• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
VLFA

VLFA

Big fan of open source and Joomla

Website URL: http://joomlabuff.com
Wednesday, 22 October 2014 15:53

Afmælisblað VLFA

Hér fyrir neðan er hægt að lesa vefútgáfu afmælisblaðs VLFA, smellið á blaðið til að stækka það.

Friday, 11 March 2016 15:53

Trúnaðarmannanámskeið í næstu viku

Það er hverju stéttarfélagi mikilvægt að vera með góða, öfluga og vel upplýsta trúnaðarmenn sem eru tilbúnir til að taka að sér krefjandi verkefni á vinnustöðunum, verkefni sem lúta að hinum ýmsu málum sem kunna að koma upp tengd kjarasamningum og öðrum réttindamálum launafólks. Á þeirri forsendu heldur Verkalýðsfélag Akraness reglulega námskeið til að gera sína trúnaðarmenn hæfari til að gegna þessu ábyrgðarmikla hlutverki og í næstu viku er komið að slíku námskeiði. 

Námskeiðið verður haldið 14. til 16. mars og stendur yfir frá kl. 9-16. Í þessari lotu munu 9 trúnaðarmenn sitja námskeiðið en sem fyrr er það Félagsmálaskóli alþýðu sem annast kennsluna. Fræðslan er þrepaskipt og á þessu námskeiði er um að ræða 1. þrep þar sem töluverð endurnýjun hefur verið í hópi trúnaðarmanna félagsins undanfarin ár. Á fyrsta degi námskeiðsins verður fjallað um þjóðfélagið og vinnumarkaðinn, annan daginn verður farið í starf trúnaðarmannsins og stöðu hans og á síðasta degi námskeiðsins verður umfjöllunarefnið samskipti á vinnustað.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá tók Verkalýðsfélag Akraness það verkefni að sér að safna fyrir neyðarkerru eftir að hafa fengið ábendingu um að slík kerra væri ekki til staðar hér á Akranesi. Þessi neyðarkerra inniheldur allan mikilvægasta búnað til að starfrækja fjöldahjálparstöð með gistingu fyrir 30 manns fyrsta sólarhringinn í neyðaraðgerðum. 

Formaður félagsins hafði samband við nokkur öflug fyrirtæki hér á Akranesi - Norðurál, HB Granda, Elkem Ísland, Faxaflóahafnir og Akraneskaupstað og óskaði eftir að þessir aðilar myndu leggja þessu brýna samfélagsmáli lið. Það er skemmst frá því að segja að það tók örskamma stund að safna fyrir kerrunni og voru allir tilbúnir til að leggja málefninu lið. Meira að segja hafði slysavarnadeildin Líf samband þegar hún frétti af þessari söfnun og óskaði eftir að fá að leggja fjármuni í verkefnið. 

Á morgun verður neyðarkerran formlega afhent Rauða krossinum á Akranesi og er Verkalýðsfélag Akraness stolt af því að hafa tekið þátt í þessu verkefni en félagið mun styrkja þetta mál um 200.000 kr. Vill stjórn félagsins þakka fyrirtækjunum, Akraneskaupstað og slysavarnadeildinni Líf fyrir að hafa tekið svona vel í að styðja við þetta góða og þarfa verkefni.

Thursday, 03 March 2016 15:46

Framtalsaðstoð fyrir félagsmenn VLFA

Eins og undanfarin ár býður félagið upp á aðstoð við gerð einfaldra skattframtala og geta félagsmenn pantað tíma á skrifstofu VLFA eða í síma 4309900. Síðasti dagur til að skila framtali er þriðjudagurinn 15 mars, en hægt er að sækja um frest á síðunni www.skattur.is. Framtalsfrestur er lengst veittur til 20. mars.

Framtalsaðstoðin er félagsmönnum að kostnaðarlausu.

Í gær var fundur hjá ríkissáttasemjara í kjaradeilu Norðuráls og er skemmst frá því að segja að lítið þokast áfram í þeirri deilu. Enda ber gjörsamlega himinn og haf á milli deiluaðila í þessari deilu. Formaður hefur sagt í gegnum árin að fyrirtæki eins og Norðurál sem býr við góð rekstrarskilyrði, hefur ætíð skilað góðri afkomu og er með hvað lægstu launagreiðslur af heildarveltu á íslenskum vinnumarkaði á og ber skylda til að skila slíkum ávinningi til starfsmanna fyrirtækisins.

