• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Tuesday, 24 February 2015 14:29

Formaður fundar með forsætisráðherra

Formaður mun funda með forsætisráðherra í dag um hin ýmsu mál er lúta að hagsmunum íslenskrar alþýðu og að sjálfsögðu mun staða kjaramála koma þar sterkt inn. Það hefur verið ánægjulegt að heyra á hinum ýmsu ráðamönnum þjóðarinnar að það verði að lagfæra kjör íslensks verkafólks og þá hvatningu til verkalýðshreyfingarinnar að nota krónutöluhækkanir í stað prósentuhækkana. Það liggur fyrir að krónutöluhækkanir koma þeim tekjulægstu að sjálfsögðu hvað best. 

Formaður mun einnig ræða nýfallinn verðtryggingardóm við ráðherra og mikilvægi þess að ráðist verði sem fyrst í að afnema hér verðtryggingu á neytendalánum. Menn mega ekki sofa á verðinum þó verðbólgan sé lág um þessar mundir því óréttlætið sem fólgið er í verðtryggingunni er svo gríðarlegt þar sem fjármálafyrirtækin eru tryggð í bak og fyrir á meðan neytendur standa eftir varnarlausir. Þetta getur leitt það af sér eins og dæmin sönnuðu í hruninu að allur eignarhluti íslenskra heimila sogist burt þegar verðbólgan lætur á sér kræla og færist yfir til fjármálakerfisins. Enda gengur það ekki upp að hér sé fámenn útvalin elíta sem geti fengið að vera með fjármuni sína verðtryggða á meðan íslenskt launafólk nýtur ekki sömu réttinda.  

Published in Fréttir
Tuesday, 24 February 2015 14:27

Aðalfundur deilda 2015

Sameiginlegur aðalfundur Almennrar deildar, Stóriðjudeildar, Opinberrar deildar, Iðnsveinadeildar og Matvæladeildar verður haldinn á Gamla kaupfélaginu miðvikudaginn 25. febrúar kl. 18:00.

Dagskrá:

1.               Venjuleg aðalfundarstörf

2.               Staða kjaramála

3.               Önnur mál

Boðið verður upp á súpu og brauð að afloknum fundi.

Félagsmenn eru eindregið hvattir til að fjölmenna!

Aðalstjórn Verkalýðsfélags Akraness

Published in Fréttir
Friday, 20 February 2015 14:38

Öskudagur 2015

Að vanda var líf og fjör á skrifstofu félagsins á öskudaginn, þegar furðuverur mættu á svæðið, sungu hástöfum og fengu sælgæti að launum. Hægt er að sjá nokkrar myndir frá öskudeginum með því að smella hér og einnig á Facebook-síðu félagsins. 

Published in Fréttir
Tuesday, 17 February 2015 14:59

Samningafundur vegna Norðuráls

Í dag verður haldinn tíundi samningafundurinn hjá ríkissáttasemjara vegna kjarasamnings starfsmanna Norðuráls, en eins og áður hefur komið fram hér á síðunni þá rann samningurinn út um síðustu áramót.

Það er svo sem enginn launung á því að töluvert ber ennþá á milli samningsaðila en hins vegar er ætíð von að saman dragi með aðilum á meðan viðræður eiga sér stað. Það liggur fyrir að starfsmenn Norðuráls eygja von um góðan samning enda hefur rekstur Norðuráls blessunarlega ætíð gengið mjög vel, en fyrirtækið er eitt besta rekna fyrirtæki á landinu og hefur skilað hagnaði nánast öll þau ár sem það hefur verið starfrækt. Á þeirri forsendu vilja starfsmenn eðlilega fá aukna hlutdeild í þessari góðu afkomu.

Á fundinum í dag verður farið yfir hin ýmsu atriði er snúa að kröfugerð stéttarfélaganna, en ein aðalkrafan er hvellskýr: að grunnlaun fyrir dagvinnu hækki umtalsvert enda eru grunnlaunin í dag því miður alltof lág og þar verður að verða umtalsverð breyting á í komandi kjarasamningi.

