• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
VLFA

VLFA

Big fan of open source and Joomla

Website URL: http://joomlabuff.com
Thursday, 29 August 2013 00:00

Ferð eldri félagsmanna - Ferðasaga

Í gær var komið að hinni árlegu ferð eldri félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness en slíkar ferðir hafa lengi verið fastur liður í starfi félagsins. Eins og undanfarin ár var farið undir dyggri leiðsögn Björns Inga Finsen og að þessu sinni var ferðinni heitið norður á Blönduós með viðkomu á ýmsum áhugaverðum stöðum.

Haldið var af stað frá Akranesi stundvíslega klukkan 8:30 að morgni. Ferðalangarnir voru 100 talsins og skiptust í tvær rútur. Á leiðinni sagði Björn frá ýmsum fróðleiksmolum sem tengdust umhverfinu hverju sinni og þegar kom að Bifröst var farinn lítill hringur um svæðið og umhverfið þar skoðað út um glugga rútunnar.

Áfram var haldið og næst var áð í Staðarskála þar sem gott var að rétta úr sér og sumir fengu sér smávegis hressingu. Eftir stutt stopp var haldið í átt að Bjargi í Miðfirði. Þar fæddist Grettir sterki Ásmundarson skömmu fyrir aldamótin 1000 og þar hefur verið reistur minnisvarði um Ásdísi, móður hans. Þeir sem treystu sér til gengu upp að minnisvarðanum en aðrir létu sér nægja að lesa sér til um sögu staðarins á skilti sem staðsett er niðri við veginn. Víða í nágrenni Bjargs eru sögufrægir staðir sem tengjast ævi Grettis og sagði Björn farþegum frá nokkrum þeirra.

Næst var keyrt að Þingeyrum þar sem merk steinkirkja stendur. Kirkjan var reist á 19. öld og er úr grjóti sem límt er saman úr kalki. Þykir hún bæði fögur að utan og innan en því miður gafst ekki tími til að skoða hana að innan að þessu sinni þar sem komið var að hádegisverði. Hann var snæddur í félagsheimilinu á Blönduósi en það var veitingastaðurinn Potturinn sem sá um matinn. Boðið var upp á dýrindis súpu og fisk.

Áður en Blönduós var yfirgefinn var ekið upp að Blönduóskirkju en hún þykir nokkuð nýstárleg í útliti. Að því loknu var kominn tími til að halda áfram ferðinni og nú var stefnan tekin að Þrístöpum þar sem síðasta aftakan á Íslandi fór fram árið 1830. Hluti hópsins gekk um 200 metra að minningarsteini um aftökuna en aðrir skoðuðu upplýsingaskilti sem staðsett er við veginn.

Frá Þrístöpum lá leiðin að Borgarvirki sem er klettaborg staðsett milli Vesturhóps og Víðidals. Akstursleiðin þangað er falleg og þar er meðal annars útsýni yfir Vesturhópið. Fjölmargir úr hópnum gengu upp að Borgarvirkinu þó að gönguleiðin þangað sé nokkuð erfið yfirferðar á köflum og má með sanni segja að þessi heldri deild Verkalýðsfélags Akraness hafi verið einstaklega létt á fæti. Í nágrenni Borgarvirkis leyndist berjalyng og fóru sumir í berjamó á meðan á stoppinu stóð.

Eftir gönguna að Borgarvirki var ekið áfram sem leið lá að Vatnsenda þar sem Skáld-Rósa bjó. Þar var áð í stutta stund og útsýnisins notið. Þegar hér var komið sögu var farið að styttast í áætlaðan kaffitíma og var ekið meðfram vestanverðu Vesturhópi til baka að þjóðveginum. Þar fóru rúturnar tvær hvor í sína áttina en helmingur hópsins fór í kaffi að Dæli á meðan hinn helmingurinn fór að Gauksmýri. Á báðum stöðum voru snæddar rjómapönnukökur með kaffinu. Rúturnar mættust aftur við afleggjarann að Gauksmýri og urðu samferða sem leið lá til Hvammstanga.

