• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
03
Jun

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness fundar um tilboð Samtaka atvinnulífsins á morgun

Í gær var formannafundur Starfsgreinasambands Íslands þar sem farið var yfir þá alvarlegu stöðu sem upp er komin í samningamálum við Samtök atvinnulífsins, en eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá hafa Samtök atvinnulífsins hafnað því að standa við það samkomulag sem gert var 25. febrúar sl.

Á fundinum kom fram að tilboð SA felur í sér tvískiptingu umsaminna launahækkana sem koma áttu til framkvæmda 1. mars þannig að helmingur, 6.750 kr. bætist við mánaðarlaun nú 1. júlí en helmingur 1. nóvember. Ennfremur verði 3,5% hækkun á laun yfir launatöxtum frestað til 1. nóvember.

Þá er um frestun á umsaminni launahækkun um næstu áramót fram á haust 2010. Talið er líklegt að náist ekki samkomulag með tilslökunum verkalýðshreyfingarinnar á umsömdum launahækkunum muni Samtök Atvinnulífsins segja upp gildandi kjarasamningi og verða þá samningar lausir.

Mjög skiptar skoðanir voru á fundinum í gær um hvað gera skuli. Fram kom hjá formanni Verkalýðsfélags Akraness að hann telji að það eigi að standa fast í lappirnar og krefja atvinnurekendur um að standa við afar hófstilltan samning sem gerður var 17. febrúar 2008. Að öðrum kosti verði samningunum sagt upp.

Stjórn og trúnaðarráð mun koma saman til fundar á morgun þar sem farið verður yfir þessa alvarlegu stöðu.

02
Jun

Samtök atvinnulífsins verða að standa við samkomulagið

Formenn aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands munu í dag funda í húsakynnum ríkissáttasemjara.  Tilefni fundarins er sú alvarlega staða sem upp er komin vegna þeirrar ákvörðunar Samtaka atvinnulífsins að ætla að ekki að efna samkomulagið sem samninganefnd ASÍ undirritaði þann 25. febrúar sl.

Þetta samkomulag gekk út á að fresta launahækkunum sem áttu að taka gildi 1. mars sl. til 1. júlí.  Nú hafa SA sagt að þeir séu ekki tilbúnir til að standa við áðurnefnt samkomulag nema að hluta til.  Afstaða Verkalýðsfélags Akraness er nákvæmlega sú sama og í febrúar, félagið er alfarið á móti því að fresta eða breyta dagsetningum á þeim launahækkunum sem um hefur verið samið.

Verkafólk var þvingað til að fresta sínum launahækkunum sem um var samið 17. febrúar 2008 og áttu að taka gildi 1. mars sl. og á þeirri forsendu verður verkalýðshreyfingin í heild sinni að standa þétt saman í því að knýja á um að þær launahækkanir sem eiga að taka gildi 1. júlí nk. taki gildi þá, eins og samkomulagið kveður á um. Enda gengur það heldur alls ekki upp að vera með launataxta sem eru lægri en atvinnuleysisbætur.

Það er alveg morgunljóst að það gengur ekki upp að ríki, sveitarfélög, verslunareigendur, tryggingafélög og aðrir þjónustuaðilar varpi sínum vanda út í verðlagið á meðan launþegar þurfa ekki aðeins að taka við gríðarlegri aukningu á greiðslubyrði heldur einnig að sæta skerðingum á sínum launakjörum. Vart getur þetta verið stöðugleikinn sem menn eru að vinna að.

29
May

Eru nýjar hækkanir á veltusköttum árangur viðræðna um stöðugleikasáttmála?

Í gær samþykkti Alþingi nýtt frumvarp sem gerir ráð fyrir að áfengisgjald og tóbaksgjald hækki um 15%, bifreiðagjald hækki um 10%, olíugjald um 5 krónur og almennt vörugjald á bensín um 10 krónur. Þessir nýju veltuskattar eiga að skila ríkissjóði tæpum fimm milljörðum króna á ári. Hins gerir þetta það að verkum að vegna verðtryggingarinnar þá aukast skuldir heimilanna um allt að 8 milljarða króna.

Er þetta árangurinn af þeim viðræðum sem forseti Alþýðusambands Íslands og forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins hafa átt við stjórnvöld að undanförnu varðandi stöðugleika í íslensku samfélagi?

Það er alveg morgunljóst að það gengur ekki upp að ríki, sveitarfélög, verlslunareigendur, tryggingafélög og aðrir þjónustuaðilar varpi sínum vanda út í verðlagið á meðan launþegar þurfa ekki aðeins að taka við gríðarlegri aukningu á greiðslubyrði heldur einnig að sæta skerðingum á sínum launakjörum. Vart getur þetta verið stöðugleikinn sem menn eru að vinna að.