Það er morgunljóst að miklu máli skiptir fyrir alla að samningsaðilar nái saman sem fyrst, því álögur á almenning í þessu landi hafa hækkað gríðarlega á undanförnum árum og misserum og því mikilvægt að starfsmenn Norðuráls sem og annað launafólk fái lagfæringu á sínum launum til að geta meðal annars mætt þessum kostnaðarauka sem heimili landsins hafa þurft að taka á sig í gegnum árin.   

Published in Fréttir

Í gær kom aðalstjórn Verkalýðsfélags Akraness saman til fundar og var aðalmál fundarins að fara yfir þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin á hinum almenna vinnumarkaði. Það liggur fyrir að forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins hafa alfarið hafnað sanngjörnum kröfum Starfsgreinasambandsins um að stigin verði jöfn og ákveðin skref í því að dagvinnulaun verkafólks dugi fyrir lágmarksframfærslu, en eins og fram hefur komið fréttum þá er aðalkrafa SGS að lágmarkslaun verði komin uppí 300.000 kr. innan þriggja ára.

Það kom hvellskýrt fram á fundi aðalstjórnar félagsins í gær að þessu skilningsleysi og óbilgirni forsvarsmanna Samtaka atvinnulífsins verði að mæta af fullri hörku og ljóst að Verkalýðsfélag Akraness verður að búa sig undir hörð verkfallsátök á næstu vikum og mánuðum eins og önnur aðildarfélög innan SGS. Það er ekki og verður ekki hægt að láta það átölulaust að dagvinnulaun verkafólks skuli vera frá 201 þúsund krónum uppí rúmar 240 þúsund enda liggur fyrir að þessi laun duga alls ekki fyrir lágmarksframfærslu sem hið opinbera hefur gefið út.

Það ríkti gríðarleg gremja hjá stjórnarmönnum VLFA yfir því að hræðsluáróður Samtaka atvinnulífsins skuli enn á ný óma á ljósvakamiðlum hér á landi eins og enginn sé morgundagurinn, en slíkur hræðsluóhróður byrjar ætíð að óma þegar kröfur verkafólks eru lagðar fram. Það liggur fyrir að það hefur verið bullandi launaskrið á íslenskum vinnumarkaði undanfarin ár, enda hefur launavísitalan hækkað mun meira en almennar prósentuhækkanir sem um hefur verið samið á hinum almenna vinnumarkaði. Og hverjir bera ábyrgð á launaskriðinu? Að sjálfsögðu eru það stjórnendur fyrirtækja innan SA.

Einnig er rétt að benda á og rifja upp að fyrirtæki, ríki, sveitarfélög og aðrir þjónustuaðilar hafa þann möguleika að varpa sínum vanda yfir á neytendur og launafólk og gera það hiklaust. Núna er komið að verkafólki sem þarf nauðsynlega að fá lagfæringu og leiðréttingu á sínum kjörum til að geta staðið undir öllum þessum álögum sem á herðar þeirra hafa verið lagðar. 

Það liggur fyrir að hinir ýmsu starfshópar eins og kennarar, læknar, flugstjórar og aðrar háskólastéttir hafa samið um tugprósenta launahækkun og hafa því hækkað í sumum tilfellum um og yfir 100 þúsund krónur á mánuði og nú þegar verkafólk fer fram á að laun þeirra dugi fyrir lágmarksframfærslu ætlar allt um koll að keyra hjá forystu Samtaka atvinnulífsins.