Eins og áður sagði hefur Norðurál ætíð gengið vel. Álverð er í þokkalegu ástandi en það eru yfir 1800 dollarar í dag fyrir tonnið. Hinsvegar er dollarinn afar hagstæður fyrirtækinu um þessar mundir en hann stendur í 132 krónum í dag en var í upphafi síðasta árs í kringum 111 krónur. Þetta skiptir Norðurál miklu máli enda selur það allar afurðir út í dollurum en greiðir allan launakostnað í íslenskum krónum.

Á morgun verður fundur með starfsmönnum Norðuráls en hann verður haldinn í Tónbergi, sal tónlistarskólans á Akranesi, og hefst kl. 20. Á þeim fundi mun formaður fara ítarlega yfir þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í þessari kjaradeilu. Það er morgunljóst að ef ekki verður alvarleg hugarfarsbreyting hjá forsvarsmönnum fyrirtækisins hvað þessa deilu varðar þá mun stefna hér í grjótharða kjarabaráttu þegar starfsmenn munu hafa tækifæri til að sýna vald sitt. Tíminn mun vinna með starfsmönnum og þessari deilu má líkja við knattspyrnuleik þar sem þolinmæði getur verið dyggð. Það er búið að ganga frá kjarasamningum vítt og breitt í samfélaginu, samningum sem hafa verið að gefa um og yfir 30% í 3 ára samningum og það er algjörlega hvellskýrt að ekki verður gengið frá kjarasamningi við forsvarsmenn Norðuráls með öðrum hætti heldur en þar hefur verið gert. Enda engar forsendur fyrir slíku vegna áðurnefndrar góðrar afkomu fyrirtækisins. 

Á fundinum á morgun munu starfsmenn sem mæta á fundinn taka ákvörðun um hvert framhald þessara kjaraviðræðna verður enda er það starfsmanna að ákveða hvað gera skuli þar sem þetta er þeirra lífsviðurværi. En miðað við þann gríðarlega fjölda sem hefur haft samband við formann þá skynjar hann mikla reiði og hryggð yfir því að forsvarsmenn fyrirtækisins séu ekki tilbúnir í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að afkoman sé góð og stórir hópar hafi gert góða samninga, að gera slíkt hið sama. Og það má heyra á starfsmönnum að slíkt verður alls ekki látið átölulaust.   

Endurskoðun kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði lauk með því að gengið var frá nýjum kjarasamningi eins og fram hefur komið í fréttum. Nú er kosningu um þann samning lokið og er óhætt að segja að kosningaþátttaka hafi vægast sagt verið mjög dræm. En samningurinn var samþykktur og því munu launabreytingar taka gildi frá 1. janúar síðastliðnum með eftirfarandi hætti:

- Launataxtar verkafólks hækka samkvæmt meðfylgjandi launatöxtum
- Almennar launahækkanir til þeirra sem ekki taka laun eftir töxtum verða 6,2%. Á þessi prósentuhækkun einnig við um bónusa og aðrar aukagreiðslur. 
- Framlag atvinnurekanda í lífeyrissjóði mun hækka 1. júlí um 0,5%, fer úr 8% í 8,5%. Hugmyndir eru uppi um að launafólk fái að nýta þetta aukna framlag í séreign en það skýrist betur áður en framlagið verður aukið. 

Þetta eru helstu launabreytingarnar sem gilda fyrir þetta ár. Það jákvæða í þessu er að taxtahækkanirnar og gildistíminn flyst frá 1. maí aftur til 1. janúar. Hinsvegar er það dapurlegt að flestir sem taka laun eftir töxtum eru ekki að fá neinar breytingar á sínum töxtum heldur gagnast þetta aðallega þeim sem ekki taka laun eftir launatöxtum eða með öðrum orðum þeim tekjuhærri en almenna hækkunin átti að vera 5,5% en verður 6,2% eins og áður hefur komið fram. Vissulega ber að fagna því að samningurinn færist fram til 1. janúar 2016. 

