• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
31
Oct

Ályktun um að vísitala til neysluverðs til verðtryggingar skv. lögum um vexti og verðtryggingu verði hér eftir reiknuð út án húsnæðisliðar

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðu VLFA stóð þing Alþýðusambands Íslands yfir dagana 26. til 28. október.  Verkalýðsfélag Akraness hefur ætíð látið til sín taka á þessum þingum enda eru þing ASÍ æðsta vald innan verkalýðshreyfingarinnar og þar eru stefna í hinum ýmsu málum mótuð.  Á þessu þingi var engin undartekning á og lagði VLFA fram tvær ályktanir. Önnur laut að samningsfrelsi stéttarfélaganna en hin laut að því að skorað var á stjórnvöld og Alþingi að vísitala til neysluverðs til verðtryggingar skv. lögum um vexti og verðtryggingu verði hér eftir reiknuð út án húsnæðisliðar.  

Það er skemmst að segja frá því að þessi tillaga okkar var samþykkt með öllum greiddum atkvæða. Formaður Verkalýðsfélags Akraness skal fúslega viðurkenna að hann var afar ánægður með að hafa fengið þessa tillögu samþykkta enda morgunljóst að hér er um gríðarlega hagsmuni fyrir íslensk heimili um að ræða og nægir að nefna í því samhengi að 12 mánaða verðbólgan í dag er 1,8% en án húsnæðisliðar er hún neikvæð um 0,5%.

Til að sýna fram á hversu miklir hagsmunir eru hér í húfi fyrir heimilin og íslenska neytendur þá eru verðtryggðar skuldir heimilanna um 2000 milljarðar og hækkun á neysluvísitölunni upp á 1,8% hefur leitt til þess að skuldir heimilanna hafa hækkað um 36 milljarða á síðustu 12 mánuðum. Ef húsnæðisliðurinn hefði ekki verið inn í neysluvísitölunni til reikningar á verðtryggðum skuldum heimilanna þá hefðu þær lækkað um 10 milljarða! Hér er mismunur uppá 46 milljarða heimilunum í óhag!!!

Á þessu sést hversu mikið hagsmunamál er hér á ferðinni fyrir íslenska neytendur og núna er ekkert annað en í stöðunni en að stjórnvöld og Alþingi hlusti á kröfu þings ASÍ og taki húsnæðisliðinn út úr mælingunni hvað verðtryggðar skuldir heimilanna varðar og það strax eftir kosningar. Það er morgunljóst að Verkalýðsfélag Akraness mun fylgja þessari áskorun frá þingi ASÍ fast eftir!

Tillaga sem samþykkt var á þingi ASÍ hljóðaði með eftirfarandi hætti: „42. þing Alþýðusambands Íslands skorar á stjórnvöld og Alþingi að vísitala til neysluverðs til verðtryggingar skv. lögum um vexti og verðtryggingu verði hér eftir reiknuð út án húsnæðisliðar.“

31
Oct

Formaður fundar með félagsmönnum innan Elkem

Formaður Verkalýðsfélags Akraness fundaði á þriðjudaginn síðastliðinn með félagsmönnum VLFA sem starfa hjá Elkem Ísland. Tilefnið var kjarasamningur þeirra sem rennur út í janúar á næsta ári. Farið var yfir hugmyndir að kröfugerð, SALEK samkomulagið og fleira. Fínar og gagnlegar umræður sköpuðust á milli starfsmanna Elkems og formanni en tveir fundir voru haldnir þann daginn.

24
Oct

Kvennafrídagurinn- skrifstofa VLFA lokar klukkan 14:00

Í dag 24. október verður skrifstofa Verkalýðsfélags Akraness lokað klukkan 14:00 í tilefni af kvennafrídeginum.  Eins og allir vita Þá er kvennafrídagurinn – dagurinn þar sem konur meta árangur jafnréttisbaráttunnar og brýna sig til frekari baráttu. Kynbundinn launamunur á vinnumarkaði er því miður bláköld staðreynd og er samfélagslegt mein sem verður að vinna bug á.

