• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
VLFA

VLFA

Big fan of open source and Joomla

Website URL: http://joomlabuff.com

Verkalýðsfélag Akraness hefur sent öllum þingmönnum Alþingis bréf með áskorun um að þeir beiti sér af fullum þunga fyrir því að það dómsmál sem Verkalýðsfélag Akraness stendur fyrir í héraðsdómi Reykjavíkur um ólögmæti verðtryggingar fái algjöra flýtimeðferð fyrir dómsstólum. Enda er gríðarlega mikilvægt í ljósi þeirra miklu hagsmuna sem eru í þessu máli að þeirri réttaróvissu verði eytt eins fljótt og kostur er. Umrætt bréf var sent þingmönnum rétt í þessu og er það á þessa leið:

____________________________________________

Ágæti þingmaður.

 

Eins og þér er eflaust fullkunnugt um þá  var þingfest í héraðsdómi Reykjavíkur þann 29. janúar sl. mál er lýtur að því hvort verðtrygging hér á landi standist gildandi lög, en málinu var stefnt gegn Landsbankanum hf.  Í raun var það tilviljun ein sem réði því hvaða fjármálafyrirtæki varð fyrir valinu sem gagnaðili, vinnist málið verður að telja að niðurstaða þess verði fordæmisgefandi gagnvart öðrum fjármálafyrirtækjum.  Kröfur málsins sem varða verðtrygginguna og lögmæti hennar eru aðallega að ákvæði skuldabréfsins um verðtryggingu sé óskuldbindandi.  Til vara er þess krafist, að viðurkennt verði með dómi að óheimilt sé að uppreikna mánaðarlega höfuðstól skuldabréfsins skv. vísitölu neysluverðs.

Aðal málsástæður lögmanna Verkalýðsfélags Akraness í þeim hluta málsins sem snýr að verðtryggingunni eru í fyrsta lagi þær að verðtryggingin eins og hún er framkvæmd, fari gegn MiFID tilskipuninni, sem gerir það að kröfu að ekki megi eiga viðskipti með flókna fjármálagerninga (afleiður) við neytendur.  Í öðru lagi er á því byggt, að lánveitingin, framkvæmd greiðsluáætlunar og upplýsingar um birtingu árlegrar hlutfallstölu kostnaðar standist ekki skilyrði neytendalánalaga og þeirra Evróputilskipana sem þau byggja á.

Nú liggur fyrir nýlegt  álit frá sérfræðingi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins þar sem ýjað er sterklega að því að framkvæmd verðtryggðra lána standist ekki skilyrði neytendalánalaga og þeirra Evróputilskipana sem þau byggja á.  En álit sérfræðings framkvæmdastjórnar er algjörlega í samræmi við aðal málsástæður sem lögmenn Verkalýðsfélags Akraness halda fram um ólögmæti verðtryggingarinnar.  En rétt er einnig að geta þess að það lán sem VLFA er með fyrir dómstólum er hefðbundið neytendalán en ekki fasteignalán.

Það dylst engum að hér er um gríðarlega hagsmuni að ræða fyrir almenning og reyndar samfélagið allt og á þeirri forsendu verður að eyða þeirri réttaróvissu sem ríkir um það hvort verðtryggingin standist lög eða ekki eins fljótt og kostur er.  Á þeirri forsendu  þá skora ég sem formaður Verkalýðsfélags Akraness á þig sem þingmann að þú beitir þér af fullum þunga fyrir því að þetta mál fái algjöra flýtimeðferð fyrir dómstólum.

Óska ég eftir því að þessu erindi verði svarað eins fljótt og kostur er.

 

Virðingarfyllst,

 

____________________________

Vilhjálmur Birgisson,

formaður Verkalýðsfélags Akraness

Wednesday, 20 February 2013 00:00

Aðalfundur allra deilda haldinn í kvöld!

Friday, 22 February 2013 00:00

Konudeginum þjófstartað á Sunnubrautinni

Karlpeningurinn á skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness þjófstartaði konudeginum í dag og gerði vel við samstarfskonur sínar á ýmsa lund. Var þeim boðið upp á dýrðlegan hádegisverð á kaffistofunni og allar fengu þær blóm að gjöf. Voru þær að vonum kátar með þetta hugulsama framtak.

