• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
05
Dec

Mikilvægt að fara yfir launaseðlana!

Það þarf ekkert að fara í grafgötur með það hversu mikilvægt það er fyrir allt launafólk að fara ætíð vel yfir launaseðilinn sinn í hverjum mánuði, enda geta alltaf orðið mistök hjá launafulltrúum við útreikning á launum starfsmanna. Verkalýðsfélag Akraness vill árétta þetta enn og aftur því þótt stundum sé launafólk hlunnfarið vísvitandi, þá er oftar en ekki um mistök um að ræða þegar launafólk fær of lítið útborgað.

Í dag fékk félagið t.d. launaseðil frá einum félagsmanni sem starfar við þjónustustörf og við yfirferð formanns félagsins kom í ljós að viðkomandi starfsmaður var á röngum launataxta og munaði rúmum 15.000 krónum á mánuði og var þessi villa búin að vera um allanga hríð.

Að sjálfsögðu hafði félagið samband við viðkomandi fyrirtæki og óskaði eftir skýringum á þessu og viðurkenndi fyrirtækið um leið og það hafði skoðað viðkomandi starfsmann að hér væri um mistök að ræða og þetta yrði leiðrétt eins langt aftur og villan hafi staðið. Það er því ljóst að viðkomandi starfsmaður mun fá leiðréttingu sem nemur tugum þúsunda og munar launafólk um minna.

Verkalýðsfélag Akraness skorar á félagsmenn sína að fara ætíð vel yfir launaseðlana og ef einhverjar spurningar vakna þá endilega hafa samband við skrifstofuna.

02
Dec

VLFA vann tvö mál gegn Norðuráli fyrir Félagsdómi

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðu félagsins þá stefndi Verkalýðsfélag Akraness Norðuráli vegna ágreinings í tveimur málum vegna túlkunar á greinum í kjarasamningi félagsins við Norðurál. Fyrra málið laut að túlkun á réttindaávinnslu starfsmanna til greiðslu orlofs- og desemberuppbóta og seinna málið laut að túlkun á ávinnslu á starfsaldurhækkunum. 

Það er skemmst frá því að segja að Félagsdómur féllst á allar dómskröfur Verkalýðsfélags Akraness í báðum málunum. Norðuráli var gert að greiða Verkalýðsfélagi Akraness 500.000 kr. í málskostnað fyrir hvort málið fyrir sig og var Norðuráli því gert að greiða VLFA samtals 1.000.000 kr. í málskostnað. 

Það er ljóst að umtalsverðir hagsmunir voru í húfi í þessum málum og þá sér í lagi hvað varðar túlkun á réttindaávinnslu starfsmanna til greiðslu á orlofs- og desemberuppbótum. Enda liggur fyrir að um háar upphæðir er að ræða enda eru orlofs- og desemberuppbætur samtals fyrir fullt starf hjá Norðuráli í dag 370.916 kr. eða 185.458 kr. hvor um sig.

Verkalýðsfélag Akraness valdi mál eins starfsmanns til að fara með sem prófmál fyrir félagsdóm til að fá úr því skorið hvort hann ætti rétt á hlutfalli af orlofs- og desemberuppbótum fyrir árin 2014 og 2015 og eins og áður sagði féllst félagsdómur á allar kröfur félagins og mun Norðurál þurfa að greiða umræddum starfsmanni um 200.000 krónur og að sjálfsögðu mun félagið fara fram á að dráttavextir verði greiddir af þeirri upphæð.

Það er morgunljóst að þessi dómur um réttindaávinnslu á orlofs- og desemberuppbótum hefur fordæmisgildi og ljóst að mun fleiri starfsmenn munu eiga rétt til greiðslu á orlofs- og desemberuppbótum en fyrirtækið hefur talið hingað til. Það liggur fyrir að VLFA mun gera kröfu á að allir starfsmenn sem samkvæmt dómnum eiga rétt á orlofs- og desemberuppbótum muni fá þær leiðréttar 4 ár aftur í tímann og er því ljóst er að um umtalsverðar upphæðir getur verið að ræða sem mun klárlega skipta þá starfsmenn sem þar heyra undir töluverðu máli.

