• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
30
Jun

Eingreiðsla til ríkisstarfsmanna vegna dráttar á nýjum kjarasamningi

Samninganefnd SGS og Samninganefnd ríkisins hafa komist að samkomulagi um að endurskoða viðræðuáætlun milli aðila og stefna að því að ljúka kjarasamningi fyrir 15. september næstkomandi.

Meginástæðan fyrir þessari framlengingu er sú að á vettvangi heildarsamtaka launafólks er nú verið að ræða launaþróunartryggingu, breytt fyrirkomulag vinnutíma og fleiri veigamikil atriði. Þessi vinna hefur tekið lengri tíma en gert var ráð fyrir og því er þessi endurskoðun nauðsynleg.

Jafnframt hefur náðst samkomulag um að vegna þess hve langt er síðan gildistími síðustu samninga rann sitt skeið þá verði greidd eingreiðsla að upphæð 105 þúsund kr. fyrir fullt starf þann1. ágúst 2019. Sú greiðsla er hluti af fyrirhuguðum launabreytingum þegar þar að kemur.

Flestir félagsmenn sem starfa hjá ríkinu vinna á Heilbrigðisstofnun Vesturlands og munu þeir því fá umrædda eingreiðslu 1. ágúst næstkomandi.

30
Jun

Bjarg íbúðarfélag afhenti fyrstu íbúðirnar á föstudaginn

Fyrstu leigjendur Bjargs íbúðafélags fengu á föstudaginn afhenta lyklana af íbúðum sínum við Asparskóga 12 og 14 á Akranesi.

Bjarg íbúðarfélag er á vegum verkalýðsfélaga innan ASÍ en um er að ræða leigufélag sem rekið verður án hagnaðarmarkmiða og ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu.

Við afhendingu íbúðanna við Asparskóga var bæjarstjórn Akraness viðstödd sem og formaður Verkalýðsfélags Akraness. Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri ávarpaði viðstadda og þakkaði öllum þeim sem komu að byggingu húsanna fyrir þetta skref til að tryggja öruggt leiguhúsnæði á Akranesi á viðráðanlegum kjörum.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness sagði að verkalýðshreyfingin væri afar stolt af þessu verkefni sem lýtur að því að tryggja tekjulágu fólki öruggt húsnæði á hagstæðum kjörum. Formaður VLFA þakkaði Akraneskaupstað sérstaklega fyrir það stofnframlag sem bærinn kom með sem er umtalsvert hærra en Reykjavíkurborg lagði fram gagnvart íbúðum sem Bjarg er með í byggingu í Reykjavík.

Allt þetta gerir það að verkum að leiguverð á þessum íbúðum er það hagstæðasta sem Bjarg íbúðarfélag getur boðið eins og staðan er núna. Formaður VLFA óskaði nýjum leigjendum innilega til hamingju og vonar að allir verði ánægðir í þessum nýju glæsilegu húsakynnum verkalýðshreyfingarinnar.

25
Jun

Verkalýðsfélag Akraness vísar kjaradeilu við Akraneskaupstað til ríkissáttasemjara

Nú eru að verða liðnir þrír mánuðir frá því kjarasamningar starfsmanna sveitarfélaga runnu út gagnvart Sambandi íslenska sveitarfélaga og enn er ekki komin á kjarasamningur.

Verkalýðsfélag Akraness lagði fram ýtarlega kröfugerð þann13. maí til fulltrúa kjaramálanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, en félagið hefur hvorki heyrt né fengið viðbrögð frá sambandinu eftir þann fund.

Á þessum eina fundi sem VLFA hefur átt með sambandinu gerði félagið alvarlegar athugasemdir við þann hægagang sem einkennt hefur viðræðurnar er lýtur að nýjum kjarasamningi til handa starfsmönnum sveitarfélaga. Enda ótrúlegt að ekki sé hægt að ganga hratt og örugglega frá nýjum kjarasamningi í anda lífskjarasamningsins sem undirritaður var á hinum almenna vinnumarkaði þann 3. apríl 2019.

