• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
05
May

Krabbameinsskoðun greidd af sjúkrasjóði

Samþykkt var á aðalfundi 29. apríl sl. að greiða kr. 1.500 vegna krabbameinsskoðunar félagsmanna úr sjúkrasjóði félagsins.  Þeir félagsmenn sem fóru í skoðun nú í vor geta því komið með kvittun sína fyrir skoðuninni á skrifstofu félagsins og fengið endurgreiðslu.  Hver félagsmaður á rétt á þessari greiðslu annað hvert ár.

03
May

1. maí ræða Eiríks Jónssonar formanns KÍ

Hún er löng leiðin til stjarnanna.

 
Hún er löng leiðin til stjarnanna
Eæða Eiríks Jónssonar formanns KÍ á 1. maí á Akranesi
Ágætu samkomugestir – til hamingju með daginn. 

Það er mér mikill heiður að fá tækifæri til að ávarpa samkomu ykkar hér á Akranesi í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins. 

Það má með sanni segja að hún sé löng leiðin til stjarnanna og hið sama á við um baráttu stéttarfélaga hún er óendanleg. 

Sumir halda því fram að barátta stéttarfélaga fyrir bættum kjörum og auknum réttindum sé barn síns tíma og eigi ekki við lengur. Þeir eru líka til sem halda því fram að kröfugöngur 1. maí séu tímaskekkja. Ég gef lítið fyrir þessar skoðanir og tel þær fyrst og fremst settar fram af þeim sem óttast styrk stéttarfélaga og vilja þar af leiðandi veg þeirra sem minnstan. 

Ég held að öllum sé hollt að rifja af og til upp sögu verkalýðshreyfingarinnar og minnast þeirra sem ruddu brautina snemma í síðustu öld. Margar frásagnir eru til um harðvítuga baráttu forvera okkar fyrir því sem við teljum sjálfsögð mannréttindi í dag. Og við skulum heldur ekki gleyma því að í hópi stjórnvalda og atvinnurekenda er að finna fjölmarga sem sjá ofsjónum yfir þeim réttindum sem almennt launafólk hefur í dag og eru tilbúnir til að skerða þau ef þeir hefðu möguleika á.  Hér má til dæmis benda á að nú er til umfjöllunar á Alþingi frumvarp sem afnemur starfsöryggi ríkisstarfsmanna verði það að lögum. Nánar um það síðar. Við megum því aldrei sofna á verðinum en verum samt raunsæ og  munum að stjörnurnar eru í órafjarlægð og hæpið að við komumst alla leið þangað.

Á undanförnum vikum hafa nokkur verkalýðsfélög gengið frá samningum um kaup og kjör næstu árin. Ég veit satt að segja ekki hvaða áhrif þeir samningar hafa á raunkaup þeirra aðila sem eiga að taka laun samkvæmt þeim. Ég veit það þó að samningarnir eru lágmarkssamningar og þar af leiðandi er ekkert sem bannar að greitt sé meira en taxtar segja til um. Þátttaka í atkvæðagreiðslu hjá VR segir mér að fáir taki laun samkvæmt lágmarkssamningi.

Þessu er öðruvísi farið í þeim samningum sem gilda fyrir leik- grunn og tónlistarskólakennara sem verið er að ræða þessa daganna. Þeir samningar eru hámarkssamningar. M.ö.o. það er bannað að greiða hærri laun er samningar kveða á um að viðlagðri harðri refsingu. Sumir hér inni gætu haldið að hér væri um einhvern gálgahúmor að ræða en svo er alls ekki. Til að útskýra þetta aðeins nánar langar mig að lesa upp úr því umboði sem sveitarfélögin veita Launanefnd sveitarfélaga, en þar segir m.a..

“Sveitarfélagið skuldbindur sig til að hlíta samþykktum Launanefndar sveitarfélaga og þeim kjarasamningum sem nefndin gerir fyrir þess hönd í öllum atriðum og eru breytingar, viðbætur og frávik, s.s. kerfisbundnar yfirborganir sem byggja á launategundum kjarasamnings á gildistíma hans, óheimilar án samþykkis launanefndar (tilv. lýkur).

