokkur Miðflokksins hefur óskað eftir að funda með formönnum Verkalýðsfélags Akraness, VR og Eflingar og verður fundurinn haldinn í dag.

Væntanlega verður til umræðu sú staða sem upp er komin í íslenskri verkalýðshreyfingu með tilkomu meirihluta VR, Eflingar, Verkalýðsfélags Akraness og Framsýnar. En það er morgunljóst að með þessum nýja meirihluta innan ASÍ eru komnar fram nýjar áherslur og stefnur og varða þessar áherslubreytingar hin ýmsu mál sem lúta að hagsmunum launafólks.

Það er ljóst að þessi félög vilja kalla eftir verulegum kerfisbreytingum þar sem hagsmunir lágtekju-og millitekjufólks verði hafðir að leiðarljósi og allt verði gert til að auka ráðstöfunartekjur þeirra eins og kostur er. Þessi félög hafa margvíslegar hugmyndir um hvernig hægt er að gera það og ef það mun kalla á að verkalýðshreyfingin þurfi að fara í róttækar aðgerðir til að knýja þær fram þá eru þessi félög tilbúin að láta kné fylgja kviði til þess.

Það er mat þessara félaga að gera þurfi samfélagssáttmála á okkar forsendum þar sem hagsmunir hins vinnandi manns verði teknir framyfir hagsmuni fjármálakerfisins og þeirrar grímu-og taumlausu græðgisvæðingar sem enn og aftur hefur skotið rótum á meðal margra stjórnenda íslenskra fyrirtækja.

21
Mar

VLFA aðstoðar við gerð 200 skattaframtala fyrir félagsmenn

Eins og undanfarin ár þá hefur Verkalýðsfélag Akraness boðið sínum félagsmönnum upp á aðstoð við skattframtalsskil og er áhætt að segja að þessi þjónusta félagsins sé mjög þörf og vel nýtt af félagsmönnum.

Í ár voru það um 200 skattframtöl sem félagið aðstoðaði við en stór hluti þeirra sem óska eftir aðstoð eru erlendir félagsmenn enda eiga þeir eðlilega oft erfitt með að skilja hvað stendur í framtölunum og þurfa því aðstoð. En það eru einnig Íslendingar sem óska eftir þessari aðstoð og eru stjórn og starfsmenn félagsins mjög ánægð með að geta boðið upp á þessa bráðnauðsynlegu þjónustu.

20
Mar

Orlofshús - Sumar 2018

Á Félagavefnum er nú opið fyrir umsóknir um dvöl í orlofshúsum félagsins sumarið 2018 (Veljið Orlofshús-umsókn til að leggja inn umsókn). Umsóknareyðublöð eru einnig á leiðinni til félagsmanna í pósti. Umsóknarfrestur er til 9. apríl og fer úthlutun fram daginn eftir. Þeir sem ætla að póstleggja umsóknir ættu að hafa það í huga að hafi umsókn ekki borist félaginu 9. apríl er ekki hægt að skrá hana fyrir úthlutun.

Auk orlofshúsa sem félagið á í Húsafelli, Svínadal, Kjós, Ölfusborgum, Hraunborgum og á Akureyri verður boðið upp á dvöl í húsi í Vestmannaeyjum eins og síðustu ár. Því til viðbótar mun VLFA hafa húsaskipti við Framsýn stéttarfélag og geta félagsmenn VLFA dvalið í orlofshúsi á Illugastöðum í Fnjóskadal tímabilið 15. júní til 24. ágúst. Í staðinn geta félagsmenn Framsýnar dvalið í Bláskógum í Svínadal. Einnig hefur félagið tekið eitt hús á leigu í Flókalundi í 6 vikur í sumar.

Úthlutun fer þannig fram að allar umsóknir eru skráðar inn í tölvukerfi félagsins. Við úthlutun raðar kerfið öllum umsóknum í röð eftir punktastöðu, þ.e. þeir umsækjendur sem flesta hafa punktana eru fremstir í röðinni og svo koll af kolli. Ef punktar tveggja eru jafnir fær sá úthlutað sem fyrr sótti um. Kerfið vinnur sig síðan í gegnum umsóknirnar og úthlutar vikum eftir punktastöðu. Þeir félagsmenn sem fá úthlutað geta strax séð það á Félagavefnum, en þar mun myndast bókun sem hægt er að greiða með greiðslukorti. Greiða þarf fyrir úthlutaðar vikur í síðasta lagi 24. apríl. Hafi vika ekki verið greidd fyrir þann tíma er litið svo á að félagsmaðurinn ætli ekki að nýta úthlutaða viku og vikunni er úthlutað aftur.

Þeir sem ekki fá úthlutað í fyrri úthlutun lenda sjálfkrafa í endurúthlutun þar sem þeim vikum er úthlutað sem ekki voru greiddar á eindaga fyrri úthlutunar. Leyfilegt er að breyta umsóknum og leggja inn nýjar fyrir endurúthlutun.

Helstu dagssetningar 2018:

9. apríl - Frestur til að skila inn umsóknum um orlofshús.

10. apríl - Fyrri úthlutun fer fram, allir umsækjendur fá svarbréf í pósti (einnig er hægt að sjá strax hvort bókun hafi myndast inni á Félagavefnum).

24. apríl  - Eindagi fyrri úthlutunar, þeim vikum sem ekki eru greiddar á eindaga er úthlutað aftur.

2. maí  - Endurúthlutun fer fram, þeir sem fá úthlutað fá það staðfest með bréfi.

2. maí - Kl. 12:00 - Fyrstir koma, fyrstir fá! Þeir sem fyrstir koma geta bókað lausar vikur, líka á Félagavefnum (athugið að eftir eindaga endurúthlutunar getur lausum vikum fjölgað).

11. maí  - Eindagi endurúthlutunar, ógreiddar vikur verða lausar til bókunar á Félagavefnum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image