• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
30
Apr

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness haldinn í gær

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness var haldinn í gær á Gamla kaupfélaginu og fór hann fram með hefðbundnu sniði samkvæmt auglýstri dagskrá. Fundarstjóri var Vilhjálmur Birgisson og ritarar fundarins voru Ólöf Vigdís Guðnadóttir og Inga Maren Ágústsdóttir

Formaður félagsins, Vilhjálmur Birgisson, kynnti skýrslu stjórnar fyrir liðið starfsár og helstu mál sem komið hafa á borð félagsins síðasta árið. Í skýrslu stjórnar var farið ítarlega yfir nýgerðan lífskjarasamning sem gerður var á hinum almenna vinnumarkaði og kom fram í máli formanns að honum væri algjörlega til efs að jafn innhaldsríkur kjarasamningur hafi verið gerður fyrir verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði. Hann tilgreindi í því samhengi sérstaklega að nú hefði tekist að semja eingöngu í formi krónutöluhækkana og einnig hafi launafólki verið tryggð auknar launahækkanir í gegnum svokallaðan hagvaxtarauka.

Einnig fór Vilhjálmur yfir þau verkefni sem eru framundan og var þar af nógu að taka, enda eru nú þegar kjarasamningar starfsmanna Akraneskaupstaðar og starfsmanna ríkisins runnir út. Vinna við að ná fram kjarasamningum fyrir þá félagsmenn sem tilheyra þessum samningum er nú þegar hafinn af fullum þunga. Fram kom í máli formanns að mjög líklega verður samið með sambærilegum hætti og gert var í lífskjarasamningum fyrir starfsmenn sveitafélagana og ríkis. 

Einnig fór formaður yfir að um næstu áramót losna kjarasamningar í stóriðjunum og nauðsynlegt að undirbúa þá baráttu vel og tímanlega

Fram kom í skýrslu stjórnar að félagsmenn VLFA hafa verið duglegir að nýta sér þjónustu og styrki félagsins, en í máli Vilhjálms kom fram að á síðasta ári fengu 1294 manns greiðslu úr sjúkrasjóði, 344 fengu einstaklingsstyrki greidda úr menntasjóðum, tæplega 300 manns keyptu sér Veiðikort, Útilegukort, gistimiða og slíkt og um 100 manns fóru í dagsferð eldri borgara í boði félagsins. En um 70% greiðenda í félagið nýttu sér þjónustu félagsins með einum eða öðrum hætti.

Ársreikningar félagsins voru lagðir fyrir aðalfundinn en afkoma félagsins á síðasta ári var afar góð, en rekstrarafgangur var tæpar 146 milljónir. Eignir félagsins eru 1.516 milljónir og þar af handbært fé um 1.278 milljónir.

Fyrir fundinn var lögð tillaga stjórnar að breytingum 14 og 29. grein laga félagsins. Vilhjálmur fór yfir breytingartillöguna og útskýrði tilgang hennar . Eftir umræður var tillagan borin undir fundinn og samþykkt samhljóða.

Á fundinum kynnti formaður einnig ákvörðun stjórnar sjúkrasjóðs um hækkun á nokkrum strykjum úr sjúkrasjóði og ber helst að nefna að frá og með 1. Maí munu fæðingarstyrkur hækka úr 100.000 kr. í 150.000 krónur og ef báðir foreldrar eru félagsmenn nemur styrkurinn 300.000 kr. Einnig hækkaði heilsueflingarstyrkurinn úr 25.000 kr. í 30.000 kr. sem og gleraugnastyrkurinn úr 45.000 í 50.000 kr. En þessi hækkun á styrkjum er tilkomin vegna góðrar afkomu félagsins enda er það stefna stjórnar að láta félagsmenn ætíð njóta góðrar afkomu félagsins með einum eða öðrum hætti.

Á aðalfundinum var einnig samþykkt tillaga um að styrkja Sjúkrahús Akranes um kaup á þremur sjúkrarúmum og nemur styrkurinn 1,5 milljón króna. En þetta er ekki í fyrsta skipti sem Verkalýðsfélag Akraness styrkir sjúkrahúsið á Akranesi en félagið styrkti kaup á sneiðmyndatæki upp á eina milljón árið 2015. Stjórn Verkalýðsfélags Akraness telur mjög mikilvægt okkar félagsmenn búi við öfluga heilbrigðisþjónustu þar sem aðbúnaður og tækjakostur sé eins góður og kostur er.