Þessu er síðan fylgt eftir með skilgreiningum á þeim refsingum sem launanefndin grípur til ef sveitarfélag grípur til þess hræðilega glæps að greiða meira en lágmarkið segir til um. Eins og sjá má hafa sveitarfélögin bundist samtökum um að greiða ekki hærri laun en taxtar samninga segja til um. Það er því ekkert að hafa til viðbótar við þá upphæð sem samið er um við hið miðlæga samningsborð. 

Refsiramminn er líka skýr og minnir um margt á refsingar á miðöldum þegar bannfæringinn var og hét eða þegar menn voru hýddir eins og rakkar rétt eins og Jón Hreggviðsson forðum. 

Það að borga betur en samningar segja til um jafngildir því að sveitarfélag verið gert brottrækt úr samfélagi sveitrarfélagnna. Ef einhver heldur að þetta séu aðeins stafir á blaði er um misskilning að ræða þar sem launanefndin gerir úttektir á launagreiðslum og grípur inn í af hörku ef góðmennskan hefur tekið völdin einhversstaðar í keisaradæmi hennar. Það er nauðsynlegt að hafa þetta í huga þegar fjallað er um launakröfur kennara. Þessar staðreyndir valda því m.a. að grunnskólakennarar íhuga nú sterklega að grípa til verkfallsaðgerða í upphafi næsta skólaárs. Ég hef ítrekað sagt að mér finnist óeðlilegt að þeir sem fyrstir gera kjarasamninga hverju sinni skuli um leið skipa sér á bekk meðal dómara sem ákveða hvað aðrir eiga að fá í laun. Ég hafna því að við séum endilega að biðja um meira en aðrir þar sem aðrir hafa ekki haft fyrir því að kynna okkur samninga sína hvað þá heldur að þeir hafi sýnt okkur kröfurnar áður en þær voru lagðar fram. 

Félög kennara og stjórnenda í leik- grunn- framhalds og tónlistarskólum sem starfa innan Kennarasambands Íslands lögðu mikla vinnu í að samræma kröfur sínar fyrir yfirstandandi samningalotu. Sú vinna tók heilt ár. Vinnan leiddi til þess að til urðu sameiginlegar kröfur í 25 liðum sem öll félögin munu fylgja eftir. Enginn krafa var sett inn án þess að allir væru sammála. Rauði þráðurinn í þessum kröfum er krafan um bætt laun en ekki síður betra vinnuumhverfi með bætta líðan kennara og nemenda að leiðarljósi. Með þessu viljum við leggja okkar að mörkum til að gera kennslu að aðlaðandi ævistarfi. Svona tel ég að eigi að vinna ef allir vilja ná svipuðum markmiðum. Mér finnst óeðlilegt að gera þá kröfu til stéttarfélags að það lýsi sig samþykka kröfum sem það hefur ekki séð. Þetta er svipað og að allir sem fara á blint stefnumót undirgangist að úr því verði hjónaband.

Í nýjasta hefti tímaritsins Birtu er að finna viðtal við Gunnar Pál Pálsson formann VR. Í viðtalinu er hann spurður hver séu meðallaun þeirra sem vinna skrifstofuvinnu. Gunnar Páll segir orðrétt:

“Þau voru í síðustu launakönnun 260.000 á mánuði fyrir bæði kynin. Sú launatala er miðuð við heildarlaun og á skrifstofum er yfirleitt ekki unnin mikil yfirvinna”. (tilv. lýkur) 
Ef þetta er borið saman við síðustu könnun um laun grunnskólakennara kemur fram að meðallaun þeirra fyrir dagvinnu eru nú nálægt  215.000 á mánuði. Hér er ekki meðtalin yfirvinna en á móti kemur að allir stjórnendur eru taldir með og hækkar það meðaltalið töluvert. Ef laun kennara hækka í takt við þær kröfur sem fram hafa verið lagðar má gera ráð fyrir að laun fyrir kennslu verði svipuð launum skrifstofufólks í árslok 2007. Þetta eru nú öll ósköpin. Svipuð niðurstaða fæst ef kennaralaun eru borin saman við laun annarra háskólamenntaðra starfsmanna hjá ríki og sveitarfélögum.

