• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
23
Aug

Það eru fleiri með stökkbreytta höfuðstóla en Orkuveitan

Haraldur Flosi Tryggvason, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, segir í viðtali á mbl.is að gjaldskráin muni hækka töluvert og reiknar með því að hlutfall fyrirhugaðrar gjaldskrárhækkunar fyrirtækisins verði „tveggja stafa tala“.

Það kemur einnig fram í fréttinni að ákvörðun borgarstjórnar, í kjölfar bankahrunsins 2008, um að gjaldskrár borgarinnar skyldu ekki hækkaðar á árinu 2009, gerði það að verkum að Orkuveitan gat ekki brugðist við stökkbreytingu erlendra lána sinna með stækkun tekjustofna, að því er fram kemur í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.

Hækkun á gjaldskrám Orkuveitunnar upp á 10% eða meira mun bitna illilega á okkur Skagamönnum enda eru flestir Akurnesingar í viðskiptum við Orkuveitu Reykjavíkur.  Það má lesa úr þessari frétt um fyrirhugaðar gjaldskrárhækkun fyrirtækisins að hún sé vegna mjög slæmrar skuldastöðu fyrirtæksins og vegna stökkbreytingu á erlendum lánum sem Orkuveitan er með. 

Það er ekki bara Orkuveita Reykjavíkur sem er með stökkbreytta höfðustóla erlendra lána og er rétt að rifja upp ef einhver skyldi ekki vita það að íslenskir launþegar eru með stökkbreytingu á öllum sínum lánum bæði hvað varðar erlend lán sem og á verðtryggðu íslensku lánunum. 

Það hlýtur þá að vera eðlilegt að gerð verði launakrafa uppá 10% eða meira á Reykjavíkurborg, Akraneskaupstað og Borgarbyggð í komandi kjarasamningum til að starfsmenn þessara sveitarfélaga geti mætt stökkbreyttum höfuðstól sinna lána eins og Orkuveitan hefur í hyggju að gera.  En rétt er að geta þess að þessi áðurnefndu sveitarfélög eiga og reka Orkuveitu Reykjavíkur.

Þetta er algjörlega orðið óþolandi að ríki, sveitarfélög, tryggingafélög, verslunareigendur og aðrir þjónustuaðilar varpi sífellt sínum vanda viðstöðulaust út í verðlagið og ætlist til um leið að íslenskir launþegar sitji og horfi á aðgerðalausir. Það vill til að allir kjarasamningar verða lausir á þessu ári og á þeirri forsendu er gríðarlega mikilvægt að verkalýðshreyfingin standi fast í lappirnar og bæti hag sinna félagsmanna eins og kostur er.

18
Aug

Vistvæn stóriðja

Hvalveiðarnar hafa gengið mjög vel í sumar og eru nú komnir heldur fleiri hvalir á land en á sama tíma í fyrra, þrátt fyrir að veiðarnar hafi byrjað tíu dögum seinna en þá.

Búið er að veiða um 90 hvali. Ástæður betri veiða nú eru að hvalurinn er nær landinu en í fyrra og veður hefur verið mjög hagstætt, en á síðustu vertíð var þoka ítrekað að hamla veiðunum.

Hvalur hf hefur leyfi til veiða á 175 langreyðum á þessari vertíð. Þar með er talin 25 dýra veiðiheimild sem fluttist frá síðustu vertíð en þá tókst ekki að veiða allan kvótann.  

Það er morgunljóst að hvalveiðar hafa gríðarlega jákvæð áhrif á atvinnulífið hér á Akranesi og í nærsveitum en um 150 manns hafa atvinnu af hvalveiðum og eru umtalsverðir tekjumöguleikar í boði fyrir starfsmenn. Það er unnið á vöktum allan sólarhringinn og voru meðallaun verkafólks á vertíðinni í fyrra rétt tæpar 600 þúsund á mánuði en rétt er að geta þess að mjög mikil vinna lá að baki slíkum launum.

Verkalýðsfélag Akraness fagnar því innilega að hvalveiðar séu nú stundaðar við Íslandsstrendur að nýju, enda hafa þær mjög jákvæð áhrif á allt samfélagið hér á Akranesi eins og áður hefur komið fram.

Það er alveg hægt að líkja veiðum og vinnslu á hval við vistvæna stóriðju enda skila þessa veiðar okkar samfélagi gríðarlegum ávinningi.  Þökk sé Kristjáni Loftssyni og hans mönnum.

16
Aug

Ný lög um vinnustaðaskírteini

Atvinnurekendur og starfsmenn þeirra sem vinna við byggingastarfsemi, mannvirkjagerð, rekstur gististaða og veitingarekstur skulu bera vinnustaðaskírteini við störf sín frá 15. ágúst 2010, sbr. samkomulag ASÍ og SA frá 15. júní 2010. Atvinnurekandi skal sjá til þess að starfsmenn fái vinnustaðaskírteini þegar þeir hefja störf. Atvinnurekandi og starfsmenn hans skulu bera skírteini á sér og vera reiðubúnir að framvísa því, sé þess óskað af eftirlitsfulltrúa. Með atvinnurekanda er einnig átt við sjálfstætt starfandi einstaklinga. Á vinnustaðaskírteini skulu eftirfarandi upplýsingar koma fram:

Nafn og kennitala viðkomandi starfsmanns ásamt mynd. Starfsheiti er valkvætt. Ef starfsmaður erlends þjónustufyrirtækis er ekki með íslenska kennitölu skal skrá fæðingardag og ár.

