• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
21
Nov

Meira af tillögum um skattalækkanir

Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni hefur Verkalýðsfélag Akraness lagst gegn því hvernig fyrirhugaðar breytingar á skattkerfinu eru útfærðar, en ríkisstjórnin áætlar samkvæmt fjárlagafrumvarpinu að lækka miðþrepið úr 25,8% í 25%. Fram hefur komið að áætlaður kostnaður vegna þessa er 5 milljarðar króna.


Ekki leggst VLFA gegn því að ráðstafa eigi 5 milljörðum til skattalækkunar, síður en svo. Það sem félagið hefur gagnrýnt er útfærslan sjálf, en með þessari aðferð fá þeir sem eru tekjulágir sáralítið sem ekki neitt í sinn hlut. Reyndar fá þeir sem eru með undir 250.000 krónum í mánaðarlaun enga skattalækkun, og þeir sem eru með 500.000 krónur fá tæplega 2.000 kr.

ASÍ hefur einnig lagst gegn þessum breytingum og hefur lagt fram eigin tillögur, en þegar þær eru skoðaðar nánar sést að þeir sem eru með undir 250.000 kr. á mánuði fengju ennþá ekki krónu í skattalækkun.

Verkalýðsfélag Akraness leggur til að í stað þess að lækka skattprósentu verði persónuafsláttur hækkaður, en slík aðgerð myndi koma öllum vel óháð tekjum. Það eru greinilega til 5 milljarðar í ríkiskassanum sem á að ráðstafa í þennan málaflokk og þeir fjármunir duga til að hækka persónuafslátt sem nemur 2.000 krónum. Auðvitað mætti þessi upphæð vera mun hærri, en þetta eru þó 24.000 krónur á ári og lágtekjufólk munar um minna. Það sem VLFA vill benda á er að aðgerð sem þessi gagnast betur öllum þeim sem eru með undir 500.000 kr. á mánuði, aðgerðirnar sem ríkisstjórnin og ASÍ hafa lagt til gagnast betur þeim sem eru með yfir 500.000 í mánaðarlaun. Það er kjarni málsins.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur nú þegar fundað með ráðamönnum um þessi mál og standa vonir til að náist að koma þessum málum í betri horf áður en fjárlög verða afgreidd á Alþingi. Það er ekki hægt að misbjóða íslensku verkafólki með tillögum sem ganga út að þær skattalækkanir sem þó verði ákveðið að fara í renni í vasa þeirra sem hæstu hafa launin, en þeir sem lægst hafa launin verði skildir eftir. Við það verður ekki unað.

19
Nov

10 ára starfsafmæli stjórnar VLFA

Í dag eru liðin nákvæmlega 10 ár frá því núverandi stjórn tók við stjórnartaumunum í Verkalýðsfélagi Akraness. Eins og einhverjir muna hafði þá um nokkurra ára skeið ríkt umtalsverður ágreiningur vegna stjórnunarhátta í félaginu. Það endaði með því að Alþýðusamband Íslands yfirtók félagið og skipaði starfsstjórn þar sem félagið var orðið óstarfhæft vegna deilna. Alþýðusambandið tók á þessum tíma ákvörðun um að breyta lögum félagsins með þeim hætti að fyrir stjórnarkosningar var stillt var upp tveimur listum, í þeim tilgangi að reyna að koma á starfsfriði í félaginu. Fór síðan fram allsherjarkosning í félaginu þar sem upp undir 90% félagsmanna tóku þátt og niðurstaðan var sú að listi undir forystu núverandi formanns bar sigur úr býtum. Rétt er að geta þess að stór hluti þeirra sem nú eru í stjórn félagsins hafa setið í henni frá upphafi með örfáum undantekningum. Það hefur ekki verið til vandræða að fá fólk í stjórn félagsins, enda hefur ríkt mikil samstaða innan stjórnar öll þessi ár.

Það er óhætt að segja að á þessum 10 árum hafi félagið tekið miklum stakkaskiptum og á það jafnt við fjárhagslega sem og félagslega. Sem dæmi má nefna að þegar núverandi stjórn tók við fyrir 10 árum var félagssjóður rekinn á yfirdrætti. Með öðrum orðum, félagið var fjárvana. Á þessum 10 árum hefur núverandi stjórn tekist að byggja upp sterkan fjárhag félagsins og stendur félagið mjög vel hvað það varðar. Auk þess hefur félagið styrkst félagslega jafnt og þétt öll þessi 10 ár sem sést m.a. á því að félagsmönnum hefur fjölgað um helming á þessum 10 árum, en árið 2003 voru um 1500 félagsmenn í VLFA en nú eru þeir rétt um 3.000. Á þessum sama tíma hafa allir sjóðir félagsins aukið við réttindi til félagsmanna og sem dæmi þá hefur félagið tekið upp fjölmarga nýja styrki til handa félagsmönnum, enda er það markmið stjórnar að láta félagsmenn ávallt njóta góðs þegar rekstur félagsins er jákvæður og það hefur hann verið öll þessi 10 ár.