Verkalýðsfélag Akraness tekur heils hugar undir með Alþjóðavinnumálastofnun, en þar á bæ er varað við of litlum launahækkunum og bent á að slíkt geti leitt til verðhjöðnunar og vandræðum í hagkerfum heimsins. Það er mjög mikilvægt að laun verkafólks hækki, enda mun það klárlega koma öllum til góða: sveitafélög munu fá hærri útsvarstekjur sem hugsanlega gerir það að verkum að þau geti haldið aftur af gjaldskrárhækkunum og það sama gildir um ríkissjóð, hærri tekjuskattur skilar sér í betri afkomu ríkissjóðs. Hvað með verslun og þjónustu? Að sjálfsögðu skilar betri afkoma verkafólks sér í aukinni veltu og hagnaði í verslunum og þjónustufyrirtækjum, sem sagt allir græða á að laun verkafólks hækki. Það liggur fyrir að sumar atvinnugreinar mala gull þessi misserin eins og ferðaþjónustan, stóriðjan og sjávarútvegurinn og verður það að teljast ótrúverðugur málflutningur þegar því er haldið fram að þessar greinar geti ekki lagfært kjör sinna starfsmanna svo um munar í komandi kjarasamningum, því það geta þær svo sannarlega.

Aðalstjórn Verkalýðsfélags Akraness samþykkti á fundinum í gær að hefja undirbúning að verkfallsaðgerðum í samvinnu við önnur félög Starfsgreinasambandsins. Fram kom á fundinum að stjórn félagsins er svo sannarlega tilbúin að láta sverfa til stáls í komandi kjaraátökum, því þessu óréttlæti sem íslenskt verkafólk þarf ætíð að lifa við verður að linna í eitt skipti fyrir öll. Samninganefnd Starfsgreinasambandsins fundar í húsakynnum Ríkissáttasemjara í dag kl. 13.

Published in Fréttir

Í gær var haldinn níundi samningafundurinn í kjaradeilu stéttarfélaganna við Norðurál, en eins og áður hefur komið fram þá var þessari deilu vísað til ríkissáttasemjara fyrir áramót. Fundurinn í gær var sá fimmti sem haldinn er undir handleiðslu ríkissáttasemjara en áður en deilunni var vísað til hans höfðu stéttarfélögin átt fjóra fundi með forsvarsmönnum Norðuráls.

Á fundinum í gær var farið yfir hin ýmsu mál er lúta að kröfugerð stéttarfélaganna og sumt skýrðist en annað ekki. Töluvert ber enn á milli deiluaðila en eins og í öllum kjaradeilum þá er það jákvætt á meðan aðilar tala saman, eins og allir vita þá ná samningsaðilar ekki samningi nema samræður eigi sér stað. Það er svo sem enginn launung á því að enn ber talsvert á milli deiluaðila, en stóru kröfurnar eru þær að grunnlaun starfsmanna hækki umtalsvert á fyrsta ári og tekið verði upp nýtt 8 tíma vaktakerfi með sambærilegum hætti og tíðkast hjá Elekm Ísland. Það liggur hins vegar fyrir að þeirri kröfu hafa forsvarsmenn Norðuráls alfarið hafnað.

Næsti fundur verður mánudaginn 16. febrúar og á þeim fundi mun væntanlega skýrast hvort grundvöllur sé fyrir frekari viðræðum eða hvort viðræðurnar sigli endanlega í strand, en að sjálfsögðu standa vonir til að forsvarsmenn Norðuráls komi með eitthvað útspil á þeim fundi sem færir deiluaðila nær hverjum öðrum.

Published in Fréttir

Síðastliðinn föstudag héldu forsvarsmenn Silicor Materials kynningarfund í bæjarþingsalnum á Akranesi um hið gríðarstóra verkefni sem fyrirtækið vinnur nú að, en fyrirhugað er að reisa öfluga sólarkísilverksmiðju á Grundartanga. Um er að ræða mjög stóra verksmiðju á íslenskan mælikvarða, sem gæti framleitt um 19 þúsund tonn af kísil á ári og mun verksmiðjan skapa gríðarlegan fjölda nýrra starfa, en áætlað er að um 450 manns muni starfa í verksmiðjunni þegar starfsemin verður komin á fulla ferð.

