• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Friday, 11 January 2008 00:00

Erfiðar kjaraviðræður framundan

Viðræðunefnd Starfsgreinasambands Íslands kom saman til fundar í gær í húsakynnum ríkissáttasemjara, en formaður Verkalýðsfélags Akraness á sæti í viðræðunefndinni.

Eins og fram hefur komið fréttum í gær þá hafnaði ríkisstjórnin tillögum verkalýðshreyfingarinnar um sérstakan persónuafslátt á þá tekjulægstu sem gerir það að verkum að viðræður við Samtök atvinnulífsins eru komnar í hnút.  Það hefur ætíð legið fyrir af hálfu stéttarfélaganna að ríkisvaldið verði að koma að þessum viðræðum til að liðka fyrir því að hægt sé að ganga frá nýjum kjarasamningi.  

Rétt er að minna enn og aftur á það að ríkisstjórnin gerði með sér stjórnarsáttmála þar sem fram kemur að stefnt skuli að frekari lækkun skatta á einstaklinga á kjörtímabilinu, meðal annars með hækkun persónuafsláttar.  Einnig kemur fram í stjórnarsáttmálanum að unnið skuli að endurskoðun á skattkerfinu með það að markmiði að bæta hag lágtekjufólks og millitekjufólks.  Með öðrum orðum er verkalýðshreyfingin einungis að biðja ríkisstjórnina um að standa við sín eigin loforð.

Formaður félagsins finnur að þolinmæði verkfólks er að þrotum komin og vill fólk að verkalýðshreyfingin sýni fulla hörku til að knýja fram viðunandi kjarasamning til handa verkafólki.  Verkafólk horfir uppá þá miklu misskiptingu sem orðin er á launum í þessu samfélagi.  Það liggur t.d. fyrir að laun æðstu stjórnenda ríkisins hafa hækkað um 18% á síðastliðnum 2 árum á með almennt fólk hjá hinu opinbera hefur einungis fengið 7% til 9% á sama tímabili.  Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni áður þá hafa sveitastjórnir á höfuðborgarsvæðinu verið með sértækar aðgerðir til handa sínu fólki og t.d. eru lágmarkslaun hjá Kópavogi komin uppí 160.000 kr. á meðan lágmarkslaun á almenna vinnumarkaðnum er einungis 125.000 kr.  Þessar sértæku aðgerðir á höfuðborgarsvæðinu eru að koma þrátt fyrir að kjarasamningar séu ekki lausir hjá sveitarfélögunum fyrir en í nóvember.  Að sjálfsögðu ber að fagna þessum hækkunum enda kalla þær á að verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði fái leiðréttingu á sínum launum í samræmi við þær hækkanir sem orðið hafa hjá sveitarfélögunum.

Á fundinum í gær var farið yfir stöðu mála og því velt fyrir sér hvað sé í stöðunni og komu til að mynda hugmyndir um að semja einungis eins árs en ekki til tveggja ára eins og áður var fyrirhugað.  Formanni félagsins líst vel á þá hugmynd, en til að það geti orðið að veruleika þurfa taxtar að hækka um 20 þúsund krónur og lágmarkslaun þurfa að hækka úr 125.000 kr. í 150.000 kr. Einnig þyrfti að koma almenn 4% til 6% launahækkun til þeirra sem ekki væru að vinna eftir töxtum.

Það er alveg ljóst að framundan eru mjög erfiðar kjaraviðræður við Samtök atvinnulífsins en með fullri samstöðu á að vera hægt að knýja fram umtalsverðar kjarabætur handa þeim sem eru með hvað lægstu launin í komandi kjarasamningum.

Viðræðunefnd SGS mun koma aftur saman til fundar strax eftir helgi til að meta stöðuna.

Published in Fréttir
Thursday, 10 January 2008 00:00

Óvissu um starfssemi Laugafisks eytt

Það var mikið fagnaðarefni þegar bæjarstjórn Akraness ákvað á fundi sínum að gera ekki athugasemdir við tillögur Heilbrigðiseftirlits Vesturlands um að starfsleyfi Laugafisks á Akranesi verði endurnýjað.  En töluverð óvissa hefur ríkt um hvort starfsleyfi fyrirtækisins yrði endurnýjað eða ekki.