Á Hvammstanga skoðaði hópurinn Selasetrið, safn sem fjallar um lifnaðarhætti sela við Ísland. Þar var að finna ýmsan fróðleik í máli og myndum sem og uppstoppaða seli. Eftir að safnið hafði verið skoðað naut fólk þess að standa úti í logni og blíðu og spjalla saman. Komið var að heimför eftir góðan dag og var ekið frá Hvammstanga til Akraness í einum rykk.

Ferðalagið var vel heppnað í alla staði og vill félagið þakka leiðsögumanninum Birni Inga Finsen, bílstjórunum Atla og Sigurbaldri og síðast en ekki síst öllum þeim félagsmönnum sem komu með í ferðina og gerðu hana eins góða og hún var. Myndir úr ferðinni má sjá hér.

Eitt af miklvægustu störfum sem unnin eru hjá sveitarfélögunum ár hvert eru þau störf sem vinnuskólakrakkarnir sinna að sumri til. Eitt af því sem íbúar hvers sveitarfélags sætta sig ekki við er að bærinn sem fólk býr í sé ekki snyrtilegur. Það sést fljótt hversu mikilvæg þessi störf eru sem krakkarnir í vinnuskólanum eru að sinna þegar sláttur hefur ekki átt sér stað um einhverja hríð. Það er gaman að sjá tugi vinnuskólakrakka á degi hverjum keppast við að halda bænum okkar hreinum og formaður félagsins er sannfærður um að þessir krakkar vinna svo sannarlega fyrir hverri krónu sem þau fá í kaup fyrir störf sín.

Það er mikilvægt fyrir stjórnendur sveitarfélaga að átta sig á mikilvægi þessarar þjónustu við bæjarbúa og tryggja ávallt að nægt fjármagn sé lagt í hana þar sem bæjarbúar gera ríka kröfu um að þessum störfum sé vel sinnt. Sem betur fer höfum við hér á Akranesi ekki þurft að kvarta yfir þessu þó alltaf megi deila um hvort nægt fjármagn sé sett í þessa þjónustu eður ei. Það er mat formanns að það þurfi að ganga frá samræmdum launatöxtum fyrir öll sveitarfélögin gagnvart þeim krökkum sem vinna í vinnuskólanum vítt og breitt um landið en eins og málum er háttað í dag eru greiðslur afar mismunandi eftir sveitarfélögunum.  

Friday, 05 July 2013 00:00

Írskir dagar að hefjast í í dag

Nú eru að hefjast Írskir dagar á Akranesi og standa þeir yfir alla helgina. Mikil og fjölbreytt dagskrá verður í boði og ætti fólk á öllum aldri að finna eitthvað við sitt hæfi. Starfsmenn bæjarins hafa undanfarna daga unnið að því að skreyta bæinn og er óhætt að segja að hann sé einstaklega glæsilegur en búið er að hengja upp fána og aðrar skreytingar víðsvegar auk þess sem einstaklingar og verslanir hafa einnig tekið þátt í að setja írskan svip á bæinn með því að skreyta umhverfi sitt.

Á dagskránni um helgina eru til dæmis ýmsir tónlistarviðburðir, listasýningar og allskonar skemmtidagskrá fyrir börn en jafnframt eru fastir liðir eins og götugrill, brekkusöngur og lopapeysuballið á sínum stað. Ýmsar verslanir í bænum bjóða upp á tilboð og afslætti í tengslum við Írska daga og má búast við því að mikið líf verði í bænum alla helgina þrátt fyrir frekar leiðinlega veðurspá en við íslendingar látum slíkt ekki slá okkur útaf laginu. Dagskrá helgarinnar má finna hér.

Verkalýðsfélag Akraness óskar Akurnesingum sem og öllum gestum bæjarins góðrar helgar.