Fundinn sátu sveitarstjórnarmenn, þingmenn norðvestur-kjördæmis auk fleiri hagsmunaaðila. Á fundinum fór Davíð Stefánsson talsmaður fyrirtækisins yfir stöðuna og kom fram að allt væri samkvæmt áætlun og afar fátt sem getur komið í veg fyrir það að framkvæmdir hefjist á vormánuðum. Það kom fram í kynningu Stefáns að fyrirtækið hefur lagt gríðarlega vinnu í undirbúning verkefnisins og til dæmis liggur fyrir að þeir sem standa að þessu verkefni munu leggja til 40% eiginfjárhlutfall sem sýnir hversu gríðarlega trú menn hafa á þessu verkefni.

Það er morgunljóst að þessi nýja sólarkísilverksmiðja mun verða gríðarlega mikilvæg fyrir samfélögin hér í kring og mun styrkja atvinnustoðir samfélaganna en frekar. Það er ekki aðeins um 450 gjaldeyrisskapandi störf að ræða, heldur hafa óháðar rannsóknir sýnt fram á að þessi sólarkísilverksmiðja verði ein umhverfisvænasta á landinu.

Það er morgunljóst að mörg sveitafélög öfunda okkur Akurnesinga og Hvalfjarðasveit af þeirri gróskumiklu starfsemi sem finnst á Grundartanga og ekki mun það skemma fyrir að fá þetta öfluga fyrirtæki sem Silicor Materials er, enda skapar það eins og áður sagði 450 ný störf.

Published in Fréttir
Friday, 06 February 2015 15:05

Páskar 2015

Published in Fréttir

Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags á Húsavík, kom í heimsókn á skrifstofu félagsins síðastliðinn þriðjudag ásamt Kristbjörgu Sigurðar, fv. varaformanni Framsýnar, en mjög náið og gott samstarf hefur verið með þessum tveimur stéttarfélögum í gegnum árin.

Það liggur fyrir að mikill samhljómur hefur verið í áherslum og baráttu fyrir bættum hag alþýðunnar hjá þessum félögum. Í þessari heimsókn var mikið rætt um komandi kjarasamninga og morgunljóst að bæði þessi félög vilja að látið verði sverfa til stáls ef atvinnurekendur sjá ekki að sér og ganga að afar sanngjarnri kröfu stéttarfélaganna um að launataxtar verkafólks dugi fyrir lágmarksframfærslu sem hið opinbera hefur gefið út.

Published in Fréttir

Mjög annasamt hefur verið á skrifstofu félagsins að undanförnu í verkefnum sem tengjast hagsmunagæslu fyrir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness og fjölmörg mál hafa verið til skoðunar. 

Í gær náðist sátt um eitt málið, en það laut að kauptryggingu skipverja á togara þegar skipið fór í slipp í einn mánuð. Útgerðin ákvað að greiða skipverjum einungis 50% af kauptryggingu en ekki 100% eins og kjarasamningar kveða á um. Að sjálfsögðu gerði Verkalýðsfélag Akraness alvarlega athugsemdir við þessa afgreiðslu útgerðarinnar, en eftir umræður við forsvarsmenn útgerðarinnar féllust þeir á rök félagsins og ákváðu að greiða skipverjum fulla kauptryggingu.

Einnig náði félagið sátt í máli sem varðaði veikindalaun skipverja, en sú hagsmunagæsla skilaði skipverjanum hundruðum þúsunda króna. Einnig gerði félagið athugasemdir við lokauppgjör hjá verkamanni, en þar vantaði ýmsar greiðslur eins orlof, fasta yfirvinnu og fleira og skilaði þessi vinna félagsmanninum vel á annað hundrað þúsund krónum.

Þessu til viðbótar er félagið nú með nokkur stór mál til skoðunar sem klárlega skipta milljónum króna fyrir þá félagsmenn sem um ræðir.

Verkalýðsfélag Akraness skorar á félagsmenn sína að fylgjast vel með launaseðlum sínum og hika ekki við að hafa samband við skrifstofu félagsins ef minnsti grunur leikur á að verið sé að brjóta á réttindum.

Published in Fréttir

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image