• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
07
Mar

Aðalmálflutningur fyrir Héraðsdómi Vesturlands gegn Hval hf. flutt í gær

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá vann Verkalýðsfélag Akraness mál gegn Hval hf. fyrir félagsmann sinn en málið vannst bæði fyrir Héraðsdómi Vesturlands og Hæstarétti en endalegur dómur fyrir Hæstarétti var kveðinn upp 14. júní 2018.

Rétt er að geta þess áður en lengra er haldið að Verkalýðsfélag Akraness ákvað að fara með eitt mál sem prófmál fyrir dómstóla til að láta á það reyna hvort félagið hefði rétt fyrir sér um að Hvalur væri að brjóta á starfsmönnum.  Það er einnig rétt að geta þess að þau túlkunaratriði sem farið var með fyrir dómstóla voru í öllum atriðum eins hjá öllum starfsmönnum enda ráðningarsamningar starfsmanna allir eins.

Aðalkrafa félagsins sem staðfest var í Hæstarétti byggðist á því að í ráðningarsamningi starfsmanna er getið um að fyrir hverja 12 tíma vakt séu greiddar 33.142 kr. á virkum dögum og 36.997 kr. fyrir helgarvaktir.

Í öðrum lið í ráðningarsamningi starfsmanna kveður á um að í sérstakri greiðslu séu greiddar 5.736 kr. fyrir hverja 12 tíma vakt vegna skerðingar á frítökurétti og vegna ferða til og frá vinnustað.

Ágreiningurinn laut að því að Hvalur hf. vildi meina að þessi sérstaka greiðsla upp á 5.736 kr. fyrir hverja vakt vegna skerðingar á hvíldartíma og ferða til og frá vinnustað hafi verið inni í vaktakaupinu, en dómurinn tók undir það með VLFA að starfsmenn hefðu klárlega mátt skilja ráðningarsamninginn þannig að þessi greiðsla væri til viðbótar vaktarkaupinu.

Ein af kröfum félagsins til viðbótar aðalkröfunni um sérstöku greiðsluna var að þegar starfsmaður hefur unnið samfellt í sjö daga, eigi hann rétt til greiðslu á 8 tímum í dagvinnu vegna skerðingar á vikulegum frídegi. En í grein 2.4.3 í kjarasamningi SGS og SA segir að á hverju sjö daga tímabili skal starfsmaður hafa a.m.k einn vikulegan frídag.

Hvalur hf. vildi meina að hvergi í kjarasamningum væri kveðið á um að greiða ætti fyrir dagvinnu aukalega þó vikulegur frídagur væri ekki tekinn. Hæstiréttur tók undir þessi sjónarmið Hvals hf. en sagði hins vegar að það væri á ábyrgð fyrirtækisins að starfsmaðurinn fengi umræddan vikulega frídag og því bæri Hval hf. að greiða starfsmanninum 8 tíma í dagvinnu fyrir þá daga þar sem vinna var meira en sjö dagar samfellt.

Með þessu hefur Hæstiréttur kveðið upp með afgerandi hætti að ef launafólk vinnur meira en sjö daga samfellt þá beri atvinnurekendum að greiða 8 tíma í dagvinnu fyrir hverja sjö daga sem unnir eru samfellt.  En orðrétt segir í dómi Hæstaréttar:  Enda þótt ekki sé gert ráð fyrir að umræddir frídagar séu launaðir er ljóst að aðaláfrýjandi bar ábyrgð á því að gagnáfrýjandi fegni þá lágmarkshvíld sem í kjarasamningum greinir. Þar sem hann fór ekki að kjarasamningi að þessu leyti verður honum gert að greiða gagnáfrýjanda dagvinnulaun vegna þessara daga" 

Þetta var algjör tímamótadómur hvað þetta varðar, enda hæstiréttur búinn að kveða endanlega upp að greiðsluskylda atvinnurekanda er til staðar ef starfsmaður vinnur meira en sjö daga samfellt og fær ekki umræddan vikulega frídag.

