• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Jan

SALEK samkomulagið bíður dómsuppkvaðningar

Í gær tók Félagsdómur mál Verkalýðsfélags Akraness gegn Sambandi íslenskra sveitarfélaga fyrir vegna svokallaðs SALEK samkomulags. Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hafa forsvarsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga lýst því yfir að þeir séu skuldbundnir af SALEK samkomulaginu og gera þá skýlausu kröfu að SALEK samkomulagið í heild sinni verði hluti af kjarasamningi Verkalýðsfélags Akraness vegna starfsmanna sem starfa hjá Akraneskaupstað.

Það sorglega í þessu máli er að það er enginn ágreiningur hvað varðar launabreytingar í umræddum kjarasamningi heldur einungis hvort Sambandi íslenskra sveitarfélaga sé stætt á því að krefjast þess að SALEK samkomulagið sé sem fylgiskjal við samninginn en með slíku er ljóst að samkomulagið í heild sinni er orðið hluti af kjarasamningnum. Enda kemur fram á heimasíðu ASÍ þar sem fjallað er um gildi bókana og fylgiskjala með kjarasamningum og þar sem fjallað er um gildi fylgiskjala segir orðrétt á heimasíðu ASÍ: "Sé efni fylgiskjala með kjarasamningi samningur aðila um tiltekin efni, hafa þau sama gildi og kjarasamningurinn sjálfur."

Þetta myndi þýða ef að Verkalýðsfélag Akraness myndi samþykkja að SALEK samkomulagið yrði með sem fylgiskjal með kjarasamningi við Samband íslenskra sveitarfélaga að félagið væri búið að samþykkja að fullu allt sem í SALEK samkomulaginu stendur eins og til dæmis þjóðhagsráð, samræmda launastefnu til 2018 og önnur atriði sem að í samkomulaginu er kveðið á um. Eðli málsins samkvæmt hefur Verkalýðsfélag Akraness enga heimild til að samþykkja slíkt enda væri það gróft brot á frjálsum samningsrétti stéttarfélagsins samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur.

Formaður VLFA sagði í vitnaleiðslum fyrir Félagsdómi í gær hverjar afleiðingarnar yrðu af því ef félagið myndi samþykkja að umrætt SALEK samkomulag myndi fylgja með kjarasamningi við Samband íslenskra sveitarfélaga. Afleiðingarnar væru fólgnar í því að í SALEK samkomulaginu er kveðið á um að launabreytingar frá nóvember 2013 til 31. desember 2018 megi ekki vera hærri en sem nemur 32%. Þetta myndi þýða að starfsmenn Elkem Ísland á Grundartanga sem verða með lausan samning í árslok 2017 ættu ekki rétt á neinni launahækkun fyrir árið 2018 vegna þess að þeir fylla upp í 32% kostnaðarrammann sem SALEK hópurinn er búinn að ákveða að megi vera hámark. Semsagt, þegar Verkalýðsfélag Akraness myndi mæta að samningsborðinu vegna kjarasamnings Elkem Ísland á Grundartanga þá væri í boði 0% launahækkun vegna þess að SALEK hópurinn segir að ekki megi semja um meira en 32% á áðurnefndu tímabili.

Það er morgunljóst að Verkalýðsfélag Akraness er alls ekki aðili að þessu samkomulagi enda veitti félagið ASÍ aldrei umboð til þess að ganga frá umræddu SALEK samkomulagi. Samkomulagi sem gengur markvisst út á að skerða samningsrétt stéttarfélaganna og ógna tilvist þeirra enda er samningsfrelsið eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni, hornsteinn stéttarfélagsbaráttunnar. En með þessu SALEK samkomulagi er verið að marka vörðu að því að taka hægt og bítandi samningsréttinn af stéttarfélögum og færa hann yfir á miðstýrðan vettvang eða eins og kemur fram í rammasamkomulaginu, að stofnað verði þjóðhagsráð sem muni ákvarða allar launabreytingar á islenskum vinnumarkaði og stéttarfélögunum verði skylt að semja innan þess svigrúms.

Lögmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga gerðu það að aðalkröfu sinni eins og svo oft áður í svona málum að þessu máli yrði vísað frá á grundvelli þess að það ætti ekki heima undir Félagsdómi. Það er með ólíkindum að Samband íslenskra sveitarfélaga vilji ekki fá efnislega niðurstöðu í þetta mál, mál sem lýtur að einum mestu hagsmunum sem íslenskt launafólk hefur staðið frammi fyrir nánast frá stofnun verkalýðshreyfingarinnar. Hagsmunum sem lúta að því að samningsrétturinn sé hjá fólkinu sjálfu en ekki einhverjum fámennum hópi sem getur ákvarðað hverjar hámarks launabreytingar mega vera eins og kveðið er á um í samræmdu launastefnunni sem og því sem lýtur að þjóðhagsráði.

Formaður vonast til þess að Félagsdómur haldi áfram að dæma með sama hætti og Félagsdómur, Héraðsdómur og Hæstiréttur hafa gert hingað til þegar kemur að samningsfrelsi stéttarfélaganna en allir dómar sem fallið hafa hvað samningsfrelsi varðar hafa verið ótvíræðir. Samningsfrelsi stéttarfélaganna hefur margoft verið staðfest á öllum þessum dómstigum enda er samningsfrelsið bundið í lög um stéttarfélög og vinnudeilur og stjórnarskránna. Félagsdómur á ekki að geta komist að þeirri niðurstöðu að þetta mál heyri ekki undir Félagsdóm enda liggur fyrir krafa um að SALEK samkomulagið sé fylgiskjal með kjarasamningi sem þýðir að það er ígildi kjarasamnings eins og kemur fram á heimasíðu ASÍ og í þessu SALEK samkomulagi er verið að skerða samningsfrelsi stéttarfélaganna sem er brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur og þar af leiðandi á málið heima undir Félagsdómi. Að þessu sögðu á dómurinn ekki að geta komist að annarri niðurstöðu en að þetta sé óskuldbindandi og andstætt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur og stjórnarskránni.

Væntanlega mun dómur verða kveðinn upp eftir viku til tíu daga en þetta mál hefur dregist algjörlega úr hófi enda eru liðnir tveir mánuðir frá því að þessu máli var stefnt til Félagsdóms. Formaður hefur sínar skýringar á því hvers vegna það hefur gerst en þær verða ekki tjáðar að svo stöddu.

25
Jan

SALEK málið tekið fyrir á miðvikudaginn fyrir Félagsdómi

Á miðvikudaginn næstkomandi mun Félagsdómur taka fyrir mál Verkalýðsfélags Akraness vegna svokallaðs SALEK samkomulags. En eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefur Samband íslenskra sveitarfélaga gert þá skýlausu kröfu að til að Verkalýðsfélag Akraness fái að njóta þeirra launabreytinga sem eru í boði þá þurfi SALEK samkomulagið í heild sinni að fylgja með sem fylgiskjal við kjarasamninginn en slíku hefur Verkalýðsfélag Akraness alfarið hafnað enda er félagið sannfært um að svokallað rammasamkomulag aðila vinnumarkaðarins frá 27. október sé gróft brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur og stjórnarskránni.

Eins og flestir vita undirritaði forseti ASÍ fyrir hönd sambandsins rammasamkomulag aðila vinnumarkaðarins 27. október 2015 og er það mat VLFA að forsetinn hafi ekki haft neitt umboð til að undirrita umrætt samkomulag. Samkomulag sem skuldbindur aðildarfélög ASÍ til að ákvarða launabreytingar allt til ársins 2018 sem og afsala sér endurskoðun kjarasamninga svo ekki sé talað um að sett verði á laggirnar nýtt vinnumarkaðslíkan þar sem skipað verði svokallað þjóðhagsráð sem mun ákvarða allar hámarks launabreytingar og að stéttarfélögunum verði skylt að vera innan þess svigrúms eins og kveðið er á um í samkomulaginu. Nánast engin umræða fór fram um þetta rammasamkomulag, ekki var kallað eftir neinu umboði af hálfu VLFA hvað samkomulagið varðaði og fékk Starfsgreinasamband Íslands munnlega kynningu nokkrum mínútum áður en samkomulagið var undirritað en engin drög eða gögn voru lögð í hendur aðildarfélaganna. Með öðrum orðum, þetta rammasamkomulag var undirritað án nokkurs umboðs enda kom fram á miðstjórnarfundi sem haldinn var 4. nóvember að nú þyrfti að fara að kynna samkomulagið á meðal aðildarfélaga ASÍ og út á hvað það gengi. Semsagt, gengið var frá samkomulaginu og síðan átti að fara að kynna það en rétt er að taka það fram að engin kynning hefur farið fram af hálfu Alþýðusambands Íslands á meðal aðildarfélaga sambandsins, allavega ekki hjá Verkalýðsfélagi Akraness.

