• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15

Fræðslusjóðurinn Landsmennt sem Verkalýðsfélag Akraness á aðild að fyrir hönd félagsmanna hefur samþykkt að hækka styrki vegna aukinna ökuréttinda úr kr. 81.000.- í kr. 100.000,-. Hækkunin tekur gildi nú um áramótin. Á nýju ári eiga því fullgildir félagsmenn í Verkalýðfélagi Akraness rétt á góðum styrk eða kr. 100.000,- vilji þeir ná sér í meirapróf. Félagsmenn, vinsamlegast hafið samband við Skrifstofu félagsins ef frekari upplýsinga ef þörf.

Published in Fréttir
Friday, 04 January 2008 00:00

Launahækkanir um áramótin

Laun félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness sem vinna eftir eftirfarandi kjarasamningum hækkuðu um eftirfarnandi prósentur um síðustu áramót.

Kjarasamningur starfsmanna sveitarfélag    3%
Kjarasamningur starfsmanna ríkisins    2%
Kjarasamningur starfsmanna Norðuráls    3%
Kjarasamningur starfsmanna, Íslenska járnblendifélagsins, Sementsverksmiðjunnar og Klafa    2.25%

 

Kjarasamningar verkafólks og iðnaðarmanna á hinum almenna vinnumarkaði voru lausir nú um áramótin og standa viðræður um endurnýjun þeirra kjarasamninga nú að fullu yfir.

Published in Fréttir

Aðalfundur sjómannadeildar var haldinn 29. desember sl.  Fundurinn var mjög góður og fór formaður sjómannadeildar yfir helstu málefni er lúta að deildinni.

Formaður fór yfir nýjan kjarasamning sem gerður var við landsamband smábátamanna.  Fram kom í máli fundarmanna að þeir fögnuðu nýjum kjarasamningi en eins og áður hefur komið fram hafa smábátasjómenn ekki haft kjarasamning áður.  Í þessum samningi er verið að tryggja smábátasjómönnum hin ýmsu réttindi sem þeir ekki hafa haft áður. 

Á fundinum var einnig kosið í stjórn deildarinnar og voru tveir nýir sjómenn kosnir í stjórn það voru þeir Ólafur Kristjánsson skipverji á skutttogaranum Sturlaugi H Böðvarssyni og Pétur Lárusson skipverji á smábátnum Keili.

Stjórn deildarinnar skipa þá eftirtaldir aðilar:

Jóhann Örn Matthíasson

Svavar S Guðmundsson

Sveinbjörn Rögnvaldsson

Elías Ólafsson

Ólafur Kristjánsson

Pétur Lárusson

Published in Fréttir

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, kom inn á komandi kjarsamninga á hinum almenna vinnumarkaði í áramótaávarpinu sínu til þjóðarinnar á gamlásdag. 

Þar sagði forsætisráðherrann m.a.

"Framundan eru kjarasamningar á almennum vinnumarkaði og þar með mikilvægar ákvarðanir í efnahagsmálum Íslendinga. Reynsla undanfarinna ára vekur sannarlega vonir um framhald farsællar stefnu. Í forystusveit launamanna og vinnuveitenda er ábyrgt fólk sem hefur lært það af reynslunni að hóflegir kjarasamningar sem byggja á traustu atvinnulífi og stöðugleika í efnahagsmálum leiða til mestra kjarabóta".

 

það fór ekki á milli mála að forsætisráðherra er að kalla eftir þjóðarsátt í komandi kjarasamningum og biður verkafólk um að gerðir verða hóflegir kjarasamningar í komandi samningum.

Starfsgreinasamband Íslands hefur lagt fram sýna kröfugerð til Samtaka atvinnulífsins og í þeirri kröfugerð er gert ráð fyrir að lágmarkslaun hækki úr 125.000 1. janúar 2008 í 150.000 síðan er gerð krafa um að lágmarkslaunin verði orðin 165.000 1. janúar 2009. 

Það er mat formanns félagsins að þessi krafa sé hófstillt, kannski of hófstillt.  Samt sem áður eru Samtök atvinnulífsins nú þegar búin að hafna því að lágmarkslaunin hækki í 165.000 kr.  Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness hefur sagt að grunnforsenda þess hægt verði að ganga frá kjarasamningum sé að lágmarkslaunin hækki úr 125.000 í 165.000 á samningstímanum sem yrði til tveggja ára.