Fram kom í fréttum í gær að nýtt lífeyriskerfi væri nánast í höfn! Formaður telur þetta stórfréttir fyrir okkur í Verkalýðsfélagi Akraness sem höfum ekki heyrt neitt um að það væri botnlaus vinna í gangi við að búa til nýtt kerfi, en rétt er að geta þess að um 3000 félagsmenn VLFA eru að greiða í lífeyrissjóð og því væri betra að vita um hvað menn eru að tala.

Það veit á gott ef þeir aðilar sem stjórna lífeyriskerfinu eru farnir að átta sig á þeirri grafalvarlegu stöðu sem lífeyriskerfið er í, enda hafa þeir ætíð öskra hátt og skýrt að þetta sé besta kerfi í heimi þegar þeir verja kerfið!

Vandi kerfisins sást glöggt í árlegu yfirliti sem Fjármálaeftirlitið birtir yfir stöðu íslenskra lífeyrissjóða fyrir árið 2012 og það er ætíð afar fróðlegt að skoða þessa skýrslu frá FME um stöðu lífeyriskerfisins. Formaður ítrekar að hann er ekki í nokkrum vafa um að lífeyriskerfið á í umtalsverðum vanda og undrast að ekki skuli vera fjallað meira um vanda kerfisins en raun ber vitni.
Það verður að segjast alveg eins og er að það er þónokkur mótsögn hjá FME þegar þeir segja í skýrslunni að lífeyriskerfið sé „öflugt“ en þó séu veikleikar til staðar.


Formaður vil byrja á því að spyrja hvernig getur lífeyriskerfið verið öflugt þegar tryggingarfræðileg staða sjóðanna er neikvæð uppá 674 milljarða? Já, takið eftir, lífeyriskerfið vantar 674 milljarða til að geta staðið við þær skuldbindingar sem þeir hafa lofað sínum sjóðsfélögum.

Bara hallinn á lífeyrissjóðum ríkis og sveitarfélaga er 574 milljarðar, enda eru þessir sjóðir með bakábyrgð skattgreiðenda, sem þýðir að þessi gríðarlegi halli mun springa framan í andlit íslenskra skattgreiðenda á næstu árum og áratugum. Hallinn hjá lífeyrissjóðum á hinum almenna vinnumarkaði er 100 milljarðar og það þrátt fyrir að búið sé að skerða lífeyrisréttindi m.a. verkafólks, sjómanna og iðnaðarmanna um 130 til 150 milljarða frá hruni. Já takið eftir, launþegar á hinum almenna vinnumarkaði þurfa að horfa upp á skerðingu sem nemur allt að 150 milljörðum á sínum lífeyrisréttindum og þurfa jafnframt að ábyrgjast lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna upp á 574 milljarða. Hvaða sanngirni og réttlæti er fólgið í þessu?

Já, lífeyriselítan segir að þetta sé besta kerfi í heimi. Besta kerfi í heimi hvað? Hvernig getur þetta verið besta lífeyriskerfi í heimi þegar það vantar tæpa 700 milljarða til að standa við skuldbindingar?

Fjármálaeftirlitið veit af þessum gríðarlega vanda enda hafa þeir lagt til að eitthvað verði gert til að stöðva þennan snjóbolta sem gerir ekkert annað en að stækka. Þeir hafa lagt til þrjár leiðir til að mæta þessum gríðarlega halla sjóðanna þ.e.a.s. að iðgjöld verði hækkuð, réttindi skert eða að lífeyrisaldur verði hækkaður. Ég ítreka spurningu mína, hvernig getur þetta verið öflugt kerfi og jafnvel það besta í heimi eins og sumir halda fram, í ljósi þessara ráðlegginga Fjármálaeftirlitsins til að mæta þessum gríðarlega halla?