Að sögn fulltrúa kvenþjóðarinnar á skrifstofu VLFA er komin hefð á það að haldið sé upp á konudaginn og bóndadaginn á skrifstofunni á einhvern hátt og telja þær karlpeninginn á Sunnubrautinni hafa staðið sig óvenju vel í ár.

Sameiginlegur aðalfundur Almennrar deildar, Opinberrar deildar, Iðnsveinadeildar, Stóriðjudeildar og Matvæladeildar Verkalýðsfélags Akraness var haldinn á Gamla Kaupfélaginu miðvikudaginn 20. febrúar síðastliðinn.

Góð mæting var á fundinum og fór formaður félagsins yfir helstu atriði í starfi VLFA undanfarið ár. Á fundinum urðu smávægilegar breytingar á stjórn félagsins en tveir nýir stjórnarmenn voru kosnir. Hafþór Pálsson var kosinn inn í stjórn almennrar deildar og Bjarki Þór Aðalsteinsson var kosinn í stjórn Stóriðjudeildar. Að fundinum loknum var boðið upp á pizzuveislu og súpu fyrir fundargesti.

Vertu á verði!  – stöndum saman og rjúfum vítahring verðbólgunnar

Verkalýðsfélag Akraness og önnur stéttarfélög innan ASÍ hefja í dag átak gegn verðhækkunum undir yfirskriftinni – Vertu á verði. Almenningur og atvinnulífið eru hvött til að taka höndum saman og rjúfa vítahring verðbólgunnar. Átakinu er ætlað að veita fyrirtækjum og stofnunum aðhald í verðlagsmálum og vekja neytendur til aukinnar vitundar.

Á heimasíðu átaksins www.vertuaverdi.is geta allir sent inn ábendingar um verðhækkanir á fljótlegan og einfaldan hátt. Þannig getum við sameiginlega skapað mikilvægt aðhald, meðvitund og umræðu um verðlagsmál.

Það er hagsmunamál okkar allra að vera á verði og láta vita.

Verðbólgan versti óvinur launafólks

Launafólk er langþreytt á að hóflegar launahækkanir sem samið er um í kjarasamningum séu sífellt notaðar til að réttlæta miklar verðhækkanir og aukna verðbólgu. Við endurskoðun kjarasamninga nú í janúar lögðu fulltrúar launafólks mikla áherslu á að samstaða yrði meðal fyrirtækja og opinberra aðila um að sýna aðhald í verðhækkunum svo nýtilkomnar launahækkanir skili sér í auknum kaupmætti launafólks.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefur hefur Verkalýðsfélag Akraness ákveðið að gera sína eigin verðkönnun til viðbótar þessu átaki þar sem fylgst verður með verðlagsþróun árfjórðungslega. En niðurstaða í þeirri könnun verður birt hér á heimasíðunni.

Allir þurfa nú að taka höndum saman – sýna ábyrgð og stöðva verðhækkanir – það gagnast okkur öllum.