Forsætisráðherra talar um að gerðir verði hóflegir kjarasamningar til að viðhalda stöðugleika í íslensku samfélagi. Það skýtur skökku við að í fréttum fyrir örfáum dögum síðan kom fram að laun æðstu stjórnenda ríkisins hefðu hækkað um 18% á síðustu tveimur árum, en almennir starfsmenn hins opinbera hækkuðu einungis um 7-9%. Því spyr formaður sig, gilda hóflegir kjarasamningar einungis fyrir ófaglærða hjá hinu opinbera og á hinum almenna vinnumarkaði?

Þessu til viðbótar hafa laun seðlabankastjóra hækkað um 200.000 kr. á mánuði eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni áður. Þess vegna er það óþolandi með öllu að í hvert sinn sem kemur að kjarasamningum hjá verkafólki á hinum almenna vinnumarkaði þá skuli úr öllum áttum heyrast varnaðarorð sem lúta að hóflega gerðum kjarasamningum.

Einnig er rétt að minna á það að ríki og sveitarfélög hafa á undanförnum dögum og mánuðum verið með sértækar aðgerðir vegna launamála starfsmanna sinna og nægir að nefna að dómsmálaráðherra hækkaði laun lögreglumanna um 30.000 kr. ekki alls fyrir löngu, sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa einnig verið með sértækar aðgerðir handa sínum starfsmönnum og sem dæmi þá hækkuðu laun grunnskólakennara í Kópavogi um 18.000 kr. Allar þessar launahækkanir og sértæku aðgerðir koma þrátt fyrir að kjarasamningar þessara hópa séu ekki lausir. Vissulega ber að fagna þessum sértæku aðgerðum en að sama skapi er það eins og áður sagði óþolandi að þegar kemur að kjarasamningum hjá almennu verkafólki þá skuli heyrast varnaðarorð úr öllum áttum um að nú skuli stigið varlega til jarðar ella sé stöðugleika í íslensku samfélagi ógnað.

Published in Fréttir

Í dag afhenti formaður Verkalýðsfélags Akraness Björgunarfélagi Akraness 100.000 kr. styrk úr styrktarsjóði félagsins.  Umrædd fjárhæð er eyrarmerkt unglingastarfi björgunarfélagsins.

Fréttir undanfarna daga sýna svo ekki verður um villst hversu fórnfúst og óeigingjarnt starf Björgunarfélag Akraness er vinna nánast dag hvern.  Því er stjórn Verkalýðsfélags Akraness stolt að geta styrkt björgunarsveitina um þessa fjárhæð.

Í lok árs 2005 gerði stjórn Verkalýðsfélags Akraness mjög góðan samning við Landsbankann á Akranesi um öll bankaviðskipti félagsins. Í einu ákvæði samningsins er kveðið á um að Landsbankinn greiði Verkalýðsfélagi Akraness kr. 500.000 í sérstakan styrktarsjóð sem nota á til að styrkja góðagerðarmál á félagssvæði VLFA.

Þetta er í annað sinn sem stjórn félagsins útdeilir úr styrktarsjóðnum.  Þau félög og samtök sem fá styrki úr sjóðnum í ár eru:

  • Styrktar-og líknarsjóður Akraneskirkju 100.000 kr.
  • Björgunarfélag Akraness unglingastarf 100.000 kr.
  • Mæðrastyrksnefnd Akraness               100.000 kr.
  • Skátafélagið Akranesi unglingastarf     100.000 kr.
  • Sambýlið Akranesi Vesturgötu              50.000 kr.
  • Sambýlið Laugabraut                           50.000 kr
Published in Fréttir
Friday, 28 December 2007 00:00

Nú er komið að íslensku verkafólki

Nú er komið að öðrum en verkafólki að viðhalda stöðugleika í íslensku samfélagiNú er komið að öðrum en verkafólki að viðhalda stöðugleika í íslensku samfélagiÍ gærkveldi var haldinn hinn árlegi jólafundur stjórnar og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags Akraness.