Nafn/heiti atvinnurekanda eins og það er skráð í fyrirtækjaskrá (eða heiti starfsmannaleigu eins og það er skráð hjá Vinnumálastofnun).

Atvinnurekandi er ábyrgur fyrir gerð vinnustaðaskírteinisins og þeim upplýsingum sem þar koma fram. Hann er ekki bundinn við tiltekið form eða útlit svo lengi sem skírteinið uppfyllir skilyrðin hér að framan. Þau fyrirtæki sem þegar hafa gefið út vinnustaðaskírteini fyrir sig og starfsmenn sína, sem uppfylla skilyrðin hér að framan þurfa ekki að gera sérstakar ráðstafanir.

Beri atvinnurekandi eða starfsmenn hans ekki vinnustaðaskírteini á sér við störf sín á vegum atvinnurekanda á viðkomandi vinnustað atvinnurekanda skv. 2. mgr. 3. gr. geta eftirlitsfulltrúarnir tilkynnt um það til Vinnumálastofnunar. Vinnumálastofnun getur krafist þess að atvinnurekandi bæti úr annmörkunum innan hæfilegs frests að viðlögðum dagsektum. Sé um ítrekað brot atvinnurekanda að ræða getur Vinnumálastofnun krafist þess að atvinnurekandi bæti úr annmörkum innan sólarhrings. Ákvörðun um dagsektir skv. 1. mgr. skal tilkynnt skriflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að.

Dagsektir geta numið allt að 100.000 krónum hvern dag. Við ákvörðun fjárhæðar dagsekta skal meðal annars líta til fjölda starfsmanna atvinnurekanda og hversu umsvifamikill viðkomandi atvinnurekstur er. Dagsektir skulu renna í ríkissjóð. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á Skrifstofu félagsins eða á heimasíðunni www.skirteini.is.  

16
Aug

Undirbúningur hafinn að ferð eldri félagsmanna

Eins og undanfarin ár mun Verkalýðsfélags Akraness bjóða félagsmönnum sínum 70 ára og eldri ásamt mökum í dagsferð á vegum félagsins. Í ár er ferðin fyrirhuguð fimmtudaginn 2. september nk. og er undirbúningurinn þegar hafinn.

Leiðarlýsing er ekki tilbúin til birtingar, en verið er að skoða margar spennandi hugmyndir. Yfirleitt hafa um 100 manns tekið þátt í þessari ferð þannig að það er að nógu að hyggja við undirbúninginn.

Félagsmönnum VLFA 70 ára og eldri verður sent boðsbréf í næstu viku þar sem nánari upplýsingar koma fram.

13
Aug

Ykkur grálúsugum almúganum kemur þetta ekki við

Geirmundur Kristinsson, fyrrv. sparisjóðsstjóri Sparisjóðsins í KeflavíkGeirmundur Kristinsson, fyrrv. sparisjóðsstjóri Sparisjóðsins í KeflavíkEins og fram hefur komið hér á heimasíðu félagsins þá tapaði lífeyrissjóðurinn Festa sem Verkalýðsfélag Akraness er aðili að 1,6 milljörðum vegna falls Sparisjóðs Keflavíkur.  Á þeirri forsendu hefur m.a þurft að skerða lífeyrisgreiðslur til handa sjóðsfélögum Verkalýðsfélags Akraness og öðrum sjóðsfélögum sem tilheyra lífeyrissjóðnum vítt og breitt um landið.  Á árinu 2009 voru áunninn réttindi sjóðsfélaga Festu lækkuð um 2,5 % og aftur um 5% 2010 og einnig var framtíðarávinnsla lækkuð um 2,5% 2009.

Á sama tíma og þessar skerðingar dynja á þeim sem síst skyldi þ.e.a.s öryrkjum og lífeyrisþegum Festu og einnig lífeyrisþegum annarra lífeyrissjóða, þá upplýsist samkvæmt tekjublaði Mannlífs að Geirmundur Kristinsson fyrrverandi sparisjóðsstjóri Keflavíkur var með rúma 21 milljón á mánuði á síðasta ári eða sem nemur 255 miljónum á ársgrundvelli.  Rétt er að geta þess að hluti af þessum launum hjá Geirmundi var úttekt úr séreignarsjóði.