Krafan er skýr, þær launahækkanir sem frestað var í febrúar sl. taki strax gildi 1. júlí nk. Annað kemur ekki til greina af hálfu margra verkalýðsfélaga.

27
May

87,4% af framlagi sjóðsfélaga fer í samtryggingu og rekstur lífeyrissjóðs Festu

Ársfundur lífeyrissjóðs Festu var haldinn 19 maí sl. Fram kom á fundinum að nafnávöxtun á árinu 2008 var neikvæð um 5,56% sem jafngildir því að hrein raunávöxtun hafi verið neikvæð um 18,84%.

Eignir sjóðsins í árslok 2008 voru 54,6 milljarðar og lækkaði um rúmlega 700 milljónir eða um 1,3%. Gjaldfærð niðurfærsla á árinu var hins vegar tæpir 5,8 milljarðar sem skýrist af falli bankanna. Þessu til viðbótar var einn milljarður til viðbótar afskrifaður í mars á þessu ári.

Tryggingafræðileg afkoma sjóðsins við árslok 2008 var neikvæð um 8%. Á þeirri forsendu lagði tryggingafræðingur sjóðsins til við stjórn sjóðsins að lífeyrisgreiðslur til sjóðsfélaga yrðu skertar um 2,5% og að réttindataflan yrði einnig skert um 2,5%. Ársfundur samþykkti þessa tillögu, enda lítið annað hægt að gera í stöðunni.

Formaður félagsins tók til máls á fundinum og ítrekaði þá skoðun stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að það væri í hæsta máta óeðlilegt að atvinnurekendur ættu aðkomu að stjórnum sjóðanna og kom fram í máli hans að það væri mat félagsins að atvinnurekendur ættu ekkert að gera með að véla með lífeyrir launafólks. Einnig væri það afar óeðlilegt að fulltrúar atvinnurekenda tækju ákvarðanir um fjárfestingar sjóðanna því klárlega geta hagsmunatengsl fulltrúa atvinnurekenda haft áhrif á fjárfestingastefnu sjóðanna.

Það liggur fyrir að lífeyrissjóðirnir hafa verið að fjárfesta í hlutabréfum og skuldabréfum fyrirtækja, og þarf enginn að halda öðru fram en að þar geti myndast hagsmuna- og krosseignatengsl hjá fulltrúum atvinnurekenda í stjórnum lífeyrissjóðanna.

Formaður sagði að það væri skylda verkalýðshreyfingarinnar að vinna af fullum krafti að því að koma fulltrúum atvinnurekenda sem fyrst út úr stjórnum lífeyrissjóðanna. Einnig kom fram í máli hans að það væri sorglegt að sjá hvernig fjárfestingastefna lífeyrissjóðanna léki nú sjóðsfélaga grátt þegar blasir við að lífeyrissjóðirnir eru að tapa tugum milljarða á hruni bankanna.

Formaður kom einnig inn á það á fundinum að það væri ótrúlegt að af hverju 10.000 króna framlagi sjóðsfélaga væri ávinnsla sjóðsfélagans einungis 1.261 króna sem þýðir að ávinnslan er einungis 12,6% af framlaginu. Með öðrum orðum þá fara 87,4% af framlagi hvers sjóðsfélaga í samtrygginguna og rekstur lífeyrissjóðsins. Á þeirri forsendu veltir formaður því fyrir sér hvort þetta geti talist besta kerfið fyrir launþega þessa lands.

Til að skýra málið enn frekar þá er hægt að velta fyrir sér launþega með laun upp á 350.000 kr. á mánuði. Af launum hans greiðist til lífeyrissjóðsins 12% sem gerir 42.000 á mánuði. Hins vegar ávinnur hann sér einungis 5.292 kr. Mismunurinn, 36.708 krónur, rennur í samtrygginguna og rekstur sjóðsins.

Á ársgrundvelli er því greitt af þessum launþega 504.000 krónur til sjóðsins. Sjálfur ávinnur hann sér 63.504 kr. Mismunurinn rennur í samtrygginguna eða 440.496 krónur.

Formaður telur að þetta geti vart verið eðlilegt og það hlýtur að vera hægt að ná betri árangri fyrir sjóðsfélaga t.d. með því að lífeyrissjóðirnir bjóði út samtryggingarþáttinn til tryggingafélaganna því það getur á engan hátt verið eðlilegt að 88% af framlagi launþegans renni í þennan þátt.

Það þarf að fá óháða aðila til að kafa ofan í þetta kerfi, þar sem hagsmunaaðilar komi hvergi nærri og er þar m.a. átt við einstaka fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda. Því það er alveg ljóst af hverju atvinnurekendur leggja svona mikla áherslu á að hafa svona mikla aðkomu að stjórnum sjóðanna því það nægir að nefna hvert sjóðirnir eru að beina sínum fjármunum.