Þau mál sem helst voru til umfjöllunar á fundinum í gær voru komandi kjarasamningar, aðkoma félagsins að málefnum starfsmanna Hótels Glyms og sú mikla fjölgun sem orðið hefur á félagsmönnum í Verkalýðsfélagi Akraness á árinu sem nú er að líða. Í dag eru um 2.800 félagsmenn og hefur þeim fjölgað um rúma 600 á árinu. Þar af eru 473 félagsmenn með erlent ríkisfang.

Formaður fór ítarlega yfir viðræðurnar við Samtök atvinnulífsins vegna komandi kjarasamninga.  Á fundinum skoraði trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness  á viðræðunefnd Starfsgreinasambands Íslands að standa grjótfast á þeirri kröfu sem sambandið hefur lagt fram og var formanni falið að koma þeirri áskorun á framfæri við viðræðunefnd SGS.

Trúnaðarráðið telur jafnframt að sú kröfugerð sem lögð hefur verið fram sé einfaldlega með þeim hætti að ekki sé grundvöllur til að gefa neinn afslátt af henni.  Fram kom á fundinum að það hljóti að vera komið að fleirum en íslensku verkafólki að tryggja stöðugleika í íslensku samfélagi.

Nýjustu fréttir herma að æðstu stjórnendur ríkisins hafi hækkað um 18% á síðustu tveimur árum á meðan almennir starfsmenn hjá hinu opinbera hafa einungis hækkað frá 7% og uppí 9%.  Ekki má heldur gleyma því að laun seðlabankastjóra hafa hækkað um 200 þúsund á mánuði og almennt verkafólk er agndofa vegna slíkra launahækkana, sérstaklega í ljósi þess að þessir sömu aðilar tala um að sýna þurfi sérstaka aðgæslu vegna komandi kjarasamninga verkafólks.

Trúnaðarráð félagsins stendur fast á því að nú sé tími verkafólks runninn upp hvað varðar lagfæringar á launakjörum íslensks verkafólks og hvetur allt verkafólk vítt og breitt um landið til þess að hvika hvergi frá þeirri kröfu um að lágmarkslaun verði orðin 165.000 kr. 1. janúar 2009.

Lágmarkslaun upp á 125.000 kr. eru íslensku samfélagi til skammar og við í Starfsgreinasambandi Íslands getum á engan hátt skotið okkur undan ábyrgð okkar á því hversu skammarlega lág lágmarkslaunin eru.  Á þeirri forsendu verður Starfsgreinasambandið að standa þétt saman í komandi kjarasamningum þannig að lágmarkslaunin verði okkur ekki til skammar sem og íslensku samfélagi. 

Published in Fréttir

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá átti formaður fund með bæjarráði Akraneskaupstaðar þann 14. desember sl. Á þeim fundi lagði Verkalýðsfélag Akraness fram áskorun til bæjarráðs um að starfsmönnum skyldi greiddur jólabónus, líkt og gerðist hjá Hafnarfjarðarbæ, að fjárhæð 30.000 kr.

Einnig skoraði Verkalýðsfélag Akraness á bæjarráð að skoða með jákvæðum huga þær sértæku aðgerðir í launamálum til handa þeim lægst launuðu sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa verið að koma með handa sínu starfsfólki að undanförnu.

Formanni félagsins barst bréf frá bæjarráði í morgun þar sem bæjarráð hafði tekið fyrir erindi félagsins á fundi 20. desember sl. Niðurstaðan var sú að bæjarráð gæti ekki orðið við erindi félagsins, en veki athygli á því að verið væri að afla nánari upplýsinga um það hvað sveitarfélög hafa verið að gera í tilfellum sem þessum.

Það liggur fyrir að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa verið að koma með sértækar aðgerðir til handa þeim tekjulægstu og hefur það verið gert með margvíslegum hætti m.a. með mánaðarlegum eingreiðslum frá fjárhæð 6.000 til 16.000 kr. ásamt fjölda annarra sértækra aðgerða.

Það er með öllu óviðunandi að launakjör á höfuðborgarsvæðinu, fyrir sömu störf, séu mun hærri en gengur og gerist á landsbyggðinni. Það er einnig ljóst að í næstu samningum verður að byrja á því að para það sem er að gerast á höfuðborgarsvæðinu áður en menn geta sest niður til að hefja hinar eiginlegu kjaraviðræður. Annað mun starfsfólk sveitarfélaga á landsbyggðinni einfaldlega ekki sætta sig við. 