Það er nöturlegt, dapurlegt og í raun ógeðfellt að verða vitni að slíkum ofurlaunum hjá einstaklingi sem stjórnaði banka sem fór jafn rækilega í þrot og raun bar vitni. Það er ekki bara að Sparisjóður Keflavíkur hafi verið rekinn með 17 milljarða tapi 2008 og 19 milljarða tapi 2009 heldur töpuðu lífeyrissjóðirnir gríðarlegum upphæðum við fall Sparisjóðsins. Eins og fram kom í fréttum þá kom ríkið inn með 12 milljarða króna í sjóðinn á grundvelli neyðarlaganna. Reikna má með að ríkið leggi á annan tug milljarða í yfirtöku sína á sjóðnum.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness spyr: Hvernig má það vera að fyrrverandi sparisjóðsstjóri Keflavíkur gangi út með 255 milljónir eftir að hafa lagt sparisjóðinn í rúst sem einnig hefur gert það að verkum að skerða þurfti lífeyrisgreiðslur til elli- og örorkuþega lífeyrissjóða þessa lands? Því til viðbótar þurftu íslenskir skattgreiðendur að leggja til um 20 milljarða vegna yfirtöku ríksins á sparisjóðnum eins og áður hefur komið fram.  Hver er ábyrgð þessara manna sem stjórnuðu bönkunum?  Er ábyrgðin fólgin í því að ganga út með 255 milljónir?

Þessir snillingar sem stjórnuðu bönkunum sögðu alltaf að ábyrgðin sem þeir bæru væri svo gríðarleg og okkur grálúsugum almúganum kæmi ekkert við hver laun þeir væru.  Nú hefur hins vegar komið í ljós að okkur kom þetta svo sannarlega við því reikingurinn vegna afglapa þessara manna í starfi er sendur á alþýðu þessa lands.

11
Aug

Nauðsynlegt að finna út lágmarksframfærslustuðul

Það er með hreinustu ólíkindum að ekki skuli vera til nein opinber viðmið um lágmarksframfærslu af hálfu hins opinbera. Það kom til dæmis fram í fyrirspurn á Alþingi í vetur til Árna Páls Árnasonar, félagsmálaráðherra, hvort ráðherrann telji að setja eigi opinber viðmið eða lög um lágmarksframfærslu. Í svari ráðherrans kom fram að miklar umræður hafi verið um hvort setja ætti slík viðmið en ekki hafi náðst samstaða um málið. Formaður spyr sig: Hverjir hafa verið að leggjast gegn því að svokölluð viðmið um lágmarksframfærslu verði fundin út hér á landi?

Það liggur fyrir að Ráðgjafastofa heimilanna hefur verið að reikna út hvað hinir ýmsu hópar þurfi til þess að framfleyta sér en inni í þeim viðmiðum er ekkert tekið tillit til kostnaðar vegna til dæmis síma, áskrifta, fasteignagjalda, húsaleigu eða lána vegna húsnæðiskaupa, trygginga, bifreiða, dagheimilisgjalda fleiri kostnaðarliða sem eru hjá hverri fjölskyldu. Það er einnig til svokallaður framfærslustuðull sveitarfélaganna og byggist hann á sama grunni, það er að segja einungis til þess að fólk geti dregið andann. Ekkert er tekið tillit til hinna ýmsu kostnaðarliða er lúta að því að reka heimili. Í framfærslustuðli sveitarfélaganna kemur fram að lágmarksframfærsla einstaklings sé 125.540 kr. á mánuði og tveggja manna fjölskylda þurfi 200.864 kr. á mánuði. Þessi framfærslustuðull byggist á því að viðkomandi aðilar búi nánast í tjaldi.

Það er gríðarlega mikilvægt að fundinn verði út nákvæmur framfærslustuðull með öllum hefðbundnum útgjaldaliðum venjulegs fólks en formaður tekur undir með Hörpu Njálsdóttur félagsfræðingi sem mikið hefur fjallað um fátækt á Íslandi. Hún hefur til dæmis sagt að stjórnvöld hafi alla tíð vitað að greiddur væri lífeyrir sem sé langt undir því að duga til framfærslu. Og hún segir einnig að á þeirri forsendu vilji stjórnvöld ekki fá upp á yfirborðið hver hin raunverulega lágmarks framfærsla er í þessu landi.

Hjá Ráðgjafastofu heimilanna kemur fram að hjón með tvö börn þurfi 155.600 kr. á mánuði til þess að framfleyta sér sem sundurliðast með eftirfarandi hætti. Matur 105.000, tómstundir 8.300, fatakaup 17.400, lækniskostnaður 6.600 og ýmislegt 8.300. Eins og sést á þessu er ekkert tekið á þessum hefðbundnu útgjaldaliðum sem vísitölufjölskyldan er með. Það er alls ekki óalgengt að heimilislína hjóna með tvö börn sé í kringum 150-200 þúsund krónur á mánuði þannig að ekkert er ólíklegt að lágmarksframfærsla hjóna með tvö börn sé í kringum 3-400 þúsund krónur á mánuði. Stjórnvöld verða að finna út þennan lágmarksframfærslustuðul því það er ekki hægt að bjóða upp á lágmarkslaun og lágmarksbætur sem duga ekki til að fólk geti séð sér farborða.

Viðtal var við formann Verkalýðsfélag Akraness um þetta mál í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni síðastliðinn föstudag og má hlusta á það hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image