Það liggur fyrir að meðal atvinnutekjur kvenna eru 70,3% af meðal atvinnutekjum karla. Konur eru því með 29,7% lægri meðaltal atvinnutekna. Samkvæmt því eru konur búnar að vinna fyrir sínum launum eftir 5 klukkustundir og 38 mínútur miðað við fullan vinnudag frá kl. 9–17. Daglegum vinnuskyldum kvenna er því lokið kl. 14:38.

Verkalýðsfélags Akraness hvetur konur til að taka þátt í því að ganga út á slaginu 14:38 og sækja útifundi og viðburði um allt land í tilefni dagsins. Íslenskar konur hafa vakið verðskuldaða athygli um allan heim vegna baráttugleði og skilyrðislausrar kröfu um jafnrétti en baráttunni en hvergi nærri lokið. Stöndum saman og útrýmum birtingamyndum misréttis!

17
Oct

VLFA leggur fram ályktanir fyrir þing ASÍ

Eftir rétt rúma viku eða nánar til getið 26. október hefst 42. þing Alþýðusambands Íslands og stendur þingið yfir í 3 daga. Rétt er að geta þess að þing Alþýðusambandsins eru æðsta vald í málefnum sambandsins, en þau eru haldin á tveggja ára fresti. Hvert aðildarfélag hefur rétt á að senda a.m.k. einn fulltrúa á þing sambandsins og á þingin mæta þrjú hundruð fulltrúar launafólks af öllu landinu til að móta heildarsamtökunum stefnu og starfsáætlun og velja þeim forystu. Verkalýðsfélag Akraness  á 8 þingfulltrúa á þinginu í ár.

Verkalýðsfélag Akraness tekur ætíð virkan þátt á þingum ASÍ og það gerir félagið með því að taka þátt í umræðum og koma þeim sjónarmiðum sem félagið telur að séu til hagsbóta fyrir félagsmenn vel á framfæri.

Þessu til viðbótar leggur VLFA ætíð lagt fram ályktanir til afgreiðslu á þingum ASÍ og það eru fá félög innan ASÍ sem hafa lagt fram fleiri ályktanir en Verkalýðsfélag Akraness á síðastliðnum þingum. Þetta gerir VLFA í ljósi þess að þing ASÍ eru æðsta vald í málefnum sambandsins og það er þingið sem mótar stefnu heildarsamtakanna í hinum ýmsu hagsmunamálum er lúta að félagsmönnum. Á þeirri forsendu er mikilvægt að stéttarfélögin séu virk í að leggja fram tillögur og ályktanir sem félögin telja að séu til hagsbóta fyrir sína félagsmenn.

Á liðnum þingum hefur VLFA lagt fram margar tillögur og ályktanir og nægir að nefna tillögu um að stjórnarmenn í lífeyrissjóðum verði kosnir af öllum sjóðsfélögum og atvinnurekendur fari úr stjórnum sjóðanna, að forseti ASÍ sé kosinn í allsherjarkosningu á meðal allra félagsmanna ASÍ en ekki inná lokuðum þingum ASÍ einnig hefur VLFA lagt fram ályktun um að ASÍ vilji að verðtrygging á neytendalánum verði afnumin og sett verði þak á óverðtryggða vexti.

Á komandi þingi mun Verkalýðsfélag Akraness leggja fram tvær ályktanir. Önnur lýtur að nýju samningalíkani þar sem allt bendir til að mikilvægasti réttur launafólks verði skertur gróflega, en að sjálfsögðu er hér verið að tala um samningsréttinn. Síðari ályktunin lýtur að því að ASÍ beiti sér fyrir því að húsnæðisliðurinn verði tekin út úr mælingu neysluvísitölunnar enda hefur sá liður knúið verðbólguna áfram bæði fyrir og eftir hrun. Þetta er afar mikilvægt í ljósi þess að nánast allar fjárskuldbindingar heimilanna eru tengdar við umrædda neysluvísitölu.