Thursday, 22 January 2015 15:43

Fiskvinnslunámskeið haldið hjá HB Granda

Í gær hélt HB Grandi fiskvinnslunámskeið sem veitir þátttakendum tveggja launaflokka hækkun. Þegar launin eru lág skiptir hver króna miklu máli. Þessi námskeið hækka ekki bara launin heldur öðlast fiskvinnslumaðurinn meiri þekkingu á hinum ýmsu sviðum enda fjölbreytt efni sem kennt er á slíkum námskeiðum.

Eins og svo oft áður kom formaður félagsins á þetta námskeið og hélt erindi er lýtur að réttindum og skyldum á íslenskum vinnumarkaði. Í kjölfarið sköpuðust miklar umræður og fram komu spurningar um hin ýmsu atriði sem tengjast þessum málefnum. Þetta námskeið var flott og HB Grandi á skilið hrós fyrir að halda reglulega slík námskeið en því miður er slíku ekki til að dreifa hjá öllum fiskvinnslufyrirtækjum á landinu.  

Verkalýðsfélag Akraness fékk ábendingu eftir námskeið sem haldið var fyrir sjálfboðaliða í neyðarvörnum á vegum Rauða krossins um að það vantaði hér á Akranesi svokallaða neyðarvarnakerru. Slík kerra inniheldur allan mikilvægasta búnað til að starfrækja fjöldahjálparstöð með gistingu fyrir 30 manns fyrsta sólarhringinn í neyðaraðgerðum.

Eftir þessa ábendingu ákvað Verkalýðsfélag Akraness að fara á fulla ferð við að reyna að safna fyrir slíkri kerru en hún kostar um 1,5 milljón og getur skipt miklu máli ef til dæmis kemur til rýminga, hópslysa, lokana á vegum eða annarra alvarlegra atburða. Stjórn Verkalýðsfélags Akraness ákvað strax að styrkja þetta verkefni um 200.000 kr. en ákvað jafnframt að leita til þeirra öflugu fyrirtækja sem eru á okkar starfssvæði. Sendi formaður eftirfarandi aðilum tölvupóst með ósk um að þeir myndu leggja þessu brýna samfélagsmáli lið: HB Grandi, Norðurál, Elkem Ísland, Faxaflóahafnir og Akraneskaupstaður. Það er skemmst frá því að segja að það tók þessa aðila ekki langan tíma að svara kalli Verkalýðsfélags Akraness til að leggja þessu brýna verkefni lið og voru allir tilbúnir til að leggja í púkkið til að hægt væri að kaupa þessa neyðarvarnakerru. Þessu til viðbótar hafði Slysavarnardeildin Líf samband og óskaði einnig eftir að fá að styrkja þetta verkefni. 

Nú hefur Jón Brynjar Birgisson, sviðsstjóri neyðarvarnasviðs Rauða krossins, pantað kerruna frá Þýskalandi og verður hún klár til afhendingar Rauða krossinum hér á Akranesi á vormánuðum en endanleg dagsetning liggur ekki fyrir. Það er afar ánægjulegt hversu vel gekk að fjármagna þetta verkefni og þetta sýnir svo ekki verður um villst hversu mikilvægt það er fyrir hvert sveitarfélag að hafa öflug fyrirtæki innan sinna vébanda sem eru tilbúin til að leggja brýnum samfélagslegum verkefnum lið þegar eftir því er leitað. Í þessu tilfelli skorti ekki vilja hjá þessum áðurnefndu fyrirtækjum, Akraneskaupstað og Slysavarnadeildinni Líf. 

Félagið vill ítreka þakklæti sitt til þeirra sem lögðu þessu málefni lið því það er hverju sveitarfélagi mikilvægt að hafa góða almannavarnaumgjörð því alltaf getum við átt von á því að einhverjar hamfarir eða slys eigi sér stað þar sem grípa þarf til slíks neyðarbúnaðar eins og er í umræddri neyðarvarnakerru.  

Thursday, 22 January 2015 15:42

Góður fundur með félagsmálaráðherra

Eins og fram kom hér á heimasíðunni í gær þá óskaði Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra, eftir að funda með formanni Verkalýðsfélags Akraness og fór sá fundur fram í velferðarráðuneytinu í morgun. Er óhætt að segja að á þessum fundi hafi verið farið yfir mörg mál er lúta að hagsmunum íslensks verkafólks, meðal annars sem tengjast húsnæðismálum, kjaramálum og öðrum hagsmunamálum.