Með þessari ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Vesturlands og bæjarstjórnar Akraness hefur verið eytt þeirri óvissu sem ríkt hefur um störf allt að 30 starfsmanna Laugafisks.  Sú neikvæða umræða sem átt hefur sér stað um starfssemi fyrirtækisins á undanförnum árum og sú gríðarlega óvissa sem ríkt hefur um áðurnefnda starfssemi hefur valdið mörgum starfsmönnum fyrirtækisins töluverðri angist. 

Formaður félagsins hefur barist hart fyrir því að starfsleyfi Laugafisks yrði endurnýjað með hagsmuni starfsmanna að leiðarljósi og hefur t.d. fundað nokkrum sinnum með bæjarráði vegna málsins og einnig hefur formaður rætt við bæjarfulltrúa vegna málsins.

Formaður ætlar ekki að gera lítið úr þeim kvörtunum sem íbúar í námunda við fyrirtækið hafa komið á framfæri á undanförnum árum.  Hins vegar vita það allflestir að lyktarmengun frá Laugafiski hefur stórlagast á undanförnum árum, um það þarf ekki að deila.  Enda hefur fyrirtækið af fullum heilindum unnið að því að finna lausn á þessu hvimleiða vandamáli og hefur eins og áður sagði orðið verulega ágengt í þeim efnum.

Að sjálfsögðu þarf Laugafiskur eins og öll önnur fyrirtæki að fara eftir settum starfsleyfiskröfum og þeim skilmálum sem starfsleyfið er byggt á. 

Það var gríðarlegt fagnaðarefni að sjá hversu breiður pólitískur stuðningur var um málið og eiga bæjarfulltrúar heiður skilið fyrir hversu vel þeir settu sig inní málið. Það hefði ekki verið neitt grín að taka lífsviðurværið af allt að 30 einstaklingum í ljósi þess að stórlega hefur dregið úr lyktarmengun á undanförnum árum.

Formaður vill óska bæjarstjórn Akraness til hamingju með þessa ákvörðun en að sjálfsögðu þurfa forsvarsmenn Laugafisks að halda áfram á þeirri braut að draga úr mengun og formaður veit fyrir víst að svo verður.

Published in Fréttir

Starfsgreinasamband Íslands boðaði til formannafundar í gær í Reykjavík.  Á fundinum, var farið yfir stöðu kjaraviðræðna við Samtök atvinnulífsins og kröfur ASÍ gagnvart ríkinu.

Á fundinum var kynnt ný hugmynd að nýrri kröfugerð sem til stendur að leggja fram fyrir atvinnurekendur á morgun. 

Formaður félagsins gat ekki undir nokkrum kringumstæðum samþykkt þessar nýju hugmyndir, einfaldlega vegna þess að þær hugmyndir sem þarna voru kynntar voru ekki fullmótaðar og því erfitt að vita hvað þær þýddu í raun fyrir okkar fólk.

Á þeirri forsendu lagði formaður Verkalýðsfélags Akraness áherslu á að Starfsgreinasambandið héldi sig við þá kröfu sem lögð hefur verið fram til Samtaka atvinnulífsins.

Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá telur félagið það vera höfuðkröfu í komandi kjarasamningum að kjör þeirra sem lægstu hafa launin hækki stórlega í komandi kjarasamningum.

Stjórn og trúnaðarráð félagsins hefur skorað á samninganefnd SGS að standa þétt saman að þeirri kröfu sambandsins að lágmarkslaun hækki úr 125.000 kr. í 150.000 kr. á árinu 2008 og lágmarkslaunin verði orðin 165.000 kr. 1.janúar 2009.

Einnig hefur stjórn og trúnaðarráð skorað á samninganefnd SGS að hvika hvergi frá þessum kröfum.  Enda telur formaður að áðurnefndar kröfur séu forsenda fyrir því að hægt sé að ganga frá nýjum kjarasamningi.

Til að þessi krafa náist fram þurfa öll aðildarfélög SGS að standa þétt saman, án fullrar samstöðu er borin von að ná slíkri kröfu fram.

Vissulega mun skipta töluverðu máli hvernig aðkoma ríkisins verður að þessum samningum og þá sérstaklega hvað varðar skattalækkanir handa þeim tekjulægstu.  Rétt er að minna á að í stjórnarsáttmála ríkistjórnarinnar er talað um að lækka skatta á lágtekjufólk og millitekjufólk og því væri gott ef ríkisstjórnin efndi loforð sitt sem myndi klárlega liðka fyrir gerð nýs kjarasamnings.