Það var strax ljóst að þessi dómur hefur klárlega fordæmisgildi gagnvart öllum þeim starfsmönnum sem unnu hjá Hval hf. á vertíðunum 2013, 2014 og 2015 en dómurinn getur náð til allt að 200 starfsmanna eða svo. Það er erfitt að segja nákvæmlega hversu mikið fordæmisgildi þessi dómur hefur í krónum talið, en það má alveg áætla að hagsmunir allra starfsmanna geti numið allt að 400 milljónum.

Eftir að þessi fordæmisgefandi Hæstaréttardómur féll 14. júní í fyrra eygði formaður Verkalýðsfélag Akraness þá von að siðferðiskennd forstjóra Hvals væri þannig að hann myndi una niðurstöðu Hæstaréttar og leiðrétta vangreidd laun allra starfsmanna sem hefðu verið hlunnfærðir samkvæmt dómnum fyrir hvalvertíðarnar 2013, 2014 og 2015.

Nei, siðferðisvitund forstjóra Hvals var ekki á þeim stað að viðurkenna og una niðurstöðu Hæstaréttar þrátt fyrir að allir starfsmenn séu með eins ráðningarsamninga sem deilt var um.  Forstjóri Hvals hafnaði að leiðrétta laun allra starfsmanna og á þeirri forsendu varð Verkalýðsfélag Akraness að stefna Hval aftur fyrir dómstóla og nú fyrir hönd allra félagsmanna sinna. 

Aðalmálflutningur í því máli var í gær fyrir Héraðsdómi Vesturlands en núna var eina málsvörnin hjá forsvarsmönnum Hvals að starfsmenn hefðu sýnt af sér tómlæti með því að hafa ekki gert athugasemdir við að sérstaka greiðslan hafi ekki verið greidd og vegna skerðingar á svokölluðum vikulegum frídegi.

Það er þyngra en tárum taki að forstjóri Hvals ætli að reyna að koma sér undan að greiða starfsmönnum vangreidd laun sem Hæstiréttur hefur dæmt fyrirtækinu að greiða einum starfsmanni en ítreka að allir ráðningarsamningar starfsmanna eru eins.

Það er eins og áður sagði dapurlegt að fyrirtækið ætli sér að reyna að víkja sér undan dómi Hæstaréttar og bera fyrir sig tómlæti starfsmanna en starfsmenn höfðu ekki hugmynd að fyrirtækið væri að hlunnfara þá samkvæmt ákvæðum í ráðningarsamningi.

Í málflutningsræðu lögmanns Verkalýðsfélags Akraness kom skýrt fram að ekki er hægt að krefjast tómlætis starfsmanna í ljósi þess að þeir höfðu ekki hugmynd um að verið væri að brjóta á réttindum þeirra.  Tómlæti getur ekki átt við að okkar mati nema starfsmenn hafi vitað að verið væri að brjóta á réttindum þeirra og þeir hafi ekkert aðhafst fyrir en mörgum árum seinna.

Það yrði slæmt fordæmi ef dómstólar myndu taka undir sjónarmið Hvals um tómlæti því þá myndi það þýða að atvinnurekendur gætu ástundað að brjóta vísvitandi á réttindum starfsmanna með von um að þeir myndu ekki átta sig á brotunum fyrr en of seint og komast þannig hjá því að fara eftir gildandi kjarasamningum og ráðningarsamningum.

Formaður er vongóður um að félagið vinni þetta mál enda getur eins og áður sagði ekki verið um tómlæti að ræða hjá starfsmönnum sem vissu ekki að verið væri að brjóta á rétti þeirra, en um leið og það uppgötvaðist árið 2015 var farið í að leita réttar fyrir dómstólum.

Dómur mun væntanlega falla eftir fjórar til sex vikur.

01
Mar

Stjórn Verkalýðsfélag Akraness samþykkir að kosið verði um allsherjarverkfall

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness hefur ákveðið að láta fara fram allsherjaratkvæðagreiðslu um verkfallsboðun meðal félagsmanna sinna sem heyra undir kjarasamning sem félagið á við Samtök atvinnulífsins vegna veitinga-, gisti-, þjónustu og greiðasölustaða, afþreyingarfyrirtækja og hliðstæðrar starfsemi.

Atkvæðagreiðslan mun hefjast 29. mars og og standa til 5. apríl og ef kosning um verkfall verður samþykkt mun allsherjarverkfall þeirra sem heyra undir áðurnefndan kjarasamning skella á 12. apríl.  Rétt er að geta þess að þessi kosning um verkfallsboðun er partur af aðgerðaplani sem stéttarfélögin fjögur standa sameiginlega að.

