• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
26
Apr

Stjórn VLFA hefur áhyggjur af þróun efnahags- og atvinnumála

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness var haldinn í dag laugardaginn 26. apríl í matstofu Fortuna í sal Sementsverksmiðjunnar. Formaður félagsins, Vilhjálmur Birgisson, flutti skýrslu stjórnar og greindi frá því helsta sem stjórn og starfsmenn fengust við á annasömu ári. Félagsmönnum fjölgaði um 722 á síðasta ári og hagnaður af rekstri sjóða félagsins nam rúmlega 77 milljónum króna, samanborið við rúmlega 54 milljónir árið á undan. Félagssjóður skilaði rekstrarafgangi upp á tæpar 23 milljónir en var rekinn með halla þegar þessi stjórn tók við í árslok 2003. Staða sjúkrasjóðs er sterk og jókst hagnaður um 30% á milli ára þrátt fyrir auknar styrkveitingar, sem jukust um 37%. Sama er upp á teninginn með aðra sjóði félagsins, Orlofssjóð og Verkfallssjóð, staða þeirra hefur styrkst verulega.

 

Áhyggjur af þróun efnahags- og atvinnumála

Í máli Vilhjálms  kom fram að stjórn félagsins hefði áhyggjur af þróun efnahagsmála síðustu tveggja mánaða sem hefði leitt til þess að ávinningur nýrra kjarasamninga hefði tapast. Telur stjórn félagsins að allt stefni í að samningum yrði sagt upp strax í mars á næsta ári.

Formaður félagsins lét í ljós þungar áhyggjur af þróun atvinnumála í sjávarútvegi á Akranesi og var ómyrkur í máli um afleiðingar sameiningar HB hf og Granda sem leitt hefði til þess að yfir 150 manns hafi misst atvinnuna. Sagði Vilhjálmur forsvarsmenn HB Granda hafa sýnt Skagamönnum ótrúlegan fantaskap og að ekkert lát virtist ætla að verða á honum.

 

Setja markið hátt

Í skýrslu stjórnar kemur fram að hún sé stolt yfir því hvernig til hefur tekist þau fjögur ár sem stjórnin hefur starfað. Stórbætt afkoma félagsins og aukin þjónusta sjáist m.a. í því að yfir 90% félagsmanna eru ánægðir með það sem félagið hefur upp á að bjóða, samkvæmt könnun Capacent Gallup á síðasta ári. Markmið núverandi stjórnar er að Verkalýðsfélag Akraness verði það stéttarfélag sem mest og best þjónar sínum félagsmönnum hér á landi.

Í fundarlok var fundarmönnum boðið uppá lambalæri með öllu tilheyrandi.

25
Apr

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness verður haldinn á morgun

Á morgun verður aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness haldinn. Fundur verður settur kl. 13:00 í matsal Sementsverksmiðjunnar, Mánabraut (Fortuna).

Dagskrá fundarins er á þessa leið:

1.   Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár

2.   Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til afgreiðslu

3.   Kosningar sem þurfa að fara fram samkvæmt 28. grein

4.   Ákvörðun félagsgjalda

5.   Önnur mál

Félagsmenn eru eindregið hvattir til að mæta og láta málefni síns stéttarfélags sig varða.

Eftir fundinn verður boðið upp á veglegar veitingar úr eldhúsi Fortuna.

23
Apr

Fréttablaði Verkalýðsfélags Akraness dreift næstu viku

Nú er unnið að gerð fréttabréfs félagsins sem mun koma út rétt fyrir 1. maí. Eins og ávalt verður blaðið stútfullt af fréttum af starfsemi félagsins.

Í blaðinu verður gerð grein fyrir nýgerðum kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði. Einnig er farið yfir mál er lúta að orlofshúsum félagsins en nú er verið að taka bæði sumarhúsin í Svínadal og Hraunborgum í gegn fyrir komandi sumarúthlutun.

Blaðið verður væntanlega borið út til allra Akurnesinga og nærsveitunga þriðjudaginn 29. apríl. Einnig verður hægt að nálgast blaðið hér á heimasíðunni sem og eldri blöð sem félagið hefur gefið út.

