• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
VLFA

VLFA

Big fan of open source and Joomla

Website URL: http://joomlabuff.com

Nú er Sjómannadagurinn að renna upp og af því tilefni fengu leikskólabörn á Akranesi glaðning frá Verkalýðsfélagi Akraness í morgun. Þar voru á ferðinni sjómennirnir Jóhann Örn Matthíasson og Tómas Rúnar Andrésson sem gáfu yfir 400 börnum á öllum leikskólum bæjarins harðfisk. Hægt er að sjá myndir með því að smella hér.

Aðrir dagskrárliðir tengdir sjómannadeginum eru þeir að eins og venjulega munu Slysavarnakonur á Akranesi halda upp á sjómannadaginn með glæsilegri kaffisölu í Jónsbúð laugardaginn 2. júní milli kl. 13:30 og 16:00. 

Sjómannasunnudaginn sjálfan verður athöfn við minnisvarða um drukknaða og týnda sjómenn kl. 10:00 í kirkjugarðinum.

Kl. 11:00 verður Sjómannamessa í Akraneskirkju þar sem aldraðir sjómenn verða heiðraðir. Að messu lokinni verður gengið að Akratorgi og blómsveigur lagður að minnismerki sjómanna.  Þessar athafnir eru kostaðar og í umsjón Verkalýðsfélags Akraness.

Öðrum dagskrárliðum sem undanfarin ár hafa verið kenndir við Hátíð hafsins hefur verið aflýst af þeirri ástæðu að Akraneskaupstaður ákvað að veita ekki fjármunum til hátíðarinnar í ár. Harmar Verkalýðsfélag Akraness þessa ákvörðun og breytir litlu þótt bæjarráð hafi breytt ákvörðun sinni á síðustu stundu vegna óánægju bæjarbúa, sú ákvörðun kemur allt of seint til þess að tími gefist til að undirbúa hátíðahöld.

Þrátt fyrir þetta er Sjómannadagurinn lögbundinn hátíðisdagur sem ekki er hægt að aflýsa og að sjálfsögðu verður haldið upp á hann sem slíkan.

Nú hefur Landssamband íslenskra útvegsmanna tilkynnt að þeir muni halda fiskiskipaflotanum í landi um óákveðinn tíma eða allavega eitthvað fram í þessa viku en það er ljóst að þessar aðgerðir útgerðarmanna eru afar umdeildar svo ekki sé fastar að orði kveðið og æði margt sem bendir til þess að þær séu brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Í þeim lögum segir meðal annars orðrétt:  "Óheimilt er og að hefja vinnustöðvun: Ef tilgangur vinnustöðvunarinnar er að þvinga stjórnarvöldin til að framkvæma athafnir, sem þeim lögum samkvæmt ekki ber að framkvæma, eða framkvæma ekki athafnir, sem þeim lögum samkvæmt er skylt að framkvæma, enda sé ekki um að ræða athafnir, þar sem stjórnarvöldin eru aðili sem atvinnurekandi. Gildandi lög um opinbera starfsmenn haldist óbreytt þrátt fyrir þetta ákvæði."

Útgerðarmenn segja að þessar aðgerðir séu ekki brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur vegna þess að þeir muni greiða starfsmönnum laun á meðan á aðgerðum stendur. Þetta er grundvallaratriði í huga formanns, að það verði tryggt með afgerandi hætti að sjómenn og síðast en ekki síst fiskvinnslufólk verði ekki fyrir tekjutapi vegna þessara aðgerða LÍÚ. Það er ekki nóg að segja að starfsmenn haldi launum heldur þarf að koma fram yfirlýsing frá LÍÚ um að til dæmis fiskvinnslufólki verði greidd öll laun ef það kemur til stöðvunar á vinnslunni á meðan á aðgerðunum stendur. Rétt er að benda á í því samhengi að fiskvinnslufólk er með bónusgreiðslur og í tilfelli HB Granda eru bónusgreiðslur á fasta unna klukkustund að andvirði rúmlega 300 kr. Því er mikilvægt eins og áður sagði að öll laun verði greidd, ekki einungis grunnlaun.

Á þessari forsendu krefst formaður þess að það komi yfirlýsing frá Samtökum atvinnulífsins og LÍÚ um að fiskvinnslufólki verði greitt allt það vinnutap sem það verður fyrir vegna þessara aðgerða LÍÚ. Því það er morgunljóst að Verkalýðsfélag Akraness mun láta reyna á það fyrir dómstólum ef félagsmenn okkar verða fyrir tekjutapi vegna þessara aðgerða.