Um hvað eru þessir aðilar sem eru vinna að nýju kerfi að tala?  Eru þeir að tala um að afnema ríkisábyrgðina af lífeyrisréttindum opinbera starfsmanna? Er verið að tala um að iðgjöldin á hinum almenna vinnumarkaði verði hækkuð úr 12% uppí 15,5%?  Hvernig ætla menn að leysa vanda LSR og sveitafélaga sem eru með halla uppá tæpa 600 milljarða? Málið er að lífeyriskerfið er ekki sjálfbært og nægir að skoða A deildina hjá LSR sem var stofnuð 1998 og átti að vera algerlega sjálfbær en á þessum 15 árum er hallinn hjá A deildinni 61 milljarður. Rétt er að rifja upp að FME gerði kröfu um að iðgjaldið yrði hækkað úr 15,5 í 19,5% hjá LSR til að mæta þessum halla en þessi krafa var gerð 2011.  Rétt er að geta þess að stjórnvöld fóru ekki eftir þessari ábendingu frá FME um að hækka iðgjaldið um 4% sem hefði kostað skattgreiðendur 4 milljarða á ári.

Formaður spyr sig, er launafólk tilbúið til að setja meira fjármuni inní þessa lífeyrishít á meðan kerfið er alls ekki sjálfbært eins og sagan sýnir svo ekki verður um villst? Er launafólk á hinum almenna vinnumarkaði tilbúið að hækka iðgjöldin um 3%?  Formaður dregur í efa að svo sé enda er þar með dregið úr möguleikum á launahækkunum eða hækkun í séreignina með því að nota 3% í samtryggingarkerfi lífeyrissjóðina. Enda kemur það fram í fréttum í dag hjá framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins að hækkun iðgjalda í lífeyrissjóði verði á kostnað launabreytinga. Þetta er stór spurning sem hinn almenni launamaður þarf að spyrja sig að: vill hann hækka samtrygginguna á kostnað launabreytinga?

Formaður telur það algjörlega galið að þeir sem hafa komið lífeyriskerfinu í þær ógöngur sem það er komið í eigi að koma með tillögur um úrbætur.  Hann hefur margoft sagt það áður að það verður að fá óháða aðila sem hafa það hlutverk að rannsaka þetta lífeyriskerfi algerlega og þessir aðilar þurfa að velta hverjum steini við í þeirri rannsókn. Þessi óháða nefnd þarf einnig að koma með tillögur til úrbóta enda er þetta kerfi alls ekki sjálfbært og staðfestir 700 miljarða halli það gjörsamlega. Stjórnvöld verða að hafa kjark og þor til að taka á þessu gríðarlega vandamáli og gera ekki eins og strútarnir sem stinga hausnum í sandinn þegar þeir verða varir við utanaðkomandi hættu.

Sumarleiga orlofshúsa VLFA hefur gengið mjög vel og eru allar vikur í orlofshúsum bókaðar út ágúst og nokkrir eru á biðlista. Ef um forföll er að ræða og enginn er á biðlista er vikan auglýst á Facebook-síðu félagsins og er félagsmönnum bent á að gerast fylgjendur félagsins á Facebook til að geta fylgst með gangi mála þar.

Á Félagavefnum er nú opið fyrir bókanir á orlofshúsum alveg til áramóta, en auðvitað er einnig hægt að hafa samband við skrifstofu félagsins til að ganga frá bókun. Félagsmönnum er bent á að bóka tímanlega, því þrátt fyrir fjölgun orlofshúsa hafa öll hús verið fullbókuð yfir vetrartímann undanfarin ár svo það borgar sig að bóka tímanlega.

Tuesday, 16 July 2013 00:00

Breyting á fæðispeningum sjómanna

Fæðispeningar sjómanna hækkuðu um 5,7% þann 1. júní sl. Sjá nýja kaupskrá sem gildir frá 01.06.2013.

Heilbrigðisstofnun Vesturlands og Verkalýðsfélag Akraness hafa gert með sér samkomulag vegna jafnlaunaátaks sem mun gilda afturvirkt frá 1. mars 2013.

Í þessu samkomulagi er öllum starfsmönnum sjúkrahúss Akraness sem tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness tryggð þriggja flokka launahækkun í það minnsta og hækka starfsmenn að meðaltali um 5,2% í launum.

Eins og áður sagði mun þessi hækkun gilda afturvirkt frá 1. mars 2013 og mun hækkunin koma til framkvæmda með næstu útborgun ásamt leiðréttingunni frá 1. mars 2013.

