• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
13
Jan

SALEK samkomulagið mun hafa alvarlegar afleiðingar fyrir launafólk

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðu félagsins þá vísaði Verkalýðsfélag Akraness ágreiningi sínum vegna svokallaðs rammasamkomulags aðila vinnumarkaðarins, nánar tiltekið SALEK samkomulagsins, til Félagsdóms. Félagið vill fá úr því skorið hvort það standist lög um stéttarfélög og vinnudeilur sem og stjórnarskrá Íslands að hægt sé að gera samkomulag sem hefur það markmið að rýra frjálsan samningsrétt stéttarfélaga.

Þessu máli hafa margir sýnt mikinn áhuga og nú síðast fékk lögmaður félagsins ósk frá kennurum við Háskóla Reykjavíkur sem kenna vinnurétt um að fá aðgang að stefnunni og ætlar viðkomandi kennari að mæta með nemendur sína í dómssal 27. janúar næstkomandi þegar málflutningurinn fer fram fyrir Félagsdómi. Það liggur algjörlega fyrir að hér er um gríðarlegt hagsmunamál að ræða fyrir íslenska launþega enda er skýrt kveðið á um í rammasamkomulaginu að sett verði á laggirnar þjóðhagsráð sem hafi það markmið að meta hvert svigrúm til launabreytinga getur orðið þegar kjarasamningar eru lausir. Það kemur líka hvellskýrt fram í rammasamkomulaginu að stéttarfélögunum verður skylt að halda sig innan þess svigrúms sem þjóðhagsráð ákvarðar á hverjum tíma fyrir sig.

Hvernig í himninum getur það talist frjáls samningsréttur að fela einhverju þjóðhagsráði að ákvarða hverjar hámarks launabreytingar mega vera? Þetta er eins og áður sagði algjörlega andstætt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur og einnig meðal annars 2. málsgrein 75. greinar stjórnarskrárinnar. Það er hinsvegar með ólíkindum að forysta Alþýðusambands Íslands ætli sér á 100 ára afmæli sambandsins að vinna að því að þessi hornsteinn stéttarfélagsbaráttunnar, sem er frjáls samningsréttur, verði virtur að vettugi eða í það minnsta stórlega skertur. Það er mat lögmanns félagsins að það sé andstætt lögunum og stjórnarskránni að semja um slíka skerðingu á samningsréttinum. En nú er æði margt sem bendir til þess að forysta Alþýðusambands Íslands sé einnig að vinna að því leynt og ljóst við endurskoðun kjarasamninga að rammasamkomulag aðila vinnumarkaðarins verði meitlað í það samkomulag.

Eins og áður sagði er samningsfrelsið hornsteinn stéttarfélagsbaráttunnar á Íslandi og má ekki undir nokkrum kringumstæðum skerða þann rétt. Það er með ólíkindum að búið sé að ákveða hverjir muni sitja í þessu þjóðhagsráði en í fylgiskjali sem ríkisstjórnin gaf út til að liðka fyrir kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði í aðdraganda kjarasamninga 2015 var einmitt fjallað um hverjir muni sitja í þjóðhagsráði. Þeir sem eru tilgreindir til að eiga aðild að því eru oddvitar ríkisstjórnar á hverjum tíma (nú forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra) og fulltrúar Seðlabanka Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka atvinnulífsins, Alþýðusambands Íslands og sameiginlegur fulltrúi samtaka launþega á opinberum vinnumarkaði. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá ríkisstjórninni sem ber heitið Aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að greiða fyrir gerð kjarasamninga 2015.

Já, hugsið ykkur að þjóðhagsráð sem á að ákvarða hverjar launabreytingar meðal annars verkafólks, iðnaðarmanna og annarra eiga að vera í hvert sinn sem kjarasamningar eru lausir samanstandi af fimm fulltrúum launagreiðenda en launafólk hafi tvo fulltrúa - einn frá ASÍ sem væntanlega verður forseti Alþýðusambandsins og einn frá opinberu stéttarfélögunum. Formaður biður íslenskt launafólk að átta sig á því skemmdarverki sem hér er verið að reyna að vinna þar sem markvisst er unnið að því að taka samningsréttinn hægt og bítandi af íslensku launafólki og færa hann yfir á gráðuga valdaelítu. Formaður hefur trú á því að fólk átti sig ekki almennilega á því hverju er verið að vinna að á bakvið tjöldin. En grundvallaratriðið er að eins og lögum um stéttarfélög og vinnudeilur er háttað í dag sem og stjórnarskránni þá er óheimilt að skerða samningsréttinn með þeim hætti sem menn hafa í hyggju að gera. Nægir að nefna í því samhengi að hæstiréttur hefur margoft fjallað um samningsrétt stéttarfélaga og launamanna en í niðurstöðu hæstaréttar í máli er laut að kjarasamningi smábátasjómanna árið 2015 segir meðal annars um samningsfrelsið:

Í samningsrétti gildir grundvallarreglan um samningsfrelsi en í henni felst að aðilar ráða efni samnings sín á milli. Þessi regla gildir meðal annars á vinnumarkaði. Á þeim vettvangi er samningsfrelsið jafnframt varið af 2. mgr. 75 gr. stjórnarskrárinnar á þann veg að löggjafanum ber með lögum að kveða á um rétt manna til að semja um starfskjör sín og önnur réttindi tengd vinnu. Að þessu gættu verður að koma ótvírætt fram í lögum ef ákvæði þeirra eiga að vera ófrávíkjanleg við gerð kjarasamninga.

Skýrara verður það ekki frá hæstarétti en forysta Alþýðusambandsins er nú ekki mikið að hlusta á hæstarétt sem margoft hefur fjallað um lögbundinn, frjálsan samningsrétt stéttarfélaga. Nei, hún ætlar að gefa launamönnum það í afmælisgjöf á 100 ára afmæli sambandsins að samningsrétturinn verði skertur. Hafi menn ævarandi skömm fyrir að verið sé að vinna á slíkri vegferð sem mun koma illilega niður á íslensku launafólki til lengri tíma litið ef menn ná að koma þessu máli í gegn með því ofbeldi sem unnið er með. Það er mat formanns þó vissulega séu það stór orð að ef þetta SALEK samkomulag verður að veruleika þá sé þetta nánast landráð gagnvart íslenskum launþegum.

Eitt er víst, að Verkalýðsfélag Akraness mun reyna eins og það getur að brjóta þessa fyrirætlan á bak aftur en formaður vill samt ítreka að það er erfitt, já mjög erfitt, fyrir eitt stéttarfélag að standa í slíkri baráttu gegn þessum miklu öflum sem ráða íslenskum vinnumarkaði. Til þess að þetta mál sigrist þurfa launamenn að kynna sér þessi mál vel og rækilega og láta sitt stéttarfélag ekki komast upp með að samningsrétturinn verði fótum troðinn en hann er eins og áður sagði búinn að vera hornsteinn stéttarfélagsbaráttunnar í gegnum árin og áratugina.

06
Jan

Félagsdómur mun taka SALEK málið fyrir 27. janúar

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá þurfti Verkalýðsfélag Akraness að vísa kjaradeilu sinni við Samband íslenskra sveitarfélaga vegna samnings félagsins við Akraneskaupstað til Félagsdóms. Ástæðan er sú að Samband íslenskra sveitarfélaga gerði þá skýlausu kröfu á VLFA að svokallað SALEK samkomulag skyldi fylgja með kjarasamningnum sem fylgiskjal. Þetta gat Verkalýðsfélag Akraness á engan hátt sætt sig við, einfaldlega vegna þess að í SALEK samkomulaginu eru ákvæði þar sem samningsréttur félagsins, til dæmis hvað aðra kjarasamninga varðar, er skertur verulega. Til dæmis er skýrt kveðið á um í SALEK samkomulaginu að tekið verði upp svokallað þjóðhagsráð eftir árið 2018 og þetta þjóðhagsráð muni ákveða hverjar launabreytingar í kjarasamningum geta að hámarki orðið. Það er líka skýrt kveðið á um í SALEK samkomulaginu að stéttarfélögunum verði skylt að halda sig innan þess svigrúms sem þjóðhagsráð ákvarðar á hverjum tíma fyrir sig. 