Það er ótrúlegt að nú mætti halda að árið 2007 sé skella aftur á af fullum þunga, en eins og fram kom í fréttum Stöðvar 2 í gær þá var upplýst að lykilstjórnendum Eimskipafélagsins mun bjóðast að eignast hluti í félaginu á umtalsvert lægra gengi en reiknað er með að verði fyrir hendi þegar félagið verður skráð á markað í september. Heildarhlutur þeirra gæti orðið milljarða virði og fram kemur í fréttinni að lykilstjórnendur þurfi ekki  að greiða krónu fyrir kaupréttina og fái hundruð milljóna á silfurfati.

Formaður VLFA verður að viðurkenna að honum er algerlega misboðið og það er morgunljóst að núna verður íslenska þjóðin að segja hingað og ekki lengra gagnvart fyrirtækjum sem haga sér með þessum hætti. Rétt er að rifja upp að kröfuhafar töpuðu í það minnsta 117 milljörðum vegna gjaldþrots Eimskips en varlega áætlað má gera ráð fyrir að lífeyrissjóðir launafólks hafa tapað rúmum 15 milljörðum vegna Eimskips.  Svo ætla þessir snillingar að koma núna og segja að rekstur Eimskips gangi svo vel að mikilvægt sé að lykilstjórnendum verði umbunað með kaupréttarsamningum. Mikilvægt er að hafa í huga að staða Eimskips er ekki góð núna vegna viðskiptasnilli þessara manna heldur er hún tilkomin að hluta til vegna þess að kröfuhafar og þar á meðal íslenskt launafólk tapaði milljörðum vegna gjaldþrots fyrirtækisins.

Formaður félagsins hafði samband við framkvæmdastjóra lífeyrissjóðs Festu áðan, en Festa er sá lífeyrissjóður sem félagsmenn mínir í Verkalýðsfélagi Akraness greiða í.  Formaður tjáði honum að Verkalýðsfélag Akraness geri þá skýlausu kröfu að lífeyrissjóðurinn Festa fjárfesti ekki fyrir eina krónu í þessu fyrirtæki þegar Eimskip fer á markað í september, ef þessi gjörningur um milljarða gjöf til lykilstjórnenda Eimskips verður að veruleika.

Það er þyngra en tárum taki að verða vitni að menn hafi ekki sterkara viðskiptasiðferði í ljósi þeirra staðreynda að Eimskip hefur skilið eftir sig slóð eyðileggingar þegar horft er til þess að kröfuhafar töpuðu 117 milljörðum vegna gjaldþrots fyrirtækisins.  Því til viðbótar hafa sjóðsfélagar þurft að sæta skerðingum á sínum lífeyri vegna 15 milljarða taps sjóðanna á fyrirtækinu.

Það er morgunljóst að formaður Verkalýðsfélags Akraness mun aldrei sætta sig við að fjármunum sinna félagsmanna verði varið í hlutbréfakaup í þessu fyrirtæki ef þetta verður ekki dregið til baka en sjóðsfélagar Festu lífeyrissjóðs töpuðu 500 milljónum vegna gjaldþrots Eimskips. 

Við stjórnendur Eimskips vill formaður félagsins segja: Þið ættuð að skammast ykkar að misbjóða íslenskri þjóð með þessari græðgi ykkar en alþýða þessa lands er blóðug upp fyrir axlir við að reyna að vinna sig útúr þeim vanda sem stjórnendur í mörgum fyrirtækjum innan atvinnulífsins komu almenningi í vegna þeirra græðgivæðingar sem var búin að skjóta rótum í íslensku atvinnulífi.  En núna mun íslenska þjóðin ekki láta ykkur endurtaka leikinn, svo mikið er víst.

Klukkan 10 mun hefjast hér á Akranesi formannafundur Starfsgreinasambands Íslands en þetta er fyrsti formannafundur SGS samkvæmt nýju skipulagi sambandsins sem samþykkt var á framhaldsþingi sambandsins í byrjun maí. 19 formenn vítt og breitt um landið munu sitja þennan fund en innan Starfsgreinasambandsins eru um 50 þúsund félagsmenn en SGS er stærsta landssambandið innan ASÍ.

Það verða fjölmörg mál á dagskrá þessa fundar, svosem verkaskipting innan sambandsins, umsögn SGS við nýrri stefnu í lífeyrismálum og kjaramálum og einnig munu formenn aðildarfélaga gefa skýrslu um helstu verkefni á borðum stéttarfélaganna þessa dagana. Fundurinn verður haldinn á Gamla Kaupfélaginu og er þetta í fyrsta skipti sem formannafundur SGS er haldinn á Akranesi.  

