• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
25
Oct

Vel á annað hundrað mættu í afmæli félagsins

Vel á annað hundrað manns mættu til að fagna 80 ára afmæli félagsins sem haldið var í sal Fjölbrautarskóla Vesturlands í gær.  Forseti ASÍ og formaður SGS fluttu ræðu og eins flutti forseti bæjarstjórnar örlítið ávarp.  Afmælið tókst í alla staði afar vel og fékk félagið veglegar gjafir frá hinum ýmsu fyrirtækum og stéttarfélögum.  Verkalýðsfélag Akraness vill þakka kærlega fyrir þessar veglegu gjafir.  Eins vill stjórn félagsins þakka þeim fjölmörgu, sem sáu sér fært að mæta og fagna þessum merka áfanga.  Afmælisræðu formanns Verkalýðsfélags Akraness er hægt að lesa með því að smella á meira.

Forseti ASÍ, formaður SGS, bæjarstjóri Akraness, góðir félagsmenn, og aðrir hátíðargestir.

 

 

Ég býð ykkur öll hjartanlega velkomin í 80 ára afmæli Verkalýðsfélags Akraness.

 

Við erum samankomin hér í dag til að fagna og halda upp á 80 ára afmæli Verkalýðsfélags Akraness. Það er ekki úr vegi að líta til baka og minnast frumkvöðlanna sem komu saman í svokölluðu Báruhúsi hér á Akranesi þann 14. október árið 1924 og stofnuðu félagið.  Markmið og tilgangur með stofnun þess var að ákveða vinnutíma og kaupgjald og efla og bæta hag alþýðunnar. Það markmið er enn óbreytt. Það hefur sannast þau 80 ár sem liðin eru frá stofnun félagsins að Verkalýðsfélög um allt land hafa skilað miklu og góðu starfi í þágu verkafólks -  en alltaf má gera betur.

 Krafturinn og dugnaðurinn sem frumkvöðlarnir bjuggu yfir er sá kraftur sem núverandi stjórn vill hafa að markmiði. Maður fylltist eldmóði og aðdáun við að lesa viðtöl við heiðursfélaga Verkalýðsfélags Akraness sem birtust í afmælisblaði félagsins. Sú barátta sem háð var hér á árum áður var mun miskunnarlausari og langtum erfiðari heldur en það sem við þekkjum í dag. Heiðursfélögum Verkalýðsfélags Akraness verður seint þakkað þau fórnfúsu störf sem þau unnu fyrir félagið á liðnum áratugum. 

Markmið okkar sem nú stjórnum félaginu er skýrt. Markmiðið er að vera það félag á Íslandi sem mest og best þjónar sínum félagsmönnum. Vissulega eru þetta háleit markmið en að mínu mati verður að setja markið hátt. Við hljótum að vilja aðeins það besta til handa félagsmönnum okkar.

 

Mig langar að rifja upp atburð úr sögu félagsins sem átti sér stað árið 1929 þegar félagið var einungis fimm ára gamalt. Það ár brugðust útgerðarmenn ókvæða við aðgerðum verkalýðsfélagsins til að bæta kjör félagsmanna sinna. Þeir gerðu það að skilyrði að Verkalýðsfélag Akraness segði sig úr Alþýðusambandi Íslands - ella yrði ekki samið um kaup og kjör. Einnig neituðu þeir að semja við félagið og vildu frekar semja beint við hvern félagsmann fyrir sig. Þetta átti sér stað árið 1929 og það er ótrúlegt til þess að hugsa að nú - 75 árum síðar - eru nánast sömu hlutirnir að endurtaka sig. Útgerðamaður Sólbaks EA setur það sem skilyrði að skipverjar standi utan stéttarfélags - ef þeir ekki hlýði því þá verði þeir að finna sér annan starfsvettvang. Þetta kallar útgerðamaður Sólbaks félagafrelsi. Þessa aðför, sem nú er gerð að íslenskri verkalýðshreyfingu, verður að stöðva með öllum tiltækum ráðum.

Á þessu tæpa ári sem núverandi stjórn Verkalýðsfélags Akraness hefur starfað höfum við lent Í erfiðum málum gagnvart atvinnurekendum. Í þessum málum vorum við sannfærð um að verið væri að brjóta á réttindum félagsmanna. Tekist var hraustlega á og að lokum náðist samkomulag í öllum þessum málum. Þessi réttindabarátta hefur skilað rúmum 12 milljónum króna í vasa félagsmanna okkar. Meginverkefni stéttarfélaga er að standa vörð um áunnin réttindi félagsmanna og bæta þau eins og kostur er. Það er og verður stefna stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að standa einarðlega vörð um öll áunnin réttindi félagsmanna og verður hvergi hvikað í þeirri baráttu.

