• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
27
Apr

Aðalfundur félagsins tókst mjög vel

Aðalfundi Verkalýðsfélags Akraness var að ljúka rétt í þessu það voru um 40 félagsmenn sem mættu á fundinn.   Það kom fram hjá endurskoðanda félagsins að heildarhagnaður allra sjóða félagsins hefði verið um 21 milljón króna.  Sem þýðir að hagnaður félagsins hafi aukist um 115% á milli ára sem verður að teljast góður árangur hjá nýrri stjórn. 

Tillaga kom frá aðalstjórn um óbreytt félagsgjald sem er 1% og er með því lægsta sem gerist innan Starfsgreinasambands Íslands.

Tillaga kom frá stjórn sjúkrasjóðs um að stórauka sjúkradagpeninga eða úr rétt rúmum 2.700 pr dag í tæpar 3.500 á dag.  Einnig kom tillaga um að hækka greiðslu vegna krabbameinsleitar úr 1.500 í 2.500 er þetta gert vegna góðrar afkomu sjóðsins.  Allar þessar tillögur voru samþykktar. 

Það kom fram að sjúkradagpeningar til handa félagsmönnum hefðu hækkað um 30% frá því að ný stjórn tók við.  

Nokkrir fundarmenn lýstu yfir mikilli ánægju með hvernig til hefði tekist hjá stjórn félagsins á sínu fyrsta starfsári og ljóst að allt annar bragur væri komin á Verkalýðsfélag Akraness til hins betra.   Ljóst er orðið að þær hremmingar sem Verkalýðsfélag Akraness hefur gengið í gegnum á liðnum árum eru að baki. 

Það kom fram í skýrslu stjórnar að það hefði fjölgað um 199 félagsmenn á milli ára sem er afar ánægjulegt.  Markmið stjórnar Verkalýðfélags Akraness er hvellskýrt það er að vera það stéttarfélag á Íslandi sem mest og best þjónar sínum félagsmönnum.  Vissulega eru þetta háleit markmið, en með viljann að vopni er allt hægt.

27
Apr

Reglur við úthlutun orlofshúsa

Nokkuð hefur verið um að félagsmenn hafi hringt á skrifstofu og verið að velta því fyrir sér hvers vegna þeir hafi ekki fengið úthlutað orlofhúsi, en næsti maður hafi kannski fengið tvö ár í röð.  Því ræður punktakerfið sem er innifalið í því tölvukerfi sem félagið notar við skráningu iðgjalda og heldur utan um upplýsingar um félagsmenn.  Hér til hliðar undir liðnum orlofshús er að finna allar nánari upplýsingar um úthlutunarkerfið og eru félagsmenn hvattir til að kynna sér þær reglur vel. 

26
Apr

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness verður haldinn á morgun miðvikudaginn 27. apríl

Aðalfundur félagsins verður haldinn á morgun að Kirkjubraut 40. 3, hæð og hefst fundurinn kl. 20.00.   Félagsmenn eru hvattir til að mæta.  Boðið verður upp á kaffiveitingar í fundarlok

26
Apr

Bréf sent út til þeirra sem sóttu um orlofshús hjá félaginu

Úthlutun orlofshúsa félagsins er lokið.   Munu allir þeir félagsmenn sem sóttu um orlofshús hjá félaginu fá sent bréf heim á næstu dögum.  Í bréfinu mun koma fram  hvort viðkomandi hafi fengið úthlutað orlofshúsi á vegum félagsins eða ekki.  Vel á þriðja hundrað umsóknir bárust skrifstofu félagsins. 

25
Apr

Starfsmenn Klafa og Fangs vilja hefja viðræður um nýjan kjarasamning strax

Starfsmenn Klafa og Fangs eru orðnir nokkuð pirraðir yfir hversu seint gengur að hefja viðræður um nýjan kjarasamning.  Verkalýðsfélag Akraness hefur verið í sambandi við forsvarsmenn Klafa og Fang að undanförnu og var formanni félagsins tjáð fyrir helgi að eitthvað myndi gerast í þessari viku.  Verkalýðsfélag Akraness tekur heilshugar undir með starfsmönnum að hreyfing verður að fara að komast á viðræðurnar

21
Apr

Heildarhagnaður allra sjóða Verklýðsfélags Akraness var rétt tæp 21 milljón króna á síðasta ári

Endurskoðandi Verkalýðsfélags Akraness hefur kynnt fyrir stjórn félagsins ársreikninga félagsins fyrir árið 2004.  Heildarhagnaður allra sjóða félagsins nam tæpri 21 milljón króna sem er 115% aukning miðað við árið áður.  Það verður að segjast alveg eins og er að nýkjörinni stjórn hefur svo sannarlega tekist vel upp á sínu fyrsta starfsári.  Það mun samt sem áður taka nokkurn tíma í viðbót að vinna Verklýðsfélag Akraness úr þeim hremmingum sem búið var að koma félaginu í.  Eitt er víst að stjórn félagsins er svo sannarlega  á réttri leið með að vinna félagið úr þeim erfiðleikum sem það var komið í.   Hægt að skoða myndir þegar endurskoðandi félagsins fór yfir reikiningina með stjórn félagsins.  Smellið á myndir og síðan stjórnarfundir.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image