Formaður fór yfir komandi kjarasamninga með ráðherranum og þótti afar ánægjulegt að heyra og finna að hún telur vera svigrúm til að lagfæra kjör íslensks verkafólks og þá sérstaklega hjá útfluningsfyrirtækjum af ýmsum toga. Eygló var einnig sammála formanni um mikilvægi þess að samið verði í formi krónutöluhækkana í komandi kjarasamningum enda ljóst að krónutöluhækkanir koma verkafólki og millitekjufólki hvað best.

Það var ánægjulegt að heyra að Eygló telur að fyrirtæki sem eru sköpuð góð rekstrarskilyrði á íslenskum vinnumarkaði eins og til dæmis í stóriðju og ekki síður í sjávarútvegi sem hafa fengið lækkun á auðlindagjöldum sem nemur milljörðum, skili því í formi hærri launa til þeirra sem starfa í greininni. Enda er morgunljóst að slíkt skilar sér með jákvæðum hætti út í samfélagið, jafnt til sveitarfélaga og til ríkis í formi hærri skatttekna.

Ráðherrann var líka sammála formanni í því að of lág laun íslensks verkafólks geti leitt til mikils samfélagslegs kostnaðar því ef að laun duga ekki fyrir lágmarksframfærslu þá veldur það verri lýðheilsu sem endurspeglast síðan í hærri kostnaði í heilbrigðiskerfinu og félagslega kerfinu. Hún tók undir með formanni um mikilvægi þess að lagfæra kjör íslensks verkafólks, þó með þeirri undantekningu að það hríslist ekki upp allan launastigann til þeirra allra tekjuhæstu.

Þetta var flottur fundur og gott að finna jákvætt viðhorf félagsmálaráðherra til mikilvægis þess að lagfæra hér þann ójöfnuð og þá misskiptingu sem ríkir í íslensku samfélagi.

Rétt í þessu lauk sameiginlegum aðalfundi deilda Verkalýðsfélags Akraness (nema sjómannadeildar). Auk venjubundinna aðalfundarstarfa var eðli málsins samkvæmt rædd sú alvarlega staða sem upp er komin hjá þeim sem starfa í Alcan í Straumsvík. Nú hafa starfsmenn þar verið samningslausir í 14 mánuði en þeir hafa mætt afar óbilgjarnri kröfu af hálfu eigenda Alcan. 

Þessi krafa byggist á því að vilja verktakavæða störf sem unnin eru daglega inni í fyrirtækinu, störf eins og í mötuneyti, við ræstingar og hliðgæslu og telja sig með þessu geta sparað sér uppundir 40 milljónir á ári. Með þessari kröfu vilja þeir gjaldfella laun sem unnin eru í þessum störfum um allt að 30-40% og að þeir sem starfi við þessi störf lúti kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði sem eru í mörgum tilfellum langtum lakari en gerist í kjarasamningum tengdum stóriðjum. 

Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa haldið því fram að þeir séu eina fyrirtækið á Íslandi sem hafi slíkar kvaðir en slíkt stenst ekki eina einustu skoðun enda liggur fyrir að til dæmis eru öll dagleg störf hjá Norðuráli á Grundartanga unnin af starfsmönnum sem taka laun eftir kjarasamningi Verkalýðsfélags Akraness við Norðurál. Það eru einungis verktakar sem koma í tímabundin verkefni inn á svæðið sem ekki taka laun eftir þessum kjarasamningi. Enda kæmi það aldrei til greina hjá Verkalýðsfélagi Akraness að gjaldfella laun með því að samþykkja að hverfa frá stóriðjusamningi yfir í kjarasamning á hinum almenna vinnumarkaði. Slíkt myndi eins og áður hefur komið fram leiða til tekjulækkunar upp á 30-40%. 