Nú liggur fyrir að á bilinu 40 – 50% íslenskra heimila eru með yfirveðsetningu á sinni húseign, eða eru með öðrum orðum tæknilega gjaldþrota. Á þeirri forsendu er formaður félagsins hugsi yfir þeirri skelfilegu stöðu sem skuldsett alþýða er í og hefur hann komist að þeirri niðurstöðu að vinna verði leynt og ljóst að því að hverfa frá þeirri sjálfeignarstefnu í húsnæðismálum sem ríkt hefur hér á landi í gegnum tíðina.

 Sjálfseignastefnan hefur gert það að verkum að alltof stór hluti þjóðarinnar hefur farið í gegnum gjaldþrot, eða er á barmi þess. Það liggur fyrir að verðtryggingin hefur leikið skuldsett heimili skelfilega og hefur hún séð til þess að húsnæðislán og önnur verðtryggð lán landsmanna hafa stökkbreyst í kjölfar hrunsins.

Á þeirri forsendu meðal annars telur formaður að ein lausnin á þessu vandamáli sé sú að hér verði byggður upp tryggur og heilbrigður leigumarkaður, það væri hægt að gera það með því að stofna leigufélög sem yrðu fjármögnuð með láni frá lífeyrissjóðunum. Markmið þessara leigufélaga væri ekki hagnaðarvon heldur að tryggja hér öruggan búseturétt fyrir leigjendur á góðum kjörum. Með aðkomu lífeyrissjóðanna að slíkum leigumarkaði myndi ásýnd lífeyrissjóðanna batna til mikilla muna, enda myndu þeir um leið taka þátt í að létta á byrðum sjóðsfélaga sinna með tryggari búseturétti og lægri leigukostnaði, en hingað til hafa allar fjárfestingar lífeyrissjóðanna runnið til atvinnulífsins með misgóðum árangri og er þar vægt til orða kveðið. Formaður telur að þessi lánveiting lífeyrissjóðanna ætti að geta verið eins trygg og hugsast getur og áhætta þeirra ætti því að vera afar takmörkuð.

Formaður er sannfærður um að það er þetta sem verkalýðshreyfingin á að beita sér fyrir af fullum þunga í gegnum aðkomu sína að lífeyrissjóðunum, því það er morgunljóst að þetta myndi koma félagsmönnum verkalýðshreyfingarinnar mjög vel, svo ekki sé talað um þá tekjulægstu sem eiga oft í erfiðleikum með fjármögnun á dýru húsnæði.

Nýr og öflugur leigumarkaður sem tryggir búseturétt til langframa á viðunandi kjörum þarf klárlega að vera  samvinnuverkefni stjórnvalda, lífeyrissjóðanna og verkalýðshreyfingarinnar. Með viljann að vopni er allt hægt.

Wednesday, 31 July 2013 00:00

Kjararáð mótar þjóðarsáttasamninga!

Kjararáð hækkaði laun forstjóra um meira en sem nemur einum mánaðarlaunum fiskvinnslufólksKjararáð hækkaði laun forstjóra um meira en sem nemur einum mánaðarlaunum fiskvinnslufólks.Það fer ekkert á milli mála að gríðarlegrar gremju gætir meðal verkafólks vítt og breitt um landið vegna þeirrar ákvörðunar kjararáðs að hækka laun forstjóra ríkisstofnana um allt að 270 þúsund krónur á mánuði.  Ekki er gremjan minni yfir fréttum síðustu daga um að forstjórar, framkvæmdastjórar og millistjórnendur á hinum almenna vinnumarkaði virðast vera að hækka um hundruð þúsunda á mánuði.

Það er þyngra en tárum taki að verða vitni að því í hvert einasta skipti sem samningar verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði eru að losna þá kemur valdaelítan sem hefur sjálf skammtað sér hundruð þúsunda króna launahækkun á mánuði og varar við miklum launahækkunum til handa verkafólki.

