• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
18
Jun

Skrifstofa VLFA verður lokuð eftir hádegi 19. júní

Í tilefni aldarafmælis kosningarréttar kvenna mun Verkalýðsfélag Akraness gefa öllu starfsfólki sínu frí eftir hádegi þann 19. júní og verður skrifstofa félagsins því lokuð frá kl. 12:00 þann dag. Þannig er starfsfólki félagsins gert kleift að sækja hátíðahöld í tilefni dagsins og heiðra minningu þeirra sem börðust fyrir þessum réttindum sem teljast sjálfsögð í dag.

Vegna brýnna erinda verður hægt að ná í formann félagsins í síma 8651294.

16
Jun

Kynningum á kjarasamningum lokið - munið að kjósa!

Kjör fiskvinnslufólks lagast umtalsvert!Kjör fiskvinnslufólks lagast umtalsvert!Nú hefur formaður félagsins lokið við að kynna nýgerðan kjarasamning á hinum almenna vinnumarkaði fyrir þeim félagsmönnum sem óskuðu eftir slíkri kynningu. Langstærstur hluti hópsins sem tekur laun eftir kjarasamningi á almennum vinnumarkaði er fiskvinnslufólk, eða uppundir 50%. Það hefur áður komið fram að Verkalýðsfélag Akraness náði sem betur fer að lagfæra kjör þeirra sem starfa í fiskvinnslu umtalsvert í þessum samningi sem og í sér bónussamningi við HB Granda. Þetta þýðir að laun starfsmanna HB Granda hækka frá 1. maí frá 60 þúsundum á mánuði uppí allt að 88 þúsund og þessar hækkanir gera það að verkum að fiskvinnslufólk er nokkuð sátt við þennan samning, þótt alltaf megi gera betur í að lagfæra kjör félagsmanna.

Rafræn atkvæðagreiðsla um nýjan kjarasamning við Samtök atvinnulífins hófst 12. júní og mun henni ljúka kl. 12:00 þann 22. júní nk. Allir kosningabærir félagsmenn fá kynningarbækling sendan í pósti og ætti hann að berast félagsmönnum á næstu dögum. Í bæklingnum má m.a. finna lykilorð sem þarf að nota þegar greitt er atkvæði. Verkalýðsfélag Akraness hvetur alla félagsmenn sem taka laun eftir kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði til að nýta kosningarétt sinn og greiða atkvæði um samninginn.

11
Jun

Kynningarfundir á fullu

Þessa dagana standa yfir kynningar á nýgerðum kjarasamningi verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði. Á mánudaginn var almennur opinn kynningarfundur á Gamla Kaupfélaginu þar sem farið var mjög ítarlega yfir innihald samningsins. Fjölmargar spurningar voru bornar upp á fundinum en heilt yfir voru fundarmenn nokkuð ásáttir.

Í morgun fengu starfsmenn HB Granda á Akranesi kynningu á samningnum og kom fram á þeim fundi að fólk var nokkuð sátt með innihald samningsins, enda er allt eins líklegt að engin fiskvinnsla á Íslandi sé að fá jafn mikla launahækkun og starfsmenn HB Granda, þar sem Verkalýðsfélag Akraness gekk frá mjög innihaldsríkum bónussamningi sem tók gildi 1. apríl og er eðli málsins samkvæmt hluti af þeirri kjarabaráttu sem átt hefur sér stað að undanförnu. En starfsmenn HB Granda eru að hækka frá kr. 60.000 upp í allt að 88.000 krónur á mánuði frá 1. maí 2015.

Á morgun verður samningurinn kynntur fyrir starfsmönnum Akraborgar, sem er lifrarbræðslufyrirtæki þar sem starfa um 50 manns. Þeir félagsmenn sem óska eftir því að fá kynningu inn á vinnustaði eru hvattir til að hafa samband við skrifstofu félagsins.

Kosning um samninginn er rafræn og eru kjörgögn að berast til félagsmanna þessa dagana, en kosningin hefst á morgun 12. júní. Félagsmenn eru eindregið hvattir til að nýta atkvæðarétt sinn og kjósa um kjarasamninginn. 

Þeir sem eiga eftir að kynna sér innihald samningsins geta haft samband við skrifstofu félagsins. Einnig er vakin athygli á mjög góðum kynningarvef sem SGS hefur látið setja saman um innihald samningsins, þar sem eru upplýsingar á íslensku, ensku og pólsku.

Kynningarvefur SGS um nýja kjarasamninginn (ÍSLENSKA, ENGLISH, POLSKI)

Kynning VLFA fyrir starfsfólk HB Granda

Kynning VLFA fyrir starfsfólk Akraborgar

08
Jun

Kynningarfundur um nýgerðan kjarasamning í kvöld

Fiskvinnslufólk HB Granda fær umtalsverðar kjarabætur samhliða nýjum kjarasamningi.Verkalýðsfélag Akraness vill minna á kynningarfund um nýgerðan kjarasamning SGS við Samtök atvinnulífsins fyrir verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði. Fundurinn er haldinn á Gamla Kaupfélaginu hefst hann klukkan 18:00 og eru félagsmenn eindregið hvattir til að mæta og kynna sér innihald samningsins.

Kosning um kjarasamninginn mun fara fram með rafrænum hætti og munu félagsmenn fá kjörgögn send heim á næstunni og hægt verður að kjósa um samninginn til miðnættis 21. júní.

08
Jun

Verkfalli iðnaðarmanna frestað!

Samiðn, sem Verkalýðsfélag Akraness á aðild að, hefur ásamt nokkrum öðrum iðnfélögum tekið ákvörðun um að fresta verkfalli sem áður hafði verið boðað þann 10. júní nk.

Þess er nú freistað að ljúka samningum með undirritun 12. júní nk. ef samkomulag næst um sérmál. Gangi það eftir verður nýr kjarasamningur undirritaður þann 12. júní og fer þá til félaganna til kynningar og afgreiðslu.

Nánari upplýsingar verða settar hér inn á heimasíðuna um leið og þær berast.

07
Jun

Sjómenn, til hamingju með daginn!

Sjómannadagurinn er haldinn hátíðlegur í dag um allt land. Í hátíðarguðþjónustu í Akraneskirkju í morgun hlaut Hallgrímur Þór Hallgrímsson heiðursmerki fyrir vel unnin störf, en Hallgrímur sinnti sjómennsku allan sinn starfsaldur.

Að aflokinni guðsþjónustu var haldið að Akratorgi þar sem blómsveigur var lagður að minnismerki sem þar stendur um týnda sjómenn. Frekari upplýsingar um dagskrá sjómannadagsins á Akranesi má finna hér.

Stjórn og starfsfólk Verkalýðsfélags Akraness færa sjómönnum landsins og fjölskyldum þeirra innilegar hamingjuóskir í tilefni sjómannadagsins.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image