Eins og áður hefur komið fram gengur rammasamkomulagið að verulegu leyti út á að skerða samningsfrelsi stéttarfélaganna, meðal annars að ákveða fyrirfram hverjar launabreytingar megi vera til ársins 2018, endurskoðun kjarasamninga var afsalað með nýjum samningi og svo eins og áður sagði á að setja á laggirnar nýtt þjóðhagsráð sem mun takmarka samningsfrelsi stéttarfélaganna. Það liggur fyrir að Samband íslenskra sveitarfélaga segir hvellskýrt að allt rammasamkomulagið sé undir og verði að vera fylgiskjal með þeim samningi sem VLFA á eftir að gera við sambandið, ellegar verði ekki gengið frá samningnum og þeir segja líka að þeir séu skuldbundnir í gegnum þetta rammasamkomulag sem þeir hafi gert við ASÍ. Þetta er eðli málsins samkvæmt gróft brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur sem og stjórnarskránni enda er samningsfrelsið hornsteinn stéttarfélagsbaráttu á Íslandi.  

Rétt er að geta þess að bæði Hæstiréttur og Félagsdómur hafa margoft fjallað um samningsfrelsi stéttarfélaganna og segir meðal annars í dómsorði frá Hæstarétti: "Með vísan til viðtekinnar túlkunar á 1. og 2. mgr. 11. gr. mannréttindasáttmálans verður að túlka 1. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar svo að ákvæðið verndi ekki einungis rétt manna til að stofna stéttarfélög heldur verndi það einnig frelsi stéttarfélaga til að standa vörð um og tryggja hagsmuni félagsmanna sinna. Samningsfrelsi félaganna er leið að slíku marki og nýtur því sérstakrar verndar." Skýrara verður það ekki frá Hæstarétti Íslands!

Einnig er rétt að vísa í annan dóm um samningsfrelsið frá Hæstarétti en þar segir orðrétt:  "Í samningsrétti gildir grundvallarreglan um samningsfrelsi en í henni felst að aðilar ráða efni samnings sín á milli. Þessi regla gildir meðal annars á vinnumarkaði. Á þeim vettvangi er samningsfrelsið jafnframt varið af 2. mgr. 75 gr. stjórnarskrárinnar á þann veg að löggjafanum ber með lögum að kveða á um rétt manna til að semja um starfskjör sín og önnur réttindi tengd vinnu. Að þessu gættu verður að koma ótvírætt fram í lögum ef ákvæði þeirra eiga að vera ófrávíkjanleg við gerð kjarasamninga."

Já, skýrara verður það ekki hvað Hæstarétt varðar þegar fjallað er um samningsfrelsi stéttarfélaganna og ef aðilar rammasamkomulagsins vilja meina að þeir séu ekki að skerða samningsfrelsið með þessu samkomulagi, samkomulagi sem gengur út á að takmarka launabreytingar til handa launafólki, þá veit formaður VLFA ekki hvað það er að skerða samningsfrelsi. Að sjálfsögðu er verið að skerða samningsfrelsi með þessu rammasamkomulagi enda eru aðilar að samkomulaginu búnir að skuldbinda sig til að fara eftir því í hvívetna eins og fram kemur í rammasamkomulaginu.