Á síðasta föstudag var haldinn formannafundur Starfsgreinasambands Íslands á Akranesi og voru fjölmörg mál þar til umfjöllunar. Eitt stærsta málið sem var til umræðu var stefnumótun ASÍ í lífeyrismálum en það var hlutverk fundarins að fara yfir hver stefna SGS væri í þessu máli. Verkalýðsfélag Akraness fór yfir drög að stefnumótun ASÍ í lífeyrismálum og hefur skilað inn athugasemdum vegna þeirra.

Formaður lét það koma skýrt fram á fundinum að VLFA vill að gerð verði allsherjar skoðanakönnun á meðal félagsmanna innan ASÍ um stefnu ASÍ í lífeyrissjóðsmálum. Því það verða að vera sjóðsfélagarnir sjálfir sem móta þessa stefnu en ekki fámennur hópur forystumanna stéttarfélaganna eins og margt bendir til að verði raunin. Í bréfi frá ASÍ er sagt að það sé almennur vilji á meðal félagsmanna ASÍ að lífeyrissjóðskerfið sé á ábyrgð aðila vinnumarkaðarins eða það er að segja Samtaka atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar. En eins og allir vita þá er lífeyrissjóðskerfið byggt upp á kjarasamningum þessara aðila og skipta þeir með sér stjórnarsætum til helminga.

Það var fjölmargt sem VLFA gerði athugasemdir við eins og til dæmis varðandi það að félagið vill að hætt verði með þessi helmingaskipti á stjórnarsætum atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar og að atvinnurekendur víki alfarið úr stjórnum sjóðanna. Félagið vill að sjóðsfélagarnir sjálfir kjósi alla stjórnarmennina enda eru lífeyrissjóðirnir eign sjóðsfélaga og það er þeirra að gæta síns eigins fjár. Einnig gerði félagið athugasemdir við það að stefnt er að því í þessum drögum að hækka framlag í lífeyrissjóð úr 12% í 15,5% á næstu árum og vilja menn skýla sér á bakvið þessa hækkun með því að segja að hér sé um jöfnun að ræða á lífeyrisréttindum við opinbera starfsmenn. Formaður sagði að hann myndi berjast með kjafti og klóm fyrir því að þetta yrði ekki að veruleika, einfaldlega vegna þess að ef menn ætla að tala um jöfnun við lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna þá þarf að koma ríkisábyrgð á lífeyrisréttindi á hinum almenna vinnumarkaði með sambærilegum hætti og er hjá opinberum starfsmönnum. En slíkt er ekkert verið að tala um, einungis að hækka prósentuna úr 12% í 15,5% og í huga formanns mun þetta leiða til þess að almennu sjóðirnir munu ná niður tryggingafræðilegum halla en það er engin trygging fyrir því að þessi aukahækkun myndi leiða til jöfnunar lífeyrisréttinda. Formaður sagði einnig að ef menn vilja hækka lífeyrisiðgjöld þá sé miklu nær að þessi 3,5% hækkun komi sem séreign en fari alls ekki inn í samtrygginguna enda er það mat formanns að sáralítill stuðningur sé á meðal hins almenna félagsmanns við þá ákvörðun.

Formaður vildi að gerð yrði könnun á meðal hinna almennu sjóðsfélaga innan ASÍ um hvora leiðina sjóðsfélagar myndu vilja fara, það er að segja hvort 3,5% hækkun lífeyrisréttinda eigi að fara í samtrygginguna eða séreignina. Formaður vildi einnig að hinn almenni sjóðsfélagi yrði spurður að því hvernig stjórnarkjörum ætti að vera háttað í lífeyrissjóðskerfinu og hvort menn myndu vilja sjá breytingu með þeim hætti að sjóðsfélagarnir sjálfir kjósi sér alla sína stjórnarmenn. Því miður er æði margt sem bendir til þess að æðsta forysta verkalýðshreyfingarinnar sé ekki tilbúin til að framkvæma slíka skoðanakönnun. Það er gríðarlega mikilvægt að hinn almenni sjóðsfélagi láti sig málefni lífeyrissjóðanna varða og komi í veg fyrir að þessi hækkun sem um er rætt fari inn í samtrygginguna eins og margt bendir til að aðilar vinnumarkaðarins ætli sér að gera.