Afstaða stjórnar og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags Akraness hvað varðar verðtrygginguna og kröfu um leiðréttingu á skuldavanda íslenskra heimila er hvellskýr. Á síðasta þingi ASÍ í október lagði stjórn og trúnaðarráð félagsins til dæmis fram ályktun um afnám verðtryggingar á neytendalánum til einstaklinga og að þak yrði sett á húsnæðisvexti til íslenskra heimila. Einnig var kveðið á um í þessari ályktun að stjórnvöld beittu sér fyrir því að leiðrétta þann skelfilega forsendubrest sem íslensk heimili urðu fyrir í kjölfar hrunsins vegna verðtryggingarinnar. Á þessu sést hver stefna Verkalýðsfélags Akraness er í þessum málum og þessu til viðbótar er félagið nú að láta reyna á lögmæti verðtryggingar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Það er engum blöðum um það að fletta að verðtryggingin hér á landi er að ganga af íslenskum heimilum dauðum en nú í febrúarmánuði liggur fyrir að neysluvísitalan er að hækka um 1,64% sem þýðir að verðtryggðar skuldir íslenskra heimila munu hækka um allt að 23 milljarða og það einungis á 28 dögum. Þetta er álíka há upphæð og loðnuvertíðin sem stendur nú sem hæst mun skila íslenska þjóðarbúinu. Formaður VLFA hefur verið að kalla eftir því hjá stjórnmálamönnum í hverju þessi verðmætasköpun upp á 23 milljarða hækkun á verðtryggðar skuldir heimilanna er fólgin. Öll sjáum við raunverulega verðmætasköpun í kjölfar loðnuvertíðarinnar en það mun skila okkur gjaldeyristekjum inn í okkar samfélag. En það er formanni hulin ráðgáta í hverju þessi verðmætasköpun upp á 23 milljarða er fólgin. Það er líka rétt að benda á að meðalverðtryggðar húsnæðisskuldir í dag hjá heimilunum nema um 22 milljónum sem þýðir að höfuðstóll slíkra lána er að hækka um, takið eftir, 360 þúsund krónur og það einungis á þessum 28 dögum.

Já formaður félagsins talar algjörlega í anda samþykktar félagsins hvað varðar afnám verðtryggingar og skuldavanda heimilanna enda er það skoðun félagsins eins og áður sagði að verðtryggingarvítisvélin sé að ganga frá íslenskum heimilum dauðum. Það verður að afnema verðtrygginguna en samhliða því verður að setja vaxtaþak á húsnæðislán og einnig finna leið til að leiðrétta títtnefndan forsendubrest sem heimilin urðu fyrir. Það er mat formanns að öll orðræða stjórnmálaflokka um að draga úr vægi verðtryggingar sé til þess fallin að slá ryki í augu almennings með það að markmiði að viðhalda hér verðtryggingu um ókomin ár. Þess vegna ítrekar Verkalýðsfélag Akraness afstöðu sína um að afnema verður verðtryggingu á neytendalánum til heimila án tafar.   

Wednesday, 02 January 2013 00:00

Félagsskírteini póstlögð til félagsmanna

Rétt fyrir áramót voru póstlögð félagsskírteini til félagsmanna, en gegn framvísun þeirra býðst afsláttur af vörum og þjónustu hjá hinum ýmsu aðilum. Ljóst er að margir félagsmenn hafa nýtt sér þessi sérkjör og þá sérstaklega nú fyrir jól, enda getur afslátturinn numið þúsundum króna. Félagið vill einnig minna félagsmenn á að dagbók ársins 2013 er tilbúin og er hægt að nálgast hana á skrifstofu félagsins eða hafa samband og fá hana senda í pósti.

Eftirtalin fyrirtæki veita félagsmönnum Verkalýðsfélags Akraness afslátt gegn framvísun félagsskírteinis:

Apótek Vesturlands 10% af vörum í búð
Bifreiðaverkstæðið Brautin 7% af vinnu
Bílar og dekk 10% af dekkjum
Dekur snyrtistofa 10%
Gallerí Ozone 10%
Omnis 5-15%
LH bókhald 15%
Model/Ormsson 5-10%
N1 Sjá skilmála
Olís Sjá skilmála
Rafþjónusta Sigurdórs 5-10%
Trésmiðjan Akur 7%
Tryggingafélagið VÍS 5%
Ökukennsla Sigga Trukks 10%

Tæmandi lista yfir samstarfsfyrirtæki, skilmála og fyrirvara má finna hér á heimsíðunni.

Friday, 04 January 2013 00:00

Leiðrétting upp á tæpar 30 milljónir

Um mitt síðasta ár gerði félagið alvarlegar athugasemdir hjá einu fyrirtæki við það að lausráðið starfsfólk og fólk í sumarafleysingum væri ekki að vinna sér inn frídaga vegna rauðra daga, en starfsmenn í fullri vaktavinnu ávinna sér 72 tíma á ári í frítökurétt vegna vinnu á rauðum dögum. Eftir að Verkalýðsfélag Akraness færði góð og gild rök fyrir því að þessi réttur væri klárlega einnig til staðar hjá lausráðnum og sumarafleysingafólki féllst fyrirtækið á að lagfæra þessi mistök fjögur ár aftur í tímann. 