Það eru þónokkrir forystumenn í verkalýðshreyfingunni nú þegar búnir að viðurkenna að þeir telji að SALEK samkomulagið sé skerðing á samningsfrelsi stéttarfélaganna. Nægir að nefna í því samhengi að á formannafundi ASÍ 28. október kom fram í máli formanna RSÍ, Byggiðnar og Framsýnar á Húsavík að þeir teldu að umrætt rammasamkomulag væri skerðing á samningsfrelsi. Einnig hefur formaður heyrt haft eftir fyrrverandi formanni Verkamannasambands Íslands að umrætt SALEK samkomulag væri klár skerðing á samningsrétti og frelsi stéttarfélaga. Og fyrrverandi varaforseti ASÍ sagði inni á fésbókarsíðu sambandsins að SALEK samkomulagið væri lúmsk tilraun til að taka lögvarinn samningsrétt af stéttarfélögum.

Það er líka rétt að rifja það upp að forseti ASÍ sagði á framkvæmdastjórnarfundi Samiðnar að ef SALEK samkomulagið hefði verið komið á laggirnar fyrr þá væri ljóst að ekki hefði verið hægt að semja um þær miklu launabreytingar sem samið var um við stóriðjurnar á Grundartanga. Þetta sýnir svo ekki verður um villst þá skuldbindingu sem mun felast í SALEK samkomulaginu ef það verður að veruleika og ef einhver ætlar að segja að þetta sé ekki skerðing á samningsfrelsi Verkalýðsfélags Akraness og brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur þá veit formaður ekki hvað.

Það er gríðarlega mikilvægt að Félagsdómur kynni sér þetta mál vel og rækilega og verji frjálsan samningsrétt íslenskra stéttarfélaga sem er bundinn í lögum og stjórnarskrá því eins og áður sagði er samningsfrelsi launafólks hornsteinn íslenskrar stéttarfélagsbaráttu.

22
Jan

Laun starfsmanna Norðuráls hafa hækkað um tæp 16% á einu ári!

Í mars á síðasta ári gerði Verkalýðsfélag Akraness tímamótasamning við Norðurál á Grundartanga en í þeim samningi var samið um að tengja launabreytingar starfsmanna við hækkun launavísitölunnar. Samningurinn byggðist á því að upphafshækkunin var 6% og auk þess var samið um að starfsmenn fengju á nýjan leik hækkun samkvæmt hækkun launavísitölu frá desember 2014 til júní 2015 og reyndist sú hækkun vera 4,25%. Næsta hækkun var frá júlí 2015 til desember 2015 og á þessu 6 mánaða tímabili munu starfsmenn núna fá hækkun frá og með 1. janúar um 4,703%.

Þetta þýðir að á þessu eina ári frá því að Verkalýðsfélag Akraness gerði kjarasamning við Norðurál þá hafa laun starfsmanna hækkað um tæp 16%. Það er ekki bara að launin hafi hækkað um 16% heldur fengu starfsmenn 300.000 kr. eingreiðslu samhliða kjarasamningnum í mars í fyrra. Á þessu eina ári hafa starfsmenn á vöktum í kerskála því hækkað með öllu um frá tæpum 72.000 kr. upp í 86.000 kr. á mánuði.

Heildarlaun byrjanda í Norðuráli á 12 tíma vöktum í kerskála fyrir 182 tíma á mánuði eru núna komin upp í 525.940 kr. og starfsmaður sem er með lengsta starfsaldurinn er kominn upp í tæpar 633.000 kr. Það er sorglegt til þess að vita að á sama tíma og þessi kjarasamningur náðist til handa starfsmanna Norðuráls þá hefur ekkert gengið að semja við Alcan í Straumsvík en samningur Norðuráls rann út á sama tíma og samningur Alcan. Verkalýðsfélag Akraness getur ekki neitt annað en sent starfsmönnum Alcan í Straumsvík baráttukveðjur í því að ná fram í það minnsta sambærilegum launahækkunum og náðust í Norðuráli en það er hinsvegar sorglegt til þess að vita að samninganefnd Alþýðusambands Íslands skuli hafa skilið starfsmenn Alcan eftir kjarasamningslausa þegar endurskoðun kjarasamninga fór fram.

19
Jan

Verkalýðsfélag Akraness veitir Ágústi Júlíussyni styrk

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness hefur tekið ákvörðun um að veita Ágústi Júlíussyni, sundkappa, 200.000 kr. styrk úr styrktarsjóði félagsins. Ágúst, sem er fæddur árið 1989, hefur staðið sig gríðarlega vel og margoft orðið Íslandsmeistari undanfarin ár. Árið 2015 varð hann til dæmis fjórfaldur Íslandsmeistari og keppti einnig á Smáþjóðarleikunum með landsliði Íslands í boðsundi þar sem liðið landaði silfri.