21
Apr

Samninganefnd Starfsgreinasambandsins fundar á morgun

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands vegna ríkissamningana mun koma saman til fundar á morgun í húskynnum ríkissáttasemjara.  Kjarasamningur SGS við ríkið rann út um síðustu mánaðarmót og bera ófaglærðir hjá ríkinu töluverðar væntingar til nýs kjarasamnings.  Enda hafa þeir ekki notið þess launaskriðs sem verið hefur á hinum almenn vinnumarkaði á undanförnum árum.

Það er mat formanns félagsins að ekki sé hægt að semja á þeim forsendum sem gert var á hinum almenna vinnumarkaði ekki alls fyrir löngu.  Ástæða þess að ekki er hægt að gagna frá samningi við ríkið á sömu nótum og gert var á hinum almenna vinnumarkaði er sú að verðbólgan var þá 5,7% en í dag er hún 8,7% og töluverðar líkur á að hún fari yfir 10% í næstu mælingu.

18
Apr

Norðurál greiðir hæstu iðgjöld í Festu lífeyrissjóðs

Ársfundur Festu Lífeyrissjóðs var haldinn í gær á Selfossi.  Flestir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness greiða sínar lífeyrissjóðgreiðslur til Festu lífeyrissjóðs. 

Lífeyrissjóður Festa varð til við sameiningu Lífeyrissjóðs Suðurlands og Lífeyrissjóðs Vesturlands á miðju ári 2006.  Á síðasta ári greiddu til samtryggingardeilda sjóðsins samtals 16.000 sjóðsfélagar hjá 1.934 atvinnurekendum.

Það var afar ánægjulegt að heyra á fundinum í gær að Festa lífeyrissjóður var með hæstu hreinu raunávöxtun allra lífeyrissjóða á landinu. Einfaldlega vegna þess að Það skiptir okkar félagsmenn gríðarlega miklu máli að ávöxtun sé jafn góð og raunin varð, enda getur ávöxtun lífeyrissjóða spilað stóra rullu hvað varðar réttindi okkar félagsmanna úr sjóðnum.  Ávöxtun sjóðsins er sérstaklega ánægjuleg í ljósi þeirra aðstæðna sem urðu á hlutabréfamarkaðnum seinni hluta síðasta árs.

Norðurál á Grundartanga var stærsti launagreiðandinn til sjóðsins með 5,2% allra iðgjalda og Flugþjónustan Keflavíkurvelli kom næst með 3,8% heildariðgjalda til sjóðsins.

Samanburður á raunávöxtun við aðra lífeyrissjóði hér á landi er eftirfarandi:

1. Festa lífeyrissjóður 2,8 %
2. Gildi lífeyrissjóður 2,4%
3. Lífeyrissjóður Vestmannaeyja 1,2%
4. Lífeyrissjóður Verslunarmanna 1,1%
5. Stafir lífeyrissjóður 0,9%
6. Söfnunarsjóður Lífeyrisréttinda 0,2%
7. Sameinaði lífeyrissjóðurinn

0,0%

8. Stapi lífeyrissjóður -0,6%
9. Lífeyrissjóður bænda -1,1%
10. Almenni lífeyrissjóðurinn -1,5%
Frjálsi lífeyrissjóðurinn
17
Apr

Aðalfundur félagsins haldinn 26. apríl

Undirbúningur fyrir komandi aðalfund stendur nú yfir á fullu hjá starfsmönnum félagsins.  En aðalfundurinn verður haldinn laugardaginn 26. apríl kl. 13:00.  Rétt er að vekja athygli á því að aðalfundurinn verður haldinn í matsal Sementsverksmiðjunnar (Fortuna)  

Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni var afkoma félagsins afar góð á síðasta ári og endurspeglast hún af gríðarlegri fjölgun á félagsmönnum á milli ára.  En félagsmönnum fjölgaði um 700 á síðasta ári.

Einnig eru starfsmenn félagsins að vinna að fréttablaði félagsins sem mun koma út rétt fyrir 1. maí og verður borið út í öll hús hér á Akranesi sem einnig í nærsveitir. 

Stjórn félagsins mun bjóða félagsmönnum uppá  lambalæri með öllu tilheyrandi í lok aðalfundar.  Stjórn félagsins hvetur félagsmenn eindregið til að mæta á aðalfundinn. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image