Published in Fréttir
Sunday, 23 December 2007 00:00

Jólakveðja!

Stjórnir og starfsmenn Verkalýðsfélags Akraness óskar félagsmönnum sínum og fjölskyldum þeirrra og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og  farsældar á komandi ári.

Published in Fréttir
Friday, 21 December 2007 00:00

Smábátasjómenn komnir með kjarasamning

Í dag var undirritaður kjarasamningur milli samtaka sjómanna (FFSÍ, SSÍ og VM) annars vegar og Landssambands smábátaeigenda hins vegar. Kjarasamningurinn tekur gildi þann 1. janúar 2008.
Fram til þessa hefur ekki verið í gildi kjarasamningur fyrir sjómenn á smábátum. Verkalýðsfélag Akraness fagnar þessum tímamótum þar sem um er að ræða fyrsta heildarkjarasamningurinn í sögu landssambandsins. 

Í dag eru þónokkrir smábátasjómenn sem eru félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness.  Það er ljóst að þessi kjarasamningur mun eyða þeirri réttindaróvissu sem oft hefur ríkt hjá smábátasjómönnum.

Aðilar að samningum eru Landssambands smábátaeigenda annars vegar og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands (FFSÍ), Sjómannasambands Íslands (SSÍ) og VM- Félags vélstjóra og málmtæknimanna hins vegar.
Samninginn í heild sinni má nálgast hér

Published in Fréttir
Thursday, 20 December 2007 00:00

Starfsfólk Glyms beitt grófum þvingunum

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni hefur Verkalýðsfélag Akraness að undanförnu haft til rannsóknar málefni starfsmanna Hótels Glyms.

Aðalatriðið í málflutningi forsvarsmanna Glyms virðist vera fólgið í því að Verkalýðsfélag Akraness eigi ekki aðild að þessu máli heldur sé það Stéttarfélag Vesturlands. Það er algjört aukaatriði hvaða stéttarfélag vinnur að þessum grófu félagslegu undirboðum sem þarna eiga sér stað. Ástæða þess að Verkalýðsfélag Akraness kom að þessu máli var sú að starfsmenn hótelsins óskuðu sjálfir eftir því og Verkalýðsfélagi Akraness ber siðferðisleg skylda til að koma til hjálpar fólki sem óprúttnir atvinnurekendur níðast á. Sem dæmi þá hefur Verkalýðsfélag Akraness innheimt vegna félagslegra undirboða 6,2 milljónir á síðastliðnum þremur árum.

Í þessu tiltekna máli, sem er eitt það versta sem formaður hefur séð, hefur komið í ljós að verið er að borga starfsfólki langt undir lágmarkslaunum, allt niður í 317 kr. á tímann. Engin yfirvinna er greidd þótt unnið sé allt að 300 tíma á mánuði. Hvíldarákvæði eru virt að vettugi. Engar desember- eða orlofsuppbætur hafa verið greiddar fyrr en nú. Launaseðlar hafa ekki borist starfsfólki fyrr en nú. Dæmi eru um að unnið sé mánuðum saman án nokkurrar greiðslu, aðeins gegn fæði og húsnæði. Starfsfólk þarf að greiða allt að 70.000 kr á mánuði fyrir fæði og húsnæði þrátt fyrir að frítt fæði á vinnutíma sé tiltekið í kjarasamningum og húsnæðið sé herbergi á hótelinu sé það laust. Sé það ekki laust þarf starfsfólkið að flytja sig um herbergi, jafnvel oft á viku.

Þessi atriði, og fleiri til, bað starfsfólk hótelsins Verkalýðsfélag Akraness um að fara yfir fyrir sig og sækja leiðréttingu fyrir sína hönd. Í þeim tilgangi veitti það félaginu skriflegt umboð sitt.

Hægt er að lesa meira með því að smella á meira.

Í málum sem þessum er kallað eftir upplýsingum frá vinnuveitendum s.s. tímaskriftum, vinnuseðlum og öðrum gögnum sem nauðsynleg þykja. Það er ekki flókið reikningsdæmi að taka saman unna tíma og finna það út hvað starfsfólk á inni hjá vinnuveitanda en öflun þessara ganga er þó nauðsynleg forsenda þess.