Formaður getur ekki orða bundist yfir þessari skefjalausu hræsni af hálfu þessara aðila sem hækka laun sín um allt að 70.000 kr. meira en lágmarkslaun eru á Íslandi, og takið eftir: mánaðarleg laun valdaelítunnar eru að hækka í sumum tilfellum um meira en heildarlaun fiskvinnslukonu eftir 15 ára starf, er þetta í lagi?

Það er morgunljóst að verkalýðshreyfingin verður að sýna tennurnar í komandi kjarasamningum því þessu miskunnarlausa óréttlæti sem viðgengst á almennum vinnumarkaði verður að linna í eitt skipti fyrir öll.

Formaður vill rifja upp varnaðarorð greiningarstjóra bankanna þegar viðræður um nýjan kjarasamning stóðu sem hæst í janúar 2008. En þá sögðu þessir snillingar að ef viðhalda ætti stöðugleika í íslensku samfélagi þá yrði að tryggja hóflegar launahækkanir m.a. til handa verkafólki. Þessi varnaðarorð greiningarstjórana komu á sama tíma og verið var að tæma bankana innan frá, en þessi aðilar höfðu meira áhyggjur af því að samið yrði um of miklar launahækkanir handa verkafólki en því að verið væri að tæma bankana innan frá.  Öll vitum við hvernig fór fyrir bankakerfinu í október 2008, jú það fór algerlega á hliðina. Ekki útaf of miklum launahækkunum verkafólks, nei þeir voru nánast rændir innan frá.

Ekki má heldur gleyma varnaðarorðunum frá seðlabankastjóranum vegna kjarasamninganna 2011, en þar ítrekaði hann og hvatti aðila vinnumarkaðarins til að ganga frá hófstilltum kjarasamningum. Á sama tíma stefndi hann sínum eigin banka og krafðisð hækkunar launa uppá hundruð þúsunda, alger hræsni.

Það er eitt gott við þessa ákvörðun kjararáðs, en það er að kjararáð hefur nú markað nýja þjóðarsáttalaunastefnu fyrir komandi kjarasamninga í haust og verkalýðshreyfingin í heild sinni hlýtur að horfa til þeirra launahækkana sem kjararáð og æðstu stjórnendur á hinum almenna vinnumarkaði hafa fengið að undanförnu þegar kröfugerðin verður mótuð fyrir komandi kjaraviðræður, annað væri óeðlilegt!

Monday, 03 June 2013 00:00

Tveir sjómenn heiðraðir í gær

Í tilefni sjómannadagsins í gær voru tveir sjómenn heiðraðir við hátíðarguðsþjónustu í Akraneskirkju. Athöfnin hófst kl. 11 og voru þar heiðraðir þeir Sigvaldi Loftsson og Jóhann Þóroddsson sem báðir eiga að baki langa og farsæla starfsævi sem sjómenn.

Að heiðruninni lokinni var gengið fylktu liði að minnismerki sjómanna á Akratorgi. Þar hélt sr. Eðvarð Ingólfsson stutta tölu og formaður sjómannadagsráðs, Tómas Rúnar Andrésson, lagði blómsveig að minnismerkinu. Fánaberar voru þeir Sigmundur Lýðsson og Haraldur Jónsson. Fyrr um morguninn var einnig farið að minnismerki um týnda sjómenn en það er staðsett í kirkjugarði Akraness. Þar var einnig lagður blómsveigur.

Það er Verkalýðsfélag Akraness sem stendur að þessari athöfn er lýtur að heiðrun sjómanna, minningarathöfninni um týnda sjómenn og athöfninni sem fram fer á Akratorgi þar sem blómsveigur er lagður að minnismerki sjómanna.

Akraneskaupstaður bauð síðan þeim sem heiðraðir voru og mökum þeirra til kvöldverðar á Galito og ber að þakka fyrir það.

Verkalýðsfélag Akraness óskar áðurnefndum aðilum innilega til hamingju með heiðrunina.

Myndir frá deginum má sjá hér en þær tók Ómar Traustason.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image