Það er mjög mikilvægt að Verkalýðsfélag Akraness sem og önnur stéttarfélög eigi gott samstarf við atvinnurekendur og þannig viljum við hafa það. Þegar ágreiningur verður á milli stéttarfélagsins og atvinnurekenda þá verða menn að reyna að leysa málin í sátt. En höfum það hugfast að rétt skal vera rétt – sama hvoru megin sú niðurstaða liggur.

Sem formaður félagsins hef ég farið og heimsótt flest þau fyrirtæki sem félagsmenn okkar starfa hjá – ekki öll - en flest. Markmið okkar með þessum vinnustaðaheimsóknum er að auka bein tengsl milli stéttafélagsins og félagsmanna og upplýsa þá  um réttindi þeirra og skyldur. Það er lykilatriði fyrir forustumenn í stéttafélögum að vera í góðu sambandi við félagsmenn. Ég hef fengið prýðisgóðar viðtökur í þessum vinnustaðaheimsóknum og eru félagsmönnum færðar þakkir fyrir. Við í stjórn félagsins viljum vera í nánu og góðu sambandi við félaga okkar. 

 

Atvinnumöguleikar á svæði félagsins eru býsna góðir um þessar mundir.  Með stækkun Norðuráls mun félagsmönnum fjölga töluvert og heimildir herma að forsvarsmenn Norðuráls hafi áhuga á að stækka verksmiðjuna enn frekar en talað hefur verið um hingað til. Í undirbúningi er bygging rafskautaverksmiðju, og verði hún að veruleika má búast við að störfum á okkar félagssvæði muni fjölga um allt að þrjú hundruð. Við höfum því ekki ástæðu til annars en að vera bjartsýn á framtíðina ef þessi áform ganga öll eftir.

 

Kæru félagsmenn og aðrir gestir. Ég lýt svo á að þegar núverandi stjórn tók við í Verkalýðsfélagi Akraness þann 19. nóvember 2003  hafi hafist nýr kafli í sögu félagsins. Félagið hafði fram til þeirrar stundar þurft að ganga í gegnum einstaklega erfitt tímabil eins og fólki er í fersku minni. Þeir tímar eru að baki og ekkert meira um það að segja.

Ég vil á þessari stundu nota tækifærið og þakka þá gríðarlegu hjálp sem ákveðin stéttarfélög og einstaklingar veittu formanni og nýkjörinni stjórn á fyrstu dögum og mánuðum á starfstíma hennar. Að taka við félaginu við þessar erfiðu aðstæður var mjög krefjandi og því fylgir mikil ábyrgð að vera forystumaður í einu af stærri stéttarfélögum innan Starfsgreinasambands Íslands.  Viljum við í stjórn félagsins þakka öllum þeim fjölmörgu sem aðstoðuðu okkur.  Sérstaklega viljum við þakka Aðalsteini Baldurssyni og Ágústi Óskarssyni frá Verkalýðsfélagi Húsavíkur kærlega fyrir þá ómetalegu hjálp sem þeir veittu okkur. Eins viljum við þakka Hermanni Guðmundssyni, fyrrverandi formanni Sveinafélags málmiðnaðarmanna fyrir hans aðstoð.

Stjórn félagsins er afar ánægð með útkomuna á afmælisblaði félagsins það er mat okkar að virkilega hafi tekist vel til.  Vill stjórn félagsins þakka Kristjáni Kristjánssyni rithöfundi og eiganda Uppheima ehf. og hans fólki kærlega fyrir vel heppnað blað og gott samstarf.

Kæru hátíðargestir! Það er afar ánægjulegt að þið skulið fagna þessum merka áfanga með okkur sem 80 ára afmæli félagsins er.  Sérstaklega vil ég þakka heiðursfélögum Verkalýðsfélags Akraness, þeim Herdísi Ólafsdóttur, Bjarnfríði Leósdóttur, Skúla Þórðarsyni, Garðari Halldórssyni, og Sigrúnu Clausen fyrir að vera hér með okkur í dag. Ef þessa fólks hefði ekki notið við hér á árum áður þá væri Verkalýðsfélag Akraness ekki það sterka afl sem það er í dag.

Ágætu gestir. Verkalýðsfélag Akraness mun nú sem endranær bera hag félagsmanna fyrir brjósti, líkt og frumkvöðlarnir sem börðust af elju og atorkusemi fyrir bættum kjörum. Verkalýðsfélögin eru og munu áfram vera mikilvægasta aflið á leið okkar til bættra kjara.

Ég þakka áheyrnina.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image