Í þessu máli gekk Verkalýðsfélagi Akraness vægast sagt illa að afla þessara gagna. Launaseðlar og tímaskriftir fengust ekki frá hótelinu og ástæðan sem gefin var upp fyrir því var sú að starfsmenn hótelsins væru ekki félagar í Verkalýðsfélagi Akraness þrátt fyrir að það kæmi fram á þeim launaseðlum sem félagið hefur undir höndum. Formaður komst síðan að því að stéttarfélagsgjöldum hafði aldrei verið skilað af starfsmönnunum, hvorki til Verkalýðsfélags Akraness né í önnur félög og hefur það nú verið staðfest af endurskoðanda Hótels Glyms í pósti sem barst formanni í dag. Hægt er að skoða tölvupóstinn hér.

Maður spyr sig, fyrst bókarinn segir í póstinum að í september hafi verið ákveðið að skila stéttarfélagsgjöldum fyrst þá, hvað með þessi gjöld fyrir alla hina mánuðina og árin? Þessi játning bókarans um að ekki hafi verið greidd stéttarfélagsgjöld fyrr en nú í september sýnir hvers lags starfssemi þarna er rekin.

Í fjölmiðlum hafa hótelhaldarar sagst ekkert hafa að fela í þessu máli, en grunsemdir um annað hljóta að vakna þegar fyrirspurnir félagsins valda þvílíku fjaðrafoki að starfsmenn verkalýðsfélagsins hafa vart komist í annað eins. Kallar hótelhaldarinn þetta ekkert að fela?

Viðbrögð hótelhaldara hafa verið með ólíkindum. Gögnunum sem Verkalýðsfélag Akraness hafði krafist af hótelinu var aldrei skilað. Hins vegar voru starfsmenn kallaðir saman til starfsmannafundar á sunnudaginn síðastliðinn þar sem þeir voru krafðir afsökunarbeiðnar fyrir að hafa haft samband við Verkalýðsfélag Akraness! Þeir sem ekki báðust afsökunar þurftu að hætta strax og taka saman föggur sínar og yfirgefa svæðið. Þeir aðilar hafa nú þegar yfirgefið landið og eru án efa ólíklegir til að minnast veru sinnar hér á landi á jákvæðan hátt. Á fundinum var starfsfólk einnig þvingað til að skrifa undir afturköllun á umboði til Verkalýðsfélags Akraness, umboði sem félagið hafði þegar fengið undirritað hjá starfsmönnum, og starfsfólki Verkalýðsfélags Akraness gerð grein fyrir því að hafa ekki frekari afskipti af málinu. Málinu er síðan, að sögn hótelhaldara, beint til Stéttarfélags Vesturlands í Borgarnesi til frekari málsmeðferðar. Er það trúverðugt að hinir erlendu starfsmenn Glyms hafi upp á sitt eigið einsdæmi krafist að Verkalýðsfélag Akraness að hætti afskiptum af málinu? Þessir sömu starfsmenn sem grátbáðu félagið um hjálp? Svar formanns er skýrt: Nei. Þarna var starfsfólkið beitt grófum þvingunum.

Það er auðséð af viðbrögðum hótelhaldara að þau hafa heldur betur ýmislegt að fela. Auk þess er klárt mál að afskipti hótelhaldara af starfsfólki þeirra stangast á við lög. T.a.m. er í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur skýrt kveðið á um að atvinnurekendum sé óheimilt að hafa áhrif á afskipti starfsmanna sinna af stéttarfélögum eða vinnudeilum. Það er ekki af ástæðulausu að þetta sé sérstaklega tiltekið í lögunum og augljóst er að þessi grein laganna ekki síður við í dag en hún gerði árið 1938 þegar lögin voru sett.

Það skiptir Verkalýðsfélag Akraness engu máli þó Stéttarfélag Vesturlands hafi fengið málið til meðferðar. Aðalmálið er að þessum grófu félagslegu undirboðum sem hafa verið við lýði á Hótel Glymi linni sem allra, allra fyrst og starfsmenn fái leiðréttingu sinna launa. Um það snýst þetta mál. 

Published in Fréttir

Fréttir

Nýjar fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image