• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
02
Jul

Nýtt orlofshús félagsins bókað út sumarið

Það er óhætt að segja að nýtt orlofshús félagsins í Svínadal hafi vakið góð viðbrögð hjá félagsmönnum. Síðastliðinn föstudag var opnað fyrir bókanir í bústaðinn og er skemmst frá því að segja að hann er nú bókaður út ágúst og þegar er byrjað að bóka helgar í haust. Þessi viðbrögð sýna það enn og aftur hversu mikil eftirspurn er hjá félagsmönnum eftir orlofshúsum og að þörf var á að bæta við fleiri valkostum. Fyrsta vikan í útleigu í nýja bústaðnum hefst næstkomandi föstudag, 6. júlí.

Bústaðurinn í Efstaási er sjötti bústaður félagsins en hinir bústaðirnir eru í Húsafelli, Hraunborgum, Ölfusborgum, Kjós og í Bláskógum í Svínadal. Einnig á félagið þrjár íbúðir á Akureyri. Myndir af nýja bústaðnum má sjá hér.

29
Jun

Hagsmunagæsla VLFA hefur skilað uppundir 50 milljónum á síðustu mánuðum

Það er óhætt að segja að hagsmunagæsla Verkalýðsfélags Akraness sé búin að skila hluta starfsmanna Norðuráls umtalsverðum ávinningi á síðustu mánuðum. Eins og fram kom hér á heimasíðunni í desember á síðasta ári þá gekk félagið frá samkomulagi við forsvarsmenn Norðuráls vegna ágreinings er laut að bónusgreiðslum til afleysingastarfsmanna. 230 starfsmenn sem um ræðir fengu leiðréttingu vegna þess máls og nam sú leiðrétting tæpum 13 milljónum króna.

Fyrir skemmstu kom Verkalýðsfélag Akraness með ábendingu til forsvarsmanna Norðuráls vegna orlofsmála afleysingamanna en það var mat félagsins eftir að hafa skoðað málið ítarlega að ekki væri verið að uppfylla þann kjarasamning sem í gildi er. Forsvarsmenn Norðuráls skoðuðu málið og í fyrstu hafnaði lögmaður Norðuráls ábendingum Verkalýðsfélags Akraness. Síðan breyttu þeir þeirri ákvörðun sinni og féllust á öll rök félagsins sem leiðir til þess að fyrirtækið mun endurgreiða þeim starfsmönnum sem um ræðir leiðréttingu vegna svokallaðra rauðra daga fjögur ár aftur í tímann. Þessi leiðrétting gildir fyrir þá sem hafa verið lausráðnir og einnig sumarstarfsfólk. Samkvæmt upplýsingum sem félagið hefur fengið þá er áætlað að þessi leiðrétting verði ekki undir 30 milljónum króna þannig að hagsmunagæsla VLFA hefur skilað starfsmönnum Norðuráls vel á fimmta tug milljóna á liðnum mánuðum. Verið er að vinna í leiðréttingunni vegna orlofsmála afleysingamanna og vonast formaður til að leiðréttingin muni skila sér til þeirra sem hlut eiga að máli innan nokkurra vikna. En ljóst er að það liggur fyrir mikil vinna hjá launadeildinni við að reikna og finna út hverjir eiga rétt á leiðréttingu og einnig hversu mikil leiðréttingin er.  

Það er stefna Verkalýðsfélags Akraness að verja og fylgjast vel með að öll þau réttindi sem félagsmenn félagsins eiga skili sér til þeirra og það er hvergi hvikað í þeirri mikilvægu baráttu.  

29
Jun

Félagið hefur fest kaup á nýjum bústað í Svínadal

Verkalýðsfélag Akraness hefur nú fest kaup á glæsilegum bústað í Svínadal. Bústaðurinn er staðsettur að Efstaási 11 í landi Kambshóls í Eyrarskógi og var hann byggður árið 2002. Bústaðurinn er 65,7 fermetrar að stærð með þremur svefnherbergjum, þar af eru tvö þeirra á efri hæð. Undanfarna daga hefur verið unnið að því að gera bústaðinn fullbúinn og nú styttist í að félagsmenn geti farið að bóka vikur þar. Ástæðan fyrir því að stjórn félagsins ákvað að festa kaup á þessum glæsilega bústað er fyrst og fremst aukning félagsmanna á undanförnum árum en núna eru rétt rúmlega 3.000 félagsmenn í félaginu og því var bráðnauðsynlegt að fjölga möguleikum félagsmanna til að fá úthlutað sumarhúsi. Þetta er annar bústaðurinn sem félagið kaupir á stuttum tíma en félagið keypti nýlegan bústað í Kjós í Hvalfirði í september í fyrra.

Það er óhætt að segja að rekstur félagsins hafi gengið vel undanfarin ár og á þeirri forsendu er félagið vel í stakk búið til að ráðast í svo miklar fjárhagslegar framkvæmdir eins og sumarhúsakaup eru. En þetta er gert fyrst og fremst til að mæta þörfum félagsmanna enda ríkti mjög mikil ánægja með bústaðinn í Kjós sem félagið keypti að aðsóknin í sumar- og vetrarleigu undanfarin ár hefur aukist stöðugt.

Fyrsta vikan sem er í boði er 6.-13. júlí næstkomandi. Opnað hefur verið fyrir bókanir og gildir hér reglan fyrstur kemur, fyrstur fær. Hægt er að bóka bústaðinn á skrifstofu félagsins en einnig á félagavef.