Ágúst vinnur fulla vinnu meðfram stífum sundæfingum og er þannig góð fyrirmynd sem sýnir að allt er hægt með góðu skipulagi og ef viljinn er fyrir hendi. Nú í janúar var Ágúst kjörinn íþróttamaður Akraness í annað sinn og er hann vel að þeim titli kominn.

Verkalýðsfélag Akraness óskar Ágústi til hamingju með árangurinn og óskar honum velfarnaðar á komandi sundári.

14
Jan

Skoðanakönnun leiddi í ljós að 81,8% sjómanna vilja að hafinn sé undirbúningur verkfalls

Eins og fram kom hér á heimasíðunni þann 22. desember þá sendi Verkalýðsfélag Akraness öllum sjómönnum í sjómannadeild félagsins skoðanakönnun þar sem óskað var eftir afstöðu til þess hvað yrði gert vegna stöðunnar í 5 ára erfiðri kjaradeilu við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi. Kjarasamningur sjómanna hefur verið laus frá 1. janúar 2011 og er verulegrar óþreyju farið að gæta hjá íslenskum sjómönnum. Valmöguleikarnir sem voru í boði voru eftirfarandi:

- Óbreytt ástand, þ.e. samningar lausir áfram.
- Semja um hækkun kauptryggingar, launaliða og þrjú atriði önnur.
- Undirbúa verkfallsaðgerðir.

Það er skemmst frá því að segja að skoðanakönnunin skilaði afdráttarlausri niðurstöðu. 81,8% af þeim sem tóku þátt vildu hefja undirbúning verkfallsaðgerða en 18,2% vildu semja um hækkun kauptryggingar og launaliða. Enginn vildi óbreytt ástand.

Það er alveg ljóst að þolinmæði sjómanna er greinilega að þrotum komin og ekki að ástæðulausu. Því miður hefur gætt mikillar óbilgirni af hálfu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi í þessum viðræðum við Sjómannasamband Íslands en kröfur sjómanna eru sanngjarnar og réttlátar. Þær samanstanda í meginatriðum af þremur þáttum. Þeir eru að tekið verði á verðlagsmálum á sjávarafurðum, að komið verði skikki á mönnunarmál um borð í fiskiskipum en að undanförnu hafa útgerðir fækkað umtalsvert um borð í uppsjávarskipum og telja margir sjómenn að öryggi og velferð þeirra sé orðið ógnað vegna þessarar fækkunar og í þriðja lagi vilja sjómenn eðlilega fá leiðréttingu vegna afnáms sjómannaafsláttar en hann var tekinn af sjómönnum í þrepum á undanförnum árum.

Sjómannasamband Íslands fer með samningsumboð fyrir Verkalýðsfélag Akraness eins og öll önnur stéttarfélög á landinu og mun formaður nú koma þessum skilaboðum til Sjómannasambands Íslands en formaður VLFA telur að verið sé að gera sambærilegar kannanir vítt og breitt um landið til að kanna afstöðu sjómanna til hvaða aðgerða á að grípa. Ef niðurstaða verður með sambærilegum hætti í öðrum sjómannafélögum er ljóst að það getur farið að draga til tíðinda hvað varðar verkfallsaðgerðir sjómanna.

13
Jan

HB Grandi lækkar kostnað vegna nettengingar sjómanna

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefur Verkalýðsfélag Akraness verið að vinna að því að fá netkostnað sjómanna lækkaðan og hefur félagið meðal annars átt í góðum samskiptum við forsvarsmenn HB Granda hvað þau mál varðar. Hefur formaður meðal annars átt nokkra fundi með þeim og leiddu þeir til þess að fyrirtækið hefur verið að leita leiða til þess að ná niður þessum kostnaði. Eins og einnig hefur komið fram hér á heimasíðunni þá hefur umtalsverðrar gremju gætt hjá sjómönnum vegna þess mikla kostnaðar sem þeir hafa þurft að greiða vegna internetnotkunar. Það er  afar ánægjulegt að fyrirtækið hefur nú brugðist við þessu erindi með það að markmiði að bæta þjónustuna og lækka kostnaðinn en slíkar aðgerðir hafa nú verið tilkynntar bæði sjómönnum og VLFA. Þetta er jákvætt skref sem hér hefur verið stigið af hálfu forsvarsmanna HB Granda.  