Í fundarlok þakkaði Vilhjálmur stjórn félagsins og starfsmönnum kærlega fyrir gott samstarf á síðasta ári.

Eftir fundinn bauð félagið fundargestum upp á kvöldverð.

24
Apr

Lífskjarasamingurinn samþykktur hjá félagsmönnum VLFA með 88% atkvæða

Rétt í þessu voru  úrslit í kosningum um lífskjarasamninginn gerðar opinberar og kom það formanni Verkalýðsfélags Akraness ekki á óvart að 88% félagsmanna VLFA sem kusu um samninginn hafi sagt já við samningum.

En rétt er að geta þess að lífskjarasamningurinn var samþykktur hjá öllum aðildarfélögum Starfsgreinasambands Íslands en meðaltalið var 80%

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá er það mat formanns að lífkjarasamningurinn sem undirritaður var 3. apríl síðastliðinn sé einn besti samningurinn sem formenn félaganna hafa gert fyrir verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði.

Þessi afgerandi kosning staðfestir að félagsmenn VLFA og reyndar verkafólk vítt og breitt um landið eru sammála því mati.

Þær nýju leiðir sem farnar voru við gerð lífskjarasamningsins munu svo sannarlega koma íslensku verkafólki til góða en í fyrsta skipti var eingöngu samið með krónutöluhækkunum en ekki prósentum. Ekki bara það heldur fær verkafólk á lægstu laununum hærri krónutöluhækkanir en þeir sem eru á hærri laununum.

Þessu til viðbótar var tryggt að launafólk fengi auknar krónutöluhækkanir ef hagvöxtur á mann verður frá 1% til 3% en með þessum hagvaxtarauka er verið að tryggja að aukna hlutdeild launafólks ef afkoma fyrirtækja verður góð. En aldrei hefur verið samið um slíkan hagvaxtarauka áður í kjarasamningum og er formaður félagsins afar stoltur að hafa átt stóran þátt í gerð þessa samnings með félögum okkar í VR, Eflingu, Framsýn og Verkalýðsfélagi Grindavíkur.

Vissulega er það áhyggjuefni hversu lítil þátttaka í kosningunni var en einungis um 12% þeirra sem voru á kjörskrá greiddu atkvæði en þrátt fyrir það er niðurstaðan algerlega afdráttarlaus og endurspeglar það sem formaður hefur heyrt frá hinum almenna félagsmanni sem heyrir undir samninginn.

 

Hér er hægt að sjá nýja launatöflusem tók gildi 1. apríl 2019

 

En rétt er að ítreka það að þetta er hinn almenni samningur fyrir verkafólk, en ekki hjá þeim sem starfa hjá sveitarfélögum eða ríkinu.  Kjarasamningar við starfsmenn ríkis og sveitarfélaga runnu út þann 31. mars sl.

16
Apr

Formaður með erindi í Háskóla Íslands

Í morgun var formaður Verkalýðsfélags Akraness með erindi í Háskóla Íslands fyrir meistaranema í mannauðsstjórnun sem Gylfi Dalmann Aðalsteinsson dósent í vinnumarkaðsfæði kennir.

En þetta er í fimmta sinn sem formaður VLFA fer og hittir nemendur hjá Gylfa Dalmann til að ræða verkalýðsmál.

Í erindinu í morgun fór formaður yfir nýgerðan lífkjarasamning sem undirritaður var 3. apríl síðastliðinn og kom fram í máli formanns að um algjöran tímamótasamning væri um að ræða og kom einnig fram hjá formanninum að honum væri til efs að betri kjarasamningur hafi verið gerður fyrir verkafólk sem tekur laun eftir lágmarkslaunatöxtum.

Hann fór yfir afhverju þessi lífkjarasamningur er tímabóta samningur og nefndi hann sérstaklega í því samhengi að núna hafi verið samið eingöngu með krónutöluhækkunum en ekki prósentum sem og það að launafólki er tryggð auknar launahækkanir í gegnum svokallaðan hagvaxtarauka.

Formaður fékk fjölmargar spurningar frá nemendum og reyndi formaður að svara öllum spurningum eins vel og kostur væri.