Verkalýðsfélag Akraness var búið að reyna ítrekað að leysa þetta mál í sátt og samlyndi við forsvarsmenn fyrirtækisins en þeir töldu að þeim bæri ekki að greiða þetta og því fór Verkalýðsfélag Akraness með málið fyrir dómstóla sem hafa nú kveðið upp sinn endanlega útskurð. Það liggur fyrir að Verkalýðsfélag Akraness mun aldrei sætta sig við að brotið sé á réttindum okkar félagsmanna og ef félagið telur að brot hafi verið framin þá reynir félagið að sjálfsögðu að finna lausn á því. Ef það ekki tekst þá fer félagið með slík mál fyrir dómstóla. 

Í gegnum árin hefur félagið stefnt þó nokkrum fyrirtækjum vegna ágreinings um túlkun kjarasamninga og vangoldinna launa og núna er félagið t.d. með eitt mál fyrir Héraðsdómi Vesturlands og tvö önnur á leið þangað. Það mikilvægt að atvinnurekendur átti sig á því vel og rækilega að VLFA hefur ekki og mun ekki sætta sig við að brotið sé á réttindum sinna félagsmanna.  

Hægt er lesa dómana í heild sinni með því að smella hér.

25
Nov

30.þing Sjómannasambands Íslands

Í gær hófst 30. þing Sjómannasambands Íslands og verður því fram haldið í dag, en Verkalýðsfélag Akraness á þrjá fulltrúa á þinginu. Að þessu sinni er þingið haldið í skugga sýnilegrar óánægju sjómanna með nýgerðan kjarasamning og munu kjaramál því væntanlega vera mikið til umræðu á þinginu. Það er að heyra á sjómönnum almennt að talsverðar líkur séu á því að samningurinn verði felldur í yfirstandandi atkvæðagreiðslu og því er mikilvægt að farið verði yfir þá stöðu sem getur komið upp ef það verður niðurstaðan þegar atkvæði verða talin þann 14. desember nk.

Þau atriði í nýgerðum kjarasamningi sem sjómenn hafa helst verið óhressir með eru til að mynda nýsmíðaálagið og verðlagsmálin, auk þess sem tortryggni ríkir varðandi ákvæði um mönnunarmálin. Eins og fram hefur komið hjá formanni VLFA ríkir gríðarlegt vantraust á milli útgerðarmanna og sjómanna því menn hafa ekki trú á því að þau atriði sem um hefur verið samið komi til framkvæmda. Það er því afar nauðsynlegt að tryggja á einhvern hátt framkvæmd þeirra atriða sem um hefur verið samið milil aðila.

21
Nov

Desemberuppbætur!

Verkalýðsfélag Akraness vill minna félagsmenn sína að þeir eiga rétt á desemberuppbót samkvæmt starfshlutfalli og starftíma og eiga öll fyrirtæki að vera búin að greiða desemberuppbæturnar út í síðasta lagi 15 desember næstkomandi. 

Desemberuppbætur eru misháar eftir fyrirtækjum og kjarasamningum en þær eru eftirfarandi:

°              Starfsmenn Norðuráls:                185.688 krónur.

°              Starfsmenn Elkem og Klafa:       181.458 krónur.

°              Starfsmenn sveitafélaga:            106.250 krónur.

°              Almenni markaðurinn:                 82.000 krónur.

°              Starfsmenn Ríkis:                        82.000 krónur.

Nánari upplýsingar um rétt til desemberuppbóta er hægt að fá á skrifstofu félagsins í síma 430-9900

18
Nov

Viðhorfskönnun um 12 eða 8 tímavaktakerfi í Norðuráli

Þessa dagana stendur yfir viðhorfskönnun meðal starfsmanna Norðuráls þar sem leitast er eftir því að kanna hvort vilji sé hjá starfsmönnum að fara úr 12 tíma vaktakerfi yfir í 8 tíma vaktakerfi eins og tíðkast hjá Elkem Ísland á Grundartanga og reyndar öllum þeim stóriðjum sem eru starfræktar hér á landi.