Formaður félagsins komst að því ekki alls fyrir löngu að afleysingamenn í Norðuráli voru ekki að njóta réttra kjara vegna orlofsmála en það sem um ræðir laut að vetrarfríi vegna svokallaðra rauðra daga. Hér er um að ræða heilar 6 vaktir á ársgrundvelli fyrir starfsmann sem er lausráðinn og hefur ekki fengið fastráðningu. Formaður hefur unnið að lausn þessa máls undanfarnar vikur enda er hér um umtalsverða hagsmuni að ræða fyrir þá sem eiga í hlut og í morgun samþykktu forsvarsmenn fyrirtækisins rök Verkalýðsfélags Akraness í málinu og munu afleysingamenn framvegis njóta þessara réttinda eins og fastráðnir starfsmenn gera og einnig verður þetta leiðrétt 4 ár aftur í tímann.

Formaður félagsins er afar ánægður með þessa niðurstöðu, sérstaklega í ljósi þess að ekki hafi þurft að koma til kasta dómstóla til að leysa málið og einnig að kjörin verða leiðrétt 4 ár aftur í tímann eins og áður sagði því hér er um umtalsverða hagsmuni að ræða fyrir þá starfsmenn sem um ræðir. Það mun taka töluverðan tíma fyrir launadeildina að vinna leiðréttinguna og verða starfsmenn að sýna því skilning en reiknað er með að henni eigi að vera lokið í síðasta lagi í haust. En framvegis munu afleysingamenn fá þessa vetrarfrísdaga greidda inn á orlofsreikning í samræmi við starfshlutfall og starfstíma.

Vegna forfalla er orlofshús Verkalýðsfélags Akraness í Ölfusborgum laust í dag og alla næstu viku. Mikil eftirspurn var eftir orlofshúsum félagsins í sumar og mun færri komust að en vildu. Húsið í Ölfusborgum var allt endurnýjað árið 2010 og stendur í fallegu umhverfi í bæjarjaðri Hveragerðis.

Þeir sem hafa áhuga á að bóka næstkomandi viku geta haft samband við skrifstofu í síma 430-9900 eða í gegnum netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Einnig er hægt að bóka húsið á félagavefnum.

Það er óhætt að segja að það sé mikið um að vera á Akranesi þessa helgina en núna klukkan 10 var sett hið margrómaða Norðurálsmót polla í 7. flokki í knattspyrnu. Áætlað er að um 8 þúsund manns muni koma á þetta mót að meðtöldum fjölskyldum keppenda og er ljóst að þessi mikli hópur mun setja mikinn svip á bæjarlífið um helgina. Þessu til viðbótar eru haldin tvö golfmót um helgina sem Norðurál styrkir og mun mikill fjöldi taka þátt í þessum mótum.

Þetta sýnir hversu mikilvægt það er að vera með öflug fyrirtæki á okkar atvinnusvæði, fyrirtæki sem taka þátt í samfélagslegum verkefnum eins og Norðurál er að gera. Rétt er að geta þess að Norðurál er aðalstyrktaraðili knattspyrnufélagsins og einnig eru þeir stór styrktaraðili golfklúbbsins Leynis hér á Akranesi. Það er afar ánægjulegt að sjá þegar fyrirtæki átta sig á mikilvægi þess að taka þátt í uppbyggingu þeirra samfélaga sem þau eru í og það má segja að Norðurál hafi verið nokkuð duglegt við að styrkja hin ýmsu málefni er lúta að félagslegri uppbyggingu á Akranesi sem verður að teljast afar jákvætt.

Eins og allir vita er 17. júní svo á sunnudaginn og lýkur þessari stóru helgi með glæsilegri dagskrá þann dag. Dagskráin er óvenju vegleg á Akranesi í ár þar sem nú eru liðin 70 ár frá því að bærinn hlaut kaupstaðarréttindi. Nóg verður um að vera bæði á laugardaginn og á sjálfan þjóðhátíðardaginn og má sjá dagskrána hér.

Í fréttum í gær kom fram að nú stefnir í metár í ferðaþjónustu á Íslandi og í fyrsta sinn gæti ferðaþjónusta staðið jafnfætis sjávarútvegi og orkufrekum iðnaði í gjaldeyristekjum og hlutfalli af landsframleiðslu.

Það er óhætt að segja að þetta séu afar jákvæð tíðindi að ferðaþjónustan sé farin að skila jafn miklum gjaldeyristekjum og sjávarútvegurinn og stóriðjan enda byggjum við Íslendingar okkar velferðarkerfi upp á því að skapa gjaldeyristekjur.

