• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
10
Jan

Verkalýðsfélag Akraness undirritaði nýjan kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga

Eftir stífar samningarviðræður Verkalýðsfélags Akraness við Samband íslenskra sveitarfélaga síðustu daga, tókst að undirrita nýjan kjarasamning sem gildir fyrir félagsmenn VLFA sem starfa hjá Akraneskaupstað og Hvalfjarðasveit.

Formaður félagsins er gríðarlega ánægður með að tekist hafi að ganga frá þessum samningi enda liðnir 9 mánuðir frá því að kjarasamningurinn rann út.

Formaður er mjög ánægður með kjarasamninginn en hann er í megin atriðum í anda Lífskjarasamningsins sem gerður var á hinum almenna vinnumarkaði.

Helstu atriði kjarasamningsins eru þessi:

  • 1. janúar 2020 hækka launataxtar um 17.000 kr.
  • 1. apríl 2020 hækka launataxtar um 24.000 kr.
  • 1. janúar 2021 hækka launataxtar um 24.000 kr.
  • 1. janúar 2022 hækka launataxtar um 25.000 kr.
  • 1. janúar 2023 hækka launataxtar um sömu upphæð og um verður samið á hinum almenna vinnumarkaði en þessi kjarasamningur gildir til 30. september 2023.

Leiðrétting vegna afturvirkni samningsins nemur 90.000 kr. fyrir fullt starf og kemur til útborgunar 1. febrúar næstkomandi.

Það var einnig samið um svokallaðan félagssjóð sem virkar þannig að launagreiðandi greiðir mánaðarlega framlag í félagsmannasjóð sem nemur 1,5% af heildarlaunum starfsmanna. Greiðsla úr sjóðnum fer fram 1. febrúar ár hvert. En fyrsta greiðsla úr sjóðnum kemur strax til útborgunar 1. febrúar næstkomandi og verður sú upphæð 61.000 kr. fyrir fullt starfshlutfall. Upphæðin greiðist hlutfallslega m.v. starfstíma og starfshlutfall.

Samtals munu því starfsmenn í fullu starfshlutfalli fá samtals 151.000 kr. greiddar út 1. febrúar fyrir afturvirkni og þennan nýja Félagssjóð.

Í þessum kjarasamningi var samið um að svokallaður hagvaxtaauki myndi einnig gilda fyrir félagsmenn VLFA sem starfa hjá Akraneskaupstað og Hvalfjarðasveit eins og um var samið í Lífskjarasamningum.

Samið var við um styttingu vinnuvikunnar með þeim hætti að frá 1. apríl 2020, mun hver vinnudagur styttast um 13 mínútur. Akraneskaupstaður og Verkalýðsfélag Akraness eru sammála um að vinna að því að taka upp svokallaðan mínútubanka. Þar sem starfsmenn geta safnað sér upp mínútum sem birtist á launaseðli starfsmanns.

Eins og áður sagði er stefnt að því að inneign mínútna verði sýnileg á launaseðli hvers starfsmanns og stefnt er að því að nokkrir kostir verði í boði um hvernig starfsmenn muni nýta sér uppsöfnun á 13 mínútna styttingu á dag. Fólk getur stytt hverja vinnuviku um 65 mínútur, eða safnað upp í heila daga. En rétt er að geta þess að þessi 13 mínútna stytting nemur um 7 heilum auka frídögum yfir árið fyrir fullt starf. Nánari útfærsla á þessu verður unnin í nánu samstarfi við Akraneskaupstað og Hvalfjarðasveit og vonandi liggur endanleg útfærsla fyrir 1. apríl.

Þetta voru helstu atriði í þessum nýja samningi, en rétt er vekja sérstaka athygli á því að tvær launahækkanir koma til á þessu ári, önnur sem nemur 17.000 kr. og hin eftir þrjá mánuði uppá 24.000 krónur. Þannig að á næstu þremur mánuðum munu launataxtar hækka um 41 þúsund krónur. Einnig er rétt að vekja athygli á því að innan eins árs hafa launataxtar starfsmanna Akraneskaupstaðar og Hvalfjarðasveitar sem eru með 6% persónuálagsstig hækkað um tæpar 69.000 kr. á mánuði.

Sem dæmi þá hækka grunnlaun sundlaugarvarða með 6% persónuálagsstigum frá undirritun til 1. janúar á næsta ári í launaflokki 128 úr 355.133 kr. í 424.033 og hafa því hækkað á einu ári um 68.920 krónur á einu ári.

Það er mat formanns að þetta sé afar góður kjarasamningur þótt alltaf megi gera betur og baráttan fyrir bættum kjörum verkafólks lýkur aldrei.

Formaður vil þakka bæjarstjóra Akraneskaupstaðar fyrir hans framlag við að leysa þessa löngu kjaradeilu.

Að lokum er rétt að geta þess að formaður mun kynna kjarasamninginn ítarlega en það verður auglýst í næstu viku.

Hér má skoða samninginn, og við hvetjum alla starfsmenn sveitarfélagana að skoða samningana.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image