Samninganefnd SGS mun koma saman til fundar á fimmtudaginn nk. kl. 13:00 þar sem farið verður yfir stöðuna eins og hún mun líta út þá.

Það er alveg orðið ljóst að farið er að gæta óþolinmæði hjá verkafólki hversu hægt þessar viðræður ganga, en nú eru liðnir 10 dagar frá því að kjarasamningar runnu út og ekki útlit fyrir að skrifað verði undir nýjan kjarasamning á næstu dögum.

Published in Fréttir

Fræðslusjóðurinn Landsmennt sem Verkalýðsfélag Akraness á aðild að fyrir hönd félagsmanna hefur samþykkt að hækka styrki vegna aukinna ökuréttinda úr kr. 81.000.- í kr. 100.000,-. Hækkunin tekur gildi nú um áramótin. Á nýju ári eiga því fullgildir félagsmenn í Verkalýðfélagi Akraness rétt á góðum styrk eða kr. 100.000,- vilji þeir ná sér í meirapróf. Félagsmenn, vinsamlegast hafið samband við Skrifstofu félagsins ef frekari upplýsinga ef þörf.

Published in Fréttir
Friday, 04 January 2008 00:00

Launahækkanir um áramótin

Laun félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness sem vinna eftir eftirfarandi kjarasamningum hækkuðu um eftirfarnandi prósentur um síðustu áramót.

Kjarasamningur starfsmanna sveitarfélag    3%
Kjarasamningur starfsmanna ríkisins    2%
Kjarasamningur starfsmanna Norðuráls    3%
Kjarasamningur starfsmanna, Íslenska járnblendifélagsins, Sementsverksmiðjunnar og Klafa    2.25%

 

Kjarasamningar verkafólks og iðnaðarmanna á hinum almenna vinnumarkaði voru lausir nú um áramótin og standa viðræður um endurnýjun þeirra kjarasamninga nú að fullu yfir.

Published in Fréttir

Aðalfundur sjómannadeildar var haldinn 29. desember sl.  Fundurinn var mjög góður og fór formaður sjómannadeildar yfir helstu málefni er lúta að deildinni.

Formaður fór yfir nýjan kjarasamning sem gerður var við landsamband smábátamanna.  Fram kom í máli fundarmanna að þeir fögnuðu nýjum kjarasamningi en eins og áður hefur komið fram hafa smábátasjómenn ekki haft kjarasamning áður.  Í þessum samningi er verið að tryggja smábátasjómönnum hin ýmsu réttindi sem þeir ekki hafa haft áður. 

Á fundinum var einnig kosið í stjórn deildarinnar og voru tveir nýir sjómenn kosnir í stjórn það voru þeir Ólafur Kristjánsson skipverji á skutttogaranum Sturlaugi H Böðvarssyni og Pétur Lárusson skipverji á smábátnum Keili.

Stjórn deildarinnar skipa þá eftirtaldir aðilar:

Jóhann Örn Matthíasson

Svavar S Guðmundsson

Sveinbjörn Rögnvaldsson

Elías Ólafsson

Ólafur Kristjánsson

Pétur Lárusson

Published in Fréttir

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, kom inn á komandi kjarsamninga á hinum almenna vinnumarkaði í áramótaávarpinu sínu til þjóðarinnar á gamlásdag. 

Þar sagði forsætisráðherrann m.a.

"Framundan eru kjarasamningar á almennum vinnumarkaði og þar með mikilvægar ákvarðanir í efnahagsmálum Íslendinga. Reynsla undanfarinna ára vekur sannarlega vonir um framhald farsællar stefnu. Í forystusveit launamanna og vinnuveitenda er ábyrgt fólk sem hefur lært það af reynslunni að hóflegir kjarasamningar sem byggja á traustu atvinnulífi og stöðugleika í efnahagsmálum leiða til mestra kjarabóta".

 

það fór ekki á milli mála að forsætisráðherra er að kalla eftir þjóðarsátt í komandi kjarasamningum og biður verkafólk um að gerðir verða hóflegir kjarasamningar í komandi samningum.

Starfsgreinasamband Íslands hefur lagt fram sýna kröfugerð til Samtaka atvinnulífsins og í þeirri kröfugerð er gert ráð fyrir að lágmarkslaun hækki úr 125.000 1. janúar 2008 í 150.000 síðan er gerð krafa um að lágmarkslaunin verði orðin 165.000 1. janúar 2009. 