15
Apr

Aðalfundur Verklaýðsfélags Akraness verður mánudaginn 29. apríl

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness verður haldinn

mánudaginn 29. apríl kl. 17:00

í Gamla Kaupfélaginu, Kirkjubraut 11

Dagskrá:

  1. Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár.
  2. Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til afgreiðslu.
  3. Kosningar sem þurfa að fara fram á aðalfundi samkvæmt 28. grein laga félagsins.
  4. Kynning á hækkun á greiðslum úr sjúkrasjóði.
  5. Breyting á lögum félagsins (14. og 29. grein).
  6. Önnur mál.

Á aðalfundi verða ekki afgreiddar með atkvæðagreiðslu aðrar tillögur og ályktanir en þær sem borist hafa til skrifstofu félagsins 5 dögum fyrir aðalfund eins og 28. grein laga félagsins kveður á um. Ársreikningur félagsins mun liggja frammi á skrifstofu félagsins 10 dögum fyrir aðalfund. Komi tillögur eða ályktanir fram þá munu þær liggja frammi á skrifstofu félagsins og verða einnig kynntar á heimasíðu félagsins.

Félagsmenn eru eindregið hvattir til að mæta.

Boðið verður upp á kvöldverð eftir fundinn.

11
Apr

Rafræn atkvæðagreiðsla um nýgerðan kjarasamning

Rafræn atkvæðagreiðsla  um nýjan kjarasamning Verkalýðsfélags Akraness við Samtök atvinnulífsins fyrir störf á almennum vinnumarkaði, sem undirritaður var 3. apríl 2019, hefst kl. 13:00 þann 12. apríl og lýkur þriðjudaginn 23. apríl kl. 16:00.

Atkvæðisrétt eiga allir félagsmenn VLFA sem vinna eftir viðkomandi samningi og greiddu félagsgjöld í janúar/febrúar 2019. Kynningarefni hefur verið sent út í pósti samkvæmt kjörskrá. Frekara kynningarefni um samninginn má nálgast hér.

Fái einhver, sem telur sig eiga atkvæðisrétt, kynningarefnið ekki sent getur viðkomandi snúið sér til skrifstofu vlfa og fengið sig færðan á kjörskrá og greitt atkvæði, enda leggi viðkomandi fram launaseðil sem sanni afdregin félagsgjöld í janúar/febrúar 2019. Tekið er við kjörskrárkærum samkvæmt framansögðu til kl. 16.00 þriðjudaginn 23. apríl en þá lýkur atkvæðagreiðslu um samninginn. Félagsmenn eru eindregið hvattir til að nýta réttindi sín og greiða atkvæði.

Hvernig á að greiða atkvæði?
Til að greiða atkvæði með rafrænum hætti smellir viðkomandi á sitt félag á listanum hér að neðan og skráir sig inn með rafrænum skilríkjum eða íslykli*. Eftir innskráningu birtist atkvæðaseðilinn og getur viðkomandi þá greitt atkvæði.** Athugið að kosningin verður ekki virk fyrr en kl. 13:00 föstudaginn 12. apríl næstkomandi.

Aldan stéttarfélag Verkalýðsfélag Grindavíkur
Báran stéttarfélag Verkalýðsfélag Snæfellinga
Drífandi stéttarfélag Verkalýðsfélag Suðurlands
Efling stéttarfélag Verkalýðsfélag Vestfirðinga
Eining-Iðja Verkalýðsfélag Þórshafnar
Framsýn stéttarfélag Verkalýðsfélagið Hlíf 
Stéttarfélag Vesturlands Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur
Stéttarfélagið Samstaða Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis
Verkalýðsfélag Akraness Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis

*Hægt er að sækja um íslykil á island.is og rafræn skilríki audkenni.is

**Einnig er hægt að greiða atkvæði í gegnum heimasíður félaganna.

10
Apr

Kosning um lífkjarasamninginn hefst 12 apríl

Rétt er að árétta að atkvæðagreiðsla um samninginn hefst 12. apríl kl. 12:00 og stendur til 16:00 23. apríl. Atkvæðagreiðslan er rafræn og heldur Advania utan um kosninguna fyrir okkar hönd. Úrslit verða kynnt miðvikudaginn 24. apríl.

Komið verður upp hnapp á heimasíðu Verkalýðsfélags Akraness þar sem félagsmenn geta smellt á og komist inná síðuna sem heldur utanum kosninguna en félagsmenn munu skrá sig inn með íslykli eða rafrænum skilríkjum.

Einnig verður hægt að kjósa utankjörfundar á skrifstofu félagsins frá sama tíma.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image