Í dag er vaktavinnufólk í ker- og steypuskála Norðuráls að vinna 182 tíma á mánuði sem þýðir að starfsmenn skila 26 föstum yfirvinnutímum á mánuði, en dagvinnuskylda í stóriðjum er 156 dagvinnustundir en ekki 173,33 eins og gerist á hinum almenna vinnumarkaði.

Hjá Elkem Ísland er eins og áður sagði 8 tíma vaktakerfi þar sem starfsmenn standa 6 vaktir á 5 dögum og eiga 5 daga í frí. Það þýðir að á meðaltali eru þar 18,2 vaktir á mánuði sem gera 145,6 tíma á mánuði og til að fylla uppí 156 dagvinnustundaskylduna þurfa menn að taka 1 skilavakt í mánuði.

Það liggur fyrir að þetta 8 tíma vaktakerfi sem er við lýði hjá Alcan í Straumsvík, Fjarðaráli og Elkem Ísland er mjög gott vaktakerfi sem allir starfsmenn láta vel af. Hins vegar hefur verið töluverð ónægja á meðal sumra starfsmanna hjá Norðuráli með þetta 12 tíma vaktakerfi enda liggur fyrir að það getur tekið mjög á starfsmenn að vinna svo langar vaktir. Hins vegar er þetta 12 tíma vaktakerfi þannig uppbyggt að starfsmenn hafa 26 fasta yfirvinnutíma og við það að fara í 8 tíma vaktakerfi falla þessir 26 yfirvinnutímar út.

Það er hins vegar mjög mikilvægt að allar upplýsingar séu yfir allan vafa hafnar þegar kemur að því að upplýsa starfsmenn um kosti og galla þess að hverfa frá 12 tíma vaktakerfi yfir í 8 tíma kerfi.

Miðað við þau gögn sem formaður VLFA hefur farið yfir er ljóst að upplýsingagjöfin um kosti og galla þessara tveggja vaktakerfa er ekki hlutlaus, enda liggur fyrir að forsvarsmenn Norðuráls virðast frekar vilja halda í 12 tíma vaktakerfið enda mun 8 tíma kerfið kalla á aukakostnað fyrirtækisins. Formaður VLFA hefur enga hagsmuni af því að breytt verði um vaktakerfi í Norðuráli aðra en velferð starfsmanna og er formaður ekki í neinum vafa um að hagsmunum og velferð starfsmanna er betur borgið í 8 tíma vaktakerfi enda er gríðarlega erfitt að standa í 12 tíma nánast samfleytt í miklum hita og við krefjandi aðstæður.

Eins og áður sagði þá finnst formanni upplýsingarnar ekki vera hlutlausar af hálfu fyrirtækisins og sem dæmi þá er talað um að frí vaktavinnumanna Norðuráls sé á milli vaktatarna 5 dagar, 4 dagar og 5 dagar.  Þetta er bara alls ekki rétt því starfsmenn eru búnir að skila 8 tímum í vinnu á öllum þessum frídögum og því er hið rétta að starfsmenn eiga 4 daga, 3, daga og 4 daga frí.  Hvernig geta forsvarsmenn Norðuráls talið það frídag þegar starfsmenn hafa skilað 8 tímum í vinnu? Í 8 tíma vaktakerfinu vinna menn 6 vaktir á 5 dögum og eiga 5 daga í frí.

Það líka mikilvægt að starfsmenn átti sig á því að þeir munu vinna sem nemur 1,7 mánuði minna á ári en þeir gera á 12 tíma vöktum eða sem nemur tæpum 2 mánuðum.