Ég get ekki neitað því að mér finnst stundum eins og vinnuveitendur og stjórnvöld líti á fólk sem gerir kröfur um mannsæmandi laun sem hálfgerða glæpamenn. Stöðugt er tönglast á því að ekki megi raska stöðugleikanum. Ég spyr, - hvað stöðugleika? Eru menn að tala hér um að varðveita stöðugleika hinna ríku -  það er eini stöðugleikinn sem ég þekki. Nærtækasta dæmið er samþjöppun valds á fjármálamarkaði, t.d. innan bankakerfisins. Hafa stjórnvöld eingar áhyggjur af því. Ég vil undirstirka að þeir sem mest tala um að varðveita meintan stöðugleka eru um leið að segja að skiptingin í þjóðfélaginu sé rétt eins og hún er í dag og hana eigi að festa um aldur og ævi. Þeir sem eru ríkir í dag eiga að vera það áfram og þeir sem minna mega sín eiga að halda því áfram – þetta er stefnan  þó menn þori ekki að segja þetta hreint út. 

Til að benda á jákvæða hluti sem náð hafa fram við samningaborðið vil ég nefna það skref sem stigið var við jöfnun lífeyrisréttinda í landinu þegar opinberir sarfsmenn innan ASÍ fengu inn í samninga ákvæði um bætt lífeyriskjör. Hér er um að ræða skref í rétta átt þar sem um er að ræða jöfnun upp á við. Margir hafa sagt að lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna séu einhver ofurréttindi en slíkt er auðvitað algjör fyrra. Sem dæmi má taka að kennari sem kennt hefur í 40 ár, og lætur af störfum 68 ára getur búist við að fá í úborgaðan lífeyri um 125 þúsund krónur á mánuði. Meðaltalsgreiðslur úr sjóðnum eru um 88.000 kr. á mánuði eftir skatta.Það segir sig sjálft að hér er ekki um ofurréttindi að ræða enda hafnaði meirihluti alþingismanna því fyrir stuttu að þessi kjör væru samboðin þingmönnum og ráðherrum.
Atvinnurekendur halda því stöðugt fram að ekkert svigrúm sé til launahækkana. Ég varð því satt að segja nokkuð hugsi á síðasta ári þegar Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins gerði úttekt á því hve mikinn hagnað sjóðurinn hefði innleyst vegna sölu hlutabréfa í fyrirtækum sem barist var um á markaði. Þessi hagnaður nam um 1.300.000 króna þegar dæmið var gert upp. Frá mínum bæjardyrum séð var meginskýringin á þessu sú að ákveðnir aðilar þurftu að tryggja sér og sínum sæti í stjórnum akveðinna fyrirtækja. Þetta væri allt saman gott og blessað ef þessir sömu aðilar börmuðu sér ekki eilíft yfir launum þeirra sem vinna á gólfinu.

Ég er ekki í hópi þeirra sem leggja höfuðáherslu á flatar skattalækkanir með þeim hætti sem lofað var fyrir síðustu kosningar. Þær koma helst til tekna þeim sem hæst hafa launin og bitna harðast á velferðarkerfinu en þar held ég að nóg sé að þrengt. Höfum í huga að fjögurra prósentustiga lækkun á skatti skilar milljónkróna manninum 480.000 króna tekjuauka á ári, 250.000 króna manninum 120.000 krónum en sumum ekki krónu. Tillögur mínar eru frekar þær að skattaeftirlit verði hert, allri launaleynd verði aflétt og ráðist verði af alvöru gegn neðanjarðarhagkerfinu. Þá finnst mér ótækt að fólk geti komið sér undan eðlilegum skattgreiðslum með því einu að stofna svokölluð einkahlutafélög. Ég veit ekki betur en að sveitarfélögin hafi orðið fyrir gífurlegu tekjutapi vegna þessa skipulags á undanförnum árum. Ég teldi eðlilegra að viðhalda núverandi skattprósentu og styrkja velferðarkerfið frekar en að veikja það. Hvaða áhrif hefði það til dæmis að bjóða barnafólki ókeypis leikskóla fyrir börnin. Ætli það væri ekki ein besta kjarbót sem hægt væri að hugsa sér fyrir þá sem eru að koma sér fyrir í lífinu. Það að vinna gegn auknum þjónustugjöldum í heilbrigðiskerfinu held ég að sé meiri kjarabót fyrir þá eldri og reyndar marga aðra, heldur en að lækka skatta á tekjur sem í mörgum tilfellum eru ekki nema rétt um og yfir skattleysismörkum. Hvað með hækkun barna- og vaxtabóta ef svigrúmið er á annað borð fyrir hendi. Látum þá njóta sem þurfa – ekki aðra.