Það er markmið stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að reyna eftir fremsta megni að vera það stéttarfélag sem þjónustar sína félagsmenn hvað best hér á landi og er gaman að segja frá því að félagið hefur innheimt vegna hinna ýmsu kjarasamningsbrota á þessum 10 árum upp undir 220 milljónir sem gerir að jafnaði 22 milljónir á ári. Þetta sýnir svo ekki verður um villst hversu mikilvægt það er fyrir launafólk að hafa öflugt og sterkt stéttarfélag á bak við sig sem er tilbúið að berjast fyrir því að atvinnurekendur komist ekki upp með að brjóta kjarasamninga. En það er morgunljóst að vinna við að bæta og gæta að réttindum verkafólks mun aldrei taka enda, hér er um eilífðarverkefni að ræða.

14
Nov

Tillögur ASÍ þýða að lágtekjufólk er skilið eftir!

Mynd frá RUV sem sýnir tillögur ríkisstjórnarinnar í skattabreytingumMynd frá RUV sem sýnir tillögur ríkisstjórnarinnar í skattabreytingumEins og fram kom í fjárlagafrumvarpinu þá hyggst ríkisstjórnin lækka miðþrepið í skattkerfinu úr 25,8% í 25% og er áætlað að kostnaður ríkissjóðs vegna þessara tillagna sé um 5 milljarðar króna. Þessu hefur Verkalýðsfélag Akraness mótmælt harðlega og telur í raun og veru þessar tillögur algjörlega galnar. Ástæðan er einföld, allir sem eru undir kr. 250.000 í mánaðarlaun fá alls enga skattalækkun, heldur gagnast þessi tillaga þeim tekjuhæstu langbest, enda kemur fram að einstaklingur sem er með 800.000 krónur í mánaðarlaun mun fá í skattalækkun á ári kr. 47.808. Á sama tíma fær lágtekjufólkið sem er með tekjur undir kr. 250.000 ekki krónu í skattalækkun. Og einstaklingur með kr. 350.000 í mánaðarlaun skv. tillögum ríkisstjórnarinnar myndi einungis fá 9.000 kr. skattalækkun á ári.

Þessi tillaga er því algjörlega galin og miðast fyrst og fremst að því að hygla þeim tekjuhæstu í íslensku samfélagi og slíkt getur Verkalýðsfélag Akraness aldrei tekið þátt í að styðja. Afstaða Verkalýðsfélags Akraness hvað fyrirhugaðar skattabreytingar áhrærir hefur verið hvellskýr. VLFA vill að það 5 milljarða svigrúm sem er til skattalækkana verði notað til hækkunar á persónuafslætti, en skv. útreikningum fjármálaráðuneytisins þá liggur fyrir að persónuafslátturinn gæti hækkað um 2.000 kr. á mánuði sem myndi gilda fyrir alla launþega óháð tekjum. Þetta myndi skila öllu launafólki kr. 24.000 í auknar ráðstöfunartekjur á ári, en að sjálfsögðu kemur hækkun persónuafsláttar sér hlutfallslega best fyrir lágtekjufólkið.

 

 

Samantekt VLFA sem sýnir tillögur ASÍ að skattabreytingumSamantekt VLFA sem sýnir tillögur ASÍ að skattabreytingumÞað skal algjörlega viðurkennast að tillögur Alþýðusambands Íslands sem lagðar hafa verið fyrir ríkisstjórn eru formanni VLFA hulin ráðgáta. Enda gera þær ráð fyrir að lágtekjufólk sem er með tekjur undir 250.000 fái enga skattalækkun. Tillögur Alþýðusambandsins miðast við að neðri mörk miðþreps skattakerfisins hækki úr 241.476 upp í kr. 350.000. Þessi tillaga gengur áfram út á það eins og hjá ríkisstjórninni að skilja öryrkja, atvinnulausa og lágtekjufólk sem eru undir 250.000 kr. í tekjur, eftir án nokkurra skattalækkana. Þessi tillaga Alþýðusambandsins þýðir líka það að launamaður sem hefur 350.000 kr. eða meira í mánaðarlaun fær skattalækkun á ári sem nemur rúmum 32.000 kr. En á sama tíma fær lágtekjufólkið sem er með tekjur undir kr. 250.000 ekki krónu í skattalækkun.