Í kynningu um launabreytingar á 12 og 8 tíma vaktakerfi kemur fram að byrjandi í Norðuráli sé með 496 þúsund á mánuði en með því að taka 26 yfirvinnutíma út og fara á 8 tíma vaktakerfi þá eru launin 425 þúsund á mánuði eða sem nemur lækkun um 71 þúsund krónum. Hjá starfsmanni sem er með 10 ára starfsaldur eru launin miðað við 12 tíma vaktakerfi 603 þúsund á mánuði en á 8 tíma vaktakerfi verða launin 516 þúsund eða sem nemur lækkun um 86 þúsund. Mikilvægt er að átta sig á því að með 8 tíma vaktakerfinu eru starfsmenn að vinna 156 tíma á mánuði en ekki 182 tíma sem eru 26 færri tímar á mánuði eða samtals 312 tímar á ári. Með öðrum orðum þá vinna starfsmenn sem nemur tæpum 2 mánuðum minna á ári. Það líka mikilvægt að hafa í huga að þótt starfsmenn séu að lækka í heildarlaunum frá 71 þúsundum uppí 86 þúsund krónur á mánuði þá lækka útborguð laun mun minna og sem dæmi þá lækka útborguð laun byrjanda um 41 þúsund og starfsmanns með 10 ára starfsaldur um 50 þúsund á mánuði en starfsmenn eru líka að vinna 26 tímum minna á mánuði og einnig eru þetta 8 tíma vaktir en ekki 12 tíma.  Það líka mikilvægt að starfsmenn átti sig á því að þetta vaktakerfi gefur þeim sem það vilja möguleika á að taka aukavaktir ef starfsmenn þurfa að auka tekjur sínar.

Það er alls engin tilviljun að allar stóriðjur fyrir utan Norðurál eru með 8 tíma vaktakerfi enda liggur fyrir að það kerfi er mun fjölskylduvænna, vinnutíminn mun styttri og því hafa starfsmenn meiri frítíma með sinni fjölskyldu.

Eins og áður hefur komið fram þá hefur formaður félagsins enga hagsmuni af því að horfið verði frá 12 tíma vaktakerfi yfir í 8 tíma kerfi aðra en þá er lýtur að velferð starfsmanna enda telur formaður að langur vinnudagur í miklum hita og álagi sé lýðheilsumál og er hann ekki í nokkrum vafa um að 8 tíma vaktakerfi sé betra hvað velferð og heilsu starfsmanna áhrærir.

Formaður skorar á starfsmenn að skoða þessi mál vel og rækilega og því er mjög mikilvægt að allar upplýsingar sem starfsmenn fá séu hafnar yfir allan vafa en það liggur fyrir að fyrirtækið er hlynnt því að halda óbreyttu vaktakerfi og því verða starfsmenn að taka allri upplýsingagjöf frá fyrirtækinu með það í huga. Verkalýðsfélag Akraness skorar á vaktavinnufólk í Norðuráli að hafa samband ef það óskar eftir frekari upplýsingum er lýtur að kostum og göllum þess að vera á 12 eða 8 tíma vaktakerfi.

Það er mat formanns að ef tekið verður upp 8 tíma vaktakerfi eins og í hinum sóriðjunum þá verður Norðurál mjög eftirsóknarverður vinnustaður.

16
Nov

Gremja á meðal sjómanna

Í gær hélt formaður Verkalýðsfélags Akraness fund með sjómönnum sem tilheyra sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness. Á fundinum var farið yfir nýgerðan kjarasamning Sjómannasambands Íslands við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi.

Það er óhætt að segja að veruleg gremja ríki hjá sjómönnum með nýgerðan kjarasamning og var að heyra á mönnum að þeim fyndist vanta umtalsvert í samninginn. Það fer einnig ekkert á milli mála að það hefur myndast gríðarleg gjá á milli sjómanna og útgerðarmanna hvað varðar traust, en sjómenn treysta því ekki að þau atriði sem um var samið verði framkvæmd eins og samningur kveður á um. Kom skýrt fram hjá sjómönnum að þar tala þeir af reynslu.