Það er hins vegar dapurlegt til þess að vita að þessi mikli uppgangur í þessari atvinnugrein hefur ekki verið að skila sér til þeirra sem starfa í greininni, enda er það bláköld staðreynd að launakjörin í þessari grein eru umtalsvert lakari en í orkufrekum iðnaði og í sjávarútvegi. Það er ekki bara að launakjörin séu lakari heldur eru kjarasamningsbrot gagnvart starfsfólki hvergi algengari en í þessari atvinnugrein.  Á formannafundi Starfsgreinasambands Íslands sem haldinn var á Akranesi fyrir skemmstu voru málefni ferðþjónustunnar til umfjöllunar og komu fram á fundinum áhyggjur formanna af því hversu algengt það er að verið sé að svíkja starfsfólk í greininni hvað varðar kjör og önnur kjarasamningsbundin réttindi. 

Það er einnig rétt að rifja upp átaksverkefnið sem Ríkisskattstjóri, ASÍ og SA stóðu að vegna svartrar atvinnustarfsemi fyrir nokkru síðan. Niðurstöður úr þessu átaksverkefni sýndu ákveðnar vísbendingar um að ástandið sé einna verst í hótel- og veitingaþjónustu hvað varðar svarta atvinnustarfsemi. Tap þjóðarbúsins vegna svartrar atvinnustarfssemi nemur 13,8 milljörðum á ári.

Það er morgunljóst að þetta ástand í ferðaþjónustunni er algjörlega ólíðandi, að ekki sé verið að fara eftir þeim leikreglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði og gildir það bæði hvað varðar svarta atvinnustarfsemi og kjarasamningsbrot gagnvart starfsmönnum.

Að sjálfsögðu gildir þetta alls ekki um alla sem starfa í ferðaþjónustunni og margir koma vel fram við sína starfsmenn.  Þessi svarta atvinnustarfsemi og kjarasamningsbrot grafa undan samkeppni þeirra sem starfa heiðarlega og fara eftir þeim leikreglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði.

Það er hlutverk skattayfirvalda og verkalýðshreyfingarinnar að sjá til þess að þessi atvinnugrein skili því til samfélagsins sem henni ber. Það er gríðarlega mikilvægt að ferðaþjónustan sem hagnast um þessar mundir eins og enginn sé morgundagurinn skili þeim ávinningi til þeirra starfsmanna sem starfa í þessari einni mikilvægustu atvinnugrein okkar Íslendinga, en það er hún ekki að gera um þessar mundir alla vega ekki í öllum tilfellum, því miður.

Verkalýðsfélag Akraness hefur nú fest kaup á glæsilegum bústað í Svínadal. Bústaðurinn er staðsettur að Efstaási 11 í landi Kambshóls í Eyrarskógi og var hann byggður árið 2002. Bústaðurinn er 65,7 fermetrar að stærð með þremur svefnherbergjum, þar af eru tvö þeirra á efri hæð. Undanfarna daga hefur verið unnið að því að gera bústaðinn fullbúinn og nú styttist í að félagsmenn geti farið að bóka vikur þar. Ástæðan fyrir því að stjórn félagsins ákvað að festa kaup á þessum glæsilega bústað er fyrst og fremst aukning félagsmanna á undanförnum árum en núna eru rétt rúmlega 3.000 félagsmenn í félaginu og því var bráðnauðsynlegt að fjölga möguleikum félagsmanna til að fá úthlutað sumarhúsi. Þetta er annar bústaðurinn sem félagið kaupir á stuttum tíma en félagið keypti nýlegan bústað í Kjós í Hvalfirði í september í fyrra.

Það er óhætt að segja að rekstur félagsins hafi gengið vel undanfarin ár og á þeirri forsendu er félagið vel í stakk búið til að ráðast í svo miklar fjárhagslegar framkvæmdir eins og sumarhúsakaup eru. En þetta er gert fyrst og fremst til að mæta þörfum félagsmanna enda ríkti mjög mikil ánægja með bústaðinn í Kjós sem félagið keypti að aðsóknin í sumar- og vetrarleigu undanfarin ár hefur aukist stöðugt.

Fyrsta vikan sem er í boði er 6.-13. júlí næstkomandi. Opnað hefur verið fyrir bókanir og gildir hér reglan fyrstur kemur, fyrstur fær. Hægt er að bóka bústaðinn á skrifstofu félagsins en einnig á félagavef.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image