Formaður spyr sig á hvaða vegferð ASÍ er að leggja ekki til að persónuafslátturinn hækki því það liggur fyrir að hækkun persónuafsláttar kemur tekjulægstu hópunum í íslensku samfélagi best, hópum sem samkvæmt rannsóknum hafa í sumum tilfellum ekki efni á að sækja sér nauðsynlega læknisþjónustu sökum lakra kjara.

Það er óskiljanlegt að Alþýðusambandið sem á að berjast fyrir bættum kjörum m.a. þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi skuli ekki hafa lagt til hækkun persónuafsláttar sem hefði tryggt því fólki 24.000 kr. í auknar ráðstöfunartekjur á ári, og eins og áður sagði hefði allt launafólk fengið slíka skattalækkun.

Verkalýðsfélag Akraness mun vinna að því á næstu dögum að vinda ofan af þessu og tryggja frekar að persónuafslátturinn hækki þannig að tryggt verði að allt launafólk, þar með talið öryrkjar, atvinnuleitendur og lágtekjufólk fái einnig skattalækkun eins og aðrir íslenskir launþegar, enda þurfum við að slá skjaldborg utan um þá sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi en það er ljóst að ASÍ er ekki að gæta að hag þessa fólks með þeim tillögum sem þeir haga lagt fyrir ríkisstjórn Íslands. Verkalýðsfélag Akraness skorar á ríkisstjórn Íslands að hækka persónuafsláttinn þannig að allir launþegar fái notið skattaafsláttar en ekki einungis sérútvaldir hópar í íslensku samfélagi.

11
Nov

Formaður VLFA fundar með forsætisráðherra

Formaður félagsins fundaði með forsætisráðherra síðastliðinn föstudag, en hin ýmsu mál voru til umræðu á þessum fundi, en eðli málsins samkvæmt bar kjaraviðræður á hinum almenna vinnumarkaði töluvert á góma. Formaður sagði við forsætisráðherra að það væri mjög mikilvægt að það næðist þjóðarsátt um að lagfæra og leiðrétta kjör tekjulægstu hópanna í íslensku samfélagi og upplýsti hann forsætisráðherrann um að lægsti taxti á íslenskum vinnumarkaði í dag næmi einungis rétt rúmum 191.000 krónum og eru þessir lágmarkstaxtar langt frá öllum framfærsluviðmiðum sem opinberir aðilar hafa gefið út.

Einnig nefndi formaður við forsætisráðherra að mjög mikilvægt væri að hækka frekar persónuafsláttinn heldur en að lækka miðþrep úr 25,8% niður í 25%, enda er ljóst að hækkun persónuafsláttar kemur þeim tekjulægstu hlutfallslega hvað best. En miðað við lækkun á miðþrepinu þá eru það þeir tekjuhæst sem munu fá mest, en allir þeir sem eru undir 250.000 krónum á mánuði munu hins vegar ekki fá neitt.

Einnig voru skuldamál heimilanna og afnám verðtryggingar til umræðu, en formaður situr í sérfræðingahópi um afnám verðtryggingar og stefnir hópurinn að því að skila af sér fyrir tilsettan tíma sem er í lok desembermánaðar. Það hefur verið baráttumál Verkalýðsfélags Akraness allt frá 2009 að forsendubrestur heimilanna verði leiðréttur og verðtrygging á neytendalánum verði afnumin. En samhliða því hefur félagið ætíð bent á að setja þurfi vaxtaþak í það minnsta tímabundið vegna fákeppni á bankamarkaði, enda eru samkeppnisskilyrði á bankamarkaði nánast engin. Forsætisráðherra greindi formanni frá því að þessar aðgerðir í þágu heimilanna séu á áætlun, en eins og alþjóð veit þá á leiðréttingarhópurinn að skila af sér í lok þessa mánaðar og verðtryggingarhópurinn í lok desember eins og áður sagði.