Það er mat félagsins að þessi hægagangur og tregða til að ganga frá nýjum kjarasamningi sé alls ekki boðleg fyrir alla þá sem starfa hjá sveitarfélögunum. Það er mat formanns félagsins að það ætti að geta verið fljótlegt að ganga frá nýjum samningi í anda lífkjarasamningsins eins og kröfugerð félagsins byggist á.

Í ljósi þess að nú eru þrír mánuðir frá því kjarasamningur VLFA við Samband íslenskra sveitarfélaga rann út og ekkert er að gerast í viðræðum þá sér Verkalýðsfélag Akraness sig knúið til að vísa deilunni til ríkissáttasemjara.

05
Jun

Gísli Hallbjörnsson heiðraður á sjómannadaginn

Á sunnudaginn var Sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur, en Verkalýðsfélag Akraness leggur sitt af mörkum til hátíðarhaldanna eins og undanfarin ár. Aðkoma félagsins að sjómannadeginum er meðal annars fólgin í því að standa fyrir athöfn við minnismerki um týnda sjómenn í kirkjugarðinum, en þar er árlega lagður blómsveigur til að minnast þeirra sem drukknað hafa og týnst á sjó.

Að þeirri athöfn lokinni er haldið í hátíðarsjómannamessu í Akraneskirkju þar sem meðal annars er heiðraður sjómaður fyrir vel unnin störf í þágu þjóðar. Í ár var það Gísli Hallbjörnsson sem fékk æðstu viðurkenningu sjómannadagsráðs Verkalýðsfélags Akraness, en Gísli starfaði mjög lengi sem vélstjóri á hinum ýmsum fiskiskipum vítt og breitt um landið

Þessu til viðbótar kom Verkalýðsfélag Akraness að fjármögnun á fjölskyldudagskrá á hafnarsvæðinu vegna sjómannadagsins, en eins og undanfarin ár er það Björgunarfélag Akraness sem sá um framkvæmd dagskrárinnar. 

05
Jun

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands fundar á Akranesi

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands mun funda á Akranesi í dag en einu sinni á ári er fundur miðstjórnar haldinn fyrir utan höfuðborgarsvæðisins og fyrir valinu í ár varð Akranes eins og áður var getið.

Miðstjórnarfundurinn mun fara fram á Gamla kaupfélaginu en auk hefðbundinnar dagskrár miðstjórnar munu miðstjórnarmenn skoða nýju íbúðirnar sem Bjarg íbúðarfélag er að reisa á Akranesi en þær eiga að verða klárar til afhendingar 1. Júlí næstkomandi.

Einnig mun bæjarstjóri Akarnaneskaupstaðar Sævar Þráinsson koma og ávarpa fundinn og fara yfir stöðu og horfur hér á Akranesi. Einnig mun miðstjórn fara í heimsókn í Norðurál þar sem forstjóri Norðuráls Gunnar Guðlaugsson mun kynna fyrir miðstjórn starfsemi fyrirtækisins á Grundartanga.

28
May

Kauptaxtarnir SGS við Samtök atvinnulífsins komnir

Nýir kauptaxta fyrir þá sem starfa á almennum vinnumarkaði eftir samningi Starfsgreinasambandsins og Samtaka atvinnulífsins eru nú aðgengilegir á vef Verkalýðsfélags Akraness og má nálgast hér.

Viðkomandi kauptaxtar gilda frá 1. apríl 2019 til 31. mars 2020. Samkvæmt töxtunum hækkuðu kauptaxtar frá 1. apríl 2019 um 17.000 kr. á mánuð og almenn hækkun á mánaðarlaun fyrir fullt starf nam 17.000 kr. á mánuði  frá 1. apríl sl. Lágmarkstekjur fyrir fullt starf eru í dag kr. 317.000 á mánuði. Þá hækka kjaratengdir liðir kjarasamninga um 2,5% á sömu dagsetningum, nema um annað hafi verið samið.

Einnig er rétt að vekja athygli á nýjum launatöxtum fyrir starfsmenn sem starfa hjá ríki og sveitafélögum en þeir eru einnig aðgengilegir undir kauptaxtar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image