Verkalýðsfélag Akraness mun auglýsa kosninguna og önnur útfærsluatriði þegar nær dregur kosningunni.

27
Feb

Verkalýðsfélag Akraness styður heilshugar boðaðar verkfallsaðgerðir Eflingar stéttarfélags á hótelum á alþjóðlegum baráttudegi kvenna þann 8. mars nk. 

Verkalýðsfélag Akraness styður heilshugar boðaðar verkfallsaðgerðir Eflingar stéttarfélags á hótelum á alþjóðlegum baráttudegi kvenna þann 8. mars nk. 

Samningaviðræður VR og Eflingar ásamt Verkalýðsfélagi Akraness og Verkalýðsfélagi Grindavíkur báru engan árangur og tilboð Samtaka atvinnulífsins um launahækkanir, sem þýða ekki annað en kaupmáttarrýrnun fyrir stærstan hluta félagsmanna, er algjörlega óásættanlegt. Ekkert frekar liggur á borðinu og því er rökrétt næsta skref félaganna að beita verkfallsvopninu í þeirri von að viðsemjendur okkar komi aftur að samningaborðinu með réttlátara hugarfari.

Efling ríður á vaðið með sérstakri vinnustöðvun þann 8. mars en í framhaldi af því eru boðaðar samræmdar verkfallsaðgerðir félaganna.

Stöndum saman!

21
Feb

Viðræðum við Samtök atvinnulífsins slitið hjá ríkissáttasemjara

Rétt i þessu lauk árangurlausum fundi Verkalýðsfélags Akraness, Grindavíkur, Eflingar og VR við Samtök atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara.

En þetta var ellefti samningafundurinn frá því áðurnefnd stéttarfélög vísuðu deilunni til ríkissáttasemjara. Það skal fúslega viðurkennast að það eru gríðarleg vonbrigði að ekki skuli hafa tekist að ná saman kjarasamningum en það er morgunljóst að töluvert ber á milli samningsaðila.

Helsta markmið stéttarfélaganna var að lagfæra kjör lágtekjufólks þannig að laun þeirri dugi fyrir nauðþurftum frá mánuði til mánaðar og dugi fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út.

Það liggur fyrir að áðurnefnd stéttarfélög ætla að standa þétt saman í þeirri erfiðu baráttu sem framundan er og það er ljóst að ekki mun koma til allsherjarverkfalla heldur munu félögin teikna upp aðgerðaáætlun sem miðar að svokölluðum skæruverkföllum. En að þeirri aðgerðaáætlun munu öll stéttarfélögin koma að.

Nú er staðan gríðarlega erfið og grafalvarleg en okkar markmið standa fast á okkar sjálfsögðu kröfu sem er að auka ráðstöfunartekjur lágtekjufólks umtalsvert í þessum kjarasamningum. 

20
Feb

Formanni og fyrsta varforseta ASÍ misboðið á fundi með ríkisstjórninni

Í gær var forsetateymi ASÍ boðið á fund stjórnvalda þar sem kynntar voru hugmyndir þeirra til að liðka fyrir kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði.

Fyrir hönd ríkisstjórnarinnar sátu fundinn forsætisráðherra, fjármálaráðherra, samgöngumálaráðherra og félagsmálaráðherra.

Það verður að segjast alveg eins og er að væntingar okkar til stjórnvalda til að liðka fyrir kjarasamningum voru umtalsverðar enda byggja okkar hugmyndir á að auka ráðstöfunartekjur þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi umtalsvert.

Því miður var þessi fundur gríðarleg vonbrigði enda kom fram á fundinum að einungis 6.750 krónur væru stjórnvöld tilbúin að létta á skattbirgði launafólks sem er á tekjubilinu 300 til 900 þúsund. Við höfðum væntingar um að skattbirgði yrði á bilinu 15.000 til 20.000 þúsund á tekjulægsta fólkið í íslensku samfélagi.