Sjómönnum var t.d. tíðrætt um að þeir treysta því ekki að sú úttekt sem samið var um og lýtur t.d. að mönnunarmálum á uppsjávarskipum og ísfisktogurum verði hafin yfir alla vafa. Menn treysta ekki heldur útgerðarmönnum hvað varðar samræmda upplýsingagjöf á uppsjávarafurðum sem nota á til grundvallar á verðmyndun á uppsjávarafla. Það er svo sannarlega umhugsunarefni fyrir útgerðarmenn hvernig þeir virðast hafa glatað öllu trausti sjómanna.

Það verður að viðurkennast að margir sjómenn virðast upplifa hroka, yfirgang og virðingarleysi í sinn garð af hálfu sumra útgerðarmanna sem klárlega hefur gert

það að verkum að það ríkir því miður algert vantraust á milli sjómanna og útgerðarmanna. Það er ljóst að útgerðarmenn verða að  líta í eigin rann og spyrja sig af hverju þetta mikla vantraust ríki og hvað þeir geti gert til að bæta samskipti sín við sjómenn.

Það er algerlega morgunljóst að nýgerður kjarasamningur verður að vera innihaldsríkari, með öðrum orðum það þarf að koma meira inn í samninginn til að sjómenn verði á eitt sáttir. Útgerðarmenn verða líka að ávinna sér traust sjómanna og sýna þeim virðingu fyrir þau mikilvægu störf sem þeir inna af hendi fyrir útgerðarmenn og þjóðarbúið allt. Ugglaust vilja útgerðarmenn ekkert kannast við að þeir sýni sjómönnum hroka, vanvirðingu og skilningsleysi en það er hins

vegar staðreynd að fjölmargir sjómenn upplifa slíkt.

Hvernig ráðningarsamband er það á milli útgerðar og sjómanna þegar gríðarlegur fjöldi sjómanna þorir ekki undir nokkrum kringumstæðum að tjá sig um þau atriði sem þeir eru á eitt ósáttir við af ótta

við að verða látnir taka pokann sinn og missa þannig sitt lífsviðurværi. Að sjálfsögðu á allt launafólk að geta komið óánægju vegna sinna hagsmunamála á framfæri við sinn vinnuveitanda án þess að eiga von á því að vera refsað illilega fyrir þau sjálfsögðu mannréttindi að mega koma sínum skoðunum á framfæri.

Þegar atvinnurekendur haga sér með þessum hætti þá er ekki hægt annað en að kalla slíkt ráðningarsamband ofbeldissamband og er það þeim til skammar.

Eftir fundinn í gær þá myndi formaður telja yfirgnæfandi líkur á að þessi kjarasamningur verði felldur en það kemur í ljós 14. desember þegar kosningu lýkur. Það mikilvægt fyrir alla útgerðarmenn að líta í eigin rann og segja við verðum að ávinna traust sjómanna og við verðum að sýna okkar sjómönnum þá lágmarksvirðingu sem þeir eiga skilið fyrir sín störf.  Þetta eru menn sem vinna oft á tíðum við mjög erfiðar aðstæður fjarri sinni fjölskyldu svo dögum og vikum skiptir.

Það er mat formanns Verkalýðsfélags Akraness að útgerðarmenn eigi að nýta tíman vel til 14. desember og ræða hvernig þeir geti áunnið sér traust hjá sjómönnum og lagfært kjarasamninginn þannig á sjómenn séu á eitt sáttir.  Ef það gerist ekki þá telur formaður nokkuð ljóst að það sama muni gerast og gerist í flestum ofbeldissamböndum, að annar aðilinn lætur sig eðlilega hverfa og í þessu tilfelli verða það sjómenn sem munu láta sig hverfa ef kjarasamningurinn verður ekki lagfærður og þessari vanvirðingu sem þeir upplifa ljúki ekki í eitt skipti fyrir öll.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image