11
Nov

Stjórn VLFA sjálfkjörin til næstu tveggja ára

Á fundi sínum þann 8. október síðastliðinn lagði stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness fram framboðslista til stjórnar félagsins næstu tvö árin. Auglýst var eftir öðrum framboðum hér á heimasíðunni, í Póstinum og í Skessuhorni. Þar sem ekki bárust aðrir listar til kjörstjórnar telst listi stjórnar og trúnaðarráðs vera sjálfkjörinn til næstu tveggja ára.

Nýir inn í stjórn eru Kristófer Jónsson sem formaður Sjómanna- og vélstjóradeildar, Bjarni Ólafsson sem varaformaður Stóriðjudeildar og Hafþór Pálsson sem varaformaður Almennrar deildar og eru þeir boðnir hjartanlega velkomnir til sinna starfa. Þeir sem láta af störfum í stjórn félagsins eru Svavar S. Guðmundsson og Jón Jónsson og eru þeim færðar bestu þakkir fyrir áralöng vel unnin störf í þágu félagsins.

Stór hluti núverandi stjórnarmanna hefur verið í stjórn VLFA samfleytt í 10 ár, en rétt er að geta þess að ný stjórn tók við Verkalýðsfélagi Akraness þann 19. nóvember 2003 og mun því eiga 10 ára afmæli eins og áður sagði eftir örfáa daga. En það er óhætt að segja að félagið hafi tekið gríðarlegum stakkaskiptum á þessum 10 árum og á það jafnt við fjárhagslega stöðu félagsins sem og félagslega. En því verður gert betri skil hér á heimasíðunni á afmælisdegi stjórnarinnar.

05
Nov

Einhugur um kröfugerð SGS

Í gær lögðu fulltrúar Starfsgreinasambands Íslands fram kröfugerð sambandsins til Samtaka atvinnulífsins vegna komandi kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði. Nú liggur fyrir að fulltrúar Samtaka atvinnulífsins hafa tekið afar fálega í kröfugerð SGS og hafa látið hafa eftir sér að á þessi kröfugerð sé ekki neinn viðræðugrundvöllur.

En um hvað er kröfugerð Starfsgreinasambands Íslands? Jú, hún lýtur að því að hækka skammarlega lága launataxta sambandsins um heilar 20.000 krónur í 12 mánaða samningi. En rétt er að geta þess að lágmarkstaxti Starfsgreinasambands Íslands í dag er 191.752 krónur og við þessa hækkun myndi slíkur taxti fara upp í 211.752 krónur. Það má vel vera að fulltrúum Samtaka atvinnulífsins finnist þetta vera fáránleg kröfugerð, en menn verða að viðurkenna að það verður að lagfæra lágmarkstaxta á hinum almenna vinnumarkaði. Það liggur nú þegar fyrir að þeir eru langt undir öllum opinberum framfærsluviðmiðum og á þeirri forsendu verður að hækka þá umtalsvert.

Það kemur einnig fram í kröfugerðinni að SGS gerir kröfur til þess að kjör fiskvinnslufólks og þeirra sem starfa í ferðaþjónustu hækki enn frekar á grundvelli þeirrar staðreyndar að þessar greinar hafa svo sannarlega verið að skila góðum afkomutölum og því ekkert nema eðlilegt að t.d. fiskvinnslan og ferðaþjónustan skili þeim mikla hagnaði til sinna starfsmanna í formi góðra launahækkana.

20.000 króna hækkun er rétt rúmlega 10% launahækkun á lægstu taxta, en ástæðan fyrir því að prósentutalan er með þessum hætti er að 20.000 kr. eru að leggjast ofan á upphæð sem er svo lág fyrir. Til að setja þessa upphæð í samhengi þá var fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins með um 2 milljónir í mánaðarlaun samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar. Fyrir honum væri þessi 20.000 kr. hækkun aðeins 1% launahækkun. En ef hann gerði kröfu um 10% launahækkun, þá myndu laun framkvæmdarstjóra SA hækka um 200.000 kr. á mánuði.

Það þarf að ríkja þjóðarsátt um leiðréttingu og lagfæringu á lágmarkstöxtum á íslenskum vinnumarkaði, því þeir eru Samtökum atvinnulífsins, verkalýðshreytingunni og samfélaginu öllu til ævarandi skammar. Það er ánægjulegt til þess að vita að það ríkir alger einhugur innan raða Starfsgreinasambands Íslands um að fylgja fast eftir þeim kröfum sem sambandið hefur nú lagt fram. Þennan einhug hefur formaður VLFA ekki fundið áður með jafn afgerandi hætti og við mótun þessarar kröfugerðar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image