22
Jun

Kjarasamningsbrot og svört atvinnustarfsemi algeng í ferðaþjónustunni

Í fréttum í gær kom fram að nú stefnir í metár í ferðaþjónustu á Íslandi og í fyrsta sinn gæti ferðaþjónusta staðið jafnfætis sjávarútvegi og orkufrekum iðnaði í gjaldeyristekjum og hlutfalli af landsframleiðslu.

Það er óhætt að segja að þetta séu afar jákvæð tíðindi að ferðaþjónustan sé farin að skila jafn miklum gjaldeyristekjum og sjávarútvegurinn og stóriðjan enda byggjum við Íslendingar okkar velferðarkerfi upp á því að skapa gjaldeyristekjur.

Það er hins vegar dapurlegt til þess að vita að þessi mikli uppgangur í þessari atvinnugrein hefur ekki verið að skila sér til þeirra sem starfa í greininni, enda er það bláköld staðreynd að launakjörin í þessari grein eru umtalsvert lakari en í orkufrekum iðnaði og í sjávarútvegi. Það er ekki bara að launakjörin séu lakari heldur eru kjarasamningsbrot gagnvart starfsfólki hvergi algengari en í þessari atvinnugrein.  Á formannafundi Starfsgreinasambands Íslands sem haldinn var á Akranesi fyrir skemmstu voru málefni ferðþjónustunnar til umfjöllunar og komu fram á fundinum áhyggjur formanna af því hversu algengt það er að verið sé að svíkja starfsfólk í greininni hvað varðar kjör og önnur kjarasamningsbundin réttindi. 

Það er einnig rétt að rifja upp átaksverkefnið sem Ríkisskattstjóri, ASÍ og SA stóðu að vegna svartrar atvinnustarfsemi fyrir nokkru síðan. Niðurstöður úr þessu átaksverkefni sýndu ákveðnar vísbendingar um að ástandið sé einna verst í hótel- og veitingaþjónustu hvað varðar svarta atvinnustarfsemi. Tap þjóðarbúsins vegna svartrar atvinnustarfssemi nemur 13,8 milljörðum á ári.

Það er morgunljóst að þetta ástand í ferðaþjónustunni er algjörlega ólíðandi, að ekki sé verið að fara eftir þeim leikreglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði og gildir það bæði hvað varðar svarta atvinnustarfsemi og kjarasamningsbrot gagnvart starfsmönnum.

Að sjálfsögðu gildir þetta alls ekki um alla sem starfa í ferðaþjónustunni og margir koma vel fram við sína starfsmenn.  Þessi svarta atvinnustarfsemi og kjarasamningsbrot grafa undan samkeppni þeirra sem starfa heiðarlega og fara eftir þeim leikreglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði.

Það er hlutverk skattayfirvalda og verkalýðshreyfingarinnar að sjá til þess að þessi atvinnugrein skili því til samfélagsins sem henni ber. Það er gríðarlega mikilvægt að ferðaþjónustan sem hagnast um þessar mundir eins og enginn sé morgundagurinn skili þeim ávinningi til þeirra starfsmanna sem starfa í þessari einni mikilvægustu atvinnugrein okkar Íslendinga, en það er hún ekki að gera um þessar mundir alla vega ekki í öllum tilfellum, því miður.

15
Jun

Átta þúsund manns væntanlegir til Akraness um helgina í tengslum við pollamót Norðuráls í knattspyrnu

Það er óhætt að segja að það sé mikið um að vera á Akranesi þessa helgina en núna klukkan 10 var sett hið margrómaða Norðurálsmót polla í 7. flokki í knattspyrnu. Áætlað er að um 8 þúsund manns muni koma á þetta mót að meðtöldum fjölskyldum keppenda og er ljóst að þessi mikli hópur mun setja mikinn svip á bæjarlífið um helgina. Þessu til viðbótar eru haldin tvö golfmót um helgina sem Norðurál styrkir og mun mikill fjöldi taka þátt í þessum mótum.

Þetta sýnir hversu mikilvægt það er að vera með öflug fyrirtæki á okkar atvinnusvæði, fyrirtæki sem taka þátt í samfélagslegum verkefnum eins og Norðurál er að gera. Rétt er að geta þess að Norðurál er aðalstyrktaraðili knattspyrnufélagsins og einnig eru þeir stór styrktaraðili golfklúbbsins Leynis hér á Akranesi. Það er afar ánægjulegt að sjá þegar fyrirtæki átta sig á mikilvægi þess að taka þátt í uppbyggingu þeirra samfélaga sem þau eru í og það má segja að Norðurál hafi verið nokkuð duglegt við að styrkja hin ýmsu málefni er lúta að félagslegri uppbyggingu á Akranesi sem verður að teljast afar jákvætt.

Eins og allir vita er 17. júní svo á sunnudaginn og lýkur þessari stóru helgi með glæsilegri dagskrá þann dag. Dagskráin er óvenju vegleg á Akranesi í ár þar sem nú eru liðin 70 ár frá því að bærinn hlaut kaupstaðarréttindi. Nóg verður um að vera bæði á laugardaginn og á sjálfan þjóðhátíðardaginn og má sjá dagskrána hér.

15
Jun

Orlofshúsið í Ölfusborgum er laust næstu vikuna!

Vegna forfalla er orlofshús Verkalýðsfélags Akraness í Ölfusborgum laust í dag og alla næstu viku. Mikil eftirspurn var eftir orlofshúsum félagsins í sumar og mun færri komust að en vildu. Húsið í Ölfusborgum var allt endurnýjað árið 2010 og stendur í fallegu umhverfi í bæjarjaðri Hveragerðis.

Þeir sem hafa áhuga á að bóka næstkomandi viku geta haft samband við skrifstofu í síma 430-9900 eða í gegnum netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Einnig er hægt að bóka húsið á félagavefnum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image