• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
27
Dec

Aðalfundur sjómannadeildar

Sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness vill minna sjómenn sína á aðalfund deildarinnar sem haldinn verður á morgun, þriðjudaginn 28. desember, klukkan 14. Fundurinn verður haldinn í fundarsal á skrifstofu félagsins að Sunnubraut 13.

Auk venjubundinnar dagskrár aðalfundar verður farið yfir komandi kjarasamninga en kjarasamningur sjómanna verður laus nú um áramótin. Félagið hvetur sjómenn til að mæta. Boðið verður upp á kaffiveitingar.

23
Dec

Gleðileg jól kæru félagsmenn

Stjórn og starfsmenn Verkalýðsfélags Akraness óska félagsmönnum sínum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla með von um bættan hag á komandi ári. 

22
Dec

Sérkjaramenn Norðuráls fá einnig eingreiðslu uppá 150.000 kr

Eins og fram kom hér á heimasíðunni 9. júní þá neituðu eigendur Norðuráls að greiða svokölluðum sérkjaramönnum fyrirtækisins eingreiðslu uppá 150.000 kr. eins um hafði verið samið í kjarasamningi frá 20 apríl 2010.  En í kjarasamningnum var samið um eingreiðslu til allra starfsmanna Norðuráls uppá 150.000 kr en þegar kom til útgreiðslu á umræddri eingreiðslu tilkynntu eigendur fyrirtækisins að sérkjaramenn sem eru t.d vaktstjórar ættu ekki rétt á slíkri greiðslu.

Verkalýðsfélag Akraness mótmælti þessari ákvörðun harðlega við forsvarsmenn Norðuráls og taldi félagið að um klárt samningsbrot væri að ræða.  Á þeirri forsendu var lögmanni félagsins falið að undirbúa málssókn fyrir félagsdómi til að sækja umrædda eingreiðslu.  Nú hefur fyrirtækið hins vegar horfið frá þessari fyrirætlan sinni og tilkynnt þeim aðilum sem um ræðir að umrædd eingreiðsla verði greidd að fullu og það með vöxtum.

Verkalýðsfélag Akraness fagnar þassari niðurstöðu innilega, enda lá það algjörlega klárt fyrir að þessi ákvörðun eigenda Norðuráls stóðst enga skoðun.  Eftir þeim upplýsingum sem félagið hefur þá eru þetta um 50 starfsmenn sem um ræðir þannig að heildar endurgreiðslan lætur nærri 10 milljónum fyrir utan vexti og ljóst að þá starfsmenn sem um ræðir munar um minna.

20
Dec

Kröfugerðir að líta dagsins ljós

Síldarverksmiðjan og AkraneshöfnSíldarverksmiðjan og AkraneshöfnÁ föstudaginn skilaði félagið kröfugerð vegna tveggja sérkjarasamninga. Annars vegar var það kjarasamningur fyrir starfsmenn Klafa og hins vegar fyrir starfsmenn Síldarbræðslunnar á Akranesi. Kröfugerðin vegna þessara tveggja samninga er með sambærilegum hækkunum og kröfugerðin hjá Elkem Ísland en heildarkostnaðarmat þess samings var um 28%.

Félagið var búið að skila inn kröfugerð vegna starfsmanna Elkem Íslands og nú er verið að vinna að kröfugerð vegna launaliðar í kjarasamningi Norðuráls en launaliður þess samnings rennur út nú um áramótin.

Það er alveg ljóst að kjarasamningsviðræður vegna allra þeirra samninga sem nú eru lausir munu ekki hefjast af neinum þunga fyrr en eftir áramót en gríðarlegt álag verður í kringum þær viðræður þar sem margir kjarasamningar eru að renna út eða eru það nú þegar. Kröfugerð félagsins tekur töluvert mið af atvinnugreinum og er alveg ljóst að félagið mun sækja nokkuð þungt á þau fyrirtæki sem eru með starfsemi tengda útflutningi, eins og til dæmis stóriðjurnar og fiskvinnslufyrirtækin.

17
Dec

Afsláttur fyrir félagsmenn hjá Reykjavíkurhótelum

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni hafa allir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness nú fengið sent afsláttarkort sem veitir þeim afslátt í ýmsum fyrirtækjum á Akranesi. Starfsmenn skrifstofu leitast við að bæta við afsláttarkjörum eftir fremsta megni og nú hefur félagið gert samning við Reykjavíkurhótel varðandi afslátt til handa félagsmanna.

Um er að ræða afslætti sem gilda á Grand Hótel, Hótel Reykjavík Centrum og á Fosshótelunum. Á þetta við bæði um gistingu og veitingar en einnig er hægt að leigja sali sem henta vel fyrir hvers konar fundi, ráðstefnur, námskeið og fleira. Hér má sjá nánari upplýsingar um afsláttarkjörin. Er það von félagsins að þessi kjör muni nýtast félagsmönnum vel, hvort sem þeir eru búsettir á Akranesi eða annars staðar á landinu.

15
Dec

Samningafundur vegna kjarasamnings Elkem Íslands var haldinn í gær

Í gær var fyrsti samningafundur vegna kjarasamnings starfsmanna Elkem Íslands haldinn á Grundartanga. Til fundarins mættu Ragnar Árnason frá Samtökum atvinnulífsins, Sigrún Pálsdóttir, mannauðsstjóri fyrirtækisins og formenn Verkalýðsfélags Akraness og FIT. Einnig sátu fundinn aðaltrúnaðarmaður og einn af trúnaðartengiliðum starfsmanna.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness lagði fram kröfugerð starfsmanna Elkem Íslands og gerði grein fyrir henni en heildarkostnaðarmat kröfugerðarinnar er um 28%. Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá er það meginkrafa Verkalýðsfélags Akraness að sækja að þeim fyrirtækjum sem eru starfandi í útflutningi og hafa verið að njóta góðrar afkomu vegna gengisbreytinga á íslensku krónunni.

Í kröfugerðinni er lögð áhersla á hækkun grunnlauna hjá starfsmönnum Elkem Íslands. Það er mat félagsins að grunnlaun byrjanda upp á rétt rúmar 184 þúsund krónur séu skammarlega lág miðað við eðli þeirrar starfsemi sem unnin er í þessari verksmiðju enda eru starfsmenn að vinna við mjög krefjandi og jafnvel hættulegar aðstæður.

Rekstur Elkem Íslands hefur gengið nokkuð vel að undanförnu og nægir að nefna að eigið fé fyrirtækisins er um 20 milljarðar króna. Fyrirtækið gerir upp í norskum krónum og hefur íslenska krónan veikst um 73% miðað við þá norsku frá 1. janúar 2008 fram til dagsins í dag. Á þessu sést að fyrirtækið hefur umtalsvert svigrúm til þess að hækka laun starfsmanna allverulega.

Það er alveg ljóst að umtalsverð kaupmáttarrýrnun hefur verið hjá starfsmönnum Elkem Íslands frá 1. janúar 2008 en formanni reiknast til að kaupmáttarskerðingin sé um 10% frá þeim tíma. Formaður gerði fulltrúa Samtaka atvinnulífsins það algjörlega ljóst að þessi samningur er sjálfstæður kjarasamningur og mun félagið ekki líða það að dráttur verði á kjarasamningsviðræðum vegna kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði. Staða stóriðjufyrirtækja og fyrirtækja í útflutningi er eðli málsins samkvæmt mun betri til launahækkana heldur en margra annarra atvinnugreina hér á landi um þessar mundir. Á þeirri forsendu mun félagið ekki sýna neina linkind í viðræðum við fyrirtæki sem eru starfandi í útflutningi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image