• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
20
Oct

Málflutningur fyrir Félagsdómi um samningsumboð flutt í gær

Í gær var flutt mál Verkalýðsfélags Akraness gegn Samtökum atvinnulífsins fyrir Félagsdómi.

Málið lýtur að kröfu um að viðurkennt sé af Félagsdómi að Verkalýðsfélag Akraness sé með samningsumboð til þess að semja um ráðstöfun framlags til lífeyrissjóða í kjarasamningi VLFA við Elkem Ísland á Grundartanga.

Í öðru lagi krafðist VLFA fyrir Félagsdómi að viðurkennt verði Iðgjald í lífeyrissjóð fyrir félagsmenn VLFA verði 12%. Starfsmaður greiði 4% og 8% koma frá atvinnurekenda. Til viðbótar 8% mótframlagi fyrirtækisins í lífeyrissjóð koma 3,5% sem félagsmenn VLFA ákveða hvort þeir ráðstafa í samtrygginguna í sínum lífeyrissjóði, tilgreinda séreign eða í frjálsan viðbótarsparnað.

Það er mikilvægt að það komi skýrt fram að VLFA og Elkem Ísland voru sammála um að semja með þeim hætti að starfsmenn fyrirtækisins hefðu aukið val til að ráðstafa sínum kjarasamningsbundnum iðgjöldum í lífeyrissjóð með ofangreindum hætti.

Nei það voru ASÍ og Samtök atvinnulífsins sem tóku höndum saman og sögðu að samningsrétturinn um lífeyrismál væri hjá þeim og vísuðu í samning frá árinu 1996 og árinu 1995. Ekki bara það heldur hélt lögmaður ASÍ því fram fyrir félagsdómi að starfsmenn Elkem og annarra starfsmanna sem hafa sjálfstæðan kjarasamning við stóriðju væru búnir að afsala sér rétti til að semja um iðgjöld til lífeyrissjóða.

Þetta er svo ótrúlegur málflutningur því í öllum lögum þar sem kveðið er á um stéttarfélög er skýrt kveðið á um að það eru þau sem fara með samningsumboð fyrir sína félagsmenn til að semja um kaup og kjör þeirra og iðgjöld til lífeyrissjóða eru svo sannarlega hluti af starfskjörum launafólks.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig Félagsdómur ætlar að komast hjá því að við kjarasamningsgerð séu stéttarfélög ekki lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör meðlima sinna, eins og skýrt er kveðið á um skv. 1. mgr. 5. gr. laganna um stéttarfélög og vinnudeilur. Eða í 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 þar sem kveðið á um félagafrelsi. Í ákvæðinu er sérstaklega minnst á stéttarfélög og verður af því ráðið að þeim sé ætlað mikilvægt hlutverk. Hlutverk stéttarfélaga er nánar útlistað í lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur eins og áður sagði.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image