Kjörorð dagsins er atvinna fyrir alla. Atvinna telst til grundvallarmannréttinda og þess vegna hlýtur það að vekja upp spurningar hvort eðlilegt sé að stjórnvöld ýti með aðgerðum sínum undir að verkefni hér á landi séu leyst með aðkomu erlendra starfsmannaleiga eins og nú er verið að gera. Miðað við það sem fulltrúar stéttarfélaga starfsfólks við Kárahnjúka hafa kynnt er ástæða til að fylgjast vel með gangi mála þar um slóðir og nauðsynlegt að allir taki höndum saman til að tryggja að ekki sé brotinn réttur á fólki. 

Það að flagga út skipum og horfa til erlendra starfsmannaleiga sem lausna er árás á íslenskt atvinnulíf og um leið á íslenskt efnahagslíf.

Fyrir ári gerði ég að umtalsefni í fyrsta maíávarpi afkomu bankanna og það sem ég kallaði misnotkunn á almannafé þegar Landsbankinn og Búnaðarbankinn voru seldir langt undir eðlilegu verði að mínu mati.  Það sem liggur nú fyrir í þessum efnum er að hagnaður bankanna mun á örfáum árum greiða upp þann kostnað sem út var lagður. Ríkið seldi sinn hlut í Landsbankanum fyrir 11 til 12 milljarða. Bankinn skilaði 4 milljörðum í hagnað á fyrstu þremur mánuðum þessa árs. Þegar búið verður að selja Símann sem mér skilst að sé næst á dagskrá verður lítið eftir til að selja. Það eru því allar líkur á því að núvernandi sjórnarflokkar nái að selja allt það sem þjóðinn hafði byggt upp alla síðustu öld. Það verða því engar mjólkurkýr í fjósinu lengur enda fjósameistarinn á leið í frí.

Í þessum orðum mínum felst engin skoðun á því hvort ríkið eigi að stunda atvinnurekstur af því tagi sem nú hefur verið seldur heldur eingungis það að mér þykir að margt hafi verið selt við vægu verði – ekki síst bankarnir.

Það verður ekki hjá því komist þegar minnst er á bankana að ræða aðeins um vexti á húsnæðislánum. Nú virðast bankarnir róa lífróður til að fá núverandi húsnæðislánakerfi dæmt ólögmætt. Því er líka haldið fram að bankarnir geti verið fyllilega samkeppnisfærir í vaxtamálum við núverandi kerfi. Ég hlýt því að spyrja: Af hverju get ég þá ekki farið í bankann og fengið lán á 5% vöxtum í dag. Auðvitað er það svo að núverandi íbúðalánalerfi er fyrir og bankarnir vilja það burt til að hafa sjálfdæmi um vaxtastigið í framhaldinu.

Jafnréttismál hafa verið mikið til umræðu á undanförnum vikum bæði hvað varðar stöðuveitingar og launajafnrétti. Samtök opinberra starfsmanna eru nú að undirbúa launa- og viðhorfskönnun meðal félagsmanna þar sem sérstök áhersla verður lögð á að kanna launajafnrétti. Með könnuninni á að afla upplýsinga um stöðu þessara mála í dag og um leið að búa til viðmið sem nota má  þegar sambærileg könnun verður gerð eftir svona tvö til fjögur ár eins og stefnt er að.