Það er mat formanns félagsins að þessi krafa sé hófstillt, kannski of hófstillt.  Samt sem áður eru Samtök atvinnulífsins nú þegar búin að hafna því að lágmarkslaunin hækki í 165.000 kr.  Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness hefur sagt að grunnforsenda þess hægt verði að ganga frá kjarasamningum sé að lágmarkslaunin hækki úr 125.000 í 165.000 á samningstímanum sem yrði til tveggja ára.

Forsætisráðherra talar um að gerðir verði hóflegir kjarasamningar til að viðhalda stöðugleika í íslensku samfélagi. Það skýtur skökku við að í fréttum fyrir örfáum dögum síðan kom fram að laun æðstu stjórnenda ríkisins hefðu hækkað um 18% á síðustu tveimur árum, en almennir starfsmenn hins opinbera hækkuðu einungis um 7-9%. Því spyr formaður sig, gilda hóflegir kjarasamningar einungis fyrir ófaglærða hjá hinu opinbera og á hinum almenna vinnumarkaði?

Þessu til viðbótar hafa laun seðlabankastjóra hækkað um 200.000 kr. á mánuði eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni áður. Þess vegna er það óþolandi með öllu að í hvert sinn sem kemur að kjarasamningum hjá verkafólki á hinum almenna vinnumarkaði þá skuli úr öllum áttum heyrast varnaðarorð sem lúta að hóflega gerðum kjarasamningum.

Einnig er rétt að minna á það að ríki og sveitarfélög hafa á undanförnum dögum og mánuðum verið með sértækar aðgerðir vegna launamála starfsmanna sinna og nægir að nefna að dómsmálaráðherra hækkaði laun lögreglumanna um 30.000 kr. ekki alls fyrir löngu, sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa einnig verið með sértækar aðgerðir handa sínum starfsmönnum og sem dæmi þá hækkuðu laun grunnskólakennara í Kópavogi um 18.000 kr. Allar þessar launahækkanir og sértæku aðgerðir koma þrátt fyrir að kjarasamningar þessara hópa séu ekki lausir. Vissulega ber að fagna þessum sértæku aðgerðum en að sama skapi er það eins og áður sagði óþolandi að þegar kemur að kjarasamningum hjá almennu verkafólki þá skuli heyrast varnaðarorð úr öllum áttum um að nú skuli stigið varlega til jarðar ella sé stöðugleika í íslensku samfélagi ógnað.

Published in Fréttir

Í dag afhenti formaður Verkalýðsfélags Akraness Björgunarfélagi Akraness 100.000 kr. styrk úr styrktarsjóði félagsins.  Umrædd fjárhæð er eyrarmerkt unglingastarfi björgunarfélagsins.

Fréttir undanfarna daga sýna svo ekki verður um villst hversu fórnfúst og óeigingjarnt starf Björgunarfélag Akraness er vinna nánast dag hvern.  Því er stjórn Verkalýðsfélags Akraness stolt að geta styrkt björgunarsveitina um þessa fjárhæð.

Í lok árs 2005 gerði stjórn Verkalýðsfélags Akraness mjög góðan samning við Landsbankann á Akranesi um öll bankaviðskipti félagsins. Í einu ákvæði samningsins er kveðið á um að Landsbankinn greiði Verkalýðsfélagi Akraness kr. 500.000 í sérstakan styrktarsjóð sem nota á til að styrkja góðagerðarmál á félagssvæði VLFA.

Þetta er í annað sinn sem stjórn félagsins útdeilir úr styrktarsjóðnum.  Þau félög og samtök sem fá styrki úr sjóðnum í ár eru:

  • Styrktar-og líknarsjóður Akraneskirkju 100.000 kr.
  • Björgunarfélag Akraness unglingastarf 100.000 kr.
  • Mæðrastyrksnefnd Akraness               100.000 kr.
  • Skátafélagið Akranesi unglingastarf     100.000 kr.
  • Sambýlið Akranesi Vesturgötu              50.000 kr.
  • Sambýlið Laugabraut                           50.000 kr
Published in Fréttir
Friday, 28 December 2007 00:00

Nú er komið að íslensku verkafólki

Nú er komið að öðrum en verkafólki að viðhalda stöðugleika í íslensku samfélagiNú er komið að öðrum en verkafólki að viðhalda stöðugleika í íslensku samfélagiÍ gærkveldi var haldinn hinn árlegi jólafundur stjórnar og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags Akraness.