Þetta er klárt brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur enda liggur fyrir að samningsumboð liggur hjá stéttarfélögunum og því er það mat félagsins að þann samningsrétt sé ekki hægt að skerða með þeim hætti sem nú er stefnt að. Enda er það ekki frjáls samningsréttur ef þjóhagsráð ákvarðar til dæmis að launabreytingar geti orðið að hámarki 3% og félaginu sé þá skylt að semja innan þess svigrúms algjörlega óháð getu þeirra fyrirtækja og atvinnugreina sem eru á félagssvæði VLFA. Það er ekki bara að þetta sé brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur heldur er þetta líka brot á 74. grein stjórnarskrárinnar að mati félagsins. Það er ótrúlegt að Alþýðusamband Íslands skuli vera að taka þátt í SALEK samkomulaginu enda er samningsréttur stéttarfélaganna hornsteinn stéttarfélagsbaráttu á Íslandi. Tilvist stéttarfélaga verður verulega ógnað ef þetta SALEK samkomulag verður að veruleika þar sem völd til launabreytinga verða færð yfir á fámenna valdaelítu.

Nú liggur fyrir að aðalmeðferð í þessu máli fyrir Félagsdómi verður 27. janúar og verður afar fróðlegt að sjá hver niðurstaðan í þessu máli verður en formaður félagsins hefur lúmskan grun um að Samband íslenskra sveitarfélaga muni reyna ítrekað að fá málinu vísað frá Félagsdómi því það er hans tilfinning að þessir aðilar vilji ekki fá efnislega niðurstöðu í málið. Það verður hinsvegar að koma í ljós hvort þær grunsemdir eigi við rök að styðjast og mun félagið mæta því ef svo ber undir. Hér er um eitt mesta hagsmunamál að ræða sem íslenskt launafólk hefur staðið frammi fyrir því það má ekki undir nokkrum kringumstæðum gerast að samningsréttur stéttarfélaganna verði skertur eins og hugmyndir eru um í þessu SALEK samkomulagi. Það er líka rétt að geta þess að það er enginn ágreiningur milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og Verkalýðsfélags Akraness um launabreytingar í samningnum heldur er það einungis þessi óbilgjarna krafa um að félagið samþykki SALEK samkomulagið sem fylgiskjal sem gerir það að verkum að ekki er hægt að ganga frá kjarasamningi fyrr en niðurstaða liggur fyrir hjá Félagsdómi.

29
Dec

Sjómenn telja öryggi sínu ógnað - tilbúnir í verkfallsátök

Rétt í þessu lauk aðalfundi sjómannadeildar Verkalýðsfélags Akraness en á annað hundrað sjómenn tilheyra henni. Eðli málsins samkvæmt var staða kjaramála sjómanna efst á dagskrá þessa fundar auk venjubundinna aðalfundarstarfa.

Eins og allir vita hafa íslenskir sjómenn verið með lausan kjarasamning frá 1. janúar 2011 eða í rétt tæp 5 ár. Djúpstæður ágreiningur hefur verið á milli samningsaðila en ein af aðalkröfum útvegsmanna hefur verið að sjómenn tækju þátt í aukinni kostnaðarhlutdeild í veiðigjöldum, tryggingagjöldum og kolefnisgjaldi. Þessi krafa útvegsmanna myndi þýða að laun sjómanna gætu lækkað um 10-15% ef gengið yrði að henni.

Þessi krafa er náttúrulega með ólíkindum og er hún uppfull af óbilgirni og ósanngirni, sérstaklega í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að afkoma sjávarútvegs hefur aldrei nokkurn tímann verið jafn góð og á undanförnum árum. Sem dæmi þá liggur fyrir að arðgreiðslur til eigenda sjávarútvegsins námu 13,5 milljörðum á árinu 2014 og rúmum 11 milljörðum árið 2013. Þessu til viðbótar hafa skuldir sjávarútvegsins hríðlækkað á undanförnum árum eða um 153 milljarða sem gera 31% frá árinu 2009.

Fundarmönnum var heitt í hamsi yfir þeirri óbilgirni sem þeir finna frá útgerðarmönnum og brann meðal annars heitt á þeim mál er snýst um fækkun skipverja en það hefur verið stefna útgerðarmanna að undanförnu að fækka verulega til dæmis á uppsjávarskipunum og í sumum tilfellum eru skipverjar einungis 8 um borð í þessum stóru og öflugu skipum. Kom skýrt fram hjá sjómönnum sem sóttu fundinn að þeir telji að verið sé að ógna þeirra öryggi illilega með þeirri fækkun sem er að eiga sér stað. Töldu þeir afar brýnt að hvergi yrði hvikað frá þeirri kröfu að tryggð yrði lágmarksmönnun um borð í skipunum enda eru þeir eins og áður sagði farnir að telja að þessi fækkun sé farin að auka verulega slysahættu og að öryggi þeirra sé ógnað.  