Það væri að bera í bakkafullan lækin að ræða hér mikið um stöðuveitingar og jafnrétti en þó verð ég að segja að mér finnst lítið til um stuðning kvenna í ríkisstjórnarflokkunum koma þegar karlráðherrar sýna konum lítilsvirðingu varðandi stöðuveitingar. Það er sorglegt í upphafi 21. aldarinnar að hlusta á gamla pirraða karlráðherra tjá sig um jafnréttismál af jafnmikilli vanþekkingu og fyrirlitningu og raun ber vitni.Þegar minnst er á pirraða ráðherra kemur líka ósjálfrátt upp í hugann umræðan um eingarhald á fjölmiðlum. Mér finnst þessi umræða vægast sagt fáranleg. Hún er fáranleg vegna þess að eins og hún er lögð upp snýst hún um menn en ekki málefni. Til að kóróna vitleysuna þætti mér ekki óeðlilegt að ríkisstjórnin einfaldaði lagasetninguna með því að setja inn í lagafurmvarpið ákvæði þess efnis að eigendur fjölmiðla mættu hvorki heita Jóhannes eða Jón Ásgeir.  Með því móti segðu menn að minnsta kosti það sem þeir meina og þannig tel ég rétt að vinna. Það er mín skoðun að hér sé á ferðinni mál sem rökrétt sé að fari í þjóðaratkvæði og tel ég upplagt að forsetinn prófi nú ákvæðið þar um fari svo að þingið samþykki þetta mál. Mér sýnist að búa eigi svo um hnútana að skipta verði Norðurljósum upp og um leið á að tryggja að enginn sem hefur til þess burði megi kaupa. Með öðrum orðum sá sem má getur ekki og sá sem getur má ekki.

Vel á minnst. - Hvernig fannst ykkur annars að hlusta á tilvonandi forsætisráðherra þjóðarinnar játa, í Kastljósþætti sl. þriðjudag, á sig og samráðherra sína tvöfalt brot á stjórnarskránni án þess að sýna önnur iðrunarmerki en þau að hann vonaðist til að gera þetta ekki aftur. Þetta væri nú ekkert gamanmál. Er þetta eðlilegt?

Ráðherrar halda því fram að hvegi nema hér hafi önnur eins samþjöppun á valdi innan fjölmiðlageirans átt sér stað.  - Ekki veit ég það en ég tel ólíklegt að ríkisstjórn sem margbrýtur stjónarskrá gæti setið nokkurs staðar nema hér.

Þegar búið verður að koma Norðurljósum á hausinn og tryggja þar með einokun ríkissjónvarpsins og fréttastofu útvarps sem ég “nota bene” ber mikið traust til, er gott fyrir stjórnvöld að vera búinn að afnema ráðningarfestu ríkisstarfsmanna. Þá verður hægt að reka útvarpsstjóra og fréttamenn skýringalaust ef þeir fylgja ekki stefnu stjórnvalda. Þá verður hægt að sýna þjóðinni myndir frá ræðuhöldum forsætisráðherra í Þjóðmenningarhúsinu í stað  lokunnar deilda á sjúkrahúsum að hætti Norður Kóreu með Ítölsku ívafi úr smiðju Berlusconi.

Fyrir ári  varð mér og reyndar fleirum tíðrætt um Íraksstríðið og einnig um átök Ísrales-  og Palestínumanna. Þá höfðu stjórnvöld nýlega  lýst velþóknun sinni á hernaðaraðgerðum Breta og Bandaríkjamanna í Írak og sú velþóknun varir enn.   Við erum jú staðföst – ekki satt.
Engann bilbug er að finna á stuðningi íslenskra stjórnvalda þótt engin hafi fundist gjöreyðingarvopnin, saklausir borgarar séu stráfelldir og fangar pyntaðir. Ekki er að finna neitt bakslag í stuðningnum við Bush og stefnu hans í málefnum Ísraela gegn Palestínumönnum þrátt fyrir viðbjóðsleg morð sem framin eru þar nær daglega.