Það er ljóst að fulltrúar Verkalýðsfélags Akraness munu berjast fyrir því að þessar ályktanir fái brautargengi á þinginu enda eru miklir hagsmunir undir í báðum þessum málum en eins og allt launafólk veit þá er samningsréttur launafólks hornsteinn stéttarfélagsbaráttunnar á Íslandi og hann má ekki skerða undir nokkrum kringumstæðum. 

Hægt er að skoða ályktanir Verkalýðsfélags Akraness með því að smella hér og hér.

17
Oct

Sjómenn samþykkja verkfall

Nú er lokið kosningu um ótímabundið verkfall félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness sem starfa á fiskiskipum samkvæmt kjarasamningi Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS).

Kosningaþátttaka var nokkuð góð, á kjörskrá voru 72 sjómenn og greiddu 49 atkvæði, eða 68%. Verkfall var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta eða 96% greiddra atkvæða og er því ljóst að vinnustöðvun mun hefjast kl. 23:00 þann 10. nóvember hafi ekki náðst kjarasamningar milli aðila fyrir þann tíma.

07
Oct

VLFA höfðar fimm dómsmál vegna ágreinings um túlkun kjarasamninga

Það er óhætt að segja að nóg sé að gera hjá Verkalýðsfélagi Akraness um þessar mundir við réttindagæslu fyrir okkar félagsmenn en félagið rekur nú þrjú mál fyrir dómstólum og tvö önnur eru á leið fyrir Héraðsdóm Vesturlands. Þessi fimm mál tengjast þremur fyrirtækjum á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness og lúta að ágreiningi um greiðslu á hvíldartímum, vikulegum frídegi, uppsagnarfresti, túlkun á útreikningi á orlofs- og desemberuppbótum og túlkun á því hvernig ávinnsla á starfsaldri er reiknuð út.

Eins og áður sagði þá eru þrjú mál nú þegar fyrir dómstólum og núna er lögmaður félagsins að undirbúa stefnu á fyrirtækið Skagann ehf. m.a. vegna ágreinings um greiðslu á áunnum hvíldatímum og vikulegum frídegi og skerðingar á kjarasamningsbundnum uppsagnarfresti.

Þau fyrirtæki sem Verkalýðsfélag Akraness hefur stefnt vegna áðurnefnds ágreinings eru auk Skagans ehf, Norðurál og Hvalur hf. Það er ljóst að hér er um mikla fjárhagslega hagsmuni um að ræða og ef þessi mál vinnast öll þá er einnig ljóst að þau munu hafa fordæmisgildi sem mun þýða að fjárhagslega geta þessi mál numið mörgum milljónum jafnvel vel á annan tug milljóna króna.

Rétt er að geta þess málflutningur fyrir Félagsdómi vegna tveggja mála er lúta að túlkun á útreikningi á orlofs- og desemberuppbótum fer fram á miðvikudaginn í næstu viku, en það mál er höfðað gegn Norðuráli. Og síðan er félagið með annað mál sem tekið verður fyrir 25. október gegn Norðuráli og lýtur að ávinnslu á réttindum vegna starfsaldurs.

Síðan er einnig rétt að geta þess að aðalmeðferð í máli sem félagið höfðaði gegn Hval hf. meðal annars vegna skerðingar á hvíldartímum og vikulegum frídegi verður væntanlega fyrir jól í Héraðsdómi Vesturlands.

Það er stefna Verkalýðsfélags Akraness að standa ætíð þéttan vörð um réttindi okkar félagsmanna og ef við teljum að verið sé að brjóta á réttindum okkar fólks þá að sjálfsögðu fer félagið af fullum þunga í að fá niðurstöðu í slík mál og ef ekki tekst að ná samkomulagi við fyrirtækin þá endar slíkur ágreiningur eðli málsins samkvæmt fyrir dómstólum. Verkalýðsfélag Akraness horfir ekki í krónur og aura við að verja hagsmuni sinna félagsmanna.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image