Rétt er að vekja sérstaka athygli á að það er ekki bara að hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja og arðgreiðslur til eigenda hafi stóraukist eins og áður sagði heldur hafa rekstrarskilyrði sjávarútvegsins líka batnað gríðarlega og nægir að nefna í því samhengi að olíuverð það sem af er árinu 2015 hefur verið 44% lægra að meðaltali en á árinu 2014. Þrátt fyrir þessar staðreyndir og mikinn hagnað sjávarútvegsfyrirtækja á undanförnum árum þá hafa útgerðarmenn gert þessa óbilgjörnu kröfu á íslenska sjómenn. Það gætir mikillar gremju á meðal sjómanna í þessari kjaradeilu enda er þolinmæði þeirra á þrotum. Meginkrafa sjómanna er að þeir fái bætur vegna afnáms sjómannaafsláttar en hann var tekinn af sjómönnum í þrepum. Einnig er krafa frá sjómönnum um að tekið verði á verðmyndun sjávarafurða og allur fiskur fari á markað. Eins og áður sagði vilja sjómenn einnig að tekið verði á mönnunarmálum á skipum en krafa er um að á uppsjávarskipunum verði eigi færri en 10 skipverjar þegar veiðar eru stundaðar með flottrolli og eigi færri en 12 þegar um nótaveiðar er að ræða og 15 á ísfiskstogurum. Öllum þessum kröfum hafa útvegsmenn alfarið hafnað.

Það er ljóst að sjómenn íhuga sterklega að láta sverfa til stáls en verið er að kanna núna á meðal íslenskra sjómanna vítt og breitt um landið hvað þeir vilja raunverulega gera en á þessum fundi var þungur tónn í sjómönnum og virðist vera að menn séu tilbúnir að láta kné fylgja kviði til að ná fram sanngjörnum og réttlátum kjarasamningi sem á að gagnast báðum samningsaðilum ágætlega. Semsagt, sjómenn sem tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness eru svo sannarlega tilbúnir til að knýja fram sanngjarnar kröfur sínar, til dæmis er lúta að mönnunarmálum, með því að fara í verkfallsátök. Mun formaður koma þessum skilaboðum áleiðis til Sjómannasambands Íslands sem fer með samningsumboð fyrir Verkalýðsfélag Akraness sem og önnur aðildarfélög sín.

29
Dec

Aðalfundur sjómannadeildar í dag

Aðalfundur sjómannadeildar Verkalýðsfélags Akraness verður haldinn í dag kl. 14:00 í fundarsal félagsins að Sunnubraut 13. Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf, staða kjaramála og önnur mál.

Sjómenn eru eindregið hvattir til að mæta!

23
Dec

Jólakveðja

Stjórn og starfsfólk Verkalýðsfélags Akraness sendir félagsmönnum sínum nær og fjær og landsmönnum öllum hugheilar jóla- og nýárskveðjur með þökkum fyrir góð samskipti á líðandi ári og óskum um farsæld á ári komandi.

23
Dec

Opnunartími skrifstofu VLFA yfir jól og áramót

Skrifstofa Verkalýðsfélags Akraness er lokuð frá hádegi í dag Þorláksmessu. Lokað er á Aðfangadag, Gamlársdag og Nýársdag, en annars gildir hefðbundnin opnunartími yfir hátíðarnar.

Þeir félagsmenn sem eiga bókaða bústaði yfir jól hafa þegar sótt leigusamninga sína. Þeir sem eiga bókaðan bústað yfir áramót þurfa að sækja leigusamninga í síðasta lagi fyrir kl. 16 þriðjudaginn 30. desember.

 

Styrkir og sjúkradagpeningar verða greiddir út þann 30. desember og þurfa gögn í tengslum við þær umsóknir að hafa borist fyrir kl. 16 þriðjudaginn 29. desember.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image