Þau mál sem helst voru til umfjöllunar á fundinum í gær voru komandi kjarasamningar, aðkoma félagsins að málefnum starfsmanna Hótels Glyms og sú mikla fjölgun sem orðið hefur á félagsmönnum í Verkalýðsfélagi Akraness á árinu sem nú er að líða. Í dag eru um 2.800 félagsmenn og hefur þeim fjölgað um rúma 600 á árinu. Þar af eru 473 félagsmenn með erlent ríkisfang.

Formaður fór ítarlega yfir viðræðurnar við Samtök atvinnulífsins vegna komandi kjarasamninga.  Á fundinum skoraði trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness  á viðræðunefnd Starfsgreinasambands Íslands að standa grjótfast á þeirri kröfu sem sambandið hefur lagt fram og var formanni falið að koma þeirri áskorun á framfæri við viðræðunefnd SGS.

Trúnaðarráðið telur jafnframt að sú kröfugerð sem lögð hefur verið fram sé einfaldlega með þeim hætti að ekki sé grundvöllur til að gefa neinn afslátt af henni.  Fram kom á fundinum að það hljóti að vera komið að fleirum en íslensku verkafólki að tryggja stöðugleika í íslensku samfélagi.

Nýjustu fréttir herma að æðstu stjórnendur ríkisins hafi hækkað um 18% á síðustu tveimur árum á meðan almennir starfsmenn hjá hinu opinbera hafa einungis hækkað frá 7% og uppí 9%.  Ekki má heldur gleyma því að laun seðlabankastjóra hafa hækkað um 200 þúsund á mánuði og almennt verkafólk er agndofa vegna slíkra launahækkana, sérstaklega í ljósi þess að þessir sömu aðilar tala um að sýna þurfi sérstaka aðgæslu vegna komandi kjarasamninga verkafólks.

Trúnaðarráð félagsins stendur fast á því að nú sé tími verkafólks runninn upp hvað varðar lagfæringar á launakjörum íslensks verkafólks og hvetur allt verkafólk vítt og breitt um landið til þess að hvika hvergi frá þeirri kröfu um að lágmarkslaun verði orðin 165.000 kr. 1. janúar 2009.

Lágmarkslaun upp á 125.000 kr. eru íslensku samfélagi til skammar og við í Starfsgreinasambandi Íslands getum á engan hátt skotið okkur undan ábyrgð okkar á því hversu skammarlega lág lágmarkslaunin eru.  Á þeirri forsendu verður Starfsgreinasambandið að standa þétt saman í komandi kjarasamningum þannig að lágmarkslaunin verði okkur ekki til skammar sem og íslensku samfélagi. 

Published in Fréttir

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá átti formaður fund með bæjarráði Akraneskaupstaðar þann 14. desember sl. Á þeim fundi lagði Verkalýðsfélag Akraness fram áskorun til bæjarráðs um að starfsmönnum skyldi greiddur jólabónus, líkt og gerðist hjá Hafnarfjarðarbæ, að fjárhæð 30.000 kr.

Einnig skoraði Verkalýðsfélag Akraness á bæjarráð að skoða með jákvæðum huga þær sértæku aðgerðir í launamálum til handa þeim lægst launuðu sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa verið að koma með handa sínu starfsfólki að undanförnu.

Formanni félagsins barst bréf frá bæjarráði í morgun þar sem bæjarráð hafði tekið fyrir erindi félagsins á fundi 20. desember sl. Niðurstaðan var sú að bæjarráð gæti ekki orðið við erindi félagsins, en veki athygli á því að verið væri að afla nánari upplýsinga um það hvað sveitarfélög hafa verið að gera í tilfellum sem þessum.

Það liggur fyrir að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa verið að koma með sértækar aðgerðir til handa þeim tekjulægstu og hefur það verið gert með margvíslegum hætti m.a. með mánaðarlegum eingreiðslum frá fjárhæð 6.000 til 16.000 kr. ásamt fjölda annarra sértækra aðgerða.

Það er með öllu óviðunandi að launakjör á höfuðborgarsvæðinu, fyrir sömu störf, séu mun hærri en gengur og gerist á landsbyggðinni. Það er einnig ljóst að í næstu samningum verður að byrja á því að para það sem er að gerast á höfuðborgarsvæðinu áður en menn geta sest niður til að hefja hinar eiginlegu kjaraviðræður. Annað mun starfsfólk sveitarfélaga á landsbyggðinni einfaldlega ekki sætta sig við. 

Published in Fréttir

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image