Íslensk verkalýðshreyfing gegnir mikilvægu hlutverki. Hún á að veita atvinnurekendum og stjórnvöldum aðhald – hún á að berjast fyrir bættum hag hinna vinnandi stétta – hún á að standa vörð um þá sem minna mega sín. Ég tel að við öll sem tilheyrum  forystu verkalýðshreyfingarinnar þurfum að stefna enn hærra en gert hefur verið og gera ríkari kröfur jafnt til sjálfra okkar og annarra.  Forysta verkalýðshreyfingarinnar á að setja sér háleit markmið um bætt kjör og betra vinnuumhverfi félögum sínum til handa. Hún á að standa vörð um velferðarkerfið og hún á að veita pólitískum flokkum aðhald og þá meina ég öllum flokkum. Hún á að setja verkalýðspólitík ofar flokkspólitík. Á það hefur að mínu viti stundum skort. Forystan á líka að vera ófeimin við að setja markmiðin fram og standa og falla með þeim. Verum óhrædd við að berjast gegn fordómum og flokksvaldi sem og  áróðri þeirra sem vilja halda launum niðri. 

Ágætu félagar: Gamalt spakmæli segir.
“Sá sem mænir til stjarnanna nær að vísu ekki takmarkinu. Hins vegar á hann víst að komast hærra en sá sem miðar allt við kjarrið”. 
                
Þakka ykkur fyrir.

03
May

Fundað hjá ríkissáttasemjara

Boðað hefur verið til fundar vegna kjarasamnings starfsmanna sem vinna í síldarbræðslu Haraldar Böðvarssonar á miðvikudaginn kl:09:00, fundurinn verður haldinn í húsakynnum ríkissáttasemjara. Til fundarins fara formaður félagsins og trúnaðarmaður síldarverksmiðjunnar Björgólfur Einarsson.

03
May

Fundað vegna stofnanasamnings

Fyrsti fundur vegna stofnanasamnings við Sjúkrahús Akraness verður á morgun KL 13:00. Samninganefndin er skipuð núverandi og fyrrverandi trúnaðarmönnum, Sjúkrahúss Akraness, ásamt formanni félagsins. Starfsmenn binda miklar vonir við að vel takist til við gerð þessa fyrsta stofnanasamnings sem gerður hefur verið við Sjúkrahús Akraness. Formaður félagsins átti samtal við framkvæmdastjóra SHA um komandi samning í dag og því miður er hann ekkert allt of bjartsýnn á framhaldið, miðað við þær upplýsingar sem komu fram á þeim fundi. En það skýrist allt mun betur á morgun, því að öllum líkindum mun samninganefndin fá eitthvað í hendurnar frá forsvarsmönnum SHA.

01
May

Frábær skemmtun á 1. maí

Um þrjú hundruð manns tóku þátt í hátíðarhöldunum á Akranesi í dag enda frábær skemmtun í boði . Eftirtaldir komu fram: Gísli Einarsson var með upplestur og stjórnaði fjöldasöng, Lúðrasveit Akraness kom fram , Jóhannes Kristjánsson eftirherma fór á kostum. Hátíðarræðu dagsins flutti Eiríkur Jónsson formaður K.Í. Gísli Einarsson fyrrverandi alþingismaður sagðist hafa tekið þátt í 1. maí hátíðarhöldum í mörg ár og sú ræða sem Eiríkur Jónsson flutti hafi verið einn sú besta sem hann hefur heyrt flutta á 1. maí. Ræðan verður birt hér á síðunni í heild sinni eftir helgi. Að síðustu var öllum boðið upp á kaffiveitingar. Verkalýðsfélag Akraness þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu leið sína í sal félagsins að Kirkjubraut.40,sem og þeim börnum sem fóru á kvikmyndasýningar í boði félaganna.

01
May

Til hamingju með daginn

Til hamingju með daginn. 1. maí 2004 Verkalýðsfélag Akraness  óskar félagsmönnum sínum og öðrum launþegum til hamingju með daginn.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image