Sú leiðrétting nam um 23 milljónum og fengu um 300 manns leiðréttingu sem gerði um 76.000 kr. að meðaltali á hvern starfsmann. Verkalýðsfélag Akraness fór síðan yfir þessa útreikninga og komst að því að leiðréttingin hafi ekki verið vaxtareiknuð og gerði því kröfu um að slíkt væri gert og að sjálfsögðu samþykkti fyrirtækið þá kröfu félagsins. Áðurnefndir starfsmenn fengu því reiknaða dráttarvexti og nam sú greiðsla yfir 6 milljónum króna. 

Þessi hagsmunagæsla Verkalýðsfélags Akraness skilaði því félagsmönnum VLFA rétt tæpum 30 milljónum og þetta sýnir hversu mikilvægt það er að launafólk komi til síns stéttarfélags og láti kanna hvort verið sé að greiða eftir þeim kjarasamningum sem í gildi eru.  Þetta sýnir einnig hversu miklivægt það er að stéttarfélögin bregðist skjótt og örugglega við öllum ábendingum um kjarasamningsbrot því miklir fjármunir geta verið í húfi fyrir starfsmenn eins og þetta dæmi sannar.

Með aðild sinni að Verkalýðsfélagi Akraness eiga félagsmenn jafnframt aðild að þeim starfsmenntasjóðum sem samið hefur verið um í kjarasamningum. Þessir sjóðir eru Landsmennt, Sveitamennt, Ríkismennt og Sjómennt. Skrifstofa félagsins sér um umsýslu fyrir alla sjóðina og afgreiðir styrki til félagsmanna úr þeim.

Nú ber svo við að alger sprenging hefur orðið á þessum styrkjum því afgreiddum styrkjum fjölgaði um 48% á árinu 2012 miðað við árið á undan. Upphæð afgreiddra styrkja er samtals 55% hærri á árinu 2012 en árið 2011, en meðalupphæð hvers styrks hefur hækkað um 4,6%. Þetta eru afar ánægjulegar fréttir og alveg í takt við það átak sem gert hefur verið í kynningu á þjónustu félagsins á síðasta ári.

Wednesday, 09 January 2013 00:00

Greiðslur úr sjúkrasjóði aukast talsvert

Í vikunni var hér á heimasíðunni greint frá aukinni ásókn félagsmanna í styrki úr þeim menntasjóðum sem skrifstofa félagsins hefur umsýslu með. Þegar rýnt er í talnagögn úr sjúkrasjóði kemur einnig í ljós talsverð aukning, en greiðslur úr sjúkrasjóði VLFA árið 2012 jukust alls um 27,5% miðað við árið 2011. Munar þar mestu um fæðingarstyrkinn, en á árinu var hann hækkaður úr 35.000 kr. í 70.000 kr. og hefur upphæð afgreiddra fæðingarstyrkja ríflega tvöfaldast fyrir vikið eða sem nemur 128%. Einnig má nefna að sjúkradagpeningar hafa aukist um tæp 20%, styrkir vegna heilsufarsskoðana um 45% og heilsueflingarstyrkir um 14%.

Sem betur fer er fjárhagsleg staða félagsins afar sterk og sjóðir félagsins vel í stakk búnir til að mæta þessari aukningu á greiðslum til félagsmanna eftir uppbyggingu síðustu ára. Auk þess er útlit er fyrir að afkoma félagsins núna verði með svipuðu móti og undanfarin ár en að sjálfsögðu er allur varinn hafður á og vel fylgst með stöðu mála.

Athygli vekur hversu stór hluti þeirra félagsmanna sem eiga rétt á greiðslum úr sjóðum félagsins nýtir þann rétt sinn, en um er að ræða tæp 54% félagsmanna sem verður að teljast ansi stór hluti. Stjórn og starfsfólk félagsins hefur ávalt reynt af fremsta megni að kynna þjónustu félagsins út á við og láta félagsmenn vita af því ef þeir eiga rétt á styrkjum frá félaginu.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image