Hjá öðrum lífeyrissjóðum er þetta mjög sambærilegt og það getur ekki verið eðlilegt að á milli 80% og 90% af framlagi hvers sjóðsfélaga renni í samtryggingar og rekstur lífeyrissjóðanna. Lífeyrissjóðirnir eru svo sannarlega ekki hafnir yfir gagnrýni og á þessu þarf að taka af fullri festu og þetta getur ekki verið besta kerfið sem völ er á, ef þessar staðreyndir eru skoðaðar.

25
May

Sumar 2009 - laus orlofshús og nýr útilegustyrkur

Mikill atgangur var á skrifstofu félagsins í síðustu viku þegar lausar vikur í orlofshúsum félagsins voru boðnar þeim sem fyrstir komu.

Ekki voru þó margar vikur í boði þar sem umsóknir þetta árið voru fleiri en nokkru sinni fyrr en alls bárust 237 umsóknir um þær 130 vikur sem í boði voru í sumar.

Hægt er að skoða hvaða vikur eru enn lausar með því að smella hér.

Þeim félagsmönnum sem hyggja á útilegur í sumar er bent á nýjung hjá orlofssjóði Verkalýðsfélags Akraness. Nú er hægt að fá endurgreiddar allt 5.000 kr. á ári vegna annað hvort útilegukortsins eða gistingar á tjaldstæðum. Þeim sem ætla að nýta þennan styrk er bent á að koma með kvittanir á skrifstofu félagsins.

22
May

Sýnum samstöðu með Hagsmunasamtökum heimilanna

Hagmunasamtök heimilanna höfðu samband við formann Verkalýðsfélags Akraness og óskuðu eftir því að hann yrði einn af aðalræðumönnum á opnum samstöðufundi á Austurvelli sem samtökin standa fyrir á morgun kl. 15:00.  Því miður getur formaður félagsins ekki orðið við þessari ósk af óviðráðanlegum orsökum.

Verkalýðsfélag Akraness hefur átt gott og náið samstarf með forsvarsmönnum Hagsmunasamtaka heimilanna og hefur formaður t.a.m. fundað með forsvarsmönnum vegna þess alvarlega ástands sem nú blasir við skuldsettum heimilum þessa lands. Það er mat félagsins að samtökin séu að vinna afar óeigingjarnt og mikilvægt starf fyrir heimili landsins og ber verkalýðshreyfingunni að sýna þeim stuðning í verki.

Verkalýðsfélag Akraness er algerlega sammála málflutningi forsvarsmanna samtakanna og hefur aðalfundur félagsins t.d. samþykkt ályktun þar sem skorað er á stjórnvöld að koma með niðurfellingu og leiðréttingu á verðtryggðum og gengistryggðum lánum.

Verkalýðsfélag Akraness skorar á alla að sýna samstöðu í verki og mæta á fundinn á morgun, en eftirfarandi auglýsing hefur borist frá Hagsmunasamtökum heimilanna:

SAMSTÖÐUFUNDUR HAGSMUNASAMTAKA HEIMILANNA

 

Í ljósi þess neyðarástands sem ríkir á Íslandi boða Hagsmunasamtök heimilanna til samstöðufundar á Austurvelli laugardaginn 23.5.2009 kl. 15.00.

Við teljum að þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa ákveðið að grípa til séu því miður hvergi nærri fullnægjandi. Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins munu 28.500 fjölskyldur á Íslandi (um 30%), skulda meira en þær eiga í árslok 2009. Árið 2007 var um að ræða 7.500 fjölskyldur. Þetta er 380% aukning.

Umrædd neikvæð eiginfjárstaða er fyrst og fremst til komin vegna höfuðstólshækkana gengis- og verðtryggðra lána. Lánin hafa rokið upp úr öllu valdi í kjölfar verðbólguskotsins sem orsakaðist af gengishruni krónunnar. Við höfnum því alfarið að almenningur verði látinn sæta ábyrgð á efnahagshruninu með þessum hætti.

Hagsmunasamtök heimilanna vilja:

* Að gengis- og verðtryggð lán verði leiðrétt með almennum aðgerðum

* Að áhætta milli lánveitenda og lántakenda verði jöfnuð

* Afnema verðtryggingu

* Að veð takmarkist við þá eign sem sett er að veði

* Samfélagslega ábyrgð lánveitenda

Ræðumenn:

Bjarki Steingrímsson, varaformaður V.R.

Guðrún Dadda Ásmundardóttir, í stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna

Ólafur Garðarsson, í stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna

Sigrún Elsa Smáradóttir, borgarstjórnarfulltrúi

Hljómsveitin EGÓ kemur fram

TÖKUM STÖÐU MEÐ HEIMILUNUM

www.heimilin.is

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image