Það voru einnig gríðarleg vonbrigði að stjórnvöld séu ekki tilbúin að afnema verðtryggingu á neytendalánum en þau sögðust vera tilbúin að skoða að banna 40 ára verðtryggð jafngreiðslulán. Það er ekki í anda þeirra hugmynda sem verkalýðshreyfingin hefur og er inní kröfugerðum stéttarfélaganna enda er þar talað um að afnema verðtyggingu á nýjum neytendalánum.

Ekki voru vonbrigðin minni þegar forsætisráðherra sagði að þau væru ekki tilbúin að taka húsnæðisliðinn úr lögum um vexti og verðtryggingu en sögðust vera tilbúin að láta skoða kosti og galla húsnæðisliðarins af erlendum sérfræðingi.  Þessi erlendi aðili átti síðan að skila niðurstöðu 31 mars 2020!

Þegar hérna var komið þá var farið að sjóða á formanni VLFA enda vonbrigðin orðin yfirþyrmandi og tjáði formaður ráðherranum að hann væri gapandi hissa á því jarðsambandsleysi sem ríkti hjá ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Benti hann ráðherrunum á ruglið sem væri í gangi þar sem ríkisstjórn lét samþykkja að skipaður yrði sérfræðingahópur þann 8. maí í fyrra sem átti að fara yfir kosti og galla húsnæðisliðarins á lán heimilanna. Þessi hópur átti að skila fyrir áramót og núna ætlar ríkisstjórnin að leggja það til,  til þess að liðka fyrir kjarasamningum að annar sérfræðingahópur verði skipaður um húsnæðisliðinn og spurði formaður ráðherranna, hvort þessi sérfræðingahópur ætti þá að skoða hvað hinn sérfræðingahópurinn hefði verið að gera.

Benti formaður ráðherrum ríkisstjórnarinnar einnig á þá staðreynd að frá því stjórnvöld létu samþykkja frá Alþingi að skoða ætti kosti og galla húsnæðisliðar á lán heimilanna þann 8. maí í fyrra hafi húsnæðisliðurinn einn og sér fært 12 milljarða frá heimilunum yfir til fjármálakerfisins sem er álíka há upphæð og stjórnvöld eru tilbúin að létta skattbirgði á launafólki á 3 árum!

Þegar hérna var komið tjáði formaður ráðherrunum að hann gæti ekki setið lengur á þessum fundi þar sem honum væri endanlega misboðið og yfirgaf hann fundinn, enda leyndu vonbrigði formanns sér alls ekki.

Nú er staðan á vinnumarkaði orðin grafalvarleg, enda vonaði formaður og fyrsti varaforseti ASÍ innilega að innlegg ríkisstjórnarinnar yrði til þess að liðka raunverulega fyrir þessum viðræðum en því miður var raunin alls ekki sú.

Þetta er staðan og núna er ljóst að það á eftir að  koma í ljós á fundinum á morgun hvort viðræðum verður slitið eða ekki.

20
Feb

Ellefti fundurinn hjá ríkissáttasemjara haldinn á síðasta föstudag

Ellefti fundur Verkalýðsfélags Akraness, Verkalýðsfélags Grindavíkur, VR og Eflingar var á síðasta föstudag en á þeim fundi lögðu áðurnefnd stéttarfélög fram gagntilboð til atvinnurekenda með fyrirvara um aðkomu stjórnvalda til að liðka fyrir samningum.

Það er skemmst frá því að segja að Samtök atvinnulífsins höfnuðu þessu gagntilboði félaganna eftir 30 mínútna umhugsunartíma. Það voru mikil vonbrigði að fulltrúar SA hafi hafnað okkar tilboði en það var samrómaálit formanna stéttarfélaganna að nú væri staðan þannig að bíða þyrfti eftir útspili ríkisstjórnarinnar til að liðka fyrir kjarasamningum en fyrir lá að sá fundur forsetateymis ASÍ með stjórnvöldum yrði  þriðjudaginn 19 febrúar.

Ákveðið var að bíða eftir þessu útspili  sem og að boða til næsta sáttafundar hjá ríkissáttsemjara fimmtudaginn 21 febrúar.

En eins og fram hefur komið hér á heimsíðunni þá er okkar aðalkrafa að auka ráðstöfunartekjur hjá tekjulægstu hópunum og það þarf að gera með samspili atvinnurekenda og stjórnvalda.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image