Í tilkynningu sem forsvarsmenn HB Granda hafa sent bæði áhafnarmeðlimum á skipum sínum og Verkalýðsfélagi Akraness kemur fram að þeir vonist til þess að þessi tilraun skili sér í lækkuðum kostnaði og bættu aðgengi sjómanna að 3G/4G sambandi. Einnig kemur fram í tilkynningunni að þeir séu stöðugt að vinna í því að bæta þá þjónustu sem sjómönnum stendur til boða og að búast megi við frekari þróun í þá átt á næstu mánuðum.

Hér að neðan er tilkynningin sem send var til VLFA og sjómanna HB Granda:

Tilkynningin:

Undarfarna mánuði hafa netmál áhafna verið til umræðu innan fyrirtækisins. Til skoðunnar hafa verið hugmyndir sem miða að því að lækka kostnað áhafnarmeðlima við netnotkun en jafnframt tryggja að sambandið sé eins gott og hægt er. Þrátt fyrir að ákveðin niðurstaða sé komin í málið nú verður áfram unnið að því að bæta þá þjónustu sem er í boði án þess að kostnaður hækki. Hér að neðan er upptalning á helstu breytingum sem gerðar eru frá áramótum og þær hugmyndir sem unnið er að:

1.       Til að tryggja hóflega notkun á interneti gegn vægu gjaldi fær hver sjómaður 1GB á mánuði án kostnaðar. Þetta gagnamagn verður ekki færanlegt milli mánaða eða skipverja. Allt gagnamagn umfram 1GB mun áfram bera gjald upp á 10 kr/mb.

2.       Gerðar verða tilraunir um borð í Sturlaugi með netsenda. Þeim er ætlað að dreifa hefðbundnu 3G neti sem símafyrirtækin bjóða upp á um allt skip. Þegar skip er í 3G sambandi(ekki  3G sjósamband) ættu skipverjar að geta nýtt þjónustu síns símafyrirtækis um allt skip í stað takmarkaðra svæða eins og nú er. Ef þetta gefur góða raun verður þetta sett upp í fleiri skipum, ef þetta gengur ekki verða frekari möguleikar kannaðir. Til upplýsinga þá bíður núverandi netkerfi skipana ekki upp á aðskilnað í innheimtu notkunnar vegna 3G og gervihnattar, því er innheimt eitt gjald óháð tengingu.

3.       Verið er að kanna tæknilega möguleika á að slíta nettengingu með tilteknu millibili, t.d 6 tíma fresti. Þá þarf viðkomandi að skrá sig inn aftur og fær þá upplýsingar um stöðu á gagnamagni.

4.       Óskað hefur verið eftir einföldum ráðleggingum til skipverja frá þjónustuaðila um hvernig má minnka notkun gagnamagns á sjó.

5.       Hafið í huga að langstærstur hluti gagnamagns kemur frá samskiptamiðlinum Facebook. Við ráðleggjum því eindregið að menn notist við m.facebook.com og hugi vel að gagnastillingum vefsíðunnar og símtækja sinna.

Verkalýðsfélag Akraness ítrekar það að gott er að forsvarsmenn HB Granda séu að vinna markvisst að því að lækka þennan kostnað og bæta aðgengi sjómanna að internetinu enda liggur fyrir að það er mikilvægt fyrir sjómenn að hafa þessa þjónustu til að geta verið í samskiptum við umheiminn og fylgst vel með því sem er að gerast um hina víðu veröld. Samstarf félagsins við forsvarsmenn HB Granda í þessu máli hefur verið til mikillar fyrirmyndar og það er ætíð gott þegar fyrirtæki bregðast við með jákvæðum hætti svo ekki sé talað um að fyrirtækið ætlar að þróa þessi mál enn frekar með hagsmuni sjómanna að leiðarljósi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image