Það eru fleiri stóriðjufyrirtæki á Grundartanga eins og til dæmis Elkem Ísland. Þar eru þeir með mötuneyti og ræstingu í verktöku en Verkalýðsfélag Akraness tryggði með afgerandi hætti að þeir sem starfa við þau störf njóta mjög sambærilegra kjara og þeir sem starfa almennt inni á svæðinu. Þeir njóta mun hærri grunnlauna, þeir njóta ferðapeninga, bónusa og þeir njóta miklu hærri orlofs- og desemberuppbóta en gengur og gerist á hinum almenna vinnumarkaði. Það er annað verktakafyrirtæki að nafni Snókur sem starfar inni hjá Elkem Ísland og þar gilda sömu laun og greidd eru hjá Elkem Ísland. Þessu til viðbótar eiga Norðurál og Elkem Ísland sameiginlegt fyrirtæki sem heitir Klafi og sér um allar út- og uppskipanir og það sama gildir þar, þau kjör sem gilda í stóriðjunum á Grundartanga gilda einnig fyrir starfsmenn Klafa og því er það fjarri lagi hjá forsvarsmönnum Alcan að um störf sem sinnt er í stóriðjum vítt og breitt um landið gildi kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði.

Þessi réttindabarátta skiptir gríðarlega miklu máli, að stéttarfélögin standi fast í lappirnar og láti ekki eigendur erlendra auðhringja skerða laun þeirra sem starfa í stóriðjunum með slíkum hótunum eins og þeir hafa viðhaft í þessari deilu. Laun í stóriðjum hafa almennt verið mun betri en gengur og gerist á hinum almenna vinnumarkaði eins og áður sagði og það er skemmst frá því að segja að kjarasamningar Norðuráls og Alcan í straumsvík runnu út á nákvæmlega sama tíma eða nánar tiltekið 1. janúar 2015. Verkalýðsfélag Akraness gekk frá fantagóðum samningi við forsvarsmenn Norðuráls, samningi sem er launavísitölutryggður og skilaði starfsmönnum Norðuráls 16% hækkun á fyrsta ári auk 300.000 kr. eingreiðslu á hvern einasta starfsmann sem starfar hjá fyrirtækinu. Einnig er rétt að geta þess að félagið gekk líka frá afar góðum samningi við Elkem Ísland á Grundartanga. Launakjör Elkem Íslands og Norðuráls eru orðin 12-14% betri en hjá Alcan í Straumsvík eins og staðan er í dag. 

Aðalfundur deilda Verkalýðsfélags Akraness telur afar brýnt að starfsmenn standi fast í lappirnar og gefi ekki eftir í þessari deilu enda er þessi óbilgjarna krafa forsvarsmanna Alcan fólgin í því að gjaldfella stórkostlega kjör þeirra sem heyra undir mötuneyti, ræstingar og hliðgæslu. Slíkt má aldrei gerast og lýsir fundurinn yfir afdráttarlausum stuðningi við starfsmenn Alcan í Straumsvík og sendir þeim baráttukveðjur í þessari erfiðu kjaradeilu. Eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundinum. 


Ályktun.

Aðalfundur deilda Verkalýðsfélags Akraness lýsir yfir fullkomnum stuðningi við starfsmenn Alcan í Straumsvík í þeirri erfiðu kjaradeilu sem þeir eiga nú í við eigendur fyrirtækisins. Sú krafa sem forsvarsmenn fyrirtækisins eru með um að verktakavæða störf í mötuneyti, ræstingu og hliðgæslu er afar ógeðfelld enda hefur hún þann tilgang að gjaldfella þau störf sem þar eru unnin. 

 

Það er algjörlega óviðunandi og óþolandi að erlendur auðhringur skuli haga sér hér með þeim hætti sem hér hefur birst og fari ekki eftir þeim meginreglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði og því ekkert annað í stöðunni hjá starfsmönnum en að sýna fyrirtækinu fullkomna hörku til að brjóta fyrirætlanir þeirra á bak aftur. 

Aðalfundurinn skorar á eigendur Alcan í Straumsvík að ganga frá kjarasamningum við starfsmenn álversins og hverfa frá því að reyna að gjaldfella laun íslensks verkafólks og iðnaðarmanna sem byggð hafa verið upp í stóriðjunum á liðnum árum og áratugum. 

 

Aðalfundurinn telur verulega hættu á að ef að þessi græðgivæðing um að gjaldfella laun með verktakavæðingu verður að veruleika geti hún haft alvarlegar afleiðingar gagnvart öðrum kjarasamningum í stóriðjum og því mikilvægt að stéttarfélög sem eiga aðild að stóriðjusamningum standi þétt saman með starfsmönnum Alcan í að brjóta þessa fyrirætlan á bak aftur.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image