• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
VLFA

VLFA

Big fan of open source and Joomla

Website URL: http://joomlabuff.com
Friday, 31 October 2008 00:00

Ráðamenn þjóðarinnar vaknið !

Það er óhætt að segja að algjör ringulreið ríki nú á íslenskum vinnumarkaði ef marka má þá holskeflu uppsagna sem nú ríður yfir íslenskan vinnumarkað.  Íslenskir launþegar vita vart hvaðan á sig stendur veðrið og ríkir ótti og angist víða í þjóðfélaginu vegna þeirra uppsagna sem nú dynja á landsmönnum.

Eins og fram kom hér á heimsíðunni í fyrradag þá óttaðist formaður félagsins að fleiri uppsagnir myndu líta dagsins ljós áður en mánuðurinn yrði allur, en á miðvikudaginn sl. var búið að tilkynna 42 einstaklingum um uppsögn í vikunni hér á Akranesi.  Í dag er þessi tala því miður komin uppí 63 einstaklinga.  Sem dæmi þá þurfti fyrirtæki sem tilkynnti á miðvikudaginn um uppsagnir á 13 starfsmönnum að segja upp 9 til viðbótar í dag.  Með öðrum orðum þá ríkir algjört panik hjá atvinnurekendum vegna þess ástands sem ríkir í efnahagslífi þjóðarinnar.

Formaður félagsins vill hvetja atvinnurekendur til að virða þær leikreglur og kjarasamninga sem gilda á íslenskum vinnumarkaði þegar staðið er að uppsögnum og breytingu á vinnutilhögun.  Sem dæmi þá ætlaði t.d. fyrirtæki að segja upp núverandi vaktakerfi og setja upp nýtt vaktakerfi með einungis nokkurra daga fyrirvara þótt kveðið sé á um að slíkt sé ekki hægt að gera með svo stuttum fyrirvara. 

Stjórn félagsins vill minna félagsmenn sína á að leita upplýsinga hjá félaginu ef þeir eru í minnsta vafa um að verið sé að ganga á kjarasamningsbundinn rétt þeirra.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness vill segja við ráðamenn þessarar þjóðar, vaknið, því íslenskum fyrirtækjum, launþegum og heimilum er að blæða út.  Stjórn félagsins vill ítreka að ríkisstjórn Íslands verður að koma fyrirtækjum,launþegum og heimilum landsins til hjálpar og það tafarlaust og það aðgerða- og úrræðaleysi sem blasað hefur við þjóðinni að undanförnu verður að heyra sögunni til.

Forsendur kjarasamninga kolbrostnarForsendur kjarasamninga kolbrostnarVerðbólgan mælist nú 14,5% og hefur ekki verið hærri í hart nær tvo áratugi.  Kaupmáttur launa dregst hratt saman og skuldsettar fjölskyldur standa frammi fyrir miklum vanda við að láta enda ná saman.  Þessu til viðbótar hafa tæplega fjórtán hundruð manns misst vinnuna í hópuppsögnum á árinu og fleiri hundruðum til viðbótar hefur líklega verið sagt upp í minni uppsögnum. Á þessu sést að það eru öll merki um stóraukið atvinnuleysi og mjög líklegt að haustið og veturinn verði mjög erfiður hvað varðar samdrátt í atvinnulífinu. 

Það er morgunljóst að það þurfa fleiri en íslenskt verkafólk að leggja sitt af mörkum til að viðhalda hér stöðugleika og lágri verðbólgu.  Nú er komið að öðrum axla ábyrgð á verðbólguvandanum. Þann 17. febrúar sl. var gengið frá mjög hóflegum kjarasamningum sem höfðu það markmið að auka hér kaupmátt og koma böndum á verðbólguna.  Það er því grátlegt að horfa uppá það efnahagsástand sem nú ríkir í íslensku samfélagi og bitnar hvað harðast á skuldsettum verkamannafjölskyldum.

Verðbólgan var 5,8% þegar gengið var frá kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði 17. febrúar 2008. Nú einungis 6 mánuðum frá undirritun hefur verðbólgan aukist um hvorki meira né minna um 8,7% og mælist verðbólgan í dag 14,5%  Ein af grunnforsendum fyrir því að gengið var frá kjarasamningum á þeim nótum sem gert var 17. febrúar sl. var endurskoðunarákvæði í samningunum, en þar er getið um að í byrjun febrúar 2009 muni endurskoðunarnefnd koma saman til að vega og meta hvort forsendur kjarasamningsins hafi staðist.  Þessar forsendur byggjast á því hvort kaupmáttur hafi staðið í stað eða aukist.  Einnig þurfti verðbólgan að hafa farið lækkandi.  Með lækkandi verðbólgu var átt við að verðbólga innan ársins 2008 þ.e. 12 mánaða verðbólgan í desember 2008 sé lægri en 5,5%.  Ennfremur er getið um í endurskoðunarákvæðinu að verðbólga á 6 mánaða tímabilinu ágúst 2008- janúar 2009 sé innan við 3,8% miðað við árs hraða. 

Á þessu sést svo ekki verður um villst að forsendur kjarasamninga eru kolbrostnar en þær byggðu eins og áður hefur komið fram á þeim forsendum að það tækist að koma böndum á verðbólgu og verja kaupmátt.

Þegar endurskoðun kjarasamninga fer fram verður verkalýðshreyfingin að gera skýlausa kröfu um að fá viðbót við kjarasamninginn ella er ekkert annað í stöðunni en að segja samningnum upp eins og heimilt er samkvæmt endurskoðunarákvæðinu.

Það er ljóst að fyrirtæki eru að hagræða hjá sér í rekstri með því að segja upp fólki í stórum stíl og mörg önnur fyrirtæki hækka verð á sinni vöru og þjónustu. 

Rjúfa verður þann vítahring að seljendur vöru og þjónustu hækki verð í samræmi við liðna verðbólgu og leggi þannig grunn að enn meiri verðbólgu. Gera verður þá lágmarkskröfu á ríki og sveitarfélög að þau haldi aftur af gjaldskrárhækkunum sínum en nokkuð hefur borið á þeim að undanförnu.

Hinn almenni launþegi getur lítið sem ekkert gert þegar kaupmáttur launa dregst hratt saman og greiðslubyrðin hækkar frá mánuði til mánaðar.  Á þeirri forsendu verða að koma einhverjar viðbætur við kjarasamninginn þegar endurskoðun á sér stað, ella er ljóst að illa mun fara fyrir íslensku verkafólki.

Wednesday, 03 September 2008 00:00

Fundað með starfsmönnum leikskólans Akrasels

Í gærkvöldi átti formaður félagsins fund með starfsmönnum á leikskólanum Akraseli. Á þeim fundi fór formaður yfir hin ýmsu réttindi er standa félagsmönnum Verkalýðsfélags Akraness til boða.

Einnig var töluvert fjallað um komandi kjarasamninga og ljóst að starfsmenn Akraneskaupstaðar bera umtalsverðar væntingar til komandi kjarasamninga enda ljóst að laun ófaglræðra starfsmanna á leikskólum Akraneskaupstaðar upp á rétt rúmar 156.000 kr. á mánuði duga vart til lágmarksframfærslu. Einnig liggur fyrir að laun sundlaugarvarða og annarra ófaglærðra starfsmanna sveitarfélagsins eru allt of lág og þau þarf klárlega að leiðrétta svo um munar í komandi kjarasamningagerð.

Thursday, 04 September 2008 00:00

Formaður í vinnustaðaheimsókn í Norðuráli

Í morgun fór formaður félagsins í vinnustaðaheimsókn til Norðuráls. Tilefni heimsóknarinnar var að fara yfir það hvað Norðurál hefur verið að gera í hinum ýmsu málum er tengjast öryggi starfsmanna. Formaður fór í steypuskála og skautsmiðju þar sem honum var sýnt hvað gert hefur verið í öryggismálum á liðnum mánuðum.

Ánægjulegt var að sjá að forsvarsmenn Norðuráls virðast leggja töluverðan fókus á öryggi starfsmanna þessi misserin enda skipta öryggismál gríðarlega miklu máli bæði fyrir starfsmenn og fyrirtækið sjálft.

Formanni var t.d. sýnt hvar ný handrið hafa verið sett til að afmarka hættuleg svæði ásamt hinum ýmsu öðrum atriðum sem eiga að leiða til aukins öryggis starfsmanna. Fram kom í máli forsvarsmanna fyrirtækisins að þegar kemur að öryggismálum þá séu verkefnin ærin og unnið sé nú eftir lista yfir atriði sem starfsmenn og forsvarsmenn telja að þurfi að bæta. Markmið fyrirtækisins er að reyna að koma sem flestum þessara atriða til betri vegar á sem skemmstum tíma.

Öryggismál skipta gríðarmiklu máli í verksmiðju þar sem hættur geta leynst víða og skemmst er að minnast alvarlegs slyss fyrir ekki svo löngu þegar starfsmaður missti hluta af fæti vegna þess að hann varð fyrir lyftara. Á þeirri forsendu er mikilvægt að starfsmenn og forsvarsmenn fyrirtækisins vinni eins vel og hægt er að því að bæta öryggi í verksmiðjunni enn frekar. Það var því afar ánægjulegt að sjá að til er aðgerðalisti um öryggismál sem nú er unnið af hörðum höndum við að vinna í.

Starfsemi í frystihúsi HB Granda hér á Akranesi er nú að komast á fullt skrið aftur eftir sumarlokun sem stóð frá 11. júlí til 18. ágúst. Í sumarlokuninni var frystihúsinu breytt og settur upp nýr lausfrystibúnaður þar sem nú er verið að vinna léttsöltuð og lausfryst ufsaflök.

Rúmlega 20 manns starfa í frystihúsinu núna og nú er bara að vona að þessi nýja framleiðsla muni ganga sem allra best með von um að fjölga þurfi starfsmönnum við þessa nýju vinnslu.

Þann 8. júlí sl. gekk Starfsgreinasamband Íslands frá kjarasamningi við Landsamband smábátaeigenda um vinnu við uppstokkun og beitningu á línu. Samningurinn nær einnig til þeirra sem vinna við netavinnu.

Beitningarmönnum eru tryggð ýmis réttindi í þessum nýja kjarasamningi eins og t.d. kauptrygging, orlofs- og desemberuppbætur, réttindi í veikinda- og slysatilfellum og hlífðarfatnaður. Um önnur réttindi sem ekki er getið um í kjarasamningnum við Landssamband smábátaeigenda vísast í aðalkjarasamning SGS við SA.

Það er alveg ljóst að með þessum nýja samningi við Landsamband smábátaeigenda hafa fjölmörg kjaraatriði verið tryggð en hingað til hafa beitningamenn yfirleitt verið án kjarasamnings.

Þó nokkrir beitningamenn tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness og hefur félagið að undanförnu verið að kynna samninginn fyrir sínum félagsmönnum.  Hægt er að skoða samninginn með því að smella á kjarasamningar hér til vinstri og velja beitningarsamningur.

Í fréttum í dag kemur fram að alvarlegar þreifingar hafi átt sér stað á milli Samtaka atvinnulífsins og verkalýðsfélaganna um leiðir til að leysa efnahagsvandann til langframa.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness lýsir furðu sinni á þessum fréttum og kannast ekki við að slíkar þreifingar hafi átt sér stað. Það sama má segja um marga aðra forystumenn innan aðildarfélaga ASÍ, þeir koma af fjöllum þegar fréttin er borin undir þá.

Í þessum "þreifingum" á meðal annars að hafa verið rætt um upptöku erlends gjaldmiðils þar sem krónan sé steindauð sem framtíðargjaldmiðill.  Einnig kom fram í fréttum varðandi þessar þreifingar að kjarasamningar verði endurskoðaðir á næstu vikum en ekki beðið fram í febrúar þegar samningar verða lausir í ljósi þess að allar forsendur þeirra séu löngu brostnar. Meðal annars sé gert ráð fyrir því að núverandi samningar verði framlengdir óbreyttir og að laun hækki um 3,5%.
Í fréttinni kemur jafnframt fram að fulltrúar Samtaka atvinnulífsins hafi rætt við forystumenn í verkalýðshreyfingunni og kynnt í trúnaði 12 punkta plagg þar sem tíundaðar eru hugmyndir sem verði að taka á til að hér verði komið á jafnvægi í efnahagsmálum.
Í fréttum er einnig fullyrt að samstaða sé að myndast um að atvinnurekendur, verkalýðshreyfingin, ríkisstjórnin, bankar og fleiri taki höndum saman til að hér náist jafnvægi í efnahagsmálum.

Það væri afar fróðlegt að vita við hverja Samtök atvinnulífsins eru að ræða við innan verkalýðshreyfingarinnar, sérstaklega í ljósi þess að samningsumboðið liggur hjá stéttarfélögunum vítt og breitt um landið og forystumenn fjölmargra félaga kannast ekki við að viðræður um þjóðarsátt standi yfir þessa daganna.

Það er einnig morgunljóst að Það þýðir lítið að tala um þjóðarsátt fyrr en ljóst er hvað aðrir en launafólk ætla að leggja af mörkum.  Rétt er minna enn og aftur á það að þurfa fleiri en íslenskt verkafólk að leggja sitt af mörkum til að viðhalda stöðugleika í íslensku efnahagslífi.  

Verkalýðsfélag Akraness vill minna félagsmenn sína á fund sem viðskiptaráðuneytið stendur fyrir í kvöld. Fjallar hann um nýja sókn í neytendamálum.

Fundurinn hefst kl. 20:00 og er í Skrúðgarðinum. Ræðumenn á fundinum verða Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra, Jón Magnússon þingmaður Frjálslynda flokksins og Guðbjartur Hannesson þingmaður Samfylkingarinnar.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness skorar á félagsmenn sína að mæta og spyrja viðskiptaráðherra spurninga er lúta að neytendamálum enda er algerlega ljóst að af nægu er að taka í þeim efnum.

Formaður félagsins, Vilhjálmur Birgisson, mun verða fundarstjóri á fundinum í kvöld.

Í gærkvöldi stóð viðskiptaráðuneytið fyrir fundi undir yfirskriftinni "Ný sókn í neytendamálum". Fundurinn var haldinn í Skrúðgarðinum hér á Akranesi og var þriðji fundurinn í fundarherferð viðskiptaráðherra um neytendamál sem hann heldur vítt og breitt um landið þessa dagana.

Fundurinn í gær var afar gagnlegur og forvitnilegur en framsögumenn á fundinum voru Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra, Jón Magnússon þingmaður Frjálslynda flokksins og Guðbjartur Hannesson þingmaður Samfylkingarinnar. Eftir erindi frá áðurnefndum aðilum voru leyfðar fyrirspurnir sem þeir félagar svöruðu og brunnu fjölmargar spurningar á fundargestum.

Til að mynda var spurt um verðtrygginguna og kom fram hjá Jóni að hana eigi að leggja af sem allra fyrst. Hann sagðist samt sem áður gera sér grein fyrir því að það verði erfitt miðað við þær aðstæður sem nú ríkja í íslensku efnahagslífi.

Viðskiptaráðherra sagði að erfitt yrði að leggja verðtrygginguna niður á meðan að krónan væri við lýði hér á landi og vart væri hægt að leggja verðtrygginguna niður fyrr en nýr gjaldmiðill væri kominn og stöðugleika í íslensku efnahagslífi náð.

Fyrirspurn kom frá einum fundarmanni um veggjaldið í Hvalfjarðargöngum og fram kom í svari frá Jóni að hann telji það varla standast jafnræðisreglu að greitt sé veggjald í Hvalfjarðargöngum á sama tíma og gjaldtaka eigi sér ekki stað í öðrum jarðgöngum hér á landi.

Viðskiptaráðherra svaraði því til að Guðbjartur Hannesson hefði farið yfir málið á sínum tíma með þingflokki Samfylkingarinnar og á þeim tíma studdi allur þingflokkur Samfylkingarinnar afnám vegatolla um Hvalfjarðargöng. Vonaðist ráðherrann til þess að Samfylkingin gæti uppfyllt þetta kosningaloforð sitt í náinni framtíð.

Formaður félagsins, sem jafnframt var fundarstjóri á fundinum, lagði fyrir þá félaga spurningar um verðlagseftirlit Alþýðusambands Íslands og þær hörðu ásakanir sem fulltrúar verslunarinnar hafa sett fram á verðlagseftirlit ASÍ og félaga þess undanfarið. Einnig var spurt um afstöðu þeirra félaga til þeirra tillagna sem fram hafa komið af hálfu verslunarinnar um að fenginn verði "óháður aðili" til að sinna verðlagseftirliti.

Fram kom í máli Jóns og Guðbjarts Hannessonar að þeir styðji það öfluga starf sem verðlagseftirlit Alþýðusambandsins hefur unnið og Guðbjartur sagðist ekki sjá að neinir hnökrar hafi verið á verðlagseftirliti ASÍ. Ráðherra sagðist búinn að fara vandlega yfir þetta mál og það væri ljóst að engar breytingar yrðu á því ágæta samstarfi sem ríkisvaldið ætti við Alþýðusamband Íslands um verðlagseftirlitið og myndi ASÍ því áfram sinna því hlutverki.

Fyrsta desember nk. verður kjarasamningur starfsmanna Elkems Íslands laus og á sama tíma verður kjarasamningur starfsmanna Klafa laus, en það eru starfsmenn sem vinna við út- og uppskipun í Grundartangahöfn.

Það er ljóst að kröfur starfsmanna verða umtalsverðar í komandi kjarasamningi, sérstaklega í ljósi þess að starfsmenn hafa setið töluvert á hakanum sé tekið mið af því launaskriði sem verið hefur á hinum almenna vinnumarkaði. Starfsmenn hafa haft á orði við formann félagsins að þeir vilji stefna að skammtímasamningi sökum þess efnahagsástands sem nú ríkir.

Formaður hefur verið að skoða hvernig laun starfsmanna stóriðjunnar á Grundartanga hafa þróast samanborið við launavísitölu frá 1. janúar 2004 til 1. júlí 2008. Þá kemur í ljós að frá þeim tíma hefur launavísitalan hækkað um 42,4%.

Einnig hefur formaður skoðað hækkun vísitölu neysluverðs (verðbólgu) frá 1. janúar 2004 til 1. júlí 2008 og kemur þá í ljós að á þessum tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um 34,7%.

Hins vegar hafa laun starfsmanna Elkem Íslands og Klafa hækkað um 29,7% og sést því að kaupmáttarskerðing á umræddu tímabili er 5%. Einnig sést að launavísitalan hefur hækkað um 42,4% sem er 12,7% meira en laun starfsmanna áðurnefndra fyrirtækja.

Á þessari forsendu liggur fyrir að krafa starfsmanna Elkem Íslands og Klafa í komandi samningum verður umtalsverð hækkun á grunntöxtum. Það liggur fyrir að fastlaunasamningar eins og eru í stóriðjunni hafa þá tilhneigingu að sitja eftir á við almenna markaðinn eins og fram kemur þegar launavísitalan er skoðuð, enda þekkist vart launaskrið þegar um fastlaunasamninga er að ræða.

Það er einnig ljóst að starfsmenn stóriðjunnar eru ekki að fara að taka þátt í þjóðarsátt einfaldlega vegna þess að þeir telja sig vera búna að leggja sitt af mörkum í þeim efnum í gegnum tíðina eins og sést þegar að launahækkanir þessara hópa eru skoðaðar og